Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1359  —  914. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að koma á tilraunaumgjörð um útgáfu fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni og sértækra leyfa til rekstrar innviða sem taka þá til viðskipta eða annast uppgjör slíkra viðskipta, án þess að slegið sé af kröfum um vernd fjárfesta, fjármálastöðugleika og heilleika markaðarins.

2. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 frá 30. maí 2022 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og á tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2023 frá 5. júlí 2023, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
    Þegar vísað er til laga þessara í lögunum er jafnframt átt við reglugerð ESB samkvæmt þessari grein.


3. gr.

Skýring hugtaka.

    Eftirfarandi hugtök í reglugerð (ESB) 2022/858 hafa svofellda merkingu:
     1.      Aðilar sem tilgreindir eru í 3. mgr. 53. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Aðilar eða þátttakendur skv. 3. mgr. 94. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     2.      Fjármálagerningur samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Fjármálagerningur í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
     3.      Hlutdeildarskírteini í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem falla undir iv. lið a-liðar 4. mgr. 25. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Hlutdeildarskírteini skv. d-lið 1. tölul. 5. mgr. 45. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     4.      Kröfur tilskipunar 2014/65/ESB: Kröfur laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
     5.      Markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Markaðstorg fjármálagerninga í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
     6.      Ráðstafanir til verndar gegn ógjaldfærni samkvæmt tilskipun 98/26/EB: Ráðstafanir til verndar gegn ógjaldfærni samkvæmt lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999.
     7.      Rekstraraðili markaðar samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Rekstraraðili markaðar í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
     8.      Skipulegur markaður samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Skipulegur markaður í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
     9.      Starfsleyfi samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Starfsleyfi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     10.      Tilnefning og tilkynning í samræmi við tilskipun 98/26/EB: Viðurkenning og tilkynning samkvæmt lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.
     11.      Tími sem tilgreindur er í 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Tímamörk skv. 2. mgr. 7. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     12.      Upplýsingar sem krafist er skv. 7. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Allar nauðsynlegar upplýsingar skv. 7. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     13.      Verðbréfafyrirtæki samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Verðbréfafyrirtæki í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.


4. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf.

    Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald hér á landi í skilningi laga þessara og fer Fjármálaeftirlitið með þau verkefni sem því eru falin.
    Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Um eftirlitsheimildir og framkvæmd eftirlits með starfsemi á grundvelli laga þessara fer enn fremur, eftir því sem við á, samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga og lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
    Um álitsumleitan og upplýsingagjöf til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og, ef við á, annarra viðeigandi yfirvalda fer skv. 8.–11. gr. reglugerðar (ESB) 2022/858.


5. gr.
Veiting sértækra leyfa og undanþágna.

    Fjármálaeftirlitið veitir og afturkallar sértæk leyfi og undanþágur til að reka innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni á grundvelli laga þessara, sbr. einnig lög um markaði fyrir fjármálagerninga og lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

6. gr.

Úrbætur.

    Komi í ljós að ákvæðum laga þessara, eða stjórnvaldsfyrirmæla settum með stoð í þeim, sé ekki fylgt getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.


7. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd eftirfarandi ákvæða reglugerðar (ESB) 2022/858:
     1.      6. mgr. 3. gr. um viðmiðunarmörk.
     2.      C-lið 1. mgr. 4. gr. og c-lið 1. mgr. 5. gr. um mótvægisaðgerðir.
     3.      4. mgr. 8. gr., 4. mgr. 9. gr. og 6. mgr. 10. gr. um stöðluð eyðublöð, snið og sniðmát vegna umsókna.

8. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 5. júlí 2024.

9. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021:
                  a.      Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um fjármálagerninga sem eru gefnir út, skráðir, yfirfærðir og geymdir með dreifðri færsluskrártækni og rekstur markaðstorga fjármálagerninga og viðskipta- og uppgjörskerfa sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni gilda jafnframt lög um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.
                  b.      1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (MiFIR), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 26. mars 2020, bls. 1–65, með breytingum samkvæmt:
                  a.    reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1033 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga, reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 26. mars 2020, bls. 66–72.
                  b.    16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192.
                  c.      Á eftir orðinu „fjármálagerningur“ í 17. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: þ.m.t. slíkir gerningar sem gefnir eru út með dreifðri færsluskrártækni.
     2.      Lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 7/2020:
                  a.      Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um fjármálagerninga sem eru gefnir út, skráðir, yfirfærðir og geymdir með dreifðri færsluskrártækni og rekstur uppgjörskerfa og viðskipta- og uppgjörskerfa sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni gilda jafnframt lög um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.
                  b.      1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
                      Ákvæði eftirfarandi reglugerðar skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 frá 8. febrúar 2019, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019, bls. 8–10, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið þar sem bókunin er lögfest:
                      1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25 frá 28. mars 2019, bls. 255–326, með breytingum samkvæmt:
                          a.    17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192.
                          b.    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
     3.      Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998: 11. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: rekstraraðila DFT-markaðsinnviða samkvæmt lögum um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, í samráði við Seðlabanka Íslands. Tilgangur með framlagningu þess er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB (hér eftir DFT-reglugerðin eða DFTR).
    DFTR var samþykkt 30. maí 2022 og kom til framkvæmda í aðildarríkjum Evrópusambandsins að fullu í mars 2023. Hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185 frá 5. júlí 2023, en framkvæmd hennar var frestað um 12 mánuði vegna nauðsynlegs undirbúnings í EFTA-ríkjunum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.

