Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 10/154.

Þingskjal 1298  —  37. mál.


Þingsályktun

um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun.


     Alþingi ályktar að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna.

I. Meginstoðir málstefnu íslensks táknmáls.

    Málstefna íslensks táknmáls taki til eftirtalinna sex meginstoða:
    A. Máltöku táknmálsbarna.
    B. Rannsókna og varðveislu.
    C. Jákvæðs viðhorfs.
    D. Fjölgunar umdæma íslensks táknmáls.
    E. Lagaumhverfis.
    F. Máltækni.

II. Málstefna íslensks táknmáls.

    A.    Íslenskt táknmál í máltöku táknmálsbarna verði lykillinn að framtíð þeirra. Lögð verði áhersla á:
               1.      aðgengi foreldra að upplýsingum um íslenskt táknmál,
               2.      tækifæri táknmálsbarna til náms með öðrum börnum sem tala táknmál,
               3.      kennslu íslensks táknmáls,
               4.      aðgengi táknmálsbarna að mál- og menningarsamfélagi tungumálsins,
               5.      aðgengi að námi á og í íslensku táknmáli,
               6.      að menntastefna stjórnvalda hverju sinni stuðli að jafnri stöðu íslensks táknmáls og íslensku.

    B.    Íslenskt táknmál verði rannsakað sem liður í að varðveita málið. Lögð verði áhersla á:
               1.      rannsóknir á íslensku táknmáli og menningarsamfélagi þess og að miðla niðurstöðum rannsókna,
               2.      að íslenskt táknmál verði markvisst tekið upp á stafrænu formi, efnið varðveitt og gert aðgengilegt almenningi og fræðasamfélagi með umritunum.

    C.    Jákvætt viðhorf verði kjarni málstefnu íslensks táknmáls og grundvöllur jafnra tækifæra. Lögð verði áhersla á:
               1.      viðhorf til íslensks táknmáls sem tungumáls til jafns við íslensku,
               2.      viðhorf til íslensks táknmáls í máltöku táknmálsbarna,
               3.      viðhorf stjórnvalda og almennings til íslensks táknmáls sem endurspeglist í samfélaginu.
            
    D.    Jafnri þátttöku táknmálstalandi fólks í íslensku þjóðlífi verði náð með fjölgun umdæma íslensks táknmáls. Lögð verði áhersla á:
               1.      að draga úr útrýmingarhættu íslensks táknmáls,
               2.      að stuðla að auknu aðgengi að ríku málumhverfi íslensks táknmáls,
               3.      að nota íslenskt táknmál til jafns við íslensku.

    E.    Lagaumhverfi tryggi stöðu íslensks táknmáls. Lögð verði áhersla á að við stefnumörkun stjórnvalda verði tryggt að staða íslensks táknmáls og íslensku sé jöfn.

    F.    Tækni verði nýtt og þróuð til að varðveita og efla íslenskt táknmál og sporna gegn útrýmingu þess. Lögð verði áhersla á söfnun þekkingar í máltækni táknmála og söfnun og skráningu málfanga á íslensku táknmáli.

