Ferill 925. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1370  —  925. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögræðislögum, nr. 71/1997 (nauðungarvistanir, yfirlögráðendur o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

    Í stað orðanna „ellisljóleika eða geðsjúkdóms“ í a-lið 4. gr. laganna kemur: alvarlegra einkenna heilabilunar eða geðröskunar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Orðið „tímabundin“ í 1., 2. og 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „hin tímabundna“ í 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „hvort sem fjárræðissvipting er tímabundin eða ótímabundin“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     d.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     e.      Orðin „tímabundna fjárræðissviptingu skv. 1. mgr. og enn fremur um“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Maki varnaraðila“ í a-lið kemur: eða sambúðarmaki.
     b.      Í stað orðanna „Félagsþjónusta sveitarfélaga eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila“ í d-lið kemur: Sveitarfélag þar sem varnaraðili hefur fasta búsetu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „dvalarstaður ef annar er en lögheimili“ í b-lið kemur: föst búseta ef hún er önnur en lögheimili.
     b.      D-liður orðast svo: Til hve langs tíma sviptingar er krafist.
     c.      Nýr stafliður bætist við, svohljóðandi: Hvaða önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafa verið reynd og af hverju þau eru ekki talin þjóna hagsmunum einstaklingsins.

5. gr.

    Í stað orðanna „fastan dvalarstað“ í 2. og 3. málsl. 9. gr. laganna kemur: fasta búsetu.

6. gr.

    Við 2. mgr. 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í úrskurði um lögræðissviptingu skal tilgreina hvaða önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafa verið reynd og af hverju þau eru ekki talin þjóna hagsmunum einstaklingsins. Hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar ekki verið reynd af þeirri ástæðu að þau þykja bersýnilega þýðingarlaus, skal gera grein fyrir því í úrskurði.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fastan dvalarstað, ef dvalarstaður er annar“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: fasta búsetu, ef hún er annars staðar.
     b.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ef hvorki er kunnugt um lögheimili né fasta búsetu hins lögræðissvipta skal senda staðfest endurrit úrskurðarins til yfirlögráðandans á höfuðborgarsvæðinu.
     c.      Í stað orðsins „úrskurðinum“ í 1. málsl. a-liðar 4. mgr. kemur: úrskurðarorðinu.
     d.      Við a-lið 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Breytingalás skal skráður á ökutæki í ökutækjaskrá.
     e.      Í stað orðanna „á firmaskrá“ í c-lið 4. mgr. kemur: í fyrirtækjaskrá.
     f.      6. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „er“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ber dómara að tilkynna lögráðamanni og yfirlögráðanda um kröfuna án tafar og er.
     b.      Í stað orðanna „Sé um tímabundna sviptingu að ræða sem ákveðin var“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Hafi svipting verið ákveðin.
     c.      Orðin „ef unnt er“ í 3. mgr. falla brott.

9. gr.

    Orðin „ráðuneytinu og“ í 1. málsl. 4. mgr. 16. gr. falla brott.

10. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar löglærðum lögráðamanni eða löglærðum ráðsmanni hefur ekki verið skipaður talsmaður, og hann hefur sjálfur flutt mál fyrir dómi um kröfu um lögræðissviptingu, er dómara heimilt að ákvarða honum þóknun úr ríkissjóði.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Þó getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann þjáist af alvarlegum einkennum geðröskunar sem er á þeim tíma þess eðlis eða svo alvarleg að nauðsynlegt telst, vegna heilsu, öryggis eða ríkra hagsmuna hans sjálfs eða öryggis annarra, að hann fái viðeigandi læknismeðferð á sjúkrahúsi og sýnt þykir að meðferðinni verður ekki komið við á annan hátt en með nauðungarvistun.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nauðungarvistun í allt að 72 klukkustundir hefst um leið og sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og skal hún skráð í sjúkraskrá.
     c.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Ef vægari úrræði duga ekki til, er lögreglu skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að flytja einstakling nauðugan í sjúkrahús og skal þá læknir fylgja honum ef nauðsyn þykir bera til að mati læknis.

12. gr.

    Í stað orðanna „félagsþjónusta sveitarfélaga, eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila,“ í 20. gr. laganna kemur: sveitarfélag þar sem varnaraðili hefur fasta búsetu.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „dvalarstaður ef hann er annar“ í b-lið 2. mgr. kemur: föst búseta ef hún er önnur.
     b.      Í stað 1. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með beiðni skal fylgja læknisvottorð sem eigi má vera eldra en þriggja daga þegar það berst sýslumanni, nema alveg sérstaklega standi á. Lúti beiðnin að einstaklingi sem þegar er nauðungarvistaður á sjúkrahúsi skv. 2. mgr. 19. gr. skal vottorðið gefið út af óháðum lækni, þ.e. öðrum en þeim sem annast hefur meðhöndlun sjúklings eftir innlögn.
     c.      Við f-lið 3. mgr. bætist: með hliðsjón af skilyrðum 2. mgr. 19. gr. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um þá meðferð sem til stendur að veita hlutaðeigandi einstaklingi og hvers vegna aðrar læknismeðferðir sem krefjast ekki nauðungarvistunar teljast vera fullreyndar eða þýðingarlausar.


14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjarvera einstaklings sem sætir nauðungarvistun á sjúkrahúsi, hvort sem fjarveran er til skemmri eða lengri tíma eða á grundvelli leyfis skv. 2. mgr., hefur ekki áhrif á framangreinda hámarkslengd vistunar.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

                  Yfirlæknir eða geðlæknir sem starfar í umboði hans getur veitt einstaklingi sem sætir nauðungarvistun leyfi á tímabilinu, í eitt eða fleiri skipti, til að yfirgefa sjúkrahús til aðlögunar í nánar tiltekinn tíma. Brjóti einstaklingur gegn leyfi læknis er lögreglu skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að færa einstakling nauðugan á ný á sjúkrahús. Leyfið skal skráð í fyrirmælum læknis og upplýsingar um fjölda leyfa, tímalengd útivistar og fylgd starfsmanna skulu koma fram í dagál læknis.


15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. a laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Krafa um framlengingu nauðungarvistunar skal vera skrifleg og borin upp við héraðsdómara í þinghá þar sem hinn nauðungarvistaði á lögheimili eða þar sem hann hefur fasta búsetu, ef það er annars staðar en þar sem hann á lögheimili.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Með kröfu um framlengingu nauðungarvistunar skv. 1. mgr. skal fylgja yfirlýsing læknis um að vægari úrræði hafi verið fullreynd eða þótt bersýnilega þýðingarlaus og að ekki hafi komist á samkomulag við einstaklinginn sem sætir nauðungarvistun um áframhaldandi meðferð ef þörf krefði. Yfirlýsingin skal að auki hafa að geyma mat læknis um að framlenging nauðungarvistunar sé óhjákvæmileg með hliðsjón af skilyrðum 2. mgr. 19. gr. og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir um meðferð viðkomandi. Einnig skal fylgja vottorð gefið út af óháðum lækni, þ.e. öðrum en þeim sem annast hefur meðhöndlun sjúklings eftir innlögn, og eftir atvikum önnur gögn sem krafa styðst við.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að framlengja nauðungarvistun manns ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um framlengingu nauðungarvistunar skv. 1. mgr. Einnig er heimilt að framlengja nauðungarvistun manns ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði. Þegar krafa hefur verið gerð um framlengingu nauðungarvistunar eða að maður sem vistaður er nauðugur í sjúkrahúsi verði sviptur sjálfræði, skal dómari án tafar og tryggilega senda yfirlækni á sjúkrahúsi þar sem einstaklingurinn er vistaður staðfestingu á að slík krafa sé fram komin og hvenær hún barst dóminum.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 30. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sá sem leggur fram kröfu skv. 30. gr. telst sóknaraðili, meðan yfirlæknir telst varnaraðili.
     b.      Í stað orðanna „Krafa skv. 1. eða 2. mgr.“ í 1. málsl. kemur: Krafan.
     c.      Á eftir orðinu „Ráðgjafi“ í 3. málsl. kemur: skv. 27. gr.


17. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómari skal svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en innan sólarhrings senda sýslumanni og yfirlækni viðkomandi deildar á sjúkrahúsi staðfest eintak úrskurðar vegna mála skv. 2. og 3. mgr. 19. gr. og 29. gr. a. Hafi úrskurður verið kærður til Landsréttar skal rétturinn senda héraðsdómara málsins, sýslumanni og yfirlækni staðfest eintak af úrskurði, ásamt þeim aðilum sem tilgreindir eru í 1. málsl.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 34. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „dvalarstaður ef hann er annar“ í a-lið kemur: föst búseta ef hún er önnur.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Ef óskað er eftir því að tiltekinn maður hafi aðgang að gögnum sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur skal þess getið.


19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Heimilt er að fela ráðsmanni að hafa aðgang að gögnum sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Umsjón ráðsmanns.


20. gr.

    Í stað orðsins „dvelur“ í 36. gr. laganna kemur: hefur fasta búsetu.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „dvalarstaður ef annar er“ í a-lið 4. mgr. kemur: föst búseta ef hún er önnur.
     b.      Við d-lið 4. mgr. bætist: og hvort ráðsmanni hafi verið falið að hafa aðgang að gögnum sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ráðuneytinu“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við a-lið 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Breytingalás skal skráður á ökutæki í ökutækjaskrá.
     c.      3. mgr. fellur brott.


23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „1.–3. mgr. 60. gr.“ í 1. mgr. kemur: 1.–4. mgr. 60. gr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Um eftirlit yfirlögráðanda með ráðsmanni gilda eftir því sem við á ákvæði 81. gr. a.

24. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. mars“ í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: 1. apríl.

25. gr.

    Í stað orðanna „ráðuneytinu tilkynnt um það með sama hætti“ í 2. málsl. 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: þess getið í skrá sem yfirlögráðandi heldur skv. 3. mgr. 82. gr.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 52. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fastan dvalarstað“ í 2. málsl. kemur: fasta búsetu.
     b.      3. málsl. orðast svo: Ef hvorki er kunnugt um lögheimili né fasta búsetu hins lögræðissvipta hverfa lögráðin til yfirlögráðandans á höfuðborgarsvæðinu.

27. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „XXII. kafla almennra hegningarlaga“ í 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna kemur: almennra hegningarlaga nema yfirlögráðandi meti það svo að brot hans hafi ekki áhrif á hæfi hans til að gegna starfinu.

28. gr.

    3. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
    Eftir því sem við á og upplýsingar liggja fyrir, skal maka eða sambúðarmaka hins lögræðissvipta, lögráða börnum hans og foreldrum veitt færi á að tjá sig um val á lögráðamanni.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „dvalarstaður ef annar er“ í a-lið 1. mgr. kemur: föst búseta ef önnur.
     b.      1. málsl. c-liðar 1. mgr. orðast svo: Hvar og hvenær viðkomandi var sviptur lögræði, sjálfræði eða fjárræði og hvenær sviptingin fellur úr gildi.
     c.      2. málsl. c-liðar 1. mgr. fellur brott.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Lögráðamenn skulu skipaðir til loka þess tíma sem lögræðissvipting hefur verið ákveðin en þó ekki lengur en til fimm ára í senn.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ráðuneytinu“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

31. gr.

    Í stað 1.–3. málsl. 2. mgr. 58. gr. laganna koma fimm nýir málsl. sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögráðamaður sjálfræðissvipts manns ekki ákveðið að hann skuli vistaður á stofnun gegn vilja sínum nema lífi eða heilsu hins svipta eða annarra sé hætta búin að mati læknis. Jafnframt teljist nauðsynlegt að hinn sjálfræðissvipti fái viðeigandi meðferð eða þjónustu á stofnun sem er rekin samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, enda komi vægari úrræði í formi aðstoðar ekki að gagni. Við mat læknis skal höfð hliðsjón af skilyrðum 2. mgr. 19. gr. Lögráðamaður skal tilkynna yfirlögráðanda um vistunina þegar í stað á eyðublaði sem yfirlögráðandi leggur til. Þá skal ráðgjafi skv. 27. gr. upplýsa yfirlögráðanda um hagi hins vistaða að loknu viðtali.

32. gr.

    Á eftir 2. mgr. 60. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lögráðamaður ber ábyrgð á gögnum hins svipta sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur.


33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „1. mars“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 1. apríl.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „1.000.000“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 1.500.000.
     c.      Í stað „2016“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 2024.
     d.      Í stað orðanna „Nú áskotnast ófjárráða manni verðmæti í gjöf, vinning í happdrætti eða á annan hátt, sem nemur 1.000.000“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Nú tekur lögráðamaður við greiðslu fyrir hönd ófjárráða manns eða ófjárráða maður fær greiðslu í hendur með öðrum hætti eða áskotnast verðmæti í gjöf, vinning eða á annan hátt, sem nemur 1.500.000.
     e.      6. mgr. orðast svo:
                  Hvenær sem yfirlögráðandi krefst þess skal lögráðamaður gera honum grein fyrir ráðstöfunum sínum varðandi fjárhaldið og aðstæður hins svipta.
     f.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi sjálfræðissviptur einstaklingur verið vistaður á stofnun samkvæmt ákvörðun lögráðamanns, sbr. 2. mgr. 58. gr., skal lögráðamaður gefa yfirlögráðanda skýrslu um ákvörðunina þegar í stað, á eyðublaði sem yfirlögráðandi leggur til.

34. gr.

    Við 2. mgr. 64. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nýr lögráðamaður skal skipaður eins fljótt og unnt er en fram að því gegnir yfirlögráðandi starfi hans.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „500.000“ í 2. mgr. kemur: 1.500.000.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæðin miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2024 og breytist árlega í samræmi við breytingar á henni.
     c.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                  Leitast skal við að gefa ófjárráða manni færi á að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir samkvæmt þessari grein.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 73. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „500.000” kemur: 1.500.000.
     b.      Nýr málsliður bætist við, svohljóðandi: Fjárhæðin miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2024 og breytist árlega í samræmi við breytingar á henni.

37. gr.

    Við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að verkefni, sem falin eru yfirlögráðanda hverjum í sínu umdæmi samkvæmt lögum þessu, verði á hendi eins yfirlögráðanda.

38. gr.

    3. mgr. 81. gr. laganna orðast svo:
    Yfirlögráðanda er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er um lögráðamann og ráðsmann til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, svo sem um hæfi þeirra til að gegna starfinu. Þannig er yfirlögráðanda heimilt að afla sakavottorðs, búsforræðisvottorðs og vottorðs um fjárræði, til staðfestingar á því að skilyrðum 1. mgr. 54. gr. sé fullnægt. Þá er yfirlögráðanda jafnframt heimil vinnsla persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er, um lögræðissviptan einstakling og skjólstæðing ráðsmanns til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, svo sem vegna ákvarðana lögráðamanns og ráðsmanns um fjármál fjárræðissvipts einstaklings og persónuhagi sjálfræðissvipts einstaklings. Yfirlögráðanda er annars vegar heimil vinnsla persónuupplýsinga um eignir og skuldir fjárræðissvipts einstaklings og skjólstæðings ráðsmanns, svo sem skattframtals, yfirlita vegna bankareikninga og verðbréfa og önnur gögn sem sýna fram á fjármál fjárræðissvipts einstaklings, frá Skattinum, fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum og öðrum sem hafa átt viðskipti við einstaklinginn. Hins vegar er yfirlögráðanda heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga úr sjúkraskrá um persónulega hagi sjálfræðissvipts einstaklings og skjólstæðings ráðsmanns til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem um heilsufar, meðferð á sjúkrahúsi og aðstæður að öðru leyti frá yfirlækni eða vakthafandi lækni sem starfar í umboði yfirlæknis, heimilislækni og ráðgjafa skv. 27. gr. Yfirlögráðanda er að auki heimilt að afla persónuupplýsinga um fjölskyldumeðlimi lögræðissvipts einstaklings og skjólstæðings ráðsmanns vegna afstöðu maka til skipunar ráðsmanns skv. b-lið 2. mgr. 34. gr. og afstöðu fjölskyldumeðlima til skipaðs lögráðamanns skv. 3. mgr. 55. gr. laganna. Gögn samkvæmt ákvæði þessu skulu veitt yfirlögráðanda án endurgjalds.

39. gr.

    Á eftir 81. gr. laganna kemur ný grein, 81. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Eftirlit yfirlögráðanda með lögráðamanni.