    DFTR tilheyrir stafrænum fjármálapakka Evrópusambandsins sem fyrst var kynntur árið 2020, líkt og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/2554 frá 14. desember 2022 um stafrænan rekstrarlegan viðnámsþrótt fyrir fjármálageirann og um viðbætur við reglugerðir (EB) nr. 1060/2009, (ESB) nr. 648/2012, (ESB) nr. 600/2014, (ESB) nr. 909/2014 og (ESB) 2016/1011 (DORA) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2023/1114 um markaði fyrir sýndareignir og um viðbætur við reglugerðir (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 1095/2010 og tilskipanir 2013/36/ESB og (ESB) 2019/1937 (MiCA). Stafræna fjármálapakkanum er ætlað að stuðla að því að umgjörð fjármálamarkaða mæti nútímaþörfum, efldri samkeppni og nýsköpun, auk þess sem hugað er að fjárfestavernd, net- og upplýsingaöryggi ásamt fjármálastöðugleika.
    DFTR gildir um fjármálaþjónustu, nánar tiltekið viðskipti með fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni (e. distributed ledger technology, hér eftir DFT) og uppgjör slíkra viðskipta. MiCA-reglugerðin er hins vegar rammi utan um viðskipti og uppgjör með sýndareignir sem ekki rúmast innan skilgreiningar á hugtakinu fjármálagerningur.
    Með DFTR er komið á sameiginlegu tilraunaregluverki vegna markaðsinnviða sem byggjast á umræddri tækni (DFT-markaðsinnviða). Til DFT-markaðsinnviða teljast markaðstorg fjármálagerninga, uppgjörskerfi og kerfi sem gegna hlutverki bæði viðskipta- og uppgjörskerfa sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni. Gert er ráð fyrir að aðilar, hvort heldur þeir sem fyrir eru á markaði (verðbréfafyrirtæki, rekstraraðilar markaða og verðbréfamiðstöðvar) eða nýir þurfi sérstakt leyfi yfirvalda á grundvelli nýrra og gildandi laga til að starfrækja innviði af framangreindu tagi og nýta í starfseminni umrædda tækni.
    DFT hefur verið talin henta fyrir allt sem þarfnast talningar, skráningar og bókunar, t.d. í því skyni að einfalda viðskipta- og uppgjörsferli viðskipta og framkvæmd greiðslna. Skv. 14. tölul. inngangsorða DFTR á notkun tækninnar, þar sem öll viðskipti eru skráð í dreifðri færsluskrártækni, að geta flýtt fyrir og sameinað viðskipti og uppgjör nálægt rauntíma. DFT er talin munu geta sameinað viðskipti (e. trading) og eftirviðskipti (e. post-trading) sem til þessa hafa verið aðskildar tegundir fjármálaþjónustu/-starfsemi. Því er jafnframt gjarnan haldið á lofti að DFT þyki örugg og notkun hennar stuðli að gagnsæi. Um hana er ítarlega fjallað í nýlegri skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðuneytis frá apríl 2023, Tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu sem byggist á dreifðri færsluskrá. Í skýrslunni er m.a. bent á að eins og oft á við um nýjungar fylgi hinni nýju tækni bæði tækifæri og áskoranir. Enn fremur segir að undir viðeigandi regluverki geti þessi nýja tækni gert fjármálaþjónustu og snjallsamninga hvers konar skilvirkari, öruggari, ódýrari og aðgengilegri.
    Markmið DFTR er ekki síst að fylla upp í tómarúm í gildandi samevrópsku regluverki. Með henni er tekið af skarið um forsendur nýsköpunarverkefna sem víða um heim hefur verið kallað eftir svigrúmi til að þróa áfram og kunna að leiða til breytinga á sérhæfðu sviði fjármálamarkaðar. Óvissa um hvaða reglur gildi, eða muni gilda í framtíðinni, getur verið nýsköpun og tækniframförum til trafala. Á sameiginlegum innri markaði fjármálaþjónustu er jafnframt rétt að huga að markmiðum um samhæfingu þvert á landamæri.
    Með DFTR er komið á samræmdri umgjörð, til reynslu. Þó svo að slegið sé af gildandi kröfum að einhverju marki er byggt á hefðbundnum meginreglum. Þar má nefna markmið um vernd fjárfesta, fjármálastöðugleika og heilleika markaðarins. Þá er mikilvægt að byggt sé á traustri lagaumgjörð og að virkt eftirlit sé til staðar, samstarf og samhæfing meðal haghafa. Um tímabundið reynslutímabil er að ræða samkvæmt DFTR, að hámarki sex ár. Stofnanir Evrópusambandsins hyggjast endurmeta og endurskoða umgjörðina tímanlega, að fenginni reynslu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að DFTR verði tekin upp í íslenskan rétt með tilvísunaraðferð og þá að fullu innleidd samkvæmt orðanna hljóðan í samræmi við a-lið 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
    Í DFTR er gert er ráð fyrir að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin þrói og birti ýmsar nánari viðmiðunarreglur og að Seðlabanki Íslands hafi heimild til að setja reglur í tengslum við innleiðingu á þeim.
    Frumvarpið mun fela í sér nýmæli og veita innlendum aðilum sömu tækifæri og öðrum á Evrópska efnahagssvæðinu til nýbreytni og framþróunar á sviði viðskipta með DFT-fjármálagerninga og við uppgjör slíkra viðskipta. Nokkur áhugi mun vera á DFTR á meginlandi Evrópu, en óljóst er hvort áhugi og/eða forsendur reynast til nýtingar dreifðrar færsluskrártækni í þessu samhengi hér á landi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með DFTR-reglugerðinni er komið á skipulagi til reynslu fyrir útgáfu, viðskipti með fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni (DFT-fjármálagerninga), uppgjör slíkra viðskipta og rekstur DFT-markaðsinnviða, þ.e. DFT-markaðstorgs fjármálagerninga, DFT-uppgjörskerfis og DFT-viðskipta- og uppgjörskerfis.
    Kröfur þegar gildandi tilskipunar og reglugerða til markaða fyrir fjármálagerninga og um uppgjör viðskipta með fjármálagerninga eru með DFTR aðlagaðar sérstaklega þeim áskorunum sem tengjast framþróun tækni og markmiðum gerðarinnar, m.a. að fylla upp í tómarúm í gildandi regluverki. Gerðirnar sem um ræður eru í fyrsta lagi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB (endurútgefin, hér eftir MiFID II). Í öðru lagi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (hér eftir MiFIR). Í þriðja lagi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012 (hér eftir CSDR).
    DFTR felur í sér tilraunaumgjörð (e. pilot regime), en gildandi regluverk veitir takmarkað svigrúm til slíkra nýsköpunarverkefna á sviði fjármálaþjónustu. Sértæk leyfi á grundvelli DFTR munu gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í 14. gr. DFTR er kveðið á um endurmat og útgáfu skýrslu þar um af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir 24. mars 2026, svo og, ef við á, tillögugerð um framlengingu skipulagsins til þriggja ára. Alls er gengið út frá möguleika á sex ára skipulagi til reynslu, en DFTR var samþykkt af stofnunum Evrópusambandsins í lok maí 2022.
    Um þegar starfandi verðbréfafyrirtæki, rekstraraðila markaða og verðbréfamiðstöðvar, svo og nýja aðila sem hyggja á rekstur DFT-markaðsinnviða, sem sækjast eftir leyfi til að nýta DFT í starfsemi sinni á grundvelli fyrirhugaðra laga fer, eftir því sem við á, samkvæmt ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, og laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020, að teknu tilliti til nýmæla fyrirhugaðra laga.
    Áformað er að fela Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands eftirlit með framkvæmd laganna, eins og almennt á við um fjármálastarfsemi, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Því verður falið að veita sértæk leyfi og undanþágur samkvæmt DFTR og, ef við á, afturkalla umrædd leyfi og undanþágur. Um viðurlög vegna mögulegra brota DFT-markaðsinnviða gegn lögum nr. 115/2021 og nr. 7/2020 fer samkvæmt ákvæðum þeirra laga.
    Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (hér eftir ESMA) hefur almennu hlutverki að gegna samkvæmt DFTR. Það er einkum fólgið í útgáfu nánari leiðbeininga eða viðmiðunarreglna, birtingu lista yfir DFT-markaðsinnviði, aðstoð/stuðning við lögbær yfirvöld á reynslutímabilinu og matsskýrslu um árangur fyrir lok þess, sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun m.a. leggja til grundvallar þegar ákvörðun verður tekin um framtíð regluverksins (áframhald, lok eða breytingar). Í DFTR er gert ráð fyrir að lögbær yfirvöld leiti til ESMA um óbindandi álit í tilefni leyfisbeiðna og/eða beiðna um undanþágur.

