Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 533  —  456. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (móðgun við erlenda þjóðhöfðingja).

Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.

    95. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 145. löggjafarþingi (727. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt á 146. löggjafarþingi (101. mál) með breyttri og ítarlegri greinargerð og endurflutt á 148. löggjafarþingi (213. mál). Það er nú endurflutt með breyttri og enn ítarlegri greinargerð.
    Á undanförnum misserum hefur talsvert verið þrengt að tjáningarfrelsi víða um heim. Frelsi blaðamanna hefur verið skert og stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa reynt að uppræta gagnrýna umræðu, jafnvel yfir landamæri. Má í því samhengi nefna mál þar sem þýsk stjórnvöld létu undan þrýstingi Tyrklandsstjórnar og heimiluðu málaferli gegn skemmtikrafti sem farið hafði óvirðulegum orðum um Erdogan, forseta Tyrklands. Ákvörðun þessi er almennt talin hafa verið mikill álitshnekkir fyrir þýsku ríkisstjórnina og ótíðindi fyrir tjáningarfrelsið.
    Ákvörðun þýsku stjórnarinnar byggðist á lögum sem gilda þar í landi og fela í sér refsingar við því að smána erlenda þjóðhöfðingja eða ríki. Í kjölfarið spratt upp umræða í ýmsum Evrópulöndum um réttmæti slíkra laga. Þá er um þessar mundir unnið að úttekt á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í samvinnu við International Press Institute í Vínarborg, á löggjöf um sérvernd erlendra þjóðhöfðingja.
    Árið 2002 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu dóm í máli franska dagblaðsins Le Monde, þar sem úrskurðað var að sérstök vernd þjóðhöfðingja væri ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í framhaldi af dómnum lýstu íslenskir lögfræðingar efasemdum um að unnt væri að dæma eftir 95. gr. hegningarlaga í ljósi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    95. gr. almennra hegningarlaga felur í sér afar hörð viðurlög við því að smána erlend ríki, þjóðhöfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá er tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignaspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra.
    Lagaákvæðum sem standa eiga vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot.
    Viðvíkjandi seinni hluta lagagreinarinnar, sem snýr sérstaklega að eignaspjöllum á sendiráðum, er um að ræða klausu sem bætt var við lögin árið 2002. Þann sama vetur höfðu þrír ungir menn verið kærðir og hlutu síðar dóm á grundvelli 95. gr. hegningarlaga fyrir að hafa kastað bensínsprengju að bandaríska sendiráðinu. Sú ákvörðun að kæra verknaðinn á grunni ákvæðisins um móðgun í garð erlendra ríkja og þjóðhöfðingja varð umdeild og er erfitt að skilja lagabreytinguna nema sem tilraun til að verja þá ákvörðun eftir á. Þessi hluti lagagreinarinnar er þó með öllu óþarfur, líkt og fyrri hluti hennar, enda önnur ákvæði í lögum sem taka á skemmdarverkum eða íkveikjum.
    Í frumvarpi til laga um bætur vegna ærumeiðinga sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram á 149. þingi (860. mál) er í 4. gr., b-lið 1. tölul., lögð til breyting á 95. gr. almennra hegningarlaga. Þar var lagt til að 95. gr. orðaðist svo:
    „Hver sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum“.
    Í greinargerð með því frumvarpi segir að í 95. gr. almennra hegningarlaga sé „að finna sérstakt refsiákvæði er lýtur að smánun erlendra ríkja og tengdum atriðum. Þar segir í 1. mgr. að hver sem opinberlega smáni erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Séu sakir miklar varði brot fangelsi allt að 6 árum. Í 2. mgr. 95. gr. segir síðan að sömu refsingu skuli hver sá sæta sem smáni opinberlega eða hafi annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis sem staddir eru hér á landi“.
    Í frumvarpinu er jafnframt bent á almenna ályktun þeirrar mannréttindanefndar sem starfar á grundvelli alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 2011 (UN Human Rights Committee, General comment No. 34) og að þær takmarkanir sem felast í 95. gr. og 101. gr. hegningarlaga fari a.m.k. að nokkru leyti í bága við tjáningarfrelsisákvæði, sbr. meðal annars MDE, Colombani o.fl. gegn Frakklandi, 25. júní 2002 (51279/99). Þá segir jafnframt í greinargerðinni, þar sem fjallað er sérstaklega um 4. gr. frumvarpsins:
    „Auk ærumeiðingaákvæðanna í XXV. kafla hegningarlaga er lagt til að 1. og 2. mgr. 95. gr. laganna, um sérstaka æruvernd erlendra ríkja, fána þeirra, þjóðhöfðingja o.fl., verði felld brott. Líkt og rakið er í almennum athugasemdum að framan fara þær takmarkanir sem felast í ákvæðinu að minnsta kosti að nokkru leyti í bága við 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá þykir ekki ástæða til að viðhalda sérstaklega vernd í þessa veru við flutning úrræða vegna ærumeiðinga á svið einkaréttar. Komið hafa fram tillögur á Alþingi um að 95. gr. verði afnumin í heild sinni, sbr. t.d. frumvarp á 148. löggjafarþingi 2017–2018 (213. mál). Utanríkisráðuneytið lýsti sig andvígt frumvarpinu og röksemdir fyrir þeirri afstöðu virðast að verulegu leyti lúta að þeirri vernd sem er að finna í 3. mgr. 95. gr. sem ekki verður talin til æruverndar. Hér er farið bil beggja og lagt til að 1. og 2. mgr. 95. gr. falli brot en að refsivernd 3. mgr. 95. gr. haldi sér. Til samræmis við aðrar breytingar á hegningarlögunum er jafnframt lagt til að orðið móðganir verði tekið út úr 88. gr. Þá er lagt til að heiti XXV. kafla breytist til samræmis við breytingar á efni hans og hann beri hér eftir heitið „Brot gegn friðhelgi einkalífs og hatursorðræða“. Þau ákvæði sem eftir standa í kaflanum verða öll skýrlega felld undir hugtakið brot gegn friðhelgi einkalífs, utan 233. gr. a um hatursorðræðu, sem er nokkuð sérstaks og annars eðlis og því rétt að geta þess í heiti kaflans. Rétt er að taka fram, vegna umfjöllunar í almennum athugasemdum að framan, að þau vandkvæði sem leiða af núgildandi 94. gr. og 101. gr. almennra hegningarlaga með tilliti til tjáningarfrelsisákvæða verða úr sögunni að því er æruvernd varðar með brottfalli ærumeiðingarákvæðanna í XXV. kafla, sem framangreindar tvær greinar vísa til“.
    Áðurgreint frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga varð ekki að lögum. Það var endurflutt á 150. löggjafarþingi (278. mál) en þar voru ekki lagðar til breytingar á 95. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Það mál náði ekki heldur fram að ganga. Í ágúst 2022 benti rússneska sendiráðið á Íslandi á það í færslu á facebook-síðu sinni að 95. gr. almennra hegningarlaga væri enn í gildi. Var það gert í tengslum við fréttaskrif Vals Gunnarssonar sagnfræðings sem birtust í Fréttablaðinu, þar sem sagt var frá stríðinu í Úkraínu og ljósmynd birt af fótum að traðka á rússneska fánanum. Það má því með sanni segja að þessi lagabókstafur sé enn lifandi og hafi áhrif í samtímanum. Er því lagt til sem fyrr að 95. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, verði felld brott.