    Yfirlögráðandi skal fara yfir skýrslur, tilkynningar og þær skýringar sem honum berast samkvæmt ákvæðum 63. gr. og meta, á grundvelli þeirra gagna, hvort lögráðamaður sinnir starfi sínu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 60. gr. og VI. kafla.
    Berist yfirlögráðanda ábending um störf lögráðamanns frá hinum lögræðissvipta eða öðrum ber honum að rannsaka ábendinguna eftir því sem hann telur tilefni til og leggja mat á hvort lögráðamaður sinnir starfi sínu samkvæmt ákvæðum laga þessara. Yfirlögráðandi skal tilkynna lögráðamanni, hinum svipta og þeim sem kemur með ábendingu um niðurstöðuna.
    Yfirlögráðandi skal án tafar tilkynna lögreglu ef grunur er um refsiverða háttsemi lögráðamanns eða annarra einstaklinga í garð hins svipta.
    Ákvæði 1.–3. mgr. eiga einnig við um eftirlit yfirlögráðanda með ráðsmönnum, eftir því sem við á.

40. gr.

    3. mgr. 82. gr. laganna orðast svo:
    Yfirlögráðendur halda skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn. Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá skal ráðherra setja reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga í skránni. Í reglugerðinni skal m.a. koma fram hvaða persónuupplýsingar yfirlögráðendum er heimilt að skrá, hver sé tilgangur vinnslunnar, frá hvaða aðilum yfirlögráðendum er heimilt að óska upplýsinga, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, hvernig öryggi gagnanna skuli tryggt, aðgang að upplýsingum úr skránni, sem og miðlun upplýsinga úr henni, og tilgreiningu þeirra aðila sem er heimil vinnsla úr skránni og að hvaða marki slík vinnsla er heimil þar sem upplýsingarnar eru nauðsynlegar vegna hagsmuna hins skráða.

41. gr.

    84. gr. laganna fellur brott.

42. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 3. mgr. 56. gr. skulu ákvarðanir yfirlögráðanda um skipunartíma lögráðamanns til lengri tíma en fimm ára, sem teknar voru fyrir 1. janúar 2025, halda gildi sínu.

43. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og felur í sér breytingar á lögræðislögum.
Með lögum nr. 84/2015 voru samþykktar nokkrar breytingar á lögræðislögum, sem voru m.a. liður í fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Breytingarnar fólu einnig í sér viðbrögð við tilmælum alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum Íslands. Samhliða var brugðist við ábendingum frjálsra félagasamtaka, fagaðila o.fl. um ágalla á lögunum. Innanríkisráðuneytið, sem þá var og fór með málefni lögræðislaga, setti m.a. á fót óformlegan samráðshóp sem samanstóð af hagsmunasamtökum, fagfólki, aðilum sem höfðu verið nauðungarvistaðir og aðstandendum þeirra. Við vinnslu frumvarpsins var haft ítarlegt samráð við þennan hóp og fleiri aðila um hvernig mögulegt væri að ná markmiðum frumvarpsins. Með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2015 fylgdu ítarlegar athugasemdir til nánari skýringar á tilefni og nauðsyn lagabreytinganna. Sömu sjónarmiðin eiga að miklu leyti við um frumvarp þetta og því vísast nánar til þess er þar kemur fram (þskj. 1161, 687. mál, 144. löggjafarþing 2014–2015).
    Eftir gildistöku laga nr. 84/2015 hefur komið fram nokkur gagnrýni á gildandi lögræðislög þar sem því er m.a. haldið fram að umræddar breytingar hafi ekki gengið nægilega langt og að lögin séu enn ekki í fullu samræmi við þær kröfur sem leiða má af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hafa komið fram ábendingar um frekari úrbætur í lagaumgjörð frá nefndum Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum (CPT og CAT-nefndir). Jafnframt hefur umboðsmaður Alþingis á grundvelli OPCAT-eftirlits bent á að taka þurfi m.a. til endurskoðunar efnisleg skilyrði lögræðislaga fyrir nauðungarvistun. OPCAT vísar til valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Markmiðið með bókuninni er að koma á reglubundnum heimsóknum óháðra, alþjóðlegra og innlendra aðila á staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu, með það fyrir augum að koma í veg fyrir pyndingar og aðra illa meðferð þeirra. Umboðsmaður Alþingis gegnir hlutverki hins innlenda forvarnaraðila. Meginþáttur í þessu verkefni eru heimsóknir á fyrrnefnda staði í þeim tilgangi að kanna hvort og hvernig réttindi þeirra sem þar dvelja eru virt og draga úr líkum á brotum gegn þeim með forvarnastarfi. Með frumvarpi þessu er brugðist við ábendingum framangreindra aðila og stefnt að því að tryggja að lagaumhverfi og verklag á grundvelli lögræðislaga sé í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar ásamt því að taka tillit til gagnrýni sem gildandi löggjöf hefur sætt.
    Hinn 19. júní 2019 samþykkti Alþingi þingsályktun um endurskoðun lögræðislaga (þskj. 1925, 53. mál, 149. löggjafarþing 2018–2019). Með henni ályktaði Alþingi um að heildarendurskoðun lögræðislaga skyldi fara fram með það að markmiði að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögunum sem og öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Samþykkti Alþingi að kjósa til þess sérnefnd þingmanna úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi, sem skyldi eiga víðtækt samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila auk samráðs við þau ráðuneyti sem að málaflokknum koma. Nefndinni var ætlað að leggja fram frumvarp á grundvelli endurskoðunarinnar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en við lok árs 2020. Frá samþykkt þingsályktunarinnar hafa þingmannanefndin og dómsmálaráðuneytið haft samráð vegna mögulegrar skörunar á frumvörpum, enda sé tilefni lagabreytinga í grunninn það sama. Þar sem um er að ræða þarfar og tímabærar lagabreytingar, og þingmannanefndin hefur ekki lokið sinni vinnu við að semja frumvarp, þótti rétt að dómsmálaráðuneytið héldi áfram með eigin vinnu við endurskoðun lögræðislaga.
    Frumvarpið hefur m.a. tengingu við frumvarp sem heilbrigðisráðuneytið áformar að leggja fram á Alþingi um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Drög að því frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda hinn 19. apríl 2023 (mál nr. S-83/2023) en með því eru m.a. lagðar til nokkrar breytingar á lögræðislögum er varða þvingaða lyfjagjöf. Í frumvarpi heilbrigðisráðuneytisins er lagt til að ákvæði lögræðislaga um þvingaða lyfjagjöf verði felld brott en í staðinn verði sett ákvæði um hana í lög um réttindi sjúklinga. Þessar breytingartillögur heilbrigðisráðuneytisins voru unnar í samráði við dómsmálaráðuneytið.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar er að bregðast við gagnrýni sem gildandi löggjöf hefur sætt frá gildistöku laga nr. 84/2015, um breytingu á lögræðislögum, nr. 71/1997, og koma til móts við ábendingar um atriði sem talið er að betur megi fara í lögunum. Breytingarnar sem lagðar eru til á lögunum miða að því að tryggja betur réttarstöðu þess viðkvæma hóps sem lögin taka til. Til þess að svo megi verða er lagt til að sníða ákvæði laganna um sviptingu lögræðis og nauðungarvistanir betur að skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skerpa á ýmsum reglum laganna um sviptingu lögræðis, hlutverk lögráðamanna og reglum um eftirlit og heimildir yfirlögráðenda. Með breytingunum er leitast við að koma til móts við þær ábendingar sem borist hafa ráðuneytinu og tryggja betur vernd og öryggi þeirra einstaklinga sem málið varðar. Við vinnslu frumvarpsins var tekið mið af tilmælum og athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði á grundvelli OPCAT-eftirlits síns í kjölfar eftirlitsheimsóknar hans á bráðdageðdeild 32C á Landspítala, sbr. skýrslu sem kom út 30. mars 2022 og er aðgengileg á vef umboðsmanns Alþingis. Þá er með frumvarpinu jafnframt brugðist við athugasemdum frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum (CPT-nefndarinnar) vegna heimsóknar hennar til Íslands árið 2019 og lokaniðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (CAT-nefndarinnar) vegna fjórðu skýrslu Íslands sem nefndin fjallaði um á 1903. fundi sínum, sem haldinn var 9. maí 2022. Í 27. og 28. lið athugasemdanna er fjallað um þörf á endurskoðun löggjafar um réttindi sjúklinga og nauðungarvistun, sem tekið var tillit til við vinnslu þessa frumvarps.
    Auk framangreindra aðila hefur ráðuneytið tekið tillit til ábendinga sem því hafa borist undanfarin ár m.a. frá sýslumannsembættunum, réttindagæslumönnum fatlaðs fólks, Öryrkjabandalagi Íslands, Geðhjálp og Reykjavíkurborg ásamt fagaðilum og almenningi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með lögum nr. 84/2015, sem tóku gildi 1. janúar 2016, voru samþykktar ýmsar breytingar á lögræðislögum, nr. 71/1997. Tilefni breytinganna var eins og fyrr greinir undirbúningur fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, viðbrögð við tilmælum alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum Íslands, ábendingar frjálsra félagasamtaka, fagaðila o.fl. um ágalla í lögunum og framkvæmd á grundvelli þeirra (þskj. 1161, 687. mál, 144. löggjafarþing 2014–2015). Frá því að framangreindar breytingar tóku gildi hafa ráðuneytinu borist ýmsar ábendingar um atriði sem betur mættu fara í lögunum og eru þær að hluta sambærilegar þeim ábendingum sem lágu til grundvallar við gerð laga nr. 84/2015. Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um breytingar sem lúta að því að koma til móts við ábendingar um tryggara lagaumhverfi, m.a. um sviptingu lögræðis, málsmeðferð fyrir dómi, nauðungarvistanir, yfirlögráðendur og eftirlit þeirra með lögráðamönnum og ráðsmönnum.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Heimild til lögræðissviptingar geti byggst á geðröskun en ekki á geðsjúkdómi eða fötlun sem slíkri. Áhersla verði lögð á mat á ástandi einstaklings og þá hættu sem ástand hans getur skapað velferð hans og jafnvel annarra.
     2.      Ríkari skylda lögð á dómara í máli um sviptingu lögræðis með það að markmiði að staðreyna að vægari úrræði í formi aðstoðar séu fullreynd.
     3.      Skilyrði nauðungarvistunar geti byggst á heildstæðu mati á ástandi einstaklings þar sem tekið verður m.a. tillit til undirliggjandi sjúkdóms og öryggis hans sjálfs eða annarra við óbreytta stöðu.
     4.      Til að tryggja betur réttaröryggi sjúklings er lagt til að vottorð læknis, sem getur orðið grundvöllur nauðungarvistunar, þurfi að vera gefið út af lækni sem er óháður meðferð sjúklings. Mikilvægt þykir að læknirinn sem metur hagi sjúklings hafi ekki komið að meðferð hans þannig að hlutleysis sé betur gætt um aðstæður viðkomandi og nauðsyn vistunar.
     5.      Breyttar viðmiðunarfjárhæðir vegna tilkynninga til yfirlögráðanda um fjármál ófjárráða einstaklings til samræmis við aðrar viðmiðunarfjárhæðir laganna.
     6.      Auknar kröfur til ráðsmanna og lögráðamanna í tengslum við umsjón með pósthólfi einstaklings í miðlægri þjónustugátt, sbr. 2. og 4. mgr. 3. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021.
     7.      Breytt verklag í tengslum við vistun sjálfræðissvipts einstaklings á grundvelli 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga, sem miðar að því að lögráðamaður skuli tilkynna yfirlögráðanda þegar í stað um ákvörðun sína um vistunina ásamt upplýsingagjöf ráðgjafa nauðungarvistaðra skv. 27. gr. laganna til yfirlögráðanda.
     8.      Auknar kröfur um eftirlit yfirlögráðenda með lögráðamönnum og ráðsmönnum og heimildir til handa yfirlögráðendum til að geta betur sinnt starfinu.
    Við vinnslu frumvarps til laga nr. 84/2015 var litið til reynslu norskra stjórnvalda sem höfðu árin áður ráðist í endurbætur á lagaumhverfi og framkvæmd norskra lögræðislaga vegna fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á þeim tíma þóttu norsku lögin vera í andstöðu við ákvæði 12. gr. samningsins og því var farið í heildarendurskoðun laganna og tóku ný lög gildi 1. júlí 2013 (vergemålsloven, 26. mars 2010 nr. 9). Við núverandi endurskoðun var byggt að hluta á fyrri greiningu norskra stjórnvalda og norsku lögin, vergemålsloven 26. mars 2010 nr. 9, skoðuð nánar með hliðsjón af tilefni núverandi lagabreytinga. Þar sem norsku lögin eru að hluta frábrugðin þeim íslensku og bjóða sem dæmi upp á ótímabundnar sviptingar, aukna aðkomu barna og maka að ákvörðun um skipun lögráðamanns og takmarkaðra eftirlit yfirlögráðenda með maka eða sambúðarmaka sem er skipaður lögráðamaður, þykir ekki rétt að svo stöddu að gera svo umfangsmiklar breytingar á gildandi lögræðislögum. Slíkar breytingar kalla á heildarendurskoðun lögræðislaga. Með frumvarpi þessu er hins vegar verið að tryggja fleirum rétt til að tjá sig um val á lögráðamanni, þ.e. lögráða börnum og foreldri til viðbótar við maka og sambúðarmaka, ásamt því að skerpa á eftirlitshlutverki yfirlögráðanda og skyldu hans til að taka til skoðunar ábendingar um aðfinnslur við störf lögráðamanns. Þykja þær breytingar ásamt öðrum sem að framan greinir tryggja betur að yfirlögráðandi geti brugðist við ef lögráðamaður sinnir ekki sínum starfsskyldum og þannig tryggt hagsmuni hins svipta á skilvirkari hátt.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið snertir m.a. málefni sem varin eru af 67. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 5. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, undirritaður af Íslandi 30. mars 2007 og fullgiltur 23. september 2016.
    Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar má engan svipta frelsi nema með heimild í lögum. Skv. 4. mgr. sömu greinar á hver sá sem sviptur er frelsi af öðrum ástæðum en vegna gruns um refsiverða háttsemi rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Skv. 3. mgr. sömu greinar þarf sérstaka lagaheimild til að takmarka friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu vegna brýnnar nauðsynjar til verndar réttindum annarra. Sambærilegt ákvæði er að finna í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt manna til frelsis og mannhelgi. Þá er í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallað um skyldu aðildarríkja til að tryggja að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra og í 14. gr. samningsins er fjallað um skyldu aðildarríkja til að tryggja frelsi og öryggi einstaklinga. Verði frumvarpið að lögum er stefnt að því að tryggja þann rétt einstaklinga sem varinn er í stjórnarskránni enn betur en kveðið er á um í gildandi löggjöf, m.a. með endurskoðun ákvæða lögræðislaga um nauðungarvistun, lögræðissviptingu og eftirlit yfirlögráðanda.

5. Samráð.
    Efni frumvarpsins varðar fyrst og fremst einstaklinga sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, ýmist tímabundið eða varanlega, þar sem frumvarpið kemur inn á inngrip í mikilvæg persónuleg réttindi fólks. Einnig tengist frumvarpið störfum yfirlögráðenda, dómstóla, sveitarfélaga og heilbrigðisstarfsfólks, sem og annars starfsfólks sem starfar á sjúkrahúsum.
    Áform um breytingu á lögræðislögum voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is hinn 2. nóvember 2022 (mál nr. S-209/2022) og bárust um þau þrjár umsagnir, frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Reykjavíkurborg og Öryrkjabandalagi Íslands. Tekið var tillit til þeirra umsagna við gerð frumvarpsins.
    Undirbúningur frumvarpsins hefur mestmegnis verið á hendi dómsmálaráðuneytisins en samráð hefur verið haft við yfirlögráðendur, Reykjavíkurborg, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, ásamt því að samráð var haft við þingmannanefnd sem hefur það verkefni samkvæmt þingsályktunartillögu um endurskoðun lögræðislaga, að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögunum sem og öðrum lögum sem hafa snertingar við málefnið (þskj. 1925, 53. mál, 149. löggjafarþing 2018–2019).
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda hinn 30. ágúst 2023 (mál nr. S-161/2023) og var frestur til umsagna veittur til 29. september 2023. Helstu hagsmunaaðilum var gert viðvart um samráðsferlið og þeim jafnframt boðið að eiga fund með ráðuneytinu um efni frumvarpsins. Alls bárust 17 umsagnir í samráðsgátt, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, lögmanni og stundakennara við Læknadeild Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Geðhjálp, Geðlæknafélagi Íslands, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumannaráði, dómarafélagi Íslands, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, dómstólasýslunni, Engilberti Sigurðssyni, sérfræðingi í geðheilbrigðisþjónustu, sem jafnframt er prófessor í geðlæknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við geðþjónustu Landspítala, yfirlæknum geðþjónustu Landspítala, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu og frá einum einstaklingi. Að auki fundaði ráðuneytið sérstaklega um frumvarpið með yfirlæknum geðþjónustu Landspítala, Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Geðhjálp, sýslumannaráði og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Allar umsagnir eru birtar og aðgengilegar í fyrrgreindu máli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is.