3.1. Efni, gildissvið og lykilhugtök.
    Í 1. gr. DFTR er kveðið á um kröfur í tengslum við DFT-markaðsinnviði og rekstraraðila þeirra að því er varðar:
          að veita og afturkalla sértækt leyfi til að reka slíka innviði í samræmi við reglugerðina,
          að veita, breyta og afturkalla undanþágur sem tengjast sértækum leyfum,
          að fyrirskipa, breyta og afturkalla þau skilyrði sem fylgja undanþágum og veita umboð fyrir, breyta og afturkalla mótvægisaðgerðir eða ráðstafanir til úrbóta,
          að reka DFT-markaðsinnviði,
          eftirlit með DFT-markaðsinnviðum,
          samstarf milli rekstraraðila DFT-markaðsinnviða, lögbærra yfirvalda og ESMA.
    Hugtakið DFT-fjármálagerningur er skilgreint í 11. tölul. 2. gr. DFTR sem fjármálagerningur sem gefinn er út, skráður, yfirfærður og geymdur á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni. Aðeins hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem uppfylla fjárhæðarviðmið skv. 1. mgr. 3. gr. DFTR falla undir hana, en ekki allar tegundir fjármálagerninga, eins og það hugtak er skilgreint í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Í 2.–4. mgr. 3. gr. DFTR er einnig skilgreint hámark samanlagðs markaðsvirðis allra DFT-fjármálagerninga sem teknir eru til viðskipta á eða skráðir hjá DFT-markaðsinnviðum. Lögbært yfirvald hefur skv. 6. mgr. 3. gr. DFTR svigrúm til að setja lægri viðmiðunarmörk en tilgreind eru í ákvæðinu. Í DFTR er m.a. gerð krafa um reglulega útreikninga/afstemningu og skýrsluskil af hálfu DFT-markaðsinnviða til eftirlitsaðila.
    Hugtökin DFT-markaðstorg fjármálagerninga, DFT-uppgjörskerfi og DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi eru skilgreind í 6., 7. og 10. tölul. 2. gr. DFTR. Öll teljast þau til DFT-markaðsinnviða, sbr. 5. tölul. 2. gr. DFTR.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 frá 16. apríl 2014 um markaðssvik (reglugerð um markaðssvik) og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB (e. Market Abuse Regulation eða MAR) gildir um DFT-fjármálagerninga sem teknir eru til viðskipta á DFT-markaðstorgi fjármálagerninga eða í DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi. MAR var innleidd hér á landi með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021.
    Í DFTR eru gerðar sérsniðnar kröfur til DFT-markaðsinnviða, þar á meðal um áhættustýringu, net- og upplýsingaöryggi.

3.2. Kröfur sem gerðar eru til allra DFT-markaðsinnviða.
    Í 7. gr. DFTR er fjallað um kröfur sem gerðar eru til allra DFT-markaðsinnviða, þ.e. til viðbótar sameiginlegum grunnreglum (MiFID II, MiFIR og CSDR, að teknu tilliti til áorðinna breytinga á þeim með DFTR). Skýrar og ítarlegar viðskiptaáætlanir skulu m.a. varpa ljósi á tæknilega þætti og notkun á dreifðri færsluskrártækni í starfsemi hlutaðeigandi. Rekstraraðilar DFT-markaðsinnviða skulu geta gert skrifleg gögn sín aðgengileg með rafrænum hætti skv. 1. mgr. 7. gr. DFTR. Skv. 2. mgr. sama ákvæðis skal skilgreina og skjalfesta, eins og við á, reglur um virkni þeirrar tækni sem notuð er, þar á meðal um aðgang að dreifðu færsluskránni, þátttöku sannreyningarhnúta (e. validating nodes), ráðstafanir gegn mögulegum hagsmunaárekstrum og áhættustýringu.
    Krafa er gerð til rekstraraðila DFT-markaðsinnviða um skýra og ótvíræða upplýsingamiðlun um starfsemi sína og þá tækni sem notuð er gagnvart aðilum, þátttakendum, útgefendum og viðskiptavinum. Gera skal grein fyrir hvernig framkvæmdin er frábrugðin því sem við á í tilviki markaðstorga fjármálagerninga (MTF) eða verðbréfauppgjörskerfa sem ekki byggjast á dreifðri færsluskrártækni skv. 3. mgr. 7. gr. DFTR.
    Heildarfyrirkomulag upplýsingatækni og netkerfa í tengslum við notkun dreifðrar færsluskrártækni á að vera í samræmi við eðli, umfang og flækjustig DFT-markaðsinnviða skv. 4. mgr. 7. gr. DFTR. Tryggja ber samfelldan rekstur, áreiðanleika og öryggi starfsemi, þ.m.t. áreiðanleika snjallsamninga sem notaðir eru. Heilleiki, öryggi og trúnaður skal tryggður að því er varðar öll gögn sem geymd eru hjá rekstraraðilum og tryggt að þau séu tiltæk og aðgengileg. Sértækar verklagsreglur um rekstraráhættustýringu skulu vera til staðar vegna áhættu sem stafar af notkun dreifðrar færsluskrártækni og sýndareigna og um ráðstafanir til að bregðast við slíkri áhættu, komi hún fram. Lögbært yfirvald (hér Seðlabanki Íslands) getur krafist úttektar á heildarfyrirkomulagi upplýsingatækni og netkerfa DFT-markaðsinnviða og skal þá tilnefndur óháður endurskoðandi til að annast hana á kostnað DFT-markaðsinnviða.
    Í 5. mgr. 7. gr. DFTR eru tilgreindar nánari kröfur vegna vörslu á fjármunum, veðtryggingum eða DFT-fjármálagerningum og viðhalds áreiðanlegra skráa. Rekstraraðili DFT-markaðsinnviða skal koma á gagnsæju og fullnægjandi fyrirkomulagi til að tryggja fjárfestavernd, meðhöndla kvartanir viðskiptavina og úrlausn deilumála skv. 6. mgr. ákvæðisins. Lögbært yfirvald getur ákveðið að krefjast klæðskerasniðinna viðbótarvarfærnisráðstafana, í formi eiginfjárgrunns eða vátryggingarsamnings, til að tryggja fjárfestavernd.
    Rekstraraðili skal skv. 7. mgr. 7. gr. DFTR koma á og gera öllum aðgengilega skýra og ítarlega umbreytingaráætlun til að draga úr starfsemi eða til að hverfa frá eða hætta rekstri tiltekinna DFT-markaðsinnviða, þ.m.t. umbreytingu eða breytingu á notkun dreifðrar færsluskrártækni yfir í hefðbundna markaðsinnviði við eftirtaldar aðstæður: a) þegar samanlagt markaðsvirði DFT-fjármálagerninga sem teknir eru til viðskipta eða skráðir hjá DFT-markaðsinnviðum fer yfir viðmiðunarmörk, b) þegar sértækt leyfi eða undanþága samkvæmt ákvæðum DFTR er dregin til baka eða lögð niður eða c) við hvers kyns sjálfviljuga eða þvingaða stöðvun á rekstri DFT-markaðsinnviða. Nánar er vikið að kröfum um ráðstafanir tengdum umbreytingaráætlunum í 8.–10. mgr. 7. gr. DFTR.

