Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 91  —  91. mál.




Frumvarp til laga


um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Flm.: Jódís Skúladóttir, Bjarni Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Orri Páll Jóhannsson.


1. gr.

    Ísland er friðlýst svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 10. gr., og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

2. gr.

    Markmið laga þessara er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

3. gr.

    Í lögum þessum merkir „kjarnorkuvopn“ hvers kyns vopn eða sprengja þar sem kjarnorka er leyst úr læðingi við notkun hvort sem hún er samsett eða ósamsett að nokkru eða öllu leyti, en hugtakið tekur ekki til flutningstækja eða útbúnaðar sem koma á sprengjunni eða vopninu í skotmark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu.
    Í heiti laganna, og annars staðar þar sem annað kemur ekki fram, merkir „Ísland“ íslenskt land, landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsaga og landgrunn og allt íslenskt yfirráðasvæði samkvæmt lögum, þjóðarétti og ýtrustu fullveldisréttindum í og á landi, á og yfir hafsbotni, í sjó og ofan sjávar og í lofti.
    Hið „friðlýsta svæði“ merkir í lögum þessum allt íslenskt yfirráðasvæði sem lýst er í þessari grein þar sem geymsla, framleiðsla, tilraunir og hvers kyns meðhöndlun eða flutningur kjarnorkuvopna er bannaður, sbr. þó ákvæði 12. gr.

4. gr.

    Enginn íslenskur ríkisborgari eða maður sem hefur varanlegt dvalarleyfi á Íslandi eða erlendur ríkisborgari sem er í þjónustu íslenska ríkisins eða dvelst innan hins friðlýsta íslenska svæðis má:
     1.      búa til kjarnorkuvopn af neinu tagi, afla sér slíks vopns eða hafa það undir höndum;
     2.      veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða hafi undir höndum kjarnorkuvopn af neinu tagi.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um rannsóknir, framleiðslu og notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

5. gr.

    Bannað er innan hins friðlýsta svæðis að koma fyrir kjarnorkuvopnum af neinu tagi, geyma eða staðsetja þar slík vopn eða meðhöndla þau á nokkurn annan hátt.

6. gr.

    Bannað er að flytja kjarnorkuvopn um hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 10. gr.

7. gr.

    Allar tilraunir með kjarnorkuvopn eða tilraunir sem tengjast notkun kjarnorkuvopna eru bannaðar innan hins friðlýsta svæðis.

8. gr.

    Sérhverju farartæki sem að einhverju eða öllu leyti er knúið kjarnorku er bannað að koma inn á hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 10. gr.

9. gr.

    Öll umferð farartækja, sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang, er bönnuð innan hins friðlýsta svæðis, sbr. þó ákvæði 10. gr.
    Losun kjarnorkuúrgangs eða annarra geislavirkra efna, hvort sem þau teljast hágeislavirk eða lággeislavirk, þ.m.t. geislavirkir vökvar, er með öllu óheimil innan hins friðlýsta svæðis.

10. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. og 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. er heimilt að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfa viðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum. Slíkar undanþágur geta þó aldrei tekið til svæðisins innan 12 sjómílna marka og lofthelginnar þar upp af.
    Þetta ákvæði takmarkar ekki rétt allra ríkja til friðsamlegrar ferðar um landhelgina í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982.

11. gr.

    Aldrei skal leyfa komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna land eða lofthelgi eða heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum samkvæmt lögum þessum. Íslensk yfirvöld skulu í vafatilfellum ætíð leita bestu fáanlegra upplýsinga óháðra aðila sem völ er á til að byggja á ákvörðun sína og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð sín í milli þegar taka þarf slíkar ákvarðanir.

12. gr.

    Íslensk yfirvöld skulu leita með bindandi samningum, grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir, eins víðtækrar alþjóðlegrar viðurkenningar á hinu friðlýsta svæði og kostur er. Skal eftir því leitað að slíkar viðurkenningar feli í sér yfirlýsingar um að hið friðlýsta svæði sé virt og viðurkennt. Einnig skulu yfirvöld leita viðurkenningar á rétti Íslands til að fylgjast með eða láta fylgjast með hinu friðlýsta svæði og til að refsa fyrir eða mótmæla eftir atvikum brotum gegn friðlýsingunni.

13. gr.

    Hver sá sem sekur er fundinn um alvarlegt brot gegn ákvæðum laga þessara skal sæta fangelsisvist allt að tíu árum.

14. gr.

    Framkvæmd laga þessara heyrir undir og er á ábyrgð ráðherra utanríkismála, en hafa skal hann samráð við Alþingi og utanríkismálanefnd Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir er tengjast framkvæmdinni, sbr. 24. gr. laga nr. 55/1991. Heimilt er utanríkisráðherra að fela öðrum ráðherrum, sem aðstæður kunna að mæla með, að fara með einstaka hluta framkvæmdarinnar.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2023.

Greinargerð.

