Ferill 47. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 47  —  47. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (handfæraveiðar).

Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, heimilt að stunda fiskveiðar á eigin bát með fjórum sjálfvirkum handfærarúllum. Báturinn skal vera undir 10 metrum að lengd. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á bát. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga.
    Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var upphaflega lagt fram af Guðjóni A. Kristjánssyni á 132., 133., 135. og 136. löggjafarþingi (63. mál). Það var lagt fram að nýju á 152. löggjafarþingi (73. mál) en með þeim breytingum að veiðarnar eru ekki bundnar við tiltekið tímabil líkt og í upphaflegu frumvarpi og þá er ekki lengur tiltekin hámarksstærð báts í brúttórúmlestum, heldur er miðað við lengd í metrum. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Guðjón A. Kristjánsson barðist fyrir því árum saman að almenningur fengi tækifæri til að stunda frjálsar handfæraveiðar. Sú barátta stuðlaði m.a. að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug síðan. Strandveiðarnar hafa skilað sjávarbyggðum miklu, en strandveiðikerfið er eigi að síður mörgum annmörkum háð. Aðeins má veiða ákveðið marga daga í mánuði og aðeins á ákveðnum vikudögum. Þá er potturinn lítill og klárast reglulega áður en strandveiðitímabilinu lýkur, með þeim afleiðingum að margir ná ekki að fullnýta veiðirétt sinn.
    Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til sjálfbærra veiða. Handfæraveiðar eru sjálfbærar og ógna ekki fiskstofnum landsins.
    Flokkur fólksins hefur ávallt stutt frjálsar handfæraveiðar. Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð hleypur nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verður forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt. Frelsi til handfæraveiða er skref til sátta í deilum um sjávarútvegsmál, sem hafa áratugum saman skaðað tiltrú almennings á stjórnkerfið og stjórnmálin.
    Því er nú lagt til að nýju að handfæraveiðar verði frjálsar, með þeim skilyrðum sem lögð eru til í frumvarpinu.