3.3. Sértækt leyfi til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga og kröfur til rekstraraðila.
    Í 8. gr. DFTR er fjallað um sértæka leyfisveitingu til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga. Annars vegar getur lögaðili sem hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki eða heimild til að reka markað samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB (MiFID II), sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 115/2021, sótt um slíkt, sbr. 1. mgr. 8. gr. Hins vegar getur lögaðili sótt um starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki eða um heimild til að reka markað samtímis sértæku leyfi á grundvelli sama ákvæðis DFTR, í þeim eina tilgangi að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga, sbr. 2. mgr. 8. gr. DFTR.
    Krafa er gerð um nánar tilgreindar upplýsingar í umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga skv. a–h-lið 4. mgr. 8. gr. DFTR, svo sem um viðskiptaáætlun, reglur, starfshætti og lýsingu á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er, auk umbreytingaráætlunar, sbr. kafla 3.2. Þá skal heildarfyrirkomulagi umsækjanda á sviði upplýsingatækni og netkerfa t.d. lýst, svo og vörslufyrirkomulagi fyrir DFT-fjármálagerninga viðskiptavina. ESMA birti í mars 2023 viðmiðunarreglur um stöðluð eyðublöð, snið og sniðmát hvað þetta varðar (ESMA70-460-213).
    Í 6., 7. og 9. mgr. 8. gr. DFTR greinir frá kröfum til málsmeðferðar við umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga, svo sem tímafrest til að meta hvort umsókn sé fullnægjandi (innan 30 virkra daga). Um leið og lögbært yfirvald (hér á landi Seðlabanki Íslands) telur umsókn fullnægjandi skal afriti miðlað til ESMA. Ef nauðsyn krefur til að stuðla að samræmi og meðalhófi undanþágna, eða ef nauðsyn krefur til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar og fjármálastöðugleika, skal ESMA, að undangengnu samráði við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum, innan 30 almanaksdaga frá móttöku afrits af umsókn veita lögbæra yfirvaldinu sem í hlut á álit, sem ekki er bindandi, um þær undanþágur sem óskað er eftir eða hvort gerð dreifðrar færsluskrártækni teljist fullnægjandi. Lögbæra yfirvaldið skal taka tilhlýðilegt tillit til álits ESMA og veita stofnuninni yfirlýsingu um hvers kyns veruleg frávik frá því áliti ef hún óskar þess. Álit ESMA og yfirlýsing lögbærs yfirvalds, ef til kemur, skulu ekki gerð opinber. Lögbært yfirvald skal meta umsókn og ákveða hvort veita eigi sértækt leyfi á grundvelli 8. gr. innan 90 virkra daga frá viðtökudegi fullnægjandi umsóknar, sbr. 9. mgr. ákvæðisins. Matstímabilið má þó framlengja í allt að sex mánuði við tilteknar aðstæður.
    Í 10. mgr. 8. gr. DFTR er fjallað um synjunarástæður og í 12. mgr. aðstæður sem kalla á afturköllun sértæks leyfis eða tengdra undanþágna af hálfu lögbærs yfirvalds.
    Þá er fjallað um gildistíma sértækra leyfa til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga í 11. mgr. 8. gr. DFTR, sem getur verið allt að sex ár frá útgáfudegi. Í leyfi skal tilgreina veittar undanþágur, hvers kyns mótvægisaðgerðir og lægri viðmiðunarmörk sem lögbært yfirvald kann að ákvarða. ESMA skal upplýst um veitingu, synjun eða afturköllun sértæks leyfis samkvæmt ákvæðinu og á vefsetri stofnunarinnar skulu skrár yfir DFT-markaðstorg fjármálagerninga birtar, ásamt ónafngreindum tölulegum upplýsingum um undanþágubeiðnir, veitingu og synjun auk rökstuðnings.
    Veigamiklar breytingar á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er í starfsemi DFT-markaðstorgs fjármálagerninga kunna að kalla á öflun nýs sértæks leyfis, undanþágu eða breytingu skv. 13. mgr. 8. gr. DFTR.
    Í 4. gr. DFTR er kveðið á um kröfur og undanþágur sem varða DFT-markaðstorg fjármálagerninga. Að öðru leyti gilda um DFT-markaðstorgin sömu kröfur og gilda um markaðstorg fjármálagerninga (hér eftir MTF) samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Ef DFT-markaðstorg fjármálagerninga hefur fengið undanþágu skv. 4. gr. DFTR gilda ekki samsvarandi kröfur samkvæmt lögum nr. 115/2021, enda hlíti viðkomandi ákvæðum 2.–4. mgr. 4. gr. og 7. gr. DFTR, svo og hvers kyns mótvægisaðgerðum sem lögbært yfirvald telur viðeigandi til að uppfylla markmið ákvæða sem undanþágu er óskað á eða til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika. ESMA skal semja viðmiðunarreglur um mótvægisaðgerðir í þessum skilningi, sbr. 6. mgr. 4. gr. DFTR.
    Þegar rekstraraðili DFT-markaðstorgs fjármálagerninga biður um undanþágu skv. 2. eða 3. mgr. 4. gr. DFTR skal hann skv. 4. mgr. sama ákvæðis sýna fram á að undanþágan sem óskað er eftir sé í viðeigandi samhengi við notkun dreifðrar færsluskrártækni og takmarkist við DFT-markaðstorg fjármálagerninga og nái ekki til neinna annarra MTF sem sá rekstraraðili rekur. Um tvenns konar undanþágur er að ræða:
     a.      Viðbótarreglur um aðgengi (undanþága skv. 2. mgr. 4. gr. DFTR).
                 Óski rekstraraðili DFT-markaðstorgs fjármálagerninga þess getur lögbært yfirvald (hér á landi Seðlabanki Íslands) heimilað honum að leyfa einstaklingum og lögaðilum að stunda viðskipti fyrir eigin reikning sem aðilar eða þátttakendur að uppfylltum kröfum skv. a–g-lið 2. mgr. 4. gr. DFTR, þ.e. til viðbótar við þá aðila sem tilgreindir eru í 3. mgr. 94. gr., sbr. 2. mgr. 29. gr., laga nr. 115/2021. Á meðal þess sem krafa er gerð um er að hlutaðeigandi búi yfir þekkingu á virkni dreifðrar færsluskrártækni, sbr. b-lið 2. mgr. 4. gr. DFTR, og að þeir noti ekki hátíðniviðskiptatækni með notkun algríms á viðkomandi DFT-markaðstorgi fjármálagerninga. Veiti Seðlabankinn slíka undanþágu getur það krafist viðbótarráðstafana til verndar einstaklingum sem hafa aðgang að DFT-markaðstorgi fjármálagerninga sem aðilar eða þátttakendur, í viðeigandi samhengi við áhættusnið þeirra.
     b.      Tilkynningarskylda skv. 26. gr. MiFIR (undanþága skv. 3. mgr. 4. gr. DFTR).
             Óski rekstraraðili DFT-markaðstorgs fjármálagerninga þess getur lögbært yfirvald (hér Seðlabanki Íslands) veitt honum eða aðilum eða þátttakendum á DFT-markaðstorginu undanþágu frá 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 600/2014 (MiFIR), sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 115/2021. Verðbréfafyrirtæki sem eiga viðskipti með fjármálagerninga skulu skv. 1. mgr. 26. gr. MiFIR veita Seðlabankanum fullar og réttar upplýsingar um slík viðskipti eins fljótt og auðið er og eigi síðar en við lok næsta virka dags á eftir.
             Veiti Seðlabankinn undanþágu skv. 3. mgr. 4. gr. DFTR skal DFT-markaðstorg fjármálagerninga halda skrár yfir öll viðskipti sem fara fram í gegnum kerfi þess og skrárnar skulu innihalda allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 3. mgr. 26. gr. MiFIR. Þá skal lögbærum yfirvöldum sem rétt eiga á að fá gögn beint frá MTF skv. 26. gr. MiFIR (hér Seðlabankanum) tryggður beinn og tafarlaus aðgangur að þeim. Seðlabankinn skal veita ESMA aðgang að gögnum án óþarfa tafar.
    Ákvæði 2.–4. mgr. 4. gr. DFTR gildir, eftir því sem við á, um verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi í samræmi við 2. mgr. 6. gr. DFTR, sbr. einnig 5. mgr. 4. gr.

