Ferill 700. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1081  —  700. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um birtingu myndefnis af börnum á net- og samfélagsmiðlum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða lagaákvæði ná utan um það þegar foreldrar birta myndir og myndbönd af börnum sínum á net- og samfélagsmiðlum og hafa tekjur af áhorfinu? Hvernig er eftirfylgni með þeim lagaákvæðum háttað?

    Í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði sem taka sérstaklega til þess þegar foreldrar hafa tekjur af áhorfi á net- og samfélagsmiðlum og birta myndefni af börnum sínum á þeim vettvangi. Ýmis lagaákvæði taka þó til réttinda barna á friðhelgi einkalífs og persónuvernd þegar kemur almennt að myndbirtingum.
    Foreldrum og forsjáraðilum ber að virða einkalíf barna sinna enda eiga börn, líkt og aðrir, rétt á friðhelgi einkalífs og er sá réttur tryggður í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
    Samkvæmt 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, á barn rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi, sbr. 1. mgr. Enn fremur er óheimilt að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi og það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum, sbr. 2. mgr. 28. gr. sömu laga.
    Af framangreindu má leiða að foreldrar og forsjáraðilar eiga ekki ótakmarkaðan rétt á að birta myndefni af börnum sínum, til að mynda er þeim ekki heimilt að birta vanvirðandi myndefni af börnum sínum og þeim ber ávallt að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi og taka tillit til vilja og skoðana barnsins.
    Engin sérstök eftirfylgni er með myndbirtingu foreldra og forsjáraðila af börnum sínum, hvorki almennt né þegar um er að ræða myndbirtingar sem leiða til tekna. Rétt er þó að minnast á að almenningi og fagaðilum ber lagaleg skylda samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002, til að tilkynna til barnaverndarþjónustu sveitarfélags ef ástæða þykir til, t.d. ef ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða verði fyrir vanvirðandi háttsemi. Því má ætla að myndbirting foreldra sem fer í bága við ofangreind sjónarmið geti leitt til tilkynningar til barnaverndarþjónustu sveitarfélags og fari þá í viðeigandi farveg innan sveitarfélagsins á grundvelli barnaverndarlaga.