    Frumvarpið er nú lagt fram í sautjánda sinn og er saga þess rakin síðar í greinargerð þessari. Málið var síðast lagt fram á 152. löggjafarþingi (91. mál) og var rætt við 1. umræðu. Engar umsagnir bárust um málið meðan utanríkismálanefnd hafði það til umfjöllunar.
    Þörfin fyrir að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum hefur því miður fremur aukist en hitt vegna atburða á alþjóðavettvangi. Má þar nefna fregnir af því að Bandaríkin hafi afturkallað aðild sína að kjarnorkusáttmálanum við Íran, kjarnorkuvopnavígvæðingu Norður-Kóreu og þá staðreynd að kjarnorkuveldin hunsa algerlega samninginn um að dreifa ekki kjarnavopnum (e. Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons, NPT) sem skyldar þau til kjarnorkuafvopnunar. Þá horfa kjarnorkuveldin með auknum áhuga á norðurslóðir. Það er von flutningsmanna að Alþingi geti nú sameinast og bundið þann yfirlýsta vilja stjórnvalda í lög að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi.
    Yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga hér á landi hefur lýst því yfir að landsvæði þeirra skuli vera friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Þrátt fyrir að yfirlýsingar á sveitarstjórnarstigi hafi ekki lagalegt gildi má líta á þær sem afgerandi yfirlýsingu frá sveitarfélögum landsins um að friðlýsa beri landið allt. Ekkert ætti að standa í vegi fyrir því að þessi fyrirliggjandi vilji yfirgnæfandi meiri hluta sveitarfélaga verði lögfestur fyrir landið allt. Því fylgdi einnig að afla alþjóðlegrar viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðasamtaka, ekki síst kjarnorkuveldanna sjálfra, á því að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði.
    Þróun mála í friðlýsingu annarra landa hefur líka verið friðelskandi fólki mjög í hag undanfarin ár. Í reynd þarf að fara norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Mið- og Suður-Ameríka (Tlatelolco-samningurinn), Suðaustur-Asía (Bangkok-samningurinn), Eyjaálfa og eyjarnar í Suður-Kyrrahafi (Rarotonga-samningurinn) og Suðurskautslandið eru allt svæði sem hafa verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Árið 1996 skrifaði meiri hluti Afríkuríkja undir samning um friðlýsingu álfunnar (Palindaba-samningurinn) og öðlaðist hann gildi 2009. Svipað er uppi á teningnum í Mið-Asíu þar sem Kasakstan, Kirgistan, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan skrifuðu undir slíkan samning (e. Central Asian Nuclear-Weapon-Free Zone, CANWFZ) árið 2006 og öðlaðist hann gildi 2009. Þá lýstu Mongólar upp á sitt eindæmi yfir friðlýsingu landsins fyrir kjarnorkuvopnum við talsverðan fögnuð annarra ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur nú tækifæri til að fylgja t.d. þessu ánægjulega fordæmi Mongólíu á alþjóðavettvangi. Slík friðlýsing gæti þar að auki verið fyrsta skrefið í friðlýsingu Norðurlanda sem lengi hefur verið á dagskrá friðarsinna en ekki hlotið brautargengi enn sem komið er.
    Óhætt er að slá því föstu að meiri hluti allra landa séu friðlýst og að þróunin sé öll í þá átt að friðlýsa stærri og mikilvægari svæði fyrir kjarnorkuvopnum. Á hinn bóginn er því ekki að neita að á undanförnum árum hafa sum kjarnorkuveldi, sér í lagi Indland og Pakistan, fremur verið að bæta við kjarnorkuvopnaútbúnað sinn en að stuðla að eyðingu slíkra vopna. Mestu kjarnorkuveldin, Bandaríkin og Rússland, vinna áfram að þróun kjarnorkuvígbúnaðar sem gengur þvert á ákvæði NPT-samningsins. Langflest ríki viðurkenna þó hættuna sem stafar af slíkum vopnum og hafna kenningunni um gagnkvæmt ógnarjafnvægi sem er löngu orðin úrelt ef hún hefur þá nokkurn tíma átt við.
    Í því sambandi má benda á ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins í Haag um beitingu kjarnorkuvopna og ógnun þess. Að mati meiri hluta dómsins mundi ógnun eða hótun og beiting kjarnorkuvopna stríða almennt gegn alþjóðalögum sem gilda í vopnuðum átökum og sérstaklega alþjóðlegum mannúðarrétti. Eðli kjarnorkuvopna sé þannig að beiting þeirra muni ávallt bitna á óbreyttum borgurum, auk þess sem þau hafi neikvæð umhverfisáhrif og enn meiri skaða óbreyttra borgara.