3.4. Sértækt leyfi til að reka DFT-uppgjörskerfi og kröfur til rekstraraðila.
    Í 9. gr. DFTR er fjallað um sértæka leyfisveitingu til að reka DFT-uppgjörskerfi. Annars vegar getur lögaðili, sem hefur starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR), sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 7/2020, sótt um slíkt, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Hins vegar getur lögaðili sótt um starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð samtímis sértæku leyfi á grundvelli 2. mgr. 9. gr. í þeim eina tilgangi að reka DFT-uppgjörskerfi.
    Krafa er gerð um nánar tilgreindar upplýsingar í umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-uppgjörskerfi skv. a–h-lið 4. mgr. 9. gr. DFTR, svo sem um viðskiptaáætlun, reglur, starfshætti og lýsingu á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er, auk umbreytingaráætlunar, sbr. kafla 3.2. Þá skal heildarfyrirkomulagi umsækjanda á sviði upplýsingatækni og netkerfa t.d. lýst, svo og vörslufyrirkomulagi fyrir DFT-fjármálagerninga viðskiptavina. Viðmiðunarreglur ESMA um stöðluð eyðublöð, snið og sniðmát, sem birtar voru í mars 2023, gilda um allar umsóknir um sértæk leyfi samkvæmt DFTR.
    Sömu kröfur eru gerðar til málsmeðferðar við umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-uppgjörskerfi og við eiga í tilviki DFT-markaðstorgs fjármálagerninga, sbr. kafla 3.3 (sjá 6., 7. og 9. mgr. 9. gr. DFTR), þar á meðal álitsumleitan til ESMA.
    Í 10. mgr. 9. gr. DFTR er fjallað um synjunarástæður og í 12. mgr. aðstæður sem kalla á afturköllun sértæks leyfis eða tengdra undanþágna af hálfu lögbærs yfirvalds. Þá er fjallað um gildistíma sértækra leyfa til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga í 11. mgr., allt að sex ár frá útgáfudegi. Í leyfi skal tilgreina veittar undanþágur, hvers kyns mótvægisaðgerðir og lægri viðmiðunarmörk sem lögbært yfirvald kann að ákvarða. ESMA skal upplýst um veitingu, synjun eða afturköllun sértæks leyfis skv. 9. gr. og á vefsetri stofnunarinnar skulu skrár yfir DFT-uppgjörskerfi birtar, ásamt ónafngreindum tölulegum upplýsingum um undanþágubeiðnir, veitingu og synjun auk rökstuðnings.
    Veigamiklar breytingar á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er í starfsemi DFT-uppgjörskerfis kunna að kalla á öflun nýs sértæks leyfis, undanþágu eða breytingu skv. 13. mgr. 9. gr. DFTR.
    Í 5. gr. DFTR er kveðið á um kröfur og undanþágur sem varða DFT-uppgjörskerfi. Að öðru leyti gilda um DFT-uppgjörskerfi sömu kröfur og gilda um verðbréfauppgjörskerfi samkvæmt CSDR, sbr. lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020.
    Ef DFT-uppgjörskerfi hefur fengið undanþágu skv. 5. gr. DFTR gilda ekki kröfur samkvæmt lögum nr. 7/2020, þ.e. CSDR, að því er þær varðar, enda hlíti viðkomandi verðbréfamiðstöð ákvæðum 2.–10. mgr. 5. gr. og 7. gr. DFTR, svo og hvers kyns mótvægisaðgerðum sem lögbært yfirvald telur viðeigandi til að uppfylla markmið ákvæða sem undanþágu er óskað frá eða til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika. ESMA skal semja viðmiðunarreglur um mótvægisaðgerðir í þessum skilningi, sbr. 12. mgr. 5. gr. DFTR.
    Þegar rekstraraðili DFT-uppgjörskerfis biður um undanþágu skv. 2.–9. mgr. 5. gr. DFTR skal hann skv. 10. mgr. sýna fram á að undanþágan sem óskað er eftir sé í viðeigandi samhengi við notkun dreifðrar færsluskrártækni og takmarkist við DFT-uppgjörskerfi og nái ekki til verðbréfauppgjörskerfis sem sama verðbréfamiðstöð rekur. Undanþágubeiðni getur lotið að eftirtöldum kröfum og ákvæðum CSDR:
     a.      Skilgreiningar og ákvæði 3., 37. og 38. gr. CSDR á sérstökum eiginleikum dreifðrar færsluskrártækni (undanþága skv. 2. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald (hér Seðlabanki Íslands) veitt henni undanþágu frá skilgreiningum á hugtökunum óefnislegt form, fyrirmæli og verðbréfareikningur, sbr. 4., 9. og 28. lið 1. mgr. 2. gr. CSDR. Enn fremur frá efnisákvæðum um rafrænt form, heilindi útgáfu og varðveitingu verðbréfa þátttakenda og viðskiptavina þeirra, sbr. 3., 37. og 38. gr. CSDR. Þetta á þó aðeins við að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Annars vegar sýni verðbréfamiðstöðin fram á að notkun verðbréfareiknings í skilningi CSDR eða rafræns skráningarforms skv. 3. gr. CSDR sé ósamrýmanleg notkun hinnar tilteknu dreifðu færsluskrártækni, með vísan til sérstakra eiginleika hennar. Hins vegar verði gert ráð fyrir jöfnunaraðgerðum sem tryggi heilindi útgáfu og varðveitingu.
     b.      Ráðstafanir til að koma í veg fyrir og takast á við uppgjörsbresti (undanþága skv. 3. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald veitt henni undanþágu frá 6. eða 7. gr. CSDR sem varða ráðstafanir í því skyni að tryggja ögun í uppgjöri. Þetta á þó aðeins við að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Verðbréfamiðstöðin tryggi að DFT-uppgjörskerfi geri, með traustu verklagi og fyrirkomulagi, kleift að staðfesta skýrt, nákvæmlega og í tíma upplýsingar um viðskipti með DFT-fjármálagerninga. Enn fremur að verðbréfamiðstöðin komi annaðhvort í veg fyrir uppgjörsbresti eða taki á uppgjörsbrestum sé ekki mögulegt að koma í veg fyrir þá.
     c.      Útvistun kjarnaþjónustu til þriðja aðila (undanþága skv. 4. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald einungis veitt henni undanþágu frá 19. gr. CSDR í tengslum við útvistun kjarnaþjónustu til þriðja aðila, að því tilskildu að beiting hennar sé ósamrýmanleg notkun dreifðrar færsluskrártækni í hlutaðeigandi DFT-uppgjörskerfi.
     d.      Viðbótarreglur um aðgengi (undanþága skv. 5. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald heimilað henni að veita einstaklingum og lögaðilum aðgang sem þátttakendum í DFT-uppgjörskerfi að uppfylltum kröfum skv. a–c-lið 5. mgr. 5. gr. DFTR, þ.e. til viðbótar við þá aðila sem tilgreindir eru í f-lið 2. gr. tilskipunar 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf, sbr. 9. tölul. 2. gr. laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999 . Skv. 5. mgr. 5. gr. DFTR er krafa gerð um að hlutaðeigandi hafi nægilega gott orðspor, búi yfir fullnægjandi getu, hæfni, reynslu og þekkingu í tengslum við uppgjör, virkni dreifðrar færsluskrártækni og áhættumat og að upplýst samþykki liggi fyrir um þátttöku í nýsköpunarverkefninu sem kveðið er á um í DFTR, hlutaðeigandi sé upplýstur á fullnægjandi hátt um að það sé á tilraunastigi og hugsanlega áhættu sem tengist því.
     e.      Kröfur vegna þátttöku, gagnsæis, notkunar samskiptaferla og -staðla (undanþága skv. 6. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald heimilað henni undanþágu frá 33., 34. eða 35. gr. CSDR, enda tryggi verðbréfamiðstöðin með mótvægisaðgerðum að markmið ákvæðanna verði uppfyllt. Hún tryggi a.m.k. að DFT-uppgjörskerfi birti opinberlega viðmið um þátttöku, sem veita öllum einstaklingum sem hyggjast verða þátttakendur sanngjarnan og opinn aðgang og að þessi viðmið séu gagnsæ, hlutlæg og án mismununar. Enn fremur skal verðbréfamiðstöð tryggja að DFT-uppgjörskerfi birti opinberlega verð og gjöld sem tengjast þeirri uppgjörsþjónustu sem veitt er.
     f.      Endanlegt uppgjör (undanþága skv. 7. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald heimilað henni undanþágu frá 39. gr. CSDR, enda tryggi verðbréfamiðstöðin með mótvægisaðgerðum að markmið ákvæðisins verði uppfyllt með traustu verklagi og fyrirkomulagi. Krafa er gerð um að DFT-uppgjörskerfi geri upp viðskipti með DFT-fjármálagerninga nálægt rauntíma eða innan dags og í öllum tilvikum eigi síðar en á öðrum viðskiptadegi eftir að viðskiptunum er lokið, birti opinberlega þær reglur sem gilda um DFT-uppgjörskerfið og að dregið sé úr áhættu sem stafar af því að DFT-uppgjörskerfið sé ekki viðurkennt og tilkynnt að því er varðar tilskipun 98/26/EB (hér á landi á grundvelli laga nr. 90/1999), einkum með tilliti til ógjaldfærnimeðferðar. Þegar DFT-uppgjörskerfi er ekki viðurkennt og tilkynnt samkvæmt tilskipun 98/26/EB (hér lögum nr. 90/1999) skal verðbréfamiðstöðin sem rekur það leggja til mótvægisaðgerðir til að draga úr áhættu sem leiðir af ógjaldfærni.
     g.      Uppgjör peningahluta (undanþága skv. 8. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald veitt henni undanþágu frá 40. gr. CSDR, að því tilskildu að hún geri upp á grundvelli afhendingar gegn greiðslu (e. delivery versus payment, DvP). Eins og kveðið er á um í CSDR er að meginstefnu gert ráð fyrir í DFTR að uppgjör greiðslna fari fram í seðlabankapeningum.
     h.      Aðgangur milli verðbréfamiðstöðva (undanþága skv. 9. mgr. 5. gr. DFTR).
                 Óski verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi þess getur lögbært yfirvald undanþegið hana ákvæðum 50., 51. eða 53. gr. CSDR (um aðgang gegnum staðlaða tengingu, aðgangur gegnum sérsniðna tengingu, aðgangur milli verðbréfamiðstöðva og annarra markaðsinnviða). Þetta á við ef verðbréfamiðstöð sýnir fram á að notkun dreifðrar færsluskrártækni er ósamrýmanleg fornkerfum (e. legacy systems) annarra verðbréfamiðstöðva eða annarra markaðsinnviða eða að veiting aðgangs að annarri verðbréfamiðstöð eða markaðsinnviðum sem nota fornkerfi myndi hafa í för með sér óhóflegan kostnað miðað við umfang DFT-uppgjörskerfisins sem hún rekur.
                 Á hinn bóginn er í DFTR gert ráð fyrir að verðbréfamiðstöð sem rekur DFT-uppgjörskerfi og hefur fengið undanþágu skv. 9. mgr. 5. gr. sé skylt að veita öðrum rekstraraðilum DFT-uppgjörskerfa eða DFT-viðskipta- og uppgjörskerfa aðgang að sínu kerfi. Lögbæru yfirvaldi skal tilkynnt um slíkan aðgang fyrir fram og getur það bannað slíkan aðgang að því marki sem skaðleg áhrif teljast möguleg á stöðugleika fjármálakerfis Evrópusambandsins eða hlutaðeigandi aðildarríkis.
    Ákvæði 2.–10. mgr. 5. gr. DFTR gildir, eftir því sem við á, um verðbréfafyrirtæki eða rekstraraðila markaðar sem rekur DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi í samræmi við 1. mgr. 6. gr. DFTR, sbr. einnig 5. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar.

