Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1031  —  689. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998
(geymsla koldíoxíðs).


Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.1. gr.

    1. mgr. 33. gr. a laganna orðast svo:
    Þessi kafli gildir um geymslu koldíoxíðs í jörðu á yfirráðasvæði Íslands, þ.e. á landi, innsævi, í landhelgi, efnahagslögsögu og á landgrunni.

2. gr.

    1. tölul. 33. gr. b laganna orðast svo:
    Könnunarleyfi og starfsleyfi til geymslu, þ.m.t. um form og efni umsóknar og leyfis, fjárhagslega tryggingu, breytingar á útgefnum leyfum, kröfur vegna aðilaskipta, niðurfellingu leyfis þegar starfsemi er hætt eða forsendur leyfis bresta og málsmeðferð við veitingu leyfis.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. c laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                 Í þeim tilvikum þegar könnun þarf að fara fram, hefur handhafi könnunarleyfis einkarétt til könnunar á hugsanlegum geymslugeymi, auk forgangsréttar til starfsleyfis til geymslu á sama svæði að því tilskildu að könnun á svæðinu sé lokið, að öll skilyrði könnunarleyfis séu uppfyllt og að sótt sé um starfsleyfi til geymslu á gildistíma könnunarleyfis. Sækja skal um könnunarleyfi hjá Umhverfisstofnun.
     b.      Í stað orðanna „á meðan könnun stendur yfir“ í 4. mgr. koma orðin: á gildistíma könnunarleyfis.
     c.      5. mgr. fellur brott.

4. gr.

    33. gr. d laganna orðast svo:
    Koldíoxíðsstraumur skal vera að langmestu leyti úr koldíoxíði. Af þeim sökum má ekki bæta í hann úrgangi eða öðru efni í því skyni að farga úrganginum eða öðru efni. Koldíoxíðsstraumur getur þó innihaldið tilfallandi, tengd efni úr uppsprettunni, fönguninni eða niðurdælingarferlinu og snefilefni sem bætt er í hann til að auðvelda vöktun og sannprófun á flæði koldíoxíðs. Styrkur allra tilfallandi og viðbættra efna skal ekki vera svo hár að hann:
     a.      hafi skaðleg áhrif á áreiðanleika geymslusvæðis eða tengdra innviða,
     b.      stofni umhverfinu eða heilbrigði fólks í hættu,
     c.      brjóti í bága við kröfur annarrar viðeigandi löggjafar.
    Rekstraraðili skal sjá til þess að innihald koldíoxíðsstraums sé efnagreint og að fram fari áhættumat sem staðfesti að mengunarstig koldíoxíðsstraums sé í samræmi við kröfur 1. mgr.

5. gr.

    Í stað greinartölunnar „33. gr. j“ í 1. mgr. 33. gr. f og 2. tölul. 1. mgr. 33. gr. g kemur: 33. gr. k.


6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 33. gr. g laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: Öll tiltæk gögn benda til þess að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað.
     b.      Við bætist nýr töluliður sem verður 2. tölul., svohljóðandi: Lágmarkstími sem Umhverfisstofnun ákvarðar er liðinn. Sá lágmarkstími skal ekki vera styttri en 20 ár nema unnt sé að sýna fram á að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað áður en því tímabili lýkur.
     c.      Orðin „og geymslu“ í 3. tölul. falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. h laganna:
     a.      Inngangsmálsliður 2. mgr. orðast svo: Aðgangur á grundvelli 1. mgr. skal veittur án mismununar, að teknu tilliti til eftirfarandi viðmiða.
     b.      B-liður 2. mgr. orðast svo: markmiðs íslenskra stjórnvalda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum um samdrátt í losun koldíoxíðs og reglum um föngun og geymslu koldíoxíðs í jörðu.
     c.      3. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Við 3. mgr. 33. gr. i laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Falli viðkomandi flutningskerfi eða geymslusvæði undir fleiri en eitt ríki í deilumáli sem nær yfir landamæri skulu hlutaðeigandi ríki hafa samráð sín á milli til þess að ákvæðum þessa kafla í lögunum sé beitt á samræmdan hátt.

9. gr.