5.1. Lögræðissvipting og nauðungarvistun geti byggst á geðröskun.
    Eitt af því sem flestar umsagnir bárust um er sú breyting að nauðungarvistun eða svipting lögræðis geti byggst á geðröskun í stað geðsjúkdóms. Að mati margra umsagnaraðila er sú breyting ekki talin til bóta. Er bent á að skilgreiningu á hugtakinu geðröskun vanti og líkur geti verið á að breytingin feli í sér rýmkun á skilyrðum fyrir lögræðissviptingu og nauðungarvistun. Er m.a. bent á þá leið að miða frekar við ástand einstaklingsins og þá hættu sem ástand hans getur valdið velferð hans og annarra. Í umsögn heilbrigðisráðuneytisins, yfirlækna geðþjónustu Landspítalans, Engilberts Sigurðssonar, prófessors og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu, og Geðlæknafélags Íslands er hins vegar lýst yfir stuðningi við notkun hugtaksins geðröskun fremur en geðsjúkdómur, en að þá þurfi að gera kröfu um alvarleika þess ástands og að hætta sé til staðar fyrir heilsu og líf einstaklingsins, eða í einstaka tilfellum líf annarra, enda séu það einkennin sem valdi því að til lögræðissviptingar eða nauðungarvistunar geti komið, en ekki greiningin sem slík. Sömu aðilar benda á að rétt væri að fella orðið „ellisljóleiki“ úr lögunum sem eitt af skilyrðum fyrir lögræðissviptingu, þar sem horft hefur verið frá þeirri orðnotkun, og vísa í staðinn til orðsins „heilabilun“. Tekið hefur verið tillit til þeirrar ábendingar. Þrír síðastnefndu umsagnaraðilar telja það enn fremur of opið orðalag, sem skilyrði fyrir nauðungarvistun, að segja að ástand einstaklings sé svo alvarlegt að nauðsynlegt teljist vegna heilsu og öryggis hans sjálfs eða ríkra hagsmuna annarra að heimila nauðungarvistun. Betur færi á að vísa til heilsu, öryggis eða ríkra hagsmuna einstaklingsins sjálfs eða öryggis annarra.
    Í ljósi þessara ábendinga hafa verið gerðar orðalagsbreytingar á frumvarpinu og m.a. lögð áhersla á alvarlegt ástand einstaklings og einkenni sjúkdóma fremur en að vísa til tiltekinna sjúkdóma.

5.2. Krafa um tvö læknisvottorð.
    Stór hluti umsagnaraðila gerir athugasemdir við þá kröfu að tvö læknisvottorð þurfi að liggja fyrir í málum um lögræðissviptingu og nauðungarvistun, sem stafi frá læknum sem séu óháðir hvor öðrum í störfum. Í umsögnum lögmanns og stundakennara við Læknadeild Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Dómarafélags Íslands, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, dómstólasýslunnar, heilbrigðisráðuneytisins, Geðlæknafélags Íslands, yfirlækna geðþjónustu Landspítalans og Engilberts Sigurðssonar, prófessors og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu kemur fram að krafan sé afar erfið í framkvæmd. Vegna smæðar landsins þekkist flestir geðlæknar hér á landi og hafi þeir alls kyns tengsl. Þá sé mikill skortur á geðlæknum og ekki fyrirséð að það muni lagast. Því geti verið erfitt og tekið tíma að fá lækna frá öðrum starfsstöðvum til að taka að sér verkefni tengd nauðungarvistun, þar á meðal mat á aðstæðum sjúklings. Slík krafa myndi auk þess tefja afgreiðslu mála um nauðungarvistanir að óþörfu og stefna lífi og heilsu einstaklings í hættu þar sem eðli málanna kallar á skjóta afgreiðslu. Þar sem viðkomandi eigi rétt á að kæra niðurstöðu sýslumanns til dómstóla sé réttaröryggi þeirra tryggt með endurskoðun fyrir dómi.
    Litið var til þessara umsagna við lokagerð frumvarpsins og horfið frá áskilnaði um að fyrir liggi tvö læknisvottorð við ákvörðun um lögræðissviptingu og nauðungarvistun. Í rannsóknarskyldu dómara felist heimild til að kalla eftir læknisvottorði telji hann þörf á og sömuleiðis hefur sýslumaður möguleika á að leita til trúnaðarlæknis. Í staðinn er núverandi ferli við útgáfu læknisvottorða skrifað inn í ákvæðin, sem felst í því að læknirinn sem kemur að útgáfu vottorðs sem leitt getur til nauðungarvistunar eða sviptingar megi ekki hafa komið að meðferð einstaklings á sjúkrahúsi. Þannig sé miðað við að hann verði óháður áliti meðferðarlæknis.

5.3. Rannsóknarskylda dómara
    Dómarafélag Íslands, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og lögmaður og stundakennari við Læknadeild Háskóla Íslands gerðu athugasemdir við auknar skyldur dómara við rannsókn lögræðissviptingarmáls. Annars vegar við þá skyldu dómara að afla sjálfur viðbótarlæknisvottorðs í máli og hins vegar skyldu dómara til að kynna sér ástand varnaraðila í öllum tilvikum, ef ekki er unnt að kveðja hann fyrir dóm, þótt telja megi það þýðingarlaust af læknisvottorði eða öðrum gögnum. Er m.a. vísað til þeirrar meginreglu að sönnunarmat dómara er frjálst og að hann geti alltaf kallað eftir viðbótarvottorði telji hann þörf á því til að framfylgja rannsóknarskyldu sinni. Hvað varðar skyldu dómara til að kynna sér ástand aðila máls af eigin raun er lagt til að horfið verði frá þeirri tillögu. Komið hefur fram að dómarar leggi mikið á sig í framkvæmd við að hitta einstaklinga og gæti þess að sýna þeim eins mikla tillitssemi og kostur er. Þá kunni að vera að einstaklingur vilji ekki hitta dómara eða sé ekki í ástandi til að eiga í nokkrum samskiptum við annað fólk, t.d. ef viðkomandi liggur í dái eða verjandi hafi kynnt sér ástand hans.
    Tekið var tillit til þessara umsagna og horfið frá umræddum breytingum við vinnslu frumvarpsins.