3.5. Sértækt leyfi til að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi og kröfur til rekstraraðila.
    Í 10. gr. DFTR er fjallað um sértæka leyfisveitingu til að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi. Annars vegar getur lögaðili sem hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki eða heimild til að reka markað samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB (MiFID II) sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 115/2021 eða lögaðili sem hefur starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 7/2020, sótt um slíkt, sbr. 1. mgr. 10. gr. DFTR. Hins vegar getur lögaðili sótt um starfsleyfi til að reka markað eða sem verðbréfamiðstöð samtímis sértæku leyfi á grundvelli 10. gr. DFTR í þeim eina tilgangi að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. DFTR.
    Umsækjandi sem hyggst reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi skal leggja fram upplýsingar um hvernig hann hyggst uppfylla gildandi kröfur laga nr. 115/2021 og 7/2020, að undanskildum þeim ákvæðum sem hann fer fram á undanþágu frá, sbr. 5. mgr. 10. gr. DFTR. Hann skal enn fremur leggja fram nánar tilgreindar upplýsingar í umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi skv. a–h-lið 4. mgr. 10. gr. DFTR, svo sem um viðskiptaáætlun, reglur, starfshætti og lýsingu á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er, auk umbreytingaráætlunar, sbr. kafla 3.2. Þá skal heildarfyrirkomulagi umsækjanda á sviði upplýsingatækni og netkerfa t.d. lýst og, eftir atvikum, vörslufyrirkomulagi fyrir DFT-fjármálagerninga viðskiptavina. ESMA birti í mars 2023 viðmiðunarreglur á grundvelli DFTR um stöðluð eyðublöð, snið og sniðmát að því er þetta varðar.
    Sömu kröfur eru gerðar til málsmeðferðar við umsókn um sértækt leyfi til að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi og við eiga í tilviki DFT-markaðstorgs fjármálagerninga og DFT-uppgjörskerfa, sbr. kafla 3.3 og 3.4 (sjá 7., 8. og 9. mgr. 10. gr. DFTR), þar á meðal álitsumleitan til ESMA.
    Í 10. mgr. 10. gr. DFTR er fjallað um synjunarástæður og í 12. mgr. aðstæður sem kalla á afturköllun sértæks leyfis eða tengdra undanþágna af hálfu lögbærs yfirvalds.
    Þá er fjallað um gildistíma sértækra leyfa til að reka DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi í 11. mgr. 10. gr. DFTR, allt að sex ár frá útgáfudegi. Í leyfi skal tilgreina veittar undanþágur, hvers kyns mótvægisaðgerðir og lægri viðmiðunarmörk sem lögbært yfirvald kann að ákvarða. ESMA skal upplýst um veitingu, synjun eða afturköllun sértæks leyfis skv. 6. gr. DFTR og á vefsetri stofnunarinnar skulu skrár yfir DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi birtar, ásamt ónafngreindum tölulegum upplýsingum um undanþágubeiðnir, veitingu og synjun auk rökstuðnings.
    Veigamiklar breytingar á virkni þeirrar dreifðu færsluskrártækni sem notuð er í starfsemi DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi kunna að kalla á öflun nýs sértæks leyfis, undanþágu eða breytingu skv. 13. mgr. 10. gr. DFTR.
    Í 6. gr. DFTR er kveðið á um kröfur og undanþágur sem varða DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi. Ákvæðið er tvískipt, eftir því hvort rekstraraðilinn hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki eða heimild til rekstrar markaðar samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB (MiFID II) sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 115/2021 eða starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 7/2020.
     a.      Verðbréfafyrirtæki eða rekstraraðili markaðar (1. mgr. 6. gr. DFTR).
                 Í tilviki verðbréfafyrirtækis eða rekstraraðila markaðar, sem rekur DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi, eiga við kröfur sem gilda um markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt MiFIR og MiFID II, sem lögfestar eru með lögum nr. 115/2021 hér á landi. Enn fremur eiga þær kröfur við sem gilda um verðbréfamiðstöðvar samkvæmt CSDR, eftir því sem við á, þó að undanskildum tilteknum ákvæðum.
                 Ef undanþága hefur verið veitt vegna DFT-viðskipta- og uppgjörskerfis skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. og 2.–9. mgr. 5. gr. DFTR gilda ekki kröfur samkvæmt lögum nr. 115/2021 og 7/2020 að því er þær varðar, enda hlíti viðkomandi verðbréfafyrirtæki eða rekstraraðili markaðar ákvæðum 2.–4. mgr. 4. gr., 2.–10. mgr. 5. gr. og 7. gr. DFTR, svo og hvers kyns mótvægisaðgerðum sem lögbært yfirvald telur viðeigandi til að uppfylla markmið ákvæða sem undanþágu er óskað frá eða til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika.
     b.      Verðbréfamiðstöð (2. mgr. 6. gr. DFTR).
                 Í tilviki verðbréfamiðstöðvar sem rekur DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi eiga við kröfur sem gilda um verðbréfamiðstöðvar samkvæmt CSDR sem lögfest er með lögum nr. 7/2020 hér á landi. Enn fremur eiga þær kröfur við sem gilda um markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt MiFIR og MiFID II, eftir því sem við á, þó að undanskildum 5.–13. gr. MiFID II.
                 Ef undanþága hefur verið veitt vegna DFT-viðskipta- og uppgjörskerfis skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. og 2.–9. mgr. 5. gr. DFTR gilda ekki kröfur samkvæmt lögum nr. 115/2021 og 7/2020 að því er þær varðar, enda hlíti viðkomandi verðbréfamiðstöð ákvæðum 2.–4. mgr. 4. gr., 2.–10. mgr. 5. gr. og 7. gr. DFTR, svo og hvers kyns mótvægisaðgerðum sem lögbært yfirvald telur viðeigandi til að uppfylla markmið ákvæða sem undanþágu er óskað frá eða til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Atvinnufrelsi nýtur verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess og gætt sé jafnræðis, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þau inngrip í starfsemi aðila sem reka markaðsinnviði fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni sem frumvarpið gerir ráð fyrir munu byggjast á lögum, styðjast við lögmæt markmið um fjárfestavernd og fjármálastöðugleika og taka jafnt til aðila sem eru í sambærilegri stöðu. Því er talið að frumvarpið fullnægi kröfum stjórnarskrárinnar.
    Frumvarpið felur í sér upptöku á efnisákvæðum DFTR í íslenskan rétt. Um ræðir tilraunaregluverk á sérhæfðu sviði fjármálaþjónustu. Veiting sértækra leyfa og undanþágna á grundvelli fyrirhugaðra laga og eftirlit með framkvæmd þeirra verður í höndum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Ekki verður talið að frumvarpið feli í sér framsalsheimildir sem séu verulega íþyngjandi eða umfram það sem áður hefur verið talið heimilt vegna EES-samningsins. Innleiðing DFTR samræmist skuldbindingum Íslands skv. 7. gr. EES-samningsins og er ekki talin brjóta í bága við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Seðlabanka Íslands. Áformaskjal var birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 31. október – 14. nóvember 2023 ( mál nr. S-214/2023 ), en engin umsögn barst. Frumvarpsdrög voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 31. janúar – 15. febrúar 2024 (mál nr. S-25/2024), en engin umsögn barst. Ferli skv. 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála er lokið.