Forsaga málsins.
    Eins og áður segir hefur málinu og öðrum hliðstæðum málum margoft verið hreyft á Alþingi. Á 97., 100., 102. og 107. löggjafarþingi (156., 40., 193. og 204. mál), voru fluttar tillögur til þingsályktunar um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði. Í tvö fyrstu skiptin voru þar á ferð þingmenn Alþýðubandalagsins, Svava Jakobsdóttir og Magnús Torfi Ólafsson. Á 102. þingi var svipuð tillaga hins vegar flutt af Guðrúnu Helgadóttur og fleiri þingmönnum Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Sama tillaga var endurflutt á 107. þingi af þingmönnum þessara flokka auk Kvennalistans. Þar að auki hafa verið fluttar margs konar tillögur sem efninu tengjast, svo sem um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og afvopnun á Norður-Atlantshafi.
    Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum var fyrst komið í frumvarpsbúning á 109. löggjafarþingi árið 1987 (413. mál) og var þá flutt af þingmönnum Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Kvennalista, þeim Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni, Páli Péturssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur og Hjörleifi Guttormssyni. Frumvarpið var endurflutt á næsta þingi sama árs af þingmönnum Alþýðubandalagsins og Kvennalista, Steingrími J. Sigfússyni og Kristínu Einarsdóttur (110. löggjafarþing, 65. mál).
    Á 115. löggjafarþingi árið 1991 (168. mál) var frumvarpið aftur lagt fyrir Alþingi af þingmönnum Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins, Alþýðuflokksins og Kvennalista, þ.e. allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins. Flutningsmenn voru þá Steingrímur J. Sigfússon, Steingrímur Hermannsson, Össur Skarphéðinsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson, Gunnlaugur Stefánsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson.
    Frumvarpið var næst flutt á 120. þingi árið 1996 (410. mál) af þingmönnum Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Þjóðvaka og Kvennalista. Flutningsmenn voru þá Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Á næsta þingi, 121. löggjafarþingi, árið 1996 (130. mál) var frumvarpið endurflutt, en nokkrar breytingar höfðu þá orðið á þingflokkum og voru flutningsmenn þá úr Alþýðubandalaginu, þingflokki jafnaðarmanna (þingmenn Alþýðuflokks og Þjóðvaka) og Kvennalista. Þeir voru Steingrímur J. Sigfússon, Guðmundur Árni Stefánsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Á 122. löggjafarþingi árið 1997 (8. mál) var frumvarpið flutt í fimmta sinn af sömu þingmönnum nema þá kom Kristín Halldórsdóttir í stað Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem hafði komið inn sem varamaður árið áður. Sömu þingmenn endurfluttu frumvarpið á 123. löggjafarþingi árið 1998 (76. mál).
    Þegar frumvarpið var flutt á 125. löggjafarþingi árið 2000 (397. mál) höfðu orðið breytingar á þingflokkaskipan en þá var frumvarpið flutt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, þeim Steingrími J. Sigfússyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Þuríði Backman og Össuri Skarphéðinssyni.
    Á 136. löggjafarþingi árið 2008 (146. mál) var frumvarpið flutt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins. Þeir voru Árni Þór Sigurðsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Höskuldur Þórhallsson, Kristinn H. Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Álfheiður Ingadóttir og Helgi Hjörvar.
    Frumvarpið var næst flutt á 139. löggjafarþingi árið 2010 (18. mál). Flutningsmenn voru Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Baldvin Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Þráinn Bertelsson. Málið var tekið til umræðu og meðferðar í utanríkismálanefnd og falast eftir umsögnum sem bárust nokkrar. Var það niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Ástæðan var sú að fyrir dyrum stóð mótun þjóðaröryggisstefnu og því eðlilegt að efnisatriði frumvarpsins yrðu tekin til meðferðar við þá vinnu.
    Hinn 16. september 2011 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 45/139 um að skipa þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka sem þá sátu á Alþingi til að vinna tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin skilaði tillögum sínum til utanríkisráðherra í febrúar 2014. Á grundvelli tillagna nefndarinnar lagði utanríkisráðherra fyrir 144. löggjafarþing tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland (695. mál). Tillagan varð ekki útrædd á 144. þingi, hún var lögð fram að nýju á 145. þingi (327. mál) og var þá samþykkt sem þingsályktun nr. 26/145.
    Ákvæði 10. tölul. 5. mgr. þingsályktunarinnar er svohljóðandi: „Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“ Með vísan til framangreindrar þingsályktunar og þess að lengst af hefur verið tiltölulega breið samstaða um að á Íslandi skuli ekki staðsett kjarnorkuvopn, sbr. ályktun Alþingis frá 23. maí 1985, þar sem slík stefna er áréttuð, eru nú vonandi runnir upp þeir tímar að Alþingi ljúki verkinu með því að binda kjarnorkufriðlýsingu í lög.
    Málið var lagt fyrir Alþingi að nýju á 145. löggjafarþingi (418. mál). Flutningsmenn voru Steingrímur J. Sigfússon, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar, Helgi Hrafn Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Málið kom ekki til umræðu.
    Frumvarpið var lagt fram á 146. löggjafarþingi (269. mál) og voru flutningsmenn Steingrímur J. Sigfússon, Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Nichole Leigh Mosty og Þórunn Egilsdóttir. Málið kom ekki til umræðu. Sömu þingmenn endurfluttu málið á 147. löggjafarþingi (38. mál) en það kom ekki til umræðu.
    Frumvarpið var lagt fram á 148. löggjafarþingi (214. mál). Flutningsmenn voru Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Una Hildardóttir, Þórunn Egilsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir. Var það þá tekið til meðferðar í utanríkismálanefnd og falast eftir umsögnum. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir en málið varð þó ekki afgreitt frá nefndinni.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 150. löggjafarþingi (224. mál). Flutningsmenn voru Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Var það þá tekið til meðferðar í utanríkismálanefnd og falast eftir umsögnum. Nefndinni bárust umsagnir en málið varð þó ekki afgreitt frá nefndinni.
    Síðast var frumvarpið lagt fram þingveturinn 2021–2022 (þskj. 91, 91. mál á 152. löggjafarþingi) af þeim Bjarna Jónssyni, Kára Gautasyni, Steinunni Þóru Árnadóttur og Jódísi Skúladóttur sem var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins þá sem nú. Engar umsagnir bárust utanríkismálanefnd um frumvarpið.
    Alls hefur frumvarpið því verið flutt sextán sinnum áður. Ánægjulegt er að í tímans rás hefur náðst góð samstaða um frumvarpið þvert á flokkslínur eins og rakið var að framan. Það eru einungis þingmenn Sjálfstæðisflokksins af hinum rótgrónu þingflokkum sem ekki hafa staðið að flutningi frumvarps um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Er það von flutningsmanna nú að þessi samstaða haldist og eflist frekar en hitt þannig að frumvarpið hljóti nú afgreiðslu á Alþingi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er meginregla frumvarpsins um að gera Ísland að friðlýstu svæði. Lagt er til að bannað verði að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla kjarnorkuvopn á nokkurn annan hátt. Þá er einnig mælt fyrir um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, sbr. þó ákvæði 10. gr. frumvarpsins, og um bann við flutningi eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