    Á eftir 33. gr. i laganna kemur ný grein, 33. gr. j, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinartala 33. gr. j samkvæmt því:

Samstarf yfir landamæri.

    Ef koldíoxíð er flutt yfir landamæri eða ef geymslusvæðin eða geymslusamstæðurnar liggja yfir landamæri skulu lögbær yfirvöld hlutaðeigandi ríkja í sameiningu uppfylla kröfur laga þessara og annarrar viðeigandi löggjafar.


10. gr.

    Í stað orðanna „tryggingu fyrir allri starfsemi á geymslusvæði“ í 1. mgr. 33. gr. j laganna kemur: fjárhagslega tryggingu fyrir allri starfsemi á geymslusvæði eða jafngildi tryggingar.

11. gr.

    Við 1. mgr. 53. gr. bætist nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi:
    Könnunarleyfi, sbr. VI. kafla A.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og er endurflutt. Það var lagt fram á Alþingi á 153. löggjafarþingi (þskj. 1391, 889. mál) en náði ekki fram að ganga. Þær breytingar sem hafa verið gerðar frá fyrri framlagningu í mars 2023 eru:
     a.      Lagt er til að bæta orðinu „fjárhagslega“ við 33. j um fjárhagslegar skyldur.
     b.      Samráðskafli greinargerðar uppfærður með hliðsjón af nýjum umsögnum, sjá nánari umfjöllun í 5. kafla.
    Um er að ræða breytingar á VI. kafla A laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem fjallar um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að samræma orðalag kaflans við orðalag tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu.
    Ráðuneytinu bárust ábendingar og athugasemdir frá ESA um að orðalag VI. kafla A í lögunum væri enn ekki í fullu samræmi við orðalag tilskipunar 2009/31/EB. Í frumvarpi þessu eru því lagðar til efnisbreytingar í samræmi við athugasemdir ESA. Meðal þeirra atriða sem ESA hefur bent á í athugasemdum sínum er að skýra verði betur gildissvið laganna og að setja verði skýrari mörk milli umfjöllunar um könnunarleyfi og starfsleyfi, sem fjallað er um í 33. gr. c laganna. Einnig var bent á að laga þyrfti orðalag í 1. mgr. 33. gr. g sem fjallar um flutning ábyrgðar á geymslusvæði eftir að því hefur verið lokað sem og að skýra verði betur skilyrði fyrir aðgangi þriðja aðila að flutningskerfi og geymslusvæði í 33. gr. h auk nokkurra annarra atriða. Lagt er til að bæta við tveimur ákvæðum sem annars vegar fjalla um lausn deilumála vegna aðgangs að flutningskerfi og geymslusvæði og hins vegar um samstarf yfir landamæri.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru nauðsynlegar til að bregðast við athugasemdum ESA við lög nr. 12/2021, sem innleiddu tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu, til þess að tryggja enn betur samræmi á milli íslenskra laga og tilskipunar 2009/31/EB. Tilskipunin er tengd reglum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfi) sem hefur í för með sér að fyrirtæki sem taka þátt í ETS-kerfinu geta dregið það koldíoxíð sem dælt er niður í jörðina til geymslu, samkvæmt reglum tilskipunar 2009/31/EB, frá losun sinni í vöktunaráætlun sem skilað er til lögbærra yfirvalda í hverju ríki samkvæmt tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB.