6. Mat á áhrifum.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að umgjörð fjármálamarkaðar mæti nútímaþörfum með samkeppnisstöðu og möguleika til nýsköpunar í huga án þess að slegið verði af sjónarmiðum um vernd fjárfesta, fjármálastöðugleika og heilleika markaðarins. DFTR er ætlaður takmarkaður gildistími og fyrirséð að um endurmat verður að ræða innan fjögurra til sex ára frá samþykkt/gildistöku hér á landi.

6.1. Hagræn áhrif á heildareftirspurn og einstaka markaði – hagstjórnarsjónarmið.
    
Áhrif frumvarpsins á fjármálamarkaðinn verða jákvæð. Með innleiðingu DFTR verður þegar starfandi aðilum á fjármálamarkaði kleift að kanna nýtingarmöguleika og innleiða nýja tækni í starfsemi sinni, auk þess sem hún opnar nýjum aðilum leið inn á sérhæfðan innviðamarkað á nýjum forsendum. Ekki liggur þó fyrir að hvaða marki raunhæft er að reyna muni á framkvæmd DFTR hér á landi.
    Eins og oft á við um nýjungar fylgja bæði tækifæri og áskoranir hinni nýju tækni, þ.e. DFT, en bent hefur verið á að undir viðeigandi regluverki geti tæknin gert fjármálaþjónustu og snjallsamninga hvers konar skilvirkari, öruggari, ódýrari og aðgengilegri. Með DFTR er fyllt upp í lagalegt tómarúm, a.m.k. tímabundið.

6.2. Áhrif á fyrirtækjaeftirlit og reglubyrði.
    
Með DFTR og fyrirhuguðum lögum verður regluverk á mikilvægu sviði fjármálaþjónustu aðlagað nýrri tækni og nýtingarmöguleikum með viðeigandi hætti. Kostnað af eigin rekstri og öflun leyfis/undaþágna á grundvelli fyrirhugaðra laga bera fyrirtækin sjálf.

6.3. Samkeppnisskilyrði.
    
Ekki eru taldar líkur á því að fyrirhuguð lagasetning hafi áhrif á samkeppni á markaði.

6.4. Áhrif á jafnrétti kynjanna.
    
Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi sérstök áhrif á stöðu kynjanna.

6.5. Áætluð fjárhagsáhrif fyrir ríkið.
    
Óvíst er hvort samþykkt frumvarpsins, um tilraunaregluverk á sviði innviða markaða fyrir fjármálagerninga, komi til með að hafa í för með sér ný verkefni fyrir Seðlabanka Íslands/Fjármálaeftirlitið. Engu að síður er æskilegt að haldgóð þekking og skilningur á dreifðri færsluskrártækni (DFT) og tilheyrandi notkunarsviðum verði til staðar innan Seðlabankans. Nýir möguleikar jafnt sem áhætta tengjast tækniframförum. Væntingar eru um ávinning eftirlitsaðila af alþjóðlegu samstarfi í þessum efnum.
    Talið er að áhrif innleiðingar DFTR rúmist innan núverandi rekstraráætlana Seðlabanka/Fjármálaeftirlits og að áhrif á ríkissjóð verði engin. Ekki er þó unnt að útiloka alfarið að hækka þurfi eftirlitsgjaldið sem stendur undir rekstri Fjármálaeftirlitsins vegna innleiðingarinnar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    DFTR er tilraunaregluverk á sérhæfðu sviði fjármálaþjónustu. Í ákvæðinu er greint frá markmiði frumvarpsins, en talið er að best fari á innleiðingu DFTR í sérlögum, ásamt breytingum á öðrum lögum. Með þeim eru kröfur gildandi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu verðbréfa aðlagaðar sérstökum eiginleikum og nýtingarmöguleikum dreifðrar færsluskrártækni.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði DFTR, eins og reglugerðin hefur verið aðlöguð og tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2023 frá 5. júlí 2023, skuli hafa lagagildi hér á landi. Ákvörðunin kemur ekki til framkvæmda fyrr en 12 mánuðum síðar vegna undirbúnings innleiðingar DFTR í EFTA-ríkjunum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Að öðru leyti er um aðlaganir að ræða í ákvörðuninni sem taka mið af tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Þegar vísað til er „laga þessara“ í ákvæðum frumvarpsins er einnig átt við ákvæði DFTR, sbr. 2. mgr.

Um 3. gr.