5.4. Varnarþing.
    Í umsögnum Reykjavíkurborgar, sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Dómarafélags Íslands, heilbrigðisráðuneytisins, yfirlækna geðþjónustu Landspítalans og Engilberts Sigurðssonar, prófessors og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu, eru gerðar athugasemdir við aðild sveitarfélaga að lögræðissviptingarmáli, þar sem lagt er til að sveitarfélag þar sem varnaraðili dvelst geti verið aðili að máli í stað félagsþjónusta sveitarfélags eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila. Er bent á að óskýrt geti verið hvernig dvöl er túlkuð. Meðal annars hafi dvöl á spítala verið túlkuð sem dvalarstaður sem sumum þyki óviðeigandi, enda búi viðkomandi ekki þar og búseta á sjúkrahúsi fari gegn tilgangi þeirra. Telja umsagnaraðilar eðlilegast að meginreglan verði áfram sú að lögheimili stýri því hvaða félagsþjónusta komi að málum en að unnt sé að fara eftir fastri búsetu viðkomandi ef hún er í annarri þinghá. Sambærileg athugasemd var gerð um þá sem beiðst geta nauðungarvistunar.
    Í lögræðislögum er víðsvegar gerð grein fyrir því að aðildin fari eftir lögheimili eða dvalarstað einstaklings. Meginreglan verður eins og fyrr greinir áfram lögheimili viðkomandi en til að eyða öllum vafa er lagt til að hugtakinu „dvalarstað“ verði skipt út fyrir orðin „föst búseta“. Með því er ætlunin að árétta gildandi framkvæmd sem byggist á 9. gr. lögræðislaga, sem fjallar um varnarþing einstaklings sem krafa um sviptingu lögræðis og niðurfellingu hennar beinist gegn. Um skýringar á 9. gr. laganna er fjallað í athugasemdum frumvarps er varð að lögræðislögum, nr. 71/1997. Þar er vísað til þess að meginregla ákvæðisins sé eins og fyrr greinir að bera skuli upp kröfu fyrir héraðsdómara í umdæmi þar sem sá sem krafa beinist gegn á lögheimili. Fari lögheimili og fastur dvalarstaður ekki saman skuli bera kröfuna fram í þeirri þinghá þar sem varnaraðili dvelst. Um túlkun hugtaksins „dvalarstaður“ vísast til 3. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, þar sem segir að dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna megi til þess, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Í gildandi lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, er í 2. gr. gerður greinarmunur á lögheimili, fastri búsetu og aðsetri. Skv. 1. mgr. er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu skv. 2. mgr. er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Skv. 4. mgr. er með aðsetri átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis skv. 3. mgr., þar sem skráning er heimil samkvæmt ákvæðum laganna. Þá segir í skýringum við 2. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 80/2018, að miðað sé við að lögheimili og aðsetur haldist í hendur, enda gilda skilyrði 3. mgr. 2. gr. laganna bæði fyrir skráningu lögheimilis og aðseturs. Til að eyða öllum vafa um varnarþingsreglur lögræðislaga, þykir rétt að byggja á því að lögheimili eða eftir atvikum skráð aðsetur samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, séu meginreglur sem fara ber eftir nema ljóst þyki að viðkomandi hafi fasta búsetu í annarri þinghá, sbr. frávik 3. gr. laganna frá meginreglu um lögheimilisskráningu.
    Breytt hugtakanotkun þykir jafnframt samræmast betur lögum um meðferð einkamála, sem miðar skv. 1. mgr. 32. gr. laganna við að varnarþing fari eftir skráðu lögheimili samkvæmt þjóðskrá en sé föst búseta í annarri þinghá en skráð lögheimili megi einnig sækja einstaklinginn í þeirri þinghá. Orðin föst búseta eru notuð hér með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, en með því er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Fjarvera í skemmri tíma vegna dvalar t.d. í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði er þannig ekki ígildi fastrar búsetu. Ætlast er til að ákvæði lögræðislaga verði skýrð í samræmi við framangreint.

5.5. Tímalengd lögræðissviptingar.
    Samband íslenskra sveitarfélaga bendir í umsögn sinni á að þrátt fyrir að ótímabundin svipting lögræðis hafi verið felld úr lögunum, með lögum nr. 84/2015, sé hvorki að finna ákvæði um hámark tímalengdar lögræðissviptingar né skyldu til reglubundinnar endurskoðunar á sviptingu lögræðis. Eina ákvæðið sem feli í sér möguleika á endurskoðun tímabundinnar sviptingar lögræðis sé í 15. gr. laganna þar sem fram kemur að þeir sem geta átt aðild að lögræðissviptingarmáli geti óskað eftir endurskoðun. Veltir sambandið upp þeirri spurningu hvort gildandi ákvæði laganna uppfylli 4. mgr. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Reykjavíkurborg telur á hinn bóginn að algengt sé að krafist sé niðurfellingar lögræðissviptingar án framlagningar gagna eða rökstuðnings, enda sé ekki skýr krafa um það í lögunum. Er í umsögn lagt til að slík krafa verði tekin upp í lögin. Sömuleiðis er bent á að ákvæði vanti í lögin um að dómari tilkynni lögráðamanni hins svipta að krafa um niðurfellingu lögræðissviptingar hafi verið lögð fram.
    Brugðist hefur verið við ábendingum Reykjavíkurborgar með því að mæla fyrir um tilkynningarskyldu dómara til lögráðamanns og yfirlögráðanda, komi fram krafa um niðurfellingu lögræðissviptingar. Með því verði betur tryggt að yfirlögráðandi geti viðhaft eftirlit með því hvort aðstæður hins svipta hafi breyst og hvort lögráðamaðurinn sé að sinna starfsskyldum sínum. Auk þess er gert ráð fyrir að yfirlögráðendur taki til endurskoðunar eyðublað fyrir skýrslugjöf lögráðamanns, sbr. 63. gr. lögræðislaga, og bæti þar við lið sem leggur þá viðbótarskyldu á lögráðamenn að þeir svari því hvort tilefni geti verið til endurskoðunar lögræðissviptingar.

5.6. Verkefni yfirlögráðenda og samræmdar fjárhæðir.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þónokkrar breytingar á ákvæðum lögræðislaga er snúa að verkefnum yfirlögráðenda. Umsagnir um þær koma einkum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og sýslumannaráði. Bent er á óhagræði sem fylgir því að skýrsluskil ráðsmanna og lögráðamanna til yfirlögráðanda miðist við mismunandi dagsetningar í stað þess að tilgreina sömu dagsetningu á hverju ári fyrir ráðsmenn og lögráðamenn, eins og gildandi lög kveða á um. Ýmis rök liggi því að baki að miða við 1. apríl ár hvert, þar á meðal að skilum á skattframtölum er þá lokið. Jafnframt sé hætta á að mismunandi dagsetningar valdi því að ekki verði unnt að viðhafa nægjanlegt eftirlit með því að skýrslum sé skilað á tilskildum tíma ár hvert. Fallið hefur verið frá fyrri áformum um að fela yfirlögráðendum auknar heimildir til að ákveða aðrar dagsetningar fyrir skýrsluskilin vegna framangreindra ástæðna. Tekið hefur verið tillit til þessara ábendinga og lagt til að skýrsluskil bæði lögráðamanna og ráðsmanna miðist við 1. apríl ár hvert.
    Gerðar eru athugasemdir við að binda skipunartíma lögráðamanns við tiltekinn tíma, fimm ár, á þeim grundvelli að það leiði til aukins eftirlits yfirlögráðanda. Segir í umsögn sýslumanna að yfirlögráðandi geti tekið til rannsóknar aðfinnslur sem berast við störf lögráðamanns á hvaða tíma sem er, auk þess sem skýrsluskil lögráðamanns þjóni tilgangi eftirlitsins. Sömuleiðis er ekki talin þörf á að tilgreina að yfirlögráðandi gegni starfi lögráðamanns ef lögráðamaður hefur verið leystur frá störfum þar sem nýr lögráðamaður sé skipaður samtímis. Þessar ábendingar gáfu ekki tilefni til breytinga á efni frumvarpsins. Þá segir í umsögnum að ekki sé talin þörf á mismunandi málsmeðferð vegna ábendinga og kvartana sem berast um störf lögráðamanns, enda sé öllum ábendingum tekið alvarlega. Fallist var á þessa ábendingu við vinnslu frumvarpsins og er skyldum yfirlögráðanda við meðferð ábendinga nú lýst í einu ákvæði, í nýrri 2. mgr. 81. gr. a. Gerð er athugasemd við ákvæði frumvarpsins um það hverjir geti átt möguleika á að tjá sig um val á lögráðamanni. Sú viðbót, að auk maka og sambúðarmaka, ef við á, skuli sóknaraðila lögræðissviptingarmáls veitt færi á að tjá sig, telja sýslumenn of þröngan möguleika. Framkvæmdin hjá yfirlögráðendum sé almennt sú að öllum börnum hins svipta sé gefinn kostur á að tjá sig um val á lögráðamanni. Því færi betur á því að miða við þá sem tilgreindir eru í f-lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Tekið hefur verið tillit til þessara athugasemda við lokagerð frumvarpsins. Um samræmingu fjárhæða sem leggja skyldu á lögráðamenn og ráðsmenn um að skila skýrslu til yfirlögráðanda um fjárhald ólögráða einstaklings og skjólstæðinga ráðsmanna, sem og skyldu þeirra sem inna af hendi fjárgreiðslu til lögráðamanns ófjárráða einstaklings, benda umsagnaraðilar á mikilvægi þess að fjárhæðirnar verði auglýstar á tryggilegan hátt til glöggvunar þeim sem þurfa á þeim að halda. Í skýringum með 35. gr. frumvarpsins er nú tekið fram að gert er ráð fyrir að yfirlögráðandi birti með tilstuðlan ráðuneytisins uppreiknaðar fjárhæðir á vef sýslumanna.