    Frá samþykkt laga nr. 12/2021 hefur ráðuneytið unnið að gerð reglugerðar um frekari útfærslu á framkvæmd laganna í nánu samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Niðurstaða samvinnu stjórnvalda og ESA leiddi í ljós að ekki var neitt svigrúm við innleiðingu tilskipunarinnar þrátt fyrir að aðferð Carbfix við steinrenningu koldíoxíðs sé frábrugðin þeirri aðferð sem lýst er í tilskipuninni. Er þar átt við þá útvíkkun orðalags og hugtaka sem lagt var upp með í lögum nr. 12/2021. Í lögunum var t.d. talað um niðurdælingu koldíoxíðs í stað geymslu þess. Það var gert að beiðni Carbfix ohf. sem hefur lagt áherslu á að í þeirri aðferð felist ekki geymsla, heldur steinrenni koldíoxíð með Carbfix-aðferðinni og að slíkt sé óafturkræft öfugt við hina hefðbundnu aðferð sem lýst er í tilskipun 2009/31/EB, þar sem koldíoxíði er komið fyrir í geymslu í holrýmum neðanjarðar, þar sem möguleiki er á að það leki út.
    Fulltrúar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Umhverfisstofnunar áttu fund með ESA í byrjun febrúar 2022 þar sem farið var yfir reglugerðardrögin. Eftir þann fund uppfærði ráðuneytið reglugerðardrögin og orðalagið var fært enn nær orðalagi tilskipunarinnar. Á fundinum var einnig ákveðið að ESA myndi funda með framkvæmdastjórn ESB til að ræða hvort það gengi upp að nota orðið „niðurdæling“ í stað „geymslu“ í skilningi tilskipunarinnar, eins og gert væri í íslensku lögum.
    Á fundi ráðuneytisins og ESA 21. mars 2022 greindu fulltrúar ESA frá niðurstöðu fundar þeirra við framkvæmdastjórn ESB um framangreint atriði. Niðurstaða fundarins var að ekki væri unnt að nota orðið „niðurdæling“ í stað „geymslu“ við innleiðingu á tilskipuninni því sú orðanotkun gæti leitt til misskilnings varðandi ýmsar aðrar kröfur sem settar væru fram í tilskipuninni. Á fundi framkvæmdastjórnarinnar og ESA var jafnframt lögð áhersla á að tilskipunin væri tæknilega hlutlaus sem hefði í för með sér að aðrar aðferðir við geymslu koldíoxíðs en lýst væri í tilskipuninni féllu einnig undir tilskipunina.
    Að höfðu samráði við Umhverfisstofnun og í ljósi framangreinds var ákveðið að breyta orðalagi reglugerðardraganna í samræmi við orðalag tilskipunarinnar, þ.e. skipta út orðinu „niðurdæling“ fyrir „geymslu“. Sú breyting hafði í för með sér að einnig var nauðsynlegt að breyta orðalagi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, og laga um umhverfismat framkvæmda, nr. 111/2021, því orðið „niðurdæling“ var notað í þeim tilvikum þar sem tilskipunin notaði orðið „geymsla“.
    Ráðuneytið fór þess á leit við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á vordögum 2022 að nefndin legði fram frumvarp um fyrrgreindar breytingar. Nauðsynlegt þótti að lögfesta breytingarnar á 152. löggjafarþingi til þess að gæta samræmis milli orðalags laganna og reglugerðarinnar um geymslu koldíoxíðs svo að unnt væri að gefa út reglugerðina sem fyrst en ekki bíða með framlagningu frumvarps þar til á 153. löggjafarþingi.
    Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og lögum um loftslagsmál sem varð að lögum nr. 67/2022.
    Á árlegum fundi með ESA 8. júní 2022 var innleiðing tilskipunar 2009/31/EB rædd enn frekar. Á fundinum kom fram að ESA hefði nokkrar athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar sem nauðsynlegt væri að bregðast við til viðbótar við þær sem settar voru fram í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 67/2022. ESA vildi rýna betur lög nr. 12/2021 til að tryggja samræmi milli tilskipunarinnar og laganna. Athugasemdir ESA bárust í ágúst 2022. Frumvarp þetta er lagt fram til að bregðast við viðbótarathugasemdum ESA við lög nr. 12/2021 sem innleiddu ákvæði tilskipunar 2009/31/EB.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta felur í sér breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem lagðar eru til í kjölfar athugasemda frá eftirlitsstofnun EFTA við innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB með lögum nr. 12/2021 sem breyttu lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið frumvarpsins er að tryggja enn frekar samræmi ákvæða íslensku laganna og tilskipunar 2009/31/EB svo að ekki leiki vafi á því að rekstraraðilar sem taka þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir geti nýtt Carbfix-tæknina við geymslu koldíoxíðs til frádráttar frá losun sinni.