    Í DFTR er nokkuð um vísanir til hugtaka í skilningi annarra Evrópugerða sem teknar hafa verið upp í íslenskan rétt. Með ákvæðinu eru lagðar til skýringar með vísunum til þess hvar viðkomandi hugtök úr tilskipunum hafa verið innleidd í landsrétt.
    Hér á eftir er útskýrt hvar þær reglugerðir Evrópusambandsins, sem helst er vísað til í DFTR, hafa verið innleiddar:
     1.      Reglugerð (ESB) nr. 1095/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin), um breytingu á ákvörðun nr. 716/2009/EB og um niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/77/EB er innleidd með lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.
     2.      Reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (CRR) er innleidd með lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     3.      Reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (MiFIR) er innleidd með lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     4.      Reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (reglugerð um markaðssvik) og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB (MAR) er innleidd með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021.
     5.      Reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012 (CSDR) er innleidd með lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020.

Um 4. gr.

    Lagt er til að Seðlabanki Íslands teljist lögbært yfirvald hér á landi í skilningi laganna og DFTR, sbr. 2. mgr. 2. gr., og að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með framkvæmd fyrirhugaðra laga. Um hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA fer samkvæmt ákvæðum laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, og samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Fjallað er um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits í 25. gr. a í þeim samningi og bókun 8 við hann, sbr. auglýsing nr. 64/2021 í C-deild Stjórnartíðinda. Um Fjármálaeftirlitið gilda lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, og um kostnað við eftirlitið fer samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, nr. 99/1999. Enn fremur vísast til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, þar sem reglugerð (ESB) nr. 1095/2010 var innleidd.
    Sótt skal um sértæk leyfi til að reka DFT-markaðstorg fjármálagerninga, DFT-uppgjörskerfi og DFT-viðskipta- og uppgjörskerfi á grundvelli 8.–10. gr. DFTR, sbr. 5. gr. Sameiginlegar viðbótarkröfur til framangreindra innviða eru tilgreindar í 7. gr. DFTR og kröfur og undanþágur sem varða ólíkar tegundir í 4.–6. gr. DFTR. Að öðru leyti en kveðið er á um í DFTR gilda ákvæði laga nr. 115/2021 og laga nr. 7/2020. Í 3. mgr. 4. gr. er lagt til að kveðið verði á um að um eftirlit með starfsemi DFT-markaðsinnviða fari, auk fyrirhugaðra laga, samkvæmt lögum nr. 115/2021 og 7/2020, þar á meðal möguleg beiting stjórnvaldssekta og ef við á annarra viðurlaga.
    Loks er í 4. mgr. lagt til að vísað verði til ákvæða DFTR er varða álitsumleitan Fjármálaeftirlitsins til ESMA, og ef við á annarra viðeigandi yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu, í tengslum við umsóknir um sértæk leyfi til rekstrar DFT-markaðsinnviða. Nýting dreifðrar færsluskrártækni er nýjung og um tilraunaregluverk að ræða. Horfa ber til þess að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar og fjármálastöðugleika við veitingu leyfa til rekstrar DFT-markaðsinnviða, sem gilda munu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Markviss miðlæg uppbygging á þekkingu er nauðsynleg með tilliti til eðlis og sértækra áskorana sem tengjast framþróun undirliggjandi tækni. Eins og vikið er að í 3. kafla skal lögbært yfirvald (Seðlabanki Íslands) taka tilhlýðilegt tillit til álits ESMA og veita stofnuninni upplýsingar um hvers kyns veruleg frávik frá því áliti, ef þess er óskað. Þá skal ESMA, og önnur viðeigandi yfirvöld ef við á, án tafar upplýst um veitingu, synjun eða afturköllun sértæks leyfis til rekstrar DFT-markaðsinnviða og birtir ESMA skrá yfir þá á vefsetri sínu. Ákvæðum DFTR er ætlað að stuðla að samræmi og meðalhófi við framkvæmd tilraunaregluverksins á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 5. gr.

    Til rekstrar DFT-markaðsinnviða þarf sértækt leyfi Seðlabankans á grundvelli fyrirhugaðra laga. Með þeim eru kröfur gildandi laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, og laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020, aðlagaðar sérstökum eiginleikum og nýtingarmöguleikum dreifðrar færsluskrártækni. Um eftirlit með starfsemi DFT-markaðsinnviða fer auk fyrirhugaðra laga samkvæmt lögum nr. 115/2021 og 7/2020, þar á meðal möguleg beiting viðurlaga. Sértæk leyfi skulu gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, með vísan til 11. mgr. 8. gr., 11. mgr. 9. gr. og 11. mgr. 10. gr. DFTR.
    Seðlabankinn skal afturkalla leyfi til rekstrar DFT-markaðsinnviða, eða tengdar undanþágur, við þær aðstæður sem greinir í 12. mgr. 8. gr., 12. mgr. 9. gr. og 12. mgr. 10. gr. DFTR. Í stuttu máli á það helst við í tilviki galla í virkni dreifðrar færsluskrártækni sem stofnar fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika í hættu og áhættan vegur þyngra en ávinningurinn af þeirri þjónustu/starfsemi sem tilraunin tekur til og ef rekstraraðili DFT-markaðsinnviðar hefur brotið gegn skilyrðum, farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk eða fengið sértækt leyfi/undanþágur á grundvelli villandi eða ónægra upplýsinga.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heimild Fjármálaeftirlitsins til að krefjast úrbóta vegna brota gegn fyrirhuguðum lögum eða stjórnvaldsfyrirmæla sem hafa verið sett með stoð í þeim verði áréttuð að fyrirmynd 122. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, með vísun í 1. mgr. 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Hafa þarf í huga afturköllunarástæður samkvæmt DFTR. Í DFTR er kveðið á um að lögbært yfirvald (hér Seðlabanki Íslands) geti krafist hvers kyns ráðstafana til úrbóta að því er varðar viðskiptaáætlun rekstraraðila markaðsinnviða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni, reglur um innviðina og lagaskilmála til að tryggja fjárfestavernd, heilleika markaðar eða fjármálastöðugleika, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Hafa ber í huga að rekstraraðili DFT-markaðsinnviða skal skv. 2. mgr. 11. gr. DFTR veita lögbæru yfirvaldi allar viðeigandi upplýsingar sem það fer fram á.
    Um heimildir Fjármálaeftirlitsins til álagningar févítis og dagsekta fer skv. 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Á heimild til álagningar dagsekta getur reynt ef aðili veitir ekki umbeðnar upplýsingar eða sinnir ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Dagsektir greiðast þar til farið hefur verið að kröfum Fjármálaeftirlitsins og geta þær numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Fjármálaeftirlitið getur lagt févíti á aðila sem brýtur gegn ákvörðun sem eftirlitið hefur tekið, þar á meðal kröfur um úrbætur. Févíti getur numið frá 10.000 kr. til 2 millj. kr.


Um 7. gr.

    Lagt er til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja reglur um framkvæmd nánar tilgreindra ákvæða DFTR, ef við á, en stofnunin hefur jafnframt almenna heimild til að birta og gefa út almenn leiðbeinandi tilmæli skv. 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin skal þróa viðmiðunarreglur á grundvelli DFTR, sem horfa ber til við framkvæmd fyrirhugaðra laga.

Um 8. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 5. júlí 2024 sem er í samræmi við gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2023 um upptöku DFTR í EES-samninginn.

Um 9. gr.

    Lagðar eru til breytingar á þrennum lagabálkum; lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020, og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Breytingarnar þjóna þeim tilgangi að varpa skýru ljósi á óhjákvæmileg lagaskil og að tryggja fullnægjandi innleiðingu DFTR með tilvísunaraðferð. Smávægilegar breytingar eru gerðar á MiFIR, CSDR og MiFID II með ákvæðum 16.–18. gr. DFTR.Fylgiskjal.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi laga.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1359-f_I.pdf