5.7. Nauðungarvistanir.
    Í umsögnum Landspítalans og Engilberts Sigurðssonar, prófessors og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu, koma fram ábendingar um að skýrt þurfi að vera í lögunum að læknisfræðilegt mat liggi að baki því að læknir sé með í för ef óskað er eftir aðstoð lögreglu við að flytja einstakling nauðugan á sjúkrahús. Sömuleiðis er bent á þörf á ákvæði sem heimilar rýmkun á dvöl einstaklings sem sætir 21 dags nauðungarvistun og ákvæði sem gefur læknum skýra heimild til að óska eftir aðstoð lögreglu til að færa sjúkling á ný á sjúkrastofnun hafi hann strokið úr nauðungarvistun. Samhliða þyrfti að kveða á um hvaða áhrif strok af sjúkrahúsi hafi á nauðungarvistun, svo sem hve lengi nauðungarvistun er þá í gildi. Þá er talin þörf á skýrri lagaheimild til að óska eftir aðstoð lögreglu við að flytja sjálfræðissviptan einstakling á sjúkrahús til lyfjagjafar, svo sem forðalyfjagjafar eingöngu, en ekki til innlagnar.
    Í umsögnum Reykjavíkurborgar og Geðhjálpar er vikið að þvinguðum lyfjagjöfum þeirra sem eru nauðungarvistaðir. Telur Reykjavíkurborg mikilvægt að kveðið verði skýrt á um í lögum að yfirlæknar eigi aðild að dómsmálum um þvingaða lyfjagjöf en ekki sveitarfélag eins og úrskurðað hafi verið í Landsrétti í máli nr. 51/2022, þar sem eingöngu læknir geti rökstutt slíka ákvörðun. Geðhjálp lýsir yfir óánægju með ákvæði lögræðislaga um þvingaða lyfjagjöf og vill heildarendurskoðun á lögræðislögum og lögum um réttindi sjúklinga.
    Dómarafélag Íslands, dómstólasýslan, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, yfirlæknar geðþjónustu Landspítalans og Engilbert Sigurðsson, prófessor og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu, lýsa yfir ánægju með breytingu á ákvæði er varðar tilkynningarskyldu dómara í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um nauðungarvistun. Tekið hefur verið tillit til framangreindra ábendinga að mestu leyti.

5.8. Vistun sjálfræðissvipts einstaklings á stofnun gegn vilja hans.
    Yfirlæknar geðþjónustu Landspítalans og Engilbert Sigurðsson, prófessor og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu, gera athugasemdir við það skilyrði að læknisvottorð þurfi að fylgja ákvörðun lögráðamanns um vistun skjólstæðings hans á stofnun gegn vilja sínum. Telja læknar ekki vera þörf á sérstöku læknisvottorði við slíka ákvörðun þar sem læknisvottorð liggi ávallt fyrir um sjálfræðissviptan einstakling samkvæmt dómsúrskurði. Hins vegar sé mikilvægt að skrá ástæðu innlagnar nákvæmlega í sjúkraskrá. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggst gegn því að læknisvottorði sé miðlað til sýslumanns án þess að skýr tilgangur liggi að baki slíkri gagnasendingu. Tekið hefur verið tillit til þessara ábendinga við vinnslu frumvarpsins.

5.9. Alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í umsögnum Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands, Geðhjálpar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er vakin athygli á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Er m.a. bent á almennar athugasemdir sérfræðinefndar um samninginn frá árinu 2014 þar sem er áréttað að tryggja þurfi að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins, að viðeigandi stuðningur sé forsenda þess að löghæfis sé notið og sé þess eðlis að virðing sé borin fyrir réttindum, vilja og óskum fatlaðs fólks og megi aldrei vera þannig að um staðgengilsákvörðun sé að ræða. Telja umsagnaraðilar að skrefið hafi ekki verið stigið að fullu til að uppfylla þessar kröfur, einkum 12. gr., án þess þó að benda skýrt á hvað megi betur fara. Horft var til þessara ábendinga og eru ýmsar breytingar lagðar til með frumvarpinu sem er ætlað að tryggja betur réttindi einstaklinga. Ber þar helst að nefna aukna skyldu á yfirlögráðanda til að viðhafa eftirlit með lögráðamanni í tengslum við málarekstur um endurskoðun sviptingar skv. 15. gr. eða vistunar skv. 2. mgr. 58. gr. laganna, og skýrsluskil lögráðamanns til yfirlögráðanda í tengslum við þær aðgerðir. Þá eru yfirlögráðendum jafnframt faldar auknar heimildir til að kalla eftir gögnum frá lækni og lögráðamanni til að endurmeta forsendur sviptingar og vistunar.