Um 2. gr.

    Þessi grein lýsir markmiði laganna og þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Hér er vikið að skilgreiningum eða merkingu orða að svo miklu leyti sem slíkt er talið nauðsynlegt.
    Hugtakið kjarnorkuvopn er hér skilgreint á sama hátt og í flestum hliðstæðum tilfellum, þ.e. þegar verið er að fjalla um eða ákveða hvað skuli teljast „kjarnorkuvopn“ við skilgreiningu hugtaka í sambandi við kjarnorkuvopnalaus svæði, sbr. fylgiskjöl.
    Ákvæði um „íslenskt yfirráðasvæði“ og hið „friðlýsta svæði“ skýra sig í raun sjálf. Flutningsmenn telja eðlilegt að friðlýsingin nái til alls þess svæðis sem ýtrustu kröfur Íslands, á grundvelli þjóðaréttar og fullveldisréttar, ná til, sjá einkum lög um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, og hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, einkum V. hluta, 55.–57. gr., og VI. hluta, 76. gr.

Um 4.–7. gr.

    Í 4.–7. gr. eru tíundaðar kvaðir sem fylgja hinu friðlýsta svæði. Þar eru í öllum aðalatriðum á ferðinni atriði sem Íslendingar hafa þegar undirgengist með fullgildingu samningsins um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum, sjá fylgiskjal IV, I. og II. gr. samningsins, og samninga um tilraunabann og bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni (undirritaður fyrir Íslands hönd 11. febrúar 1971). Hér eru hins vegar persónulega lagðar kvaðir á alla íslenska ríkisborgara og erlenda menn í þjónustu ríkisins eða sem dveljast innan svæðisins. Þannig er kjarnorkuvopnabannið í senn bundið ríkinu sem samanstendur af borgurunum, íslensku yfirráðasvæði og öllum íslenskum ríkisborgurum sem einstaklingum, hvar og hvenær sem er. Þegar talað er um í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. að óheimilt sé að veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða hafi undir höndum kjarnorkuvopn, er að sjálfsögðu ekki átt við hefðbundna fræðslu eða rannsóknastarfsemi né almenna þekkingaröflun, heldur beitingu þekkingar í því skyni að kjarnorkuvopn verði til.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. eru skýr fyrirmæli um að kjarnorkuknúin farartæki megi ekki koma inn á hið friðlýsta svæði nema ferð þeirra falli undir ákvæði 10. gr.

Um 9. gr.

