Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1029  —  688. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um varðveislu íslenskra danslistaverka.


Flm.: Magnús Árni Skjöld Magnússon, Dagbjört Hákonardóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Inger Erla Thomsen, Logi Einarsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við að stuðla að varðveislu íslenskra danslistaverka.

Greinargerð.

    Síðastliðin tuttugu ár hefur samtímadansi á Íslandi vaxið ásmegin og mikil þróun orðið innan greinarinnar. Má það einkum rekja til stofnunar Reykjavík Dance Festival árið 2002, dansbrautar við Listaháskóla Íslands 2007 og Dansverkstæðisins 2010. Aukinni grósku innan greinarinnar hefur þó ekki fylgt stefna um varðveislu og utanumhald gagna.
    Staða varðveislu dansverka á Íslandi er slæm, sérstaklega þegar litið er til sjálfstæðu danssenunnar sem og í samanburði við nágrannalöndin. Til að standa vörð um menningarverðmæti dugar ekki að skrásetja upplýsingar um listaverk heldur þarf einnig að varðveita listaverkin sjálf. Dans og gjörningalist skera sig hér úr þar sem öðrum listformum, svo sem ritlist, myndlist og kvikmyndagerð, er eiginlegt að vera skrásett og skjalfest. Í tilfelli tónlistar og leiklistar eru til alþjóðlegar og staðlaðar aðferðir við skráningu. Dansinn þarf aftur á móti að þróa sitt eigið skráningarform, nýja leið miðlunar sem hefur ekkert með listaverkið sjálft að gera. Dansinn glímir þannig við stórar áskoranir þegar kemur að varðveislu. Verk Íslenska dansflokksins eru að mestu varðveitt en algengasta skrásetningaraðferðin er myndbandsupptaka og eru flestar upptökur varðveittar á vefsíðum á netinu. Í sögulegu samhengi hafa skjalasöfn sýnt danslistaverkum lítinn áhuga og fáar stofnanir hafa unnið markvisst að varðveislu dansverka. Innan sviðslista, og þá sérstaklega í dansinum, er efni til varðveislu fjölbreytt. Handrit, dansnótur, spólur, ljósmyndir, búningar, leikmunir, plaköt, bæklingar og teikningar getur allt átt þátt í að varðveita eitt dansverk. Það gerir skráninguna umfangsmeiri og varðveisluna erfiðari. Gögn um dansverk passa oft illa inn í hefðbundin geymsluform skjalasafna auk þess sem varðveisla á myndbandsupptökum krefst sérstakrar vinnu sem danshöfundar hafa sjaldan tök á að sinna. Helstu hindranir danshöfunda eru skortur á tíma og fjármagni sem á rót sína að rekja til starfsumhverfis sjálfstætt starfandi danslistamanna. Einnig vantar mikið upp á utanaðkomandi stuðning við danslistafólk. Það þarf að bæta með stefnumótun af hálfu stjórnvalda.
    Hér er lagt til að menningar- og viðskiptaráðherra verði falið að hefja vinnu við að stuðla að varðveislu íslenskra dansverka. Lagt er til að ráðuneyti endurskoði gildandi menningarstefnu með tilliti til varðveislu dansverka og marki sér stefnu um málefnið sé þess þörf. Með samtali við fagfólk innan greinarinnar verði þarfir danslistamanna greindar er varða stuðning yfirvalda við viðeigandi stofnanir og aðila til að standa vörð um arfleifð danslistar á Íslandi. Án kerfisbundinnar nálgunar stofnana og sameiginlegra markmiða um framtíð menningarverðmæta er arfleifð íslenskrar dansmenningar í hættu.