Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 127  —  127. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.


Flm.: Bjarni Jónsson, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en 30. apríl 2024.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á 144., 150., 151. og 152. löggjafarþingi (720. mál). Tillögunni var breytt og hún lögð fram á 153. löggjafarþingi (159. mál) og gekk hún til umhverfis- og samgöngunefndar. Umsögn við tillöguna barst frá byggðarráði Skagafjarðar. Umsögnin var í takt við fyrri umsagnir sem borist hafa vegna tillögunnar og skyldra tillagna. Í umsögnum er undirstrikuð heppileg landfræðileg lega Alexandersflugvallar með tilliti til veðurfars og góðra lendingarskilyrða. Þá áréttar byggðarráð Skagafjarðar að unnið hefur verið að endurbótum á vellinum af hálfu sveitarfélagsins. Þá myndu umbætur á vallarbúnaði enn frekar fækka dögum sem ekki væri mögulegt að lenda á vellinum, sem eru nú þegar fátíðir.
    Kostir Alexandersflugvallar eru ótvíræðir, m.a. góð landfræðileg lega Alexandersflugvallar sem er mjög heppileg með tilliti til jarðhræringa og/eða eldgosa sem hamlað geta flugsamgöngum en við höfum að undanförnu verið rækilega minnt á eldfjallavirkni með jarðskjálftum og eldgosum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi og þá áhættu sem það hefur skapað fyrir millilandaflug. Mikil þörf er á varaflugvelli þar sem aðstæður til lendingar og flugtaks eru sem bestar, ekki mjög fjarri Keflavíkurflugvelli og einnig flugvellinum á Akureyri og ljóst að aðrir flugvellir uppfylla þau skilyrði ekki eins vel. Þá eru samgöngur á landi traustari yfir vetrartímann á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur en á milli Akureyrar og Reykjavíkur, eins og kom í ljós þegar landleiðin að Keflavíkurflugvelli lokaðist vegna ófærðar síðastliðinn vetur og truflun varð einnig á samgöngum við Akureyri, ekki einungis um Akureyrarflugvöll heldur einnig landleiðina.
    Það er því mikilvægur öryggisþáttur fyrir landsmenn og gesti landsins að samgönguöryggi sé tryggt enn frekar. Þegar gaus í Eyjafjallajökli var Akureyrarflugvöllur eini flugvöllurinn sem nýttist og mikilvægi hans sannaðist að sama skapi. Milli Sauðárkróks og Akureyrar er vegalengdin aðeins um 120 km. Milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru um 295 km. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Augljóst er að töluverðu munar á vegalengdum og ferðatíma á milli Egilsstaða og Reykjavíkur annars vegar og Sauðárkróks og Reykjavíkur hins vegar. Akureyrarflugvöllur er mikilvægur fyrir allt Norðurland, ekki síst vegna aukins farþegaflugs innan lands og til útlanda, og Egilsstaðaflugvöllur er að sama skapi mikilvægur fyrir Austurland. Þá gegnir flugvöllurinn á Akureyri lykilhlutverki vegna sjúkraflugs. Af fýsilegum flugvöllum er því styst frá Alexandersflugvelli á höfuðborgarsvæðið.
    Alexandersflugvöllur er vel staðsettur þar sem að flug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður og suður, sem eru einnig ríkjandi vindáttir á þeim slóðum, og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa. Í gögnum frá Vegagerðinni frá árinu 2019 kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hafi aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hafi þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 daga ef norðurleið var farin. Einnig er vakin athygli á því að frá Sauðárkróki til Reykjavíkur og til Akureyrar sem og til Egilsstaða eru fleiri en ein leið og því er möguleiki á varaleið ef þjóðvegur 1 lokast. Því er ljóst að staðsetning vallarins er góð þegar litið er til færðar og samgangna á landi.
    Öryggi samgangna þarf að tryggja með sem bestum hætti, hvort sem um er að ræða samgöngur á jörðu, sjó eða í lofti. Nú eru fjórir meginflugvellir á Íslandi, Reykjavíkurflugvöllur, Keflavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Þessir flugvellir gegna allir mikilvægu hlutverki í samgöngum innan lands og milli landa sem farþega- og vöruflutningavellir og sem öryggistæki. Einsýnt er að verulegur ávinningur gæti verið að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Í ljósi þessa er því beint til ráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd og er lagt til að ráðherra láti kanna kosti þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður þeirrar könnunar eigi síðar en 30. apríl 2024.