Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 706  —  547. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (skuldabréf og stefnubirting í neytendamálum).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
1. gr.

    Við c-lið 117. gr. laganna bætist: og það tengist ekki lánssamningi við neytanda.

2. gr.

    Við 3. mgr. 121. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef skjalið tengist lánssamningi við neytanda skal jafnframt birta honum stefnuna eftir ákvæðum XIII. kafla.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021.
3. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Réttaráhrif birtingar eru háð staðfestingu viðtakanda á móttöku gagna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Tilgangur þessa frumvarps er að bregðast við ákveðnum annmörkum sem hafa komið í ljós við málsmeðferð neytendamála í réttarvörslukerfinu og á tilteknum formreglum þar að lútandi. Í fyrsta lagi er lagt til að skuldabréf sem tengjast lánssamningum við neytendur geti ekki sætt afbrigðilegri málsmeðferð, skv. XVII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, til að tryggja að neytendur geti haldið uppi öllum vörnum í slíkum málum án takmarkana. Í öðru lagi er lagt til að ef svokallað ógildingarmál skv. XVIII. kafla sömu laga er höfðað vegna glataðs eða horfins skuldabréfs sem tengist lánssamningi við neytanda skuli, auk þess að birta stefnu einu sinni í Lögbirtingablaði, jafnframt birta hana fyrir neytandanum sjálfum. Í þriðja lagi er lagt til að réttaráhrif birtingar á gögnum í stafrænu pósthólfi verði háð því að viðtakandi staðfesti móttöku þeirra.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Samkvæmt 117. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, fara mál til greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi eftir ákvæðum XVII. kafla um víxla, tékka og skuldabréf. Samkvæmt 118. gr. getur stefndi aðeins haft uppi eftirtaldar varnir um efni slíks máls:
     a.      að mál sé höfðað af röngum aðila eða því sé ranglega beint að sér,
     b.      að aðila hafi skort hæfi að lögum til að taka á sig skuldbindinguna,
     c.      að undirskrift á skjali sé fölsuð eða efni skjals sé falsað.
    Þessi þröngu skilyrði útiloka, samkvæmt orðanna hljóðan, mótbárur neytenda á grundvelli laga á sviði neytendaverndar, svo sem laga um neytendalán, nr. 33/2013, laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, eða reglna um óréttmæta skilmála skv. 36. gr. a – 36. gr. d laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936. Þrátt fyrir það virðast dómstólar þó hafa litið nokkuð fram hjá þessum takmörkunum í raunverulegum neytendamálum. Engu að síður er nauðsynlegt að festa þá framkvæmd tryggar í sessi enda er það ein af meginreglum neytendaréttar að ekki skuli takmarka möguleika neytenda á því að leita réttar síns vegna óréttmætra skilmála eða viðskiptahátta. Er því lagt til að skýrt komi fram í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að skjöl á borð við skuldabréf sem tengjast lánssamningi við neytanda skuli ekki sæta slíkum takmörkunum á vörnum neytanda fyrir dómstólum.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 121. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, getur sá sem vill gera tilkall til glataðs eða horfins skuldabréfs höfðað svokallað ógildingarmál skv. XVIII. kafla um ógildingar- og eignardómsmál. Er þá nóg að birta stefnu einu sinni í Lögbirtingablaði, en þar sem sjaldgæft er að almennur neytandi lesi það rit er hætt við því að hann verði þess ekki áskynja ef slíkt mál er höfðað vegna skuldabréfs sem hann kann að hafa gefið út í tengslum við lántöku, til að mynda samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 33/2013, eða lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, eins og raunveruleg dæmi eru um. Neytendur hafa því jafnan lítil tök á að bregðast við slíkri málshöfðun til að hafa í frammi mótbárur eða leiða líkur að mögulegum afdrifum viðkomandi skuldabréfs. Eins og kom fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn þingmanns á þingskjali 883 á 152. löggjafarþingi (156. mál) hafa yfir fjögur hundruð slík mál verið höfðuð frá og með árinu 2008 en ekki verið áfrýjað til æðri dómstóla nema í tveimur tilvikum og þar af aðeins einu vegna neytendaláns. Þetta bendir til þess að í langflestum tilfellum hafi orðið útivist og því verið dæmt stefnanda í hag án mótmæla, enda er útilokað fyrir grunlausan neytanda að láta slíkt mál til sín taka ef hann veit ekki einu sinni af því. Er því lagt til að ef höfðað er ógildingarmál um skjal sem tengist lánssamningi við neytanda skuli, auk birtingar í Lögbirtingablaði, jafnframt birta stefnuna fyrir neytandanum sjálfum.

Um 3. gr.

    Með lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021, var opnað fyrir þann möguleika að birta eingöngu í stafrænu pósthólfi ýmiss konar gögn sem hafa réttaráhrif í för með sér, svo sem stefnur og aðrar réttarfarslegar tilkynningar. Þetta getur verið varasamt af sömu ástæðum og vísað er til í skýringum við 2. gr. um hættuna á að einstaklingur verði þess ekki áskynja að tiltekin réttarframkvæmd sé hafin og geti orðið fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Sem dæmi voru birt drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi í samráðsgátt stjórnvalda 6. júlí 2022 (mál nr. 116/2022), en með þeim var ráðgert að veita lífeyrissjóðum og löginnheimtuaðilum slíka heimild með tilheyrandi réttaráhrifum. Þar sem þetta nýmæli hefur ekki verið kynnt fyrir almenningi og kann að vefjast sérstaklega fyrir þeim sem af ýmsum orsökum eiga erfitt með að nýta sér tækninýjungar, er hætta á því að slík reglugerðarsetning leiði til þess að einstaklingar, ekki síst úr viðkvæmum hópum, verði fyrir réttarspjöllum ef slíkar birtingar berast þeim ekki til vitundar. Er því lagt til að girt verði fyrir slíkt með því að kveða á um að réttaráhrif birtingar á gögnum í stafrænu pósthólfi verði háð staðfestingu viðtakanda á móttöku þeirra.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.