    Efni frumvarpsins varðar í fyrsta lagi gildissvið VI. kafla A en ESA telur mikilvægt að tekið sé fram að lögin gildi á yfirráðasvæði Íslands en í gildandi 33. gr. a er eingöngu talað um að kaflinn gildi innan efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands.
    Í öðru lagi er lagt til að könnunarleyfi verði bætt við í upptalningu í 33. gr. b um atriði sem ráðherra skal setja nánari ákvæði um í reglugerð. Þegar hefur verið sett reglugerð um framkvæmd VI. kafla A um geymslu koldíoxíðs í jörðu og þar er að finna nánari ákvæði um könnunarleyfi.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæði 33. gr. c sem fjallar um könnunarleyfi og starfsleyfi til geymslu. Að mati ESA er ekki gerður nægur greinarmunur á þessum leyfum í gildandi ákvæði.
    Í fjórða lagi er lagt til breytt orðalag ákvæðis 33. gr. d sem fjallar um samsetningu koldíoxíðsstraums til geymslu. Samkvæmt ESA er nauðsynlegt að færa orðalag ákvæðisins nær orðalagi 12. gr. tilskipunarinnar og taka fram að koldíoxíðsstraumur skuli að langmestu leyti vera úr koldíoxíði.
    Í fimmta lagi eru lagðar til minni háttar breytingar varðandi skilyrði fyrir flutningi ábyrgðar í 33. gr. g.
    Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar á 33. gr. h, sem fjallar um aðgang þriðja aðila að flutningskerfi og geymslusvæði, til að skýra betur skilyrði fyrir aðgangi þriðja aðila.
    Í sjöunda lagi er lagt til að nýr málsliður bætist við 33. gr. i sem fjallar um lausn deilumála vegna aðgangs að flutningskerfi og geymslusvæði.
    Í áttunda lagi er lagt til að bætt verði við nýrri grein á eftir 33. gr. i sem fjallar um samstarf yfir landamæri. Ákvæðið verður til innleiðingar á 24. gr. tilskipunarinnar um sama efni.
    Í níunda lagi eru lagðar til viðbætur við 33. gr. j sem fjallar um fjárhagslegar skyldur.
    Í tíunda lagi er lögð til viðbót við 1. mgr. 53. gr. þar sem Umhverfisstofnun er veitt leyfi til að innheimta gjald vegna útgáfu könnunarleyfa.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er tilefni til að ætla að frumvarpið feli í sér álitaefni um samræmi við stjórnarskrá þar sem efni frumvarpsins er í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta er endurflutt en það var áður til umfjöllunar á Alþingi á 153. löggjafarþingi. Áform um lagasetningu og drög að frumvarpi voru því í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar veturinn 2022–2023 (mál nr. S-149/2022 og S-35/2023).
    Hinn 21. nóvember 2023 barst ráðuneytinu sameiginlegt bréf frá orkufyrirtækjunum Carbfix ohf., HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar hf. um sameiginlega afstöðu fyrirtækjanna til réttrar innleiðingar tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Í bréfinu kemur fram að fyrirtækin leggi áherslu á rétta innleiðingu EES-gerða í landslög. Að mati fyrirtækjanna sé jafnframt mikilvægt að tryggja að landslög séu í samræmi við þá gerð sem á í hlut. Tilskipun 2009/31/EB vísi hvorki til nýtingar jarðhita né tengdrar endurniðurdælingar. Það sé því sameiginleg skoðun fyrirtækjanna að ekki sé þörf