    Rétt þykir að taka af öll tvímæli af Íslands hálfu um að losun geislavirks úrgangs eða geislavirkra efna í íslenskri lögsögu er bönnuð hverjum sem er. Í reynd má segja að slíkt bann sé þegar að flestu leyti í gildi með lögum nr. 20/1972, um bann við losun hættulegra efna í sjó, einnig með aðild Íslands að alþjóðasamningum, einkum samningnum um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum, sjá lög nr. 20/1973, og samningnum um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það (Lundúnasamningurinn, LDZ), sjá lög nr. 53/1973. Flutningar með slík efni skulu lúta sömu takmörkunum og umferð vígvéla og kjarnorkuknúinna farartækja eru settar, en óhjákvæmilegt er að hafa sambærileg ákvæði um rétt til friðsamlegrar umferðar í þessu tilviki, sbr. 23. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Um 10. gr.

    Óhjákvæmilegt er að hafa heimildir til að veita undanþágur vegna alþjóðlegs réttar og skuldbindinga Íslands, en gert er ráð fyrir að einungis bein umferð eða gegnumferð, án óþarfa viðdvalar á alþjóðlegum leiðum, geti verið undanþegin ákvæðum 6. og 8. og 1. mgr. 9. gr. en þó aldrei nær landi en að 12 mílna mörkum. Við samningu þessarar greinar var höfð hliðsjón af ákvæðum í lögum um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland, en þetta frumvarp gengur lengra og heimilar engar undanþágur gagnvart íslensku innsævi, íslenskri landhelgi (innan 12 mílna marka) og loftrýmis þar yfir. Frumvarpið byggist því á ýtrustu kröfum um rétt okkar Íslendinga til að friðlýsa án undantekninga land okkar, landhelgi og lofthelgi þar yfir og til að friðlýsa eftir því sem fært er með tilliti til alþjóðlegrar umferðar um efnahagslögsöguna alla, landgrunnið og önnur svæði sem talist geta íslensk yfirráða- eða áhrifasvæði. Að öðru leyti vísast til alþjóðlegs réttar og skuldbindinga Íslendinga á sviði samgöngumála, sérstaklega hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.
    Ákvæðið hefur þó ekki áhrif á rétt allra ríkja til friðsamlegrar ferðar um landhelgina í samræmi við hafréttarsamninginn.

Um 11. gr.

    Hér er skýrt tekið fram að stjórnvöldum sé óheimilt að gefa undanþágur frá ákvæðum um hið friðlýsta svæði, jafnvel þótt um friðsamlegar heimsóknir sé að ræða. Komi upp vafaatriði í þessu sambandi skal ætíð aflað bestu fáanlegra upplýsinga, og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð um allar ákvarðanir í slíkum tilfellum. Hafa má til hliðsjónar ákvæði samninga risaveldanna um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar, svo sem SALT-samningana, um hvenær farartæki eða stöðvar eru skilgreind sem búin kjarnorkuvopnum.

Um 12. gr.

    Greinin leggur þá skyldu á stjórnvöld að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar eins og gert hefur verið í hliðstæðum tilfellum og samþykktir Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðlegra aðila gera ráð fyrir.

Um 13. gr.

    Greinin fjallar um refsiákvæði og er hliðstæð ákvæði í nýsjálenskum lögum.

Um 14. gr.

    Eðlilegt þykir að framkvæmd laganna heyri undir ráðherra utanríkismála en honum sé heimilt að fá aðra ráðherra til aðstoðar við sig ef aðstæður mæla með. Náið samráð skal vera milli utanríkisráðherra og Alþingis um framkvæmdina. Í fyrri útgáfum frumvarpsins var tekið mið af nýsjálensku fyrirkomulagi og framkvæmdin látin heyra undir forsætisráðherra en hér er horfið frá því eins og áður sagði. Ekki er ólíklegt að framkvæmd málsins verði falin fleiri en einum ráðherra, auðvitað fyrst og fremst ráðherra utanríkismála en einnig ráðherra samgöngumála og ef til vill ráðherra umhverfismála. Æskilegt væri að þingnefnd tæki afstöðu til þessara kosta.

Um 15. gr.

    Rétt þykir að nokkur tími gefist frá samþykkt laganna til gildistöku þannig að undirbúa megi framkvæmdina sem best.


Fylgiskjal I.


Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.
    Stefnan byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.
    Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
    Stefnan taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.
    Þjóðaröryggisstefnan feli í sér eftirfarandi áherslur sem hafi jafnt vægi:
     1.      Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.
     2.      Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
     3.      Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
     4.      Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.
     5.      Að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði.
     6.      Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
     7.      Að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þar verði tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
     8.      Að stuðla að auknu netöryggi með áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og í samstarfi við önnur ríki.
     9.      Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi.
     10.      Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
     11.      Að sett verði á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.


Fylgiskjal II.


Samningur um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku.

(Tlatelolco-samningurinn árið 1967.)


