Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 85  —  85. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006 (framlög hins opinbera til stjórnmálastarfsemi).

Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „12 millj. kr.“ í 1. mgr. kemur: 7 millj. kr.
     b.      Í stað „2,5% atkvæða“ í 2. mgr. kemur: 4% atkvæða.
     c.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað „550.000 kr.“ í 1. mgr. kemur: 1.300.000 kr.
     b.      Í stað „100.000 kr.“ í 1. mgr. kemur: 240.000 kr.
     c.      Í stað „550.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 1.300.000 kr.
     d.      Í stað „100.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 240.000 kr.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Stjórnmálasamtökum, sem ekki uppfylla skilyrði til að fá framlag frá hinu opinbera á grundvelli 3.–5. gr., er heimilt að taka á móti framlögum sem nema allt að tvöföldum hámarksframlögum sem tilgreind eru í 1.–3. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi (38. mál).
    Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka voru samþykkt árið 2006. Með lögunum var fjármögnun stjórnmálaflokka takmörkuð verulega en í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 162/2006 kom fram að samhliða þessari breytingu væri brýnt að hækka verulega framlag úr ríkissjóði til stjórnmálastarfsemi. Það hefur sannarlega gengið eftir, en opinber framlög til stjórnmálaflokka hafa margfaldast frá setningu laganna og eru nú helsta tekjulind þeirra. Þessi fjárframlög koma til viðbótar við framlög til stjórnmálaflokka í formi aðstoðarmanna og starfsmanna þingflokka samkvæmt ákvörðun á fjárlögum. Líkt og frumvarpinu var ætlað breytti það því starfsumgjörð stjórnmálaflokka hérlendis „veruleg[a]“ en með síhækkandi opinberum framlögum samhliða takmörkun á tekjuöflun stjórnmálaflokka, hafa flokkarnir í raun verið gerðir að ríkisstofnunum.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga nr. 162/2006, um starfsemi stjórnmálasamtaka, sem varða framlög til stjórnmálastarfsemi. Breytingarnar lúta að því að lækka lítillega styrki hins opinbera til stjórnmálaflokka og miða að því að auka sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera. Samhliða þessari breytingu er brýnt að auka möguleika stjórnmálaflokka á sjálfstæðri tekjuöflun og eru því lagðar til breytingar sem miða að því. Eftir sem áður verður stjórnmálaflokkum þó þröngur stakkur sniðinn við móttöku framlaga og framlög frá óþekktum gefendum verða áfram óheimil. Þá verður áfram skylt að veita upplýsingar um öll fjárframlög til stjórnmálaflokka.
Þá er lagt til að lágmarksatkvæðafjöldi stjórnmálasamtaka sem geti fengið úthlutað fé úr ríkissjóði verði hækkaður úr 2,5% í 4%. Þar vegast á sjónarmið annars vegar um að mikilvægt sé að undanskilja ekki sjálfkrafa flokka sem hafa ekki náð manni kjörnum á Alþingi í þágu lýðræðis og almennra skoðanaskipta og hins vegar að hlutfallstalan hvetji ekki fólk til framboðs vegna möguleikans á fjáröflun, enda er það ólýðræðislegt að úthluta háum fjármunum skattgreiðenda í þágu stjórnmálastarfsemi og hugmyndafræði sem þeir hafi hafnað í lýðræðislegum kosningum. Á móti er lagt til að stjórnmálasamtök, sem ekki uppfylli skilyrði laganna um framlög úr ríkissjóði, hafi rýmri heimildir til sjálfstæðrar tekjuöflunar. Rökin að baki þessu eru þau að þar sem slík samtök þiggja ekki framlög frá hinu opinbera, auk þess sem þau fari ekki með formlegt vald, sé ekki ástæða til þess að setja sjálfstæðri tekjuöflun þeirra eins miklar skorður og ella. Því er lagt til að þeim stjórnmálasamtökum sem ekki eiga rétt á framlagi frá hinu opinbera samkvæmt lögunum sé heimilt að taka við tvöfalt hærri framlögum frá einstaklingum og lögaðilum skv. 1.–3. mgr. 7. gr. heldur en þau stjórnmálasamtök sem njóta fjárhagslegs stuðnings hins opinbera.
    Lagt er til að fjárhæðir í 3. gr. laganna verði lækkaðar um helming miðað við núvirðingu fjárhæða laganna og að ákvæði um fjárstyrk úr ríkissjóði vegna kosningabaráttu falli brott. Þá er lagt til að fjárhæðir í 7. gr. laganna verði tvöfaldar miðað við núvirðingu fjárhæða laganna.
    Það er eindregið mat flutningsmanna að sú þróun sem hafi orðið hér á landi vegna hárra framlaga hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera. Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er sá að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða, en ríkiskostunin hefur dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Það er öfugþróun enda eru stjórnmálaflokkar einungis skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá myndar. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.