III. Aðgerðaáætlun málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027.

    Aðgerðaáætlunin miðist við þær aðgerðir sem ætlunin er að komi til framkvæmda á gildistíma málstefnu íslensks táknmáls. Að þeim árum liðnum verði málstefnan og aðgerðaáætlunin endurskoðuð.
    Aðgerðir sem falla undir meginstoð A: Máltaka táknmálsbarna:
     1.      Stjórnvöld beini táknmálsbörnum og foreldrum þeirra til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem veitir ráðgjöf og fræðslu um íslenskt táknmál svo þau geti notið réttar síns til að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt og máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætt sjón- og heyrnarskerðing hefur greinst.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Stuðlað verði að markvissri samþættingu þjónustu í þágu farsældar táknmálsbarna.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti í samstarfi við sveitarfélög og aðra rekstraraðila skóla.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Markvisst eftirlit með námi og kennslu táknmálsbarna í leik-, grunn- og framhaldsskólum fari fram.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti og sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar skóla.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Við reglubundna endurskoðun á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla verði gerðar viðeigandi breytingar til að styrkja stöðu íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     5.      Kannaður verði möguleiki á námi í kennslufræði táknmáls við Háskóla Íslands með samstarfi Hugvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Ábyrgð: Háskóli Íslands með samstarfi Hugvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Samkvæmt ákvörðun Háskóla Íslands í samræmi við ramma.
     6.      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra veiti foreldrum táknmálsbarna upplýsingar og gjaldfrjálsa ráðgjöf um máltöku. Foreldrum og nánustu ættingjum táknmálsbarna verði boðið gjaldfrjálst táknmálsnám.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     7.      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra veiti leik- og grunnskólum þar sem táknmálsbörn stunda nám gjaldfrjálsa ráðgjöf.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     8.      Málsamfélagið, með Félag heyrnarlausra í forsvari, taki á móti öllum táknmálsbörnum með ríku málumhverfi með málfyrirmyndum, menningarviðburðum og markvissri aðlögun að táknmálssamfélaginu þar sem litið verði á alla fjölskylduna sem hluta af málsamfélaginu. Hið sama gildi um fólk sem kemur inn í málsamfélagið á seinni stigum ævinnar.
             Ábyrgð: Félag heyrnarlausra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     9.      Færnimat í íslensku táknmáli á grundvelli evrópskra staðla verði aðgengilegt og tryggt að umsjón þess sé hjá viðurkenndum aðila.
             Ábyrgð: Ábyrgðaraðili metinn á seinni stigum.
             Tímaáætlun: Liggur ekki fyrir.
     10.      Táknmálstalandi nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum njóti náms og kennslu við hæfi. Kennurum og öðru starfsfólki skóla og skólaþjónustu verði tryggð viðeigandi starfsþróun, stuðningur og hafi möguleika á sérhæfingu.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar skóla.
             Tímaáætlun: Á við um allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     11.      Málnefnd um íslenskt táknmál, í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Félag heyrnarlausra, útbúi fræðsluefni um íslenskt táknmál, svo sem bæklinga, vefsvæði eða annað.
             Ábyrgð: Málnefnd um íslenskt táknmál, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Félag heyrnarlausra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     12.      Fjölbreytt efni, svo sem bækur og skemmtiefni í sjónvarpi, verði aðgengilegt táknmálsbörnum á öllum aldri í samvinnu við þá sem framleiða slíkt efni og þá sem að táknmálssamfélaginu standa. Menningar- og viðskiptaráðherra tryggi að þeir sjóðir sem heyra undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðherra og styrkja útgáfu slíkra verkefna séu aðgengilegir þeim sem hyggja á útgáfu táknmálsefnis.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti meti starfsemi menningarsjóða, sbr. aðgerð í Menningarsókn – aðgerðaáætlun til 2030 .
             Tímaáætlun: 2024.
     13.      Almenningur hafi aðgengi að táknmálsnámi hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Námskeið fyrir almenning fari eftir eftirspurn.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falla undir meginstoð B: Rannsóknir og varðveisla:
     1.      Unnið verði að verkefnaáætlun fyrir málheild um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra í samráði við Rannsóknastofu í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Rannsóknastofa í táknmálsfræðum leitist við að sinna rannsóknum á íslensku táknmáli og miðli niðurstöðum þeirra. Háskóla- og fræðasamfélagið tryggi mótun og þróun íðorða íslensks táknmáls. Íðorð í íslensku táknmáli verði varðveitt og öllum aðgengileg.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra í samstarfi við Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Aðgengi að upptökum af frásögnum á íslensku táknmáli, máldæmum, orðabók og fleiru sem m.a. er á vefsíðunni www.SignWiki.is verði tryggt og uppfært reglulega.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falla undir meginstoð C: Jákvætt viðhorf:
     1.      Stjórnvöld vinni að því að ávörp, stefnur, upplýsinga- og kynningarefni og opinberir viðburðir séu á íslensku táknmáli. Málnefnd um íslenskt táknmál verði stjórnvöldum til ráðuneytis um hvernig best sé að því staðið hverju sinni.
             Ábyrgð: Ábyrgð liggi hjá hverri stofnun/opinberum aðila fyrir sig.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Foreldrar táknmálsbarna fái faglega ráðgjöf og fræðslu um íslenskt táknmál, máltöku og menningarsamfélag táknmálstalandi fólks á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem verði einnig miðlað til starfsfólks leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaheimila og íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélaga.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Upplýsingar um réttindi tengd íslensku táknmáli verði aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félags heyrnarlausra og í kynningarefni Málnefndar um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Stjórnarráðið, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félag heyrnarlausra og Málnefnd um íslenskt táknmál.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Málnefnd um íslenskt táknmál, táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum standi fyrir reglulegum viðburðum um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Málnefnd um íslenskt táknmál, fulltrúar í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     5.      Fræðsla um íslenskt táknmál, sögu þess og menningu, verði hluti af námsefni grunnskólabarna.
             Ábyrgð: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og grunnskólar.
             Tímaáætlun: Á við um allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     6.      Málnefnd um íslenskt táknmál stuðli að jákvæðu viðhorfi til íslensks táknmáls til stuðnings stefnuaðgerðum stjórnvalda.
             Ábyrgð: Málnefnd um íslenskt táknmál.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     7.      Dagur íslenska táknmálsins, 11. febrúar, verði haldinn hátíðlegur ár hvert og stefnt að því að dagurinn verði fánadagur líkt og dagur íslenskrar tungu.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falla undir meginstoð D: Fjölgun umdæma íslensks táknmáls:
     1.      Unnið verði að þýðingum úr íslensku á íslenskt táknmál og öfugt á sem flestum sviðum íslensks þjóðlífs til að fjölga umdæmum íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Endurmenntun táknmálstúlka verði tryggð og sérhæfing innan fagstéttarinnar í samvinnu við hagsmunafélög og stofnanir sem koma að námi og störfum þeirra.
             Ábyrgð: Ábyrgðaraðili metinn á seinni stigum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Táknmálstalandi fólk hafi möguleika á að birta eigin sögur eða annað listrænt efni í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félag heyrnarlausra, Leikskólann Sólborg, Hlíðaskóla og eftir atvikum aðra opinbera aðila og einkaaðila.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu stuðli að auknu aðgengi efnis og fræðslu á íslensku táknmáli.
             Ábyrgð: RÚV.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falla undir meginstoð E: Lagaumhverfi:
     1.      Unnið verði að endurskoðun laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2024.
     2.      Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls verði metin í samræmi við málstefnu og hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál skilgreint frekar.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2024.

    Aðgerðir sem falla undir meginstoð F: Máltækni:
     1.      Unnið verði að því að þróa umhverfi til fjarnáms og fjarkennslu íslensks táknmáls, m.a. með máltæknilausnum og námsefni sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu, þar á meðal kennsluvefsíður eða smáforrit fyrir táknmálsnám grunnskólabarna.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu o.fl.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2024.
     2.      Áframhaldandi söfnun málfanga, svo sem í formi táknalista og myndbandsupptaka af máli ólíkra kynslóða, sem hægt verður að nota sem efnivið í máltækniverkefni, t.d. við gerð málheildar íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Táknmálstalandi fólk verði menntað og þjálfað í tækni sem notuð er til að byggja upp málheild íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Námsgreinin táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 2024.