    Samningsaðilar skuldbinda sig til að banna og fyrirbyggja, hver á sínu yfirráðasvæði, eftirfarandi:
     a.      tilraunir, notkun, smíði eða öflun með nokkrum hætti á hvers kyns kjarnorkuvopnum, hvorki fyrir eigin hönd eða annars, beint eða óbeint; og
     b.      móttöku, geymslu, uppsetningu eða hvers konar eignaraðild að kjarnorkuvopnum, beint eða óbeint.
    Aðilar skuldbinda sig einnig til að ráðast hvorki í né efla, leyfa, eða á nokkurn hátt taka þátt í tilraunum, notkun, smíði, öflun eða yfirráðum yfir hvers kyns kjarnorkuvopnum.
    Stofnun sem beri nafnið „Eftirlitsstofnun með banni við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku“ skal bera ábyrgð á eftirliti með að ákvæði samningsins séu haldin og skal hún halda fundi með aðildarríkjum á tveggja ára fresti eða þegar þörf gerist. Höfuðstöðvar stofnunarinnar skulu vera í Mexíkóborg.
    Stofnunin skal hafa allsherjarráð, stjórnarnefnd og ritaraembætti. Allsherjarráðið skal halda fund á tveggja ára fresti og álykta um öll mál er varða samninginn. Stjórnarnefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum af allsherjarráði, og skal hún starfa óslitið.
    Sérhver samningsaðili skal ganga til samninga við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IAEA) um að taka upp eftirlitskerfi þeirrar stofnunar með kjarnorkumálum sínum. Hann skal skila skýrslum á tveggja ára fresti bæði til eftirlitsstofnunarinnar og til IAEA þar sem staðfest er að ekkert það sem stríðir gegn ákvæðum samningsins hafi átt sér stað á yfirráðasvæði hans.
    Aðalritara er heimilt að fara fram á nánari upplýsingar um öll atvik og atriði er varða samninginn og ber að veita honum tafarlausa fyrirgreiðslu.
    IAEA og stjórnarnefndin skulu hafa vald til að gera sérstakar kannanir, hinir fyrrnefndu í samræmi við samkomulag sem þeir hafa gert við hvern aðila fyrir sig en stjórnarnefndin
     a.      þegar fram á slíkt er farið af hálfu einhvers aðila sem hefur grun um að einhverjar framkvæmdir, sem brjóta í bága við samninginn, hafi átt sér stað eða séu í þann veginn að eiga sér stað á yfirráðasvæði annars aðila eða annars staðar á vegum hins síðarnefnda aðila eða
     b.      þegar farið er fram á slíkt af hálfu aðila sem sakaður er um að hafa brotið gegn ákvæðum samningsins.
    Samningsaðilar, sem hyggjast sprengja kjarnorkusprengju í friðsamlegum tilgangi, skulu tilkynna það eftirlitsstofnuninni og IAEA með eins löngum fyrirvara og aðstæður krefja. Tæknilegum fulltrúum stjórnarnefndar eftirlitsstofnunarinnar og IAEA er þá heimilt að fylgjast með öllum undirbúningi og eiga greiðan aðgang að svæðinu.
    Verði uppvíst um brot á samningnum skal allsherjarráðið skila skýrslu samtímis til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til stjórnarnefndar samtaka Ameríkuríkja og til IAEA.
    Öllum þjóðum rómönsku Ameríku, svo og öðrum fullvalda þjóðum sem liggja í heild sinni sunnan 35. gráðu norður á vesturhveli jarðar, er heimilt að undirrita samninginn.
    Undirritendur geta við staðfestingu samningsins sett fram skilyrði (t.d. um að önnur ríki staðfesti samninginn) sem þurfi að mæta áður en þeir telji sig bundna af samningnum.
    Samningurinn skal gilda um ótakmarkaðan tíma, en þó er sérhverjum samningsaðila heimilt að segja upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara til aðalritara enda telji viðkomandi aðili að þær aðstæður hafi komið til eða séu í þann veginn að koma til er varða brýnustu hagsmuni hans.
    Framkvæmd samningsins skal frestað af hálfu allra samningsaðila komi til nýtt veldi er ráði yfir kjarnorkuvopnum.
    Samningnum fylgja tveir hliðarsamningar (protocol).
    Í hliðarsamningi I samþykkja Bretland og Holland að framfylgja þeim ákvæðum samningsins er lúta að banni við kjarnorkuvopnum á þeim svæðum sem eru á ábyrgð þeirra (t.d. á Falklandseyjum). Samþykktin felur í sér skuldbindingar gagnvart IAEA en ekki gagnvart eftirlitsstofnuninni.
    Í hliðarsamningi II gera Bandaríkin og fleiri aðilar með sér samning um að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn nokkrum öðrum aðila að samningnum né heldur hóta beitingu slíkra vopna. Bandaríkin áskilja sér óskoraðan lagalegan rétt til að veita eða neita aðilum utan samningsins um yfirferðarleyfi og flutningsleyfi. Bandaríkin mundu og skoða árás af hálfu samningsríkis með stuðningi kjarnorkuveldis sem brot á ákvæðum samningsins.
    Bandaríkin líta svo á að sú tækni að beita kjarnorkusprengingum í friðsamlegum tilgangi sé óaðgreinanleg frá þeirri tækni að framleiða kjarnorkuvopn. Þau leggja því þann skilning í skilgreiningu samningsins á kjarnorkuvopnum að hún nái til hvers kyns tækja sem nota má til að framleiða kjarnorku.