á að afmarka gildissvið tilskipunarinnar umfram það sem kveðið er á um í tilskipuninni sjálfri. Umfjöllun um gildissvið tilskipunarinnar hafi þegar tafið fyrir samþykkt frumvarpsins sem hér á í hlut, á Alþingi sem sé óheppilegt. Fyrirtækin vilji undirstrika að þau hafi ekki verið mótfallin efni frumvarpsins sem slíks en umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu hafi orðið til þess að tafir urðu á samþykkt frumvarpsins þar sem túlka hafi mátt umfjöllun í greinargerð á þann veg að gildissviði tilskipunarinnar væri breytt þar sem vísað var sérstaklega til endurniðurdælingar jarðhitavökva. Hvað frumvarpið varði séu fyrirtækin sammála í þeirri afstöðu, að ekki sé þörf á ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA varðandi nýtingu jarðhita og tengda endurniðurdælingu og gildissvið tilskipunarinnar. Það sé því lagt til að tilvísanir til jarðhita nýtingar og endurniðurdælingar séu fjarlægðar úr umfjöllun greinargerðar með frumvarpinu, svo komið verði í veg fyrir frekari tafir.
    Með bréfi til ráðuneytisins dags. 15. desember 2023 staðfesti Landsvirkjun að efni framangreinds bréfs orkufyrirtækja, dags. 21. nóvember 2023 kæmi í stað þeirra umsagna sem Landsvirkjun hefði skilað við áform um lagasetningu og drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda. Eftirfarandi umsagnir eru óbreyttar frá því að frumvarpið var lagt fram á Alþingi í mars 2023.
    Áform um breytingar á lögunum voru kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda dagana 17. ágúst til 2. september 2022, mál nr. S-149-2022. Tvær umsagnir bárust, önnur frá Carbfix ohf. og hin frá Landsvirkjun. Umsögn Landsvirkjunar verður ekki rakin hér, sbr. áðurnefnt bréf orkufyrirtækjanna frá 21. desember 2023 en umfjöllun fyrirtækisins er að finna í frumvarpi sem var lagt fram á Alþingi á 153. löggjafarþingi (þskj. 1391, 889. mál).
    Carbfix ohf. fór í umsögn sinni yfir ferilinn við innleiðingu tilskipunarinnar og benti á að e.t.v. hefði mátt koma í veg fyrir endurteknar breytingar á lögunum ef reglugerð nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs í jörðu hefði verið tilbúin fyrr. Carbfix ohf. lagðist hins vegar ekki gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar voru til að koma til móts við athugasemdir ESA.
    Drög að frumvarpi voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 14. febrúar 2023 til 28. febrúar 2023 (mál nr. S-35/2023) og var hagsmunaaðilum gert viðvart. Fimm umsagnir bárust um frumvarpið frá eftirtöldum aðilum: Dr. Bjarna Má Magnússyni, prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst, Umhverfisstofnun, Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun og sameiginleg umsögn frá OR-samstæðunni sem í eru eignarhaldsfélagið Carbfix ohf., Carbfix hf., Orkuveita Reykjavíkur og Orka náttúrunnar ohf. Umsögn Landsvirkjunar verður ekki rakin hér, sbr. áðurnefnt bréf orkufyrirtækjanna frá 21. desember 2023 en umfjöllun fyrirtækisins er að finna í fyrrnefndu frumvarpi sem var lagt fram á Alþingi á 153. löggjafarþingi (þskj. 1391, 889. mál).
