Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 129  —  129. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (tannheilbrigðisþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sjúkratryggingar taka til allra tannlækninga og tannréttinga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára. Þá taka sjúkratryggingar til tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga barna. Jafnframt skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga aldraðra og öryrkja sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga sem og aðrar opinberar greiðslur sem tengjast örorku- og ellilífeyrisréttindum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi (57. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Ein umsögn barst um frumvarpið á 153. löggjafarþingi frá Tannlæknafélagi Íslands, sem lýsti yfir stuðningi við framgöngu málsins.
    Í lögum um sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna. Þá taka sjúkratryggingar einnig til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga í ákveðnum tilvikum, þ.e. vegna afleiðinga alvarlegra meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
    Þá er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga ekki skilyrðislaus. Ráðherra hefur heimild til að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með reglugerð. Almennt eru nauðsynlegar tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir börn en öðru gegnir um tannréttingar. Sem dæmi má nefna að veittur er styrkur að fjárhæð 430.000 kr. ef föst tæki eru sett í báða góma, en almennt er kostnaður við slíkar tannréttingar talsvert umfram þá fjárhæð, öllu jafna ekki undir 700.000 kr. Svo mikil fjárútlát hafa veruleg áhrif á fjárhag fátækra fjölskyldna. Samfélaginu ber skylda til þess að tryggja að öll börn fái þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa, án tillits til efnahags. Það kemur sífellt betur í ljós hve mikilvæg tannheilsa er. Þá getur það haft keðjuverkandi neikvæðar afleiðingar ef ekki er gripið til réttra aðgerða á réttum tíma. Því er lagt til að framvegis verði öll tannheilbrigðisþjónusta í þágu barna gjaldfrjáls.
    Stór hópur fullorðinna býr við slæma tannheilsu vegna þess að kostnaðurinn er of mikill og tekjur þeirra of lágar. Þeir öryrkjar og eldri borgarar sem reiða sig alfarið á lífeyri almannatrygginga eiga nógu erfitt fyrir með að ná endum saman. Það er ekkert fjárhagslegt svigrúm ef tannheilsan versnar. Sjúkratryggingar greiða hluta kostnaðar, en fólk í þessari stöðu hefur einfaldlega ekki efni á að greiða sinn hlut. Því er lagt til að öryrkjar og eldri borgarar, sem engar aðrar tekjur hafa, aðrar en lífeyri almannatrygginga, og tengdar greiðslur, fái gjaldfrjálsa tannheilbrigðisþjónustu.
    Núverandi löggjöf tryggir ekki með nægjanlegum hætti að allir þeir sem fæðast með skarð í vör eða klofinn góm njóti stuðnings frá sjúkratryggingum til að greiða niður kostnað vegna viðhlítandi tannlækninga og tannréttinga. Þetta er vegna þess að það er skilyrði í núgildandi löggjöf að tilteknar aðgerðir séu nauðsynlegar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla. Þau matskenndu viðmið sem lögð eru til grundvallar leiða til þess að réttur til niðurgreiðslu er ekki til staðar hjá öllum sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör. Hópur barna kemst nú ekki í viðhlítandi aðgerðir vegna þess að kostnaður er hár og Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði þar sem afleiðingar meðfæddra galla hjá þessum tilteknu börnum eru að mati stofnunarinnar ekki nógu alvarlegar og telst aðgerð þar af leiðandi ekki nauðsynleg. Börn sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör þurfa að ganga í gegnum miklar þrautir. Það er því óboðlegt að hið opinbera geri þeim enn þá erfiðara fyrir. Því er einnig lagt til að sjúkratryggingar taki til tannlækninga og tannréttinga vegna meðfæddra galla óháð alvarleika þeirra og hvort aðgerð teljist nauðsynleg.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til allra tannlækninga og tannréttinga barna. Ekki er því lengur skilyrði að þær tannlækningar og tannréttingar séu nauðsynlegar, né að samið hafi verið um þær tannréttingar sérstaklega skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar.
    Lagt er til að fella út orðin „nauðsynlegra“ og „alvarlegra“ úr 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar. Með þeirri breytingu er ekki lengur þörf á að meta hvort meðfæddur galli eða afleiðing slyss eða sjúkdóms sé nógu alvarleg né hvort meðferð í hverju tilviki fyrir sig sé nauðsynleg, heldur munu sjúkratryggingar taka til tannlækninga og tannréttinga vegna þeirra.
    Loks er kveðið á um að ekki megi takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga barna. Breytingin felur það í sér að ekki verður heimilt að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í reglugerð. Breytingin hefur aðallega áhrif á kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga vegna tannréttinga barna, enda eru tannlækningar barna að mestu leyti gjaldfrjálsar. Enn fremur er kveðið á um að sjúkratryggingar skuli einnig taka fullan þátt í kostnaði vegna tannlækninga og tannréttinga þeirra öryrkja og eldri borgara sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga sem og aðrar opinberar greiðslur sem tengjast örorku- og ellilífeyrisréttindum. Lífeyrisþegar almannatrygginga geta átt rétt á ýmsum greiðslum frá hinu opinbera eða sveitarfélögum, m.a. á grundvelli laga um félagslega aðstoð og laga um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Slíkar greiðslur myndu því ekki skerða kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga.
    Þegar vísað er til tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga er átt við allar læknisfræðilegar aðgerðir og meðferðir sem lúta að tönnum, gómi og munnholi.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.