Fylgiskjal III.


Úr lokayfirlýsingu aukaþings Sameinuðu þjóðanna um afvopnunarmál 1978.


    60. Myndun kjarnorkuvopnalausra svæða á grundvelli frjálsra samninga milli ríkja á viðkomandi svæði er mikilvægur þáttur í afvopnun.
    61. Rétt er að styðja myndun slíkra svæða með það endanlega markmið í huga að losa heiminn að fullu við kjarnorkuvopn. Við myndun slíkra svæða skal tekið tillit til sérkenna hvers svæðis. Þau ríki, sem þátt taka í myndun slíkra svæða, ættu að skuldbinda sig til að styðja að fullu markmið, tilgang og grundvallarreglur þeirra samninga eða samkomulaga er miða að stofnun svæðanna og tryggja þar með að þau verði í raun laus við kjarnorkuvopn.
    62. Hvað varðar slík svæði er gert ráð fyrir að kjarnorkuveldin taki á sig vissar skuldbindingar sem samið skal um við lögmæt yfirvöld á svæðinu, einkum:
     a.      að virða að fullu stöðu hins kjarnorkuvopnalausa svæðis;
     b.      að virða bann við beitingu eða hótunum um beitingu kjarnorkuvopna gegn ríkjum á svæðinu.
    63. Með tilliti til ríkjandi aðstæðna hverju sinni og án þess að það rýri gildi annarra ráðstafana sem til greina koma á öðrum svæðum eru eftirfarandi ákvæði sérlega æskileg:
     a.      Viðurkenning allra viðkomandi ríkja á þeim ákvæðum er tryggja fullt gildi samningsins um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samningsins) með sérstöku tilliti til þeirra skoðana sem fram komu á tíundu ráðstefnunni um framfylgd samningsins.
     b.      Undirritun og samþykki á viðbótarákvæðum við samninginn um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samninginn) af hálfu þeirra ríkja sem rétt eiga á að gerast aðilar að þeim samningum en hafa ekki gert það.
     c.      Í Afríku, þar sem Einingarsamtök Afríku hafa samþykkt ályktun um kjarnorkuafvopnun svæðisins, skal öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta markmið verði hindrað.
     d.      Að taka til alvarlegrar athugunar þær þörfu og áríðandi ráðstafanir sem lýst er í málsgreinunum hér að ofan og nauðsynlegar eru til að hrinda í framkvæmd tillögunni um lýsingu kjarnorkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum í samræmi við viðeigandi ályktanir allsherjarþingsins þar sem allir aðilar, sem málið varðar beint, hafa lýst yfir stuðningi sínum við hugmyndina og þar sem hætta er á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum mundi stórlega bæta horfur á alheimsfriði og öryggi. Meðan beðið er eftir stofnun slíks svæðis í þessum heimshluta ættu ríki á svæðinu að lýsa því yfir formlega að þau muni forðast á gagnkvæmum grundvelli að framleiða, afla sér eða á nokkurn annan hátt að eignast kjarnorkuvopn og kjarnorkusprengibúnað og að heimila staðsetningu kjarnorkuvopna á yfirráðasvæðum sínum af hálfu þriðja aðila og samþykkja að leggja öll sín kjarnorkumál undir eftirlit Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Taka skal til athugunar að öryggisráðið taki þátt í undirbúningi stofnunar kjarnorkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum.
     e.      Öll ríki Suður-Asíu hafa lýst yfir þeirri ákvörðun sinni að heimila ekki kjarnorkuvopn í ríkjum sínum. Engar ráðstafanir skyldu gerðar af þeirra hálfu er yrðu til þess að vikið yrði af þeirri braut. Í þessu samhengi hefur spurningin um myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis verið afgreidd í ýmsum ályktunum öryggisráðsins en þar er málið enn til umfjöllunar.
    64. Stofnun friðarsvæða í ýmsum heimshlutum með viðeigandi skilyrðum skilgreindum af viðkomandi ríkjum á svæðinu þar sem tekið er mið af sérkennum svæðisins og grundvallarhugsjón stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við alþjóðalög getur stuðlað að eflingu öryggis ríkja innan slíkra svæða og að heimsfriði og öryggi. Í þessu sambandi bendir allsherjarráðið á tillögur um stofnun friðarsvæða, m.a.:
     a.      Í Suðaustur-Asíu þar sem ríki á svæðinu hafa lýst áhuga á stofnun slíks svæðis í samræmi við sjónarmið sín.
     b.      Á Indlandshafi með tilliti til umræðna öryggisráðsins og viðeigandi ályktana þess og þeirrar nauðsynjar að tryggja frið og öryggi á svæðinu.