    Umsögn dr. Bjarna Más Magnússonar laut í fyrsta lagi að orðalagi 1. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á 33. gr. a í lögunum sem fjallar um gildissvið VI. kafla A. Í umsögninni kemur fram að lögsögubeltin efnahagslögsaga og landgrunn teljist ekki til yfirráðasvæða ríkja heldur sé um að ræða svæði þar sem strandríki njóti fullveldisréttinda og hafi lögsögu að því er varði afmörkuð málefni. Bjarni leggur til breytingu á orðalagi 1. gr. sem ráðuneytið hefur fallist á. Ákvæði 1. gr. hefur því verið breytt í samræmi við tillögu Bjarna. Í umsögninni er einnig nefnt að það þurfi mögulega að breyta orðalagi 1. mgr. 2. gr. laganna, sem fjallar um gildissvið þeirra, af því að lofthelgi sé til að mynda upptalin í ákvæðinu en ekki sé minnst á innsævi, landhelgi eða landgrunn. Verður sú tillaga tekin til nánari skoðunar hjá ráðuneytinu, einkum í ljósi athugasemdar af svipuðum toga sem barst frá Umhverfisstofnun.
    Athugasemdir Umhverfisstofnunar við frumvarpið leiddu til þess að eftirfarandi breytingar voru gerðar á ákvæðum frumvarpsins. Orðunum „könnun á fýsileika geymis“ í 1. tölul. 33. gr. b laganna hefur verið breytt í „könnunarleyfi“. Stofnunin benti á að hún hefði ekki heimild til að taka gjald fyrir útgáfu könnunarleyfa og úr því var bætt með því að bæta þeirri heimild við 1. mgr. 53. gr. laganna. Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að breytingar í 4. gr. frumvarpsins á 33. gr. d séu til bóta en nefnir að í ákvæðið vanti kröfu um að rekstraraðili haldi skrá yfir magn og eiginleika koldíoxíðsstrauma sem sé dælt niður. Að mati ráðuneytisins er ekki þörf á því þar sem sú krafa kemur fram í 11. gr. reglugerðar nr. 1430/2022.
    Samtök iðnaðarins tóku fram að þær breytingar sem boðaðar væru í frumvarpinu vörðuðu mikilvæga hagsmuni aðildarfyrirtækja samtakanna. Samtökin lýstu yfir ánægju með þær breytingar sem hafi verið gerðar á drögum að frumvarpi frá því að áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og að þær breytingar sem hafi verið gerðar virtust vera til að auka skýrleika.
    OR-samstæðan taldi að almennt væru þær breytingar sem lagðar væru til í frumvarpinu til bóta. OR-samstæðan tók sérstaklega fram að Carbfix legðist ekki gegn fyrirhugaðri breytingu á 33. gr. d (4. gr. frumvarps) sem fjallar um samsetningu koldíoxíðsstraums til geymslu, því að með Carbfix-aðferðinni væri ekki blandað vatni við niðurdælt koldíoxíð í þeim tilgangi að losna við vatnið heldur væri það endurnýtt og af því leiddi að það gæti vart talist bannað samkvæmt orðalagi tilskipunar sem væri tekið upp í ákvæðinu.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er talið að frumvarp þetta, verði það samþykkt, muni hafa áhrif á hagsmunaaðila, almenning eða stjórnsýslu ríkisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lögð er til breyting á 33. gr. a laganna sem fjallar um gildissvið VI. kafla A en ESA telur mikilvægt að tekið sé fram að lögin gildi á yfirráðasvæði Íslands af því í 33. gr. a er eingöngu talað um að kaflinn gildi innan efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands. Ráðuneytið leitaði ráðgjafar hjá utanríkisráðuneyti varðandi rétt orðalag en samkvæmt utanríkisráðuneyti er gert ráð fyrir því að öll löggjöf sem sett er af Alþingi gildi á landi, innsævi og landhelgi sem hafi í för með sér að ekki þurfi að taka sérstaklega fram að löggjöf gildi á yfirráðasvæði Íslands. Það væri þó öruggara, að mati utanríkisráðuneytis, í ljósi þess að ESA hafi gert athugasemd við þetta tiltekna atriði, að breyta orðalagi 33. gr. a um gildissvið kaflans og taka fram að lögin gildi á yfirráðasvæði Íslands og landhelgi til viðbótar við efnahagslögsögu og á landgrunni. Í ljósi athugasemda sem bárust í samráðsgáttina var ákveðið að breyta orðalaginu í samræmi við innsenda tillögu frá dr. Bjarna Má Magnússyni, prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst, sjá umfjöllun í 5. kafla greinargerðar.

