Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1321, 154. löggjafarþing 24. mál: háskólar (örnám og prófgráður).
Lög nr. 31 3. apríl 2024.

Lög um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (örnám og prófgráður).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kveða skal á um viðurkenndar prófgráður og lokapróf sem háskólar skulu miða við í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, útgefnum af ráðherra skv. 5. gr. Viðurkenndar prófgráður og lokapróf skulu byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um hæfni við námslok.
  2. Í stað tilvísunarinnar „skv. 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: sem skilgreind eru í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.
  3. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Háskólar geta skilgreint örnám eða annað styttra nám til námseininga á námsstigum sem skilgreind eru í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.


2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Nemendur sem hafið hafa nám til diplómaprófs eða viðbótarprófs á meistarastigi, sem jafngildir færri en 60 stöðluðum námseiningum, fyrir 1. ágúst 2025 skulu eiga þess kost að ljúka náminu samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi var við upphaf náms.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 2024.