    65. Að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna er brýnn og óaðskiljanlegur þáttur í viðleitninni til að stöðva vígbúnaðarkapphlaupið og snúa því við. Markmiðið með takmörkun kjarnorkuvopna er annars vegar að koma í veg fyrir tilkomu fleiri kjarnorkuþjóða í viðbót við kjarnorkuveldin fimm og hins vegar að fækka og loks útrýma kjarnorkuvopnum að fullu. Þetta felur í sér skuldbindingar og ábyrgð bæði af hálfu kjarnorkuvopnaðra ríkja og ríkja sem ekki ráða yfir kjarnorkuvopnum. Skulu hinir fyrrnefndu leitast við að stöðva vígbúnaðarkapphlaupið með því að hrinda tafarlaust í framkvæmd þeim aðgerðum sem lýst er í viðeigandi greinum þessarar lokayfirlýsingar en öll ríki skulu beita sér fyrir að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    66. Mögulegt er og skylt að gera ráðstafanir á innanlandsvettvangi sem og á alþjóðavettvangi til að minnka hættu á útbreiðslu kjarnorkuvopna án þess að stofna í hættu framboði á orku og þróun kjarnorkutækni til friðsamlegra nota. Því skulu kjarnorkuveldin og þau ríki, sem ekki búa yfir kjarnorkuvopnum, leitast við að gera sameiginlegar ráðstafanir til að komast að alþjóðlegu samkomulagi um aðferðir til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    67. Full framkvæmd allra atriða þeirra samkomulaga sem til eru um stöðvun á útbreiðslu kjarnorkuvopna, t.d. samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og samningsins um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samningurinn), af hálfu þeirra sem aðild eiga að samningunum er mikilvægt framlag til þessarar viðleitni. Fylgi við slíka samninga hefur aukist á síðari árum og sú von hefur verið látin í ljós af hálfu aðila að slíkum samningum að framhald verði á þeirri þróun.
    68. Ráðstafanir, sem gerðar eru til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna, ættu ekki að skerða fullan rétt þjóða til að framkvæma og þróa áætlanir sínar um friðsamlega notkun kjarnorku til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar í samræmi við hagsmuni sína og þarfir. Öll ríki ættu og að eiga aðgang að og hafa fullt frelsi til að afla sér tækniþekkingar, búnaðar og efna til friðsamlegrar notkunar á kjarnorku með sérstöku tilliti til þarfa þróunarríkjanna. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði ætti að eiga sér stað undir viðurkenndu alþjóðlegu eftirliti í umsjá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar án mismununar til að fyrirbyggja útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    69. Tekið skal fullt tillit til ákvarðana sérhverrar þjóðar á sviði friðsamlegrar nýtingar kjarnorkuvopna án þess að stofna í hættu orkunýtingarstefnu hvers ríkis fyrir sig eða alþjóðlegri samvinnu, samningum eða verksamningum um friðsamlega nýtingu kjarnorku, enda séu viðhafðar þær varúðarráðstafanir sem getið er um hér að ofan.
    70. Í samræmi við niðurstöður og ákvæði samþykktar allsherjarráðsins nr. 32/50 frá 8. desember 1977 skal alþjóðleg samvinna um flutning og nýtingu á kjarnorku til efnahagslegrar og þjóðfélagslegrar þróunar efld, einkum í þróunarlöndum.
    71. Reynt verði að leiða til lykta störf nefndarinnar um nýtingu kjarnorkueldsneytis (Nuclear Fuel Cycle Evaluation) í fullu samræmi við markmið þau sem sett voru fram í lokayfirlýsingu á stofnþingi nefndarinnar.
    72. Öll ríki skulu halda fast við milliríkjasamþykkt um bann við notkun eiturefna og sýkla í hernaði sem undirritaður var í Genf 17. júní 1925.
    73. Öll ríki, sem ekki eru þegar aðilar að samþykktinni um bann við þróun, framleiðslu og birgðasöfnun gerla- (lífrænna) og eiturefna og um eyðingu þeirra, ættu að íhuga aðild að henni.
    74. Ríki skulu einnig íhuga möguleika á því að gangast inn á marghliða samninga sem þegar hafa verið gerðir um afvopnunarmál og getið er um hér að neðan.
    75. Algert bann við þróun, framleiðslu og birgðasöfnun eiturefnavopna og eyðing slíkra vopna eru meðal brýnustu aðgerða til afvopnunar. Því er gerð milliríkjasamnings í þessu skyni eitt brýnasta verkefnið sem fyrir liggur en umræður um þessi mál hafa nú staðið yfir um nokkurra ára skeið. Að gerðum slíkum milliríkjasamningi skyldu öll ríki stuðla að því að tryggja sem víðtækast gildi samningsins með tímabærri undirritun og gildistöku hans.
    76. Nauðsynlegt er að gera milliríkjasamning er bannar þróun, framleiðslu, birgðasöfnun og notkun geislavopna.


Fylgiskjal IV.


Samningur um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0371-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Samningur um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0371-f_V.pdf