Um 2. gr.

    Í ljósi athugasemda sem bárust frá Umhverfisstofnun var ákveðið að leggja til breytingu á orðalagi 33. gr. b sem fjallar um reglugerðarheimild ráðherra. Í 1. tölul. er fjallað um „mögulega könnun á fýsileika geymslugeymis“ sem hefur sömu merkingu og könnunarleyfi. Í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er lagt til að orðið „könnunarleyfi“ verði notað í staðinn. Sú orðanotkun er einnig í samræmi við orðanotkun í reglugerð nr. 1430/2022, um geymslu koldíoxíðs.


Um 3. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í 3. gr. frumvarpsins á 33. gr. c laganna eru tilkomnar vegna kröfu ESA um aukinn skýrleika á þeim mun sem felst í útgáfu könnunarleyfis og í útgáfu starfsleyfis til geymslu. Lagt er til að bæta orðalag 3. mgr. svo að skýr aðskilnaður verði á milli könnunarleyfis og starfsleyfis til geymslu. Nánari skýring á hvað felist í könnunarleyfi er að finna í reglugerð nr. 1430/2022, um geymslu koldíoxíðs.
    Orðalag 4. mgr. er leiðrétt í samræmi við orðalag tilskipunarinnar.


Um 4. gr.

    Í 33. gr. d laganna er fjallað um samsetningu koldíoxíðsstraums til geymslu. Að mati ESA er nauðsynlegt að færa orðalag ákvæðisins nær orðalagi 12. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um viðmiðanir og málsmeðferð við móttöku CO2-straums og taka fram að koldíoxíðsstraumur skuli að langmestu leyti vera úr koldíoxíði. Því er lagt til að orðalag 33. gr. d verði eins og 12. gr. tilskipunarinnar.


Um 5. gr.

    Í greininni eru lagfærðar vísanir í lögunum til 33. gr. j sem verður 33. gr. k skv. 9. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. eru lagðar til breytingar varðandi skilyrði fyrir flutningi ábyrgðar í 33. gr. g laganna.
    1. tölul. 1. mgr. er skipt í tvo töluliði þannig að aðgreining verði á milli skilyrðis um að flutningur ábyrgðar geti ekki átt sér stað fyrr en í fyrsta lagi þegar öll tiltæk gögn benda til þess að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað og í öðru lagi þegar lágmarkstími sem Umhverfisstofnun ákvarðar sé liðinn. Tekið er fram að sá tími skuli ekki vera styttri en 20 ár nema unnt sé að sýna fram á að koldíoxíðið sé fullkomlega og varanlega aflokað áður en því tímabili lýkur.
    Lagt er til að orðin „og geymslu“ í 3. tölul. 1. mgr. falli brott en í d-lið 1. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar er eingöngu talað um að niðurdælingarbúnaður skuli fjarlægður. Orðunum „og geymslu“ er því ofaukið.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 33. gr. h sem fjallar um aðgang þriðja aðila að flutningskerfi og geymslusvæði. Breyta þarf 2. mgr. á þann veg að aðgangur skuli veittur án mismununar að teknu tilliti til viðmiða a–d-liðar 2. mgr. í stað þess að synjað sé um aðgang að teknu tilliti til viðmiðana. Lagðar eru til breytingar á b-lið 2. mgr. til að þrengja orðalag liðarins sem var að mati ESA of vítt og gæti leitt til erfiðrar túlkunar. Lagt er til að 3. mgr. falli niður þar sem fjallað er nánar um heimild rekstraraðila til að synja um aðgang og hvaða úrbætur hann þurfi að grípa til synji hann um aðgang í 3. og 4. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs í jörðu.


Um 8. gr.     

    Lagt er til að bæta nýjum málslið við 3. mgr. 33. gr. i sem fjallar um lausn deilumála vegna aðgangs að flutningskerfi og geymslusvæði. Þessi viðbót er í samræmi við 22. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um lausn deilumála og er til þess fallin að auka skýrleika ákvæðisins.

Um 9. gr.

    Lagt er til að ný grein komi á eftir 33. gr. i sem fjallar um samstarf ríkja yfir landamæri vegna flutnings á koldíoxíði en þar er kveðið á um mikilvægi þess að stjórnvöld þeirra ríkja sem hlut eiga að máli uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum og í öðru regluverki, sbr. reglugerð nr. 1430/2022. Ákvæðið verður til innleiðingar á 24. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um samstarf yfir landamæri.


Um 10. gr.

    Lögð er til viðbót við 33. gr. j sem fjallar um fjárhagslegar skyldur en að mati ESA, og til að gæta samræmis við tilskipunina, er ekki nóg að ákvæðið vísi bara til tryggingar fyrir allri starfsemi á geymslusvæði heldur á rekstraraðili að geta lagt fram jafngildi tryggingar. ESA benti jafnframt á að nauðsynlegt væri að tiltaka að tryggingin þyrfti að vera fjárhagslegs eðlis, því er lagt til að bæta orðinu „fjárhagslega“ við 1. mgr. á undan orðinu „tryggingu“.

Um 11. gr.

    Lagt er til að nýjum tölulið verði bætt við 1. mgr. 53. gr. þar sem Umhverfisstofnun verður veitt heimild til að taka gjald fyrir útgáfu könnunarleyfa sem gefin eru út í samræmi við ákvæði VI. kafla A um geymslu koldíoxíðs í jörðu.

Um 12. gr.

    Í greininni er gildistökuákvæði sem þarfnast ekki skýringar.