Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 69  —  69. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993 (gjafsókn).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjafsókn.

    Gjafsókn skal veitt þeim sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns eða til að krefjast greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála sé ekki fullnægt, enda hafi heildartekjur viðkomandi verið undir meðaltali heildartekna á næstliðnu almanaksári samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Fer að öðru leyti um gjafsókn samkvæmt almennum reglum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (68. mál) og er nú lagt fram óbreytt. Efni frumvarpsins á rætur að rekja til frumvarps sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (430. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Það er einstaklingum oft þung byrði að höfða dómsmál vegna líkamstjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir fallast því gjarnan frekar á þær bætur sem tryggingafélög bjóða að fyrra bragði og gefa eftir þann rétt sem þeir þó telja sig eiga. Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli sem snýr að tekjulægri einstaklingum og þar með bæta réttaröryggi þeirra sem hafa orðið fyrir líkamstjóni er lagt til að þeir eigi kost á því að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu eða greiðslu skaðabóta sem rekja má til líkamstjóns með því að réttur þeirra til gjafsóknar verði rýmkaður.
    Þá hefur undanfarið skapast umræða um að mikilvægt sé að tryggja þolendum heimilisofbeldis og þolendum kynferðisofbeldis rétt til gjafsóknar svo að það sé ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir þolendur að leita réttar síns í einkamálum. Samþykkt frumvarps þessa myndi rýmka verulega skilyrði fyrir gjafsókn í slíkum tilvikum.
    Í almennum reglum um gjafsókn samkvæmt lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. reglugerð nr. 45/2008 um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, með síðari breytingum, eru sett ströng skilyrði um bága fjárhagsstöðu umsækjenda fyrir veitingu gjafsóknar. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjafsókn skuli veitt, í þeim tegundum dómsmála sem um ræðir, að því skilyrði uppfylltu að heildartekjur umsækjanda á næstliðnu almanaksári hafi verið undir meðaltali heildartekna hér á landi það sama ár samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Árið 2021 var meðaltal heildartekna samkvæmt útgefnum tölum Hagstofunnar 7.685.000 kr. Þannig nær hin nýja regla til þeirra sem hafa lágar tekjur, þótt þær séu hærri en núgildandi tekjuviðmið fyrrnefndrar reglugerðar.
    Efni frumvarpsins samrýmist 3. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála sem kveður á um að gjafsókn verði enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum. Að frátöldum almennum skilyrðum fyrir gjafsókn skv. 1. mgr. 126. gr. fyrrnefndra laga gilda ákvæði XX. kafla sömu laga um veitingu gjafsóknar á grundvelli þess ákvæðis sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.