5.10. Aðrar ábendingar.
    Nokkrar gagnlegar ábendingar bárust um önnur atriði frumvarpsins sem tekið hefur verið tillit til, svo sem um greiðslu málskostnaðar ef löglærður lögráðamaður eða ráðsmaður flytur mál og viðkomandi hefur ekki verið skipaður talsmaður skv. 3. mgr. 10. gr. laganna, sem skv. 1. mgr. 17. gr. greiðist úr ríkissjóði. Sumar ábendingar snerta atriði sem ekki er tekið á í frumvarpinu. Í því sambandi áréttar ráðuneytið að frumvarpið felur ekki í sér heildarendurskoðun á lögræðislögum heldur er með frumvarpinu fyrst og fremst verið að bregðast við ábendingum sem borist hafa frá eftirlitsaðilum og gagnrýni sem gildandi löggjöf hefur sætt. Frumvarpið gefur því ekki ráðrúm til að bregðast við öllum þeim ábendingum sem borist hafa frá umsagnaraðilum en þær verða hafðar til hliðsjónar við frekari breytingar á löggjöfinni.
    Við úrvinnslu umsagna að loknu samráði voru gerðar nokkrar efnislegar breytingar á frumvarpinu en auk þess var leitast við að bæta skýringar við einstök ákvæði. Við úrvinnslu umsagna var leitað til Engilberts Sigurðssonar, prófessors og sérfræðings í geðheilbrigðisþjónustu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er liður í því að gera ákvæði lögræðislaga um nauðungarvistanir skýrari og skerpa á ýmsum reglum um sviptingu lögræðis og um eftirlit og heimildir yfirlögráðenda. Breytingar þær sem frumvarpið mælir fyrir um þjóna þannig fyrst og fremst þeim tilgangi að bæta meðferð mála er snúa að nauðungarvistunum og lögræðissviptingum, með það að markmiði að tryggja betur réttarstöðu þeirra einstaklinga er lögin varða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir að þau hafi í för með sér umtalsverð útgjaldaáhrif á ríkissjóð né sveitarfélög. Þótt gert sé ráð fyrir auknu eftirliti af hálfu yfirlögráðenda með lögráðamönnum og ráðsmönnum, er talið að útgjaldaáhrifin verði takmörkuð fyrir sýslumenn ef ráðherra nýtir heimild 37. gr. frumvarpsins og felur tilteknum yfirlögráðanda ábyrgð á hluta verkefna sem allir yfirlögráðendur annast í dag. Væntingar eru um að sú breyting leiði ekki eingöngu til skilvirkari og vandaðri málsmeðferðar, heldur jafnframt til aukinnar sérhæfingar og þar með hagræðingar í rekstri sýslumannsembættanna sem unnt verður að nýta í þágu annarra verkefna yfirlögráðenda. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum og varða hlutverk sveitarfélaga, fela ekki í sér breytingar á núverandi framkvæmd og því er ekki talið að frumvarpið hafi útgjaldaáhrif á sveitarfélög. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi mismunandi áhrif á einstaklinga eftir kyni, enda sé ekki um að ræða grundvallarbreytingar á framkvæmd nauðungarvistunar og lögræðissviptingar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lögð er til orðalagsbreyting á ákvæði í a-lið 4. gr. lögræðislaga. Í gildandi lögum er í a–e-lið fjallað um þær aðstæður sem heimila dómara að svipta einstakling tímabundið lögræði, þ.e. sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem fram koma í 1. og 2. málsl. 4. gr. Í stað þess að heimild til lögræðissviptingar geti byggst á því að einstaklingur sé haldinn geðsjúkdómi er hér lagt til að vísað verði til þess að einstaklingur glími við alvarleg einkenni geðröskunar. Tilefni þessara breytinga er m.a. gagnrýni sem komið hefur fram á gildandi lögræðislög þess efnis að lögin séu ekki í fullu samræmi við þær kröfur sem leiða má af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hefur m.a. verið bent á að skilyrði nauðungarvistunar og lögræðissviptingar ættu að byggjast á þeim hagsmunum sem úrræðunum er ætlað að vernda. Er því talið að það samræmist betur samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að skýrt sé að fötlun, geðsjúkdómur eða geðröskun geti ekki eitt og sér réttlætt lögræðissviptingu eða nauðungarvistun, heldur að framkvæma þurfi heildstætt mat á því hversu alvarleg einkenni geðröskunar eru fyrir ástand einstaklingsins. Þannig hefur sjúkdómsgreiningin ein og sér ekki úrslitaáhrif á niðurstöðu máls, heldur ræðst niðurstaðan af einkennum sjúkdómsins og líkum á því að einstaklingurinn sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Þar sé horft til heilsu, öryggis eða ríkra hagsmuna einstaklingsins sjálfs eða öryggis annarra og mats læknis um að óhjákvæmilegt sé að grípa til sjálfræðis-, fjárræðis- eða lögræðissviptingar.
    Við skilgreiningu hugtaksins geðröskun (e. mental disorder) er farið eftir skilgreiningum og flokkun greiningakerfis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization eða WHO), sem fer m.a. með það verkefni að viðhalda alþjóðlegri tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (e. International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems, eða ICD). Í ICD-10, þ.e. 10. útgáfu á alþjóðlegu sjúkdómsflokkuninni, er sjúkdómsflokkurinn nefndur „Geð- og atferlisraskanir“ (e. mental and behavioral disorders). Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa frá 1. janúar 1997 haft ICD-10 í notkun. Um þessar mundir er unnið að innleiðingu ICD-11, þ.e. 11. útgáfu alþjóðlegu sjúkdómsflokkunarinnar, sem reiknað er með að taki gildi á Íslandi að lokinni þýðingu og innleiðingu í tölvukerfi, árið 2027. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum mun sjúkdómaflokkurinn sem horft er til við skilgreiningu hugtaksins „geðröskun“ nefnast „Geð-, atferlis- og taugaþroskaraskanir“ (e. mental, behavioral or neurodevelopmental disorders) í ICD-11, en sú flokkun var gefin út árið 2022. Þykir rétt að hugtakið sé afmarkað með hliðsjón af framangreindum fræðum þannig að samræmis sé gætt á alþjóðavísu.
    Sem rök fyrir notkun hugtaksins „geðröskun“ frekar en „geðsjúkdómur“ má jafnframt benda á að hugtakanotkunin þykir betur samræmast ameríska flokkunarkerfinu DMS-5 (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, 5. útgáfa), sem mun vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði um allan heim, en þar er notast við yfirheitið „geðröskun“ sem yfirheiti allra geð-, atferlis- og taugaþroskaraskana. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu, að nota hugtakið geðröskun í stað geðsjúkdómur, þykir þannig betur samræmast alþjóðlegum og fræðilegum heitum sem stuðst er við í dag. Eins og áður segir er miðað við að einkenni geðröskunar þurfi að vera á alvarlegu stigi svo þau réttlæti lögræðissviptingu skv. 4. gr. laganna, og því þurfi að framkvæma í hverju tilfelli einstaklingsbundið mat á því hvaða áhættu geðröskunin kann að hafa í för með sér fyrir einstaklinginn sjálfan og/eða aðra. Einnig þarf að vera ljóst að vægari úrræði hafi annaðhvort verið reynd eða rökstyðja að þau geti ekki nýst í þeirri stöðu sem er uppi. Rétt er að taka fram að fíkn og tengd notkun vímugjafa fellur undir flokkinn geðröskun í ofangreindum greiningarkerfum. Það á við hvort heldur sú notkun er í formi áfengis, fíkniefna eða ávanalyfja sem geta valdið vímu. Hið sama á við um spilafíkn. Það hefur ekki tíðkast að beita lögræðissviptingu hér á landi vegna fíknar og fíknisjúkdóma einna og sér og ekki er ráðgert að þær breytingar sem lagt er til að nú verði gerðar á lögunum hafi áhrif á það. Þá sjaldan að beitt er lögræðissviptingu vegna fíknisjúkdóma tengist það helst því að alvarleg geðrofseinkenni hafa þróast vegna notkunar geðvirkra vímugjafa. Að öðru leyti vísast til skýringa við 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 á hugtakinu „geðsjúkdómur“. Þótt lagt sé til með frumvarpi þessu að hugtakinu verði skipt út fyrir „geðröskun“, er hægt að styðjast við þá umfjöllun við mat á því hversu alvarlegt ástand einstaklings þurfi að vera svo til greina komi að svipta viðkomandi lögræði (þskj. 707, 410. mál á 121. löggjafarþingi).
    Auk framangreinds er lagt til að hugtakinu „ellisljóleiki“ verði skipt út fyrir hugtakið „heilabilun“, enda hefur verið horfið frá þeirri orðnotkun. Hugtakið „heilabilun“ er viðtekið fagorð og vel þekkt og því réttara að nota það hugtak. Rétt eins og þegar um geðröskun er að ræða er miðað við að fram fari heildstætt mat á áhrifum heilabilunar á einstaklinginn og er við það miðað að eingöngu alvarleg einkenni heilabilunar geti réttlætt lögræðissviptingu.

Um 2. gr.

    Með lögum nr. 84/2015 um breytingu á lögræðislögum var samþykkt það nýmæli að ótímabundnar lögræðissviptingar væru óheimilar og því hefur frá gildistöku laganna hinn 1. janúar 2016 einungis verið heimilt að svipta einstakling lögræði tímabundið. Breytingar þær sem hér eru lagðar til á 5. gr. laganna eru í samræmi við þessar fyrri breytingar á lögunum og þjóna eingöngu þeim tilgangi að eyða öllum vafa um að allar sviptingar séu tímabundnar með því að fella út óþarfa tilvísanir til þeirra í lögunum. Ljóst þykir skv. 4. gr. laganna að allar sviptingar, hvort sem þær taka einungis til sjálfræðis eða fjárræðis eða hvoru tveggja, séu tímabundnar og því sé með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á 5. gr. laganna eingöngu verið að uppfæra lögin í takt við gildandi framkvæmd.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að sambúðarmaki geti ásamt maka átt aðild að lögræðissviptingarmáli skv. 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Í lögunum er stöðu sambúðarmaka víðsvegar jafnað við stöðu hjúskaparmaka, svo sem við val á ráðsmanni skv. 5. mgr. 37. gr. og við val á lögráðamanni skv. 3. mgr. 55. gr. laganna, og þykja ekki vera málefnalegar ástæður til að undanskilja sambúðarmaka aðild að lögræðissviptingarmáli.
    Í samræmi við gildandi framkvæmd lögræðislaga er miðað við að sambúðin þurfi að vera skráð í þjóðskrá svo hún komi til skoðunar. Rétt eins og í öðrum ákvæðum laganna er miðað við að sambúðarmakar þurfi að uppfylla skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, þ.e. að um sé að ræða tvo einstaklinga sem eru í samvistum og uppfylla hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga. Einstaklingarnir skulu hafa sama lögheimili og skal upphaf sambúðar miðað við þann dag þegar beiðni er lögð fram um skráningu. Beiðni um skráningu í sambúð ber að leggja fram hjá Þjóðskrá Íslands með formlegum hætti eins og fram kemur í frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur. Í ljósi þess að ýmsar skyldur og réttindi sem leiða af lögræðislögum grundvallast af skráningu lögheimilis þykir ljóst að fylgja þurfi ákvæðum laga um lögheimili og aðsetur við túlkun hugtaksins sambúðarmaki.
    Í b-lið er lögð til sú breyting á d-lið 2. mgr. 7. gr. laganna, sem fjallar um aðila lögræðissviptingarmáls, að í stað þess að vísa til þess að félagsþjónusta sveitarfélaga eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar geti verið aðilar lögræðissviptingarmáls verði notað orðið „sveitarfélag“. Með breytingunni er komið til móts við athugasemdir sem borist hafa frá Reykjavíkurborg, sem hefur bent á að svið eða deildir innan sveitarfélaga eigi ekki aðild að dómsmálum heldur sé sveitarfélagið eitt og sér bært til að eiga aðild. Sveitarfélög eru lögaðilar skv. 4. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og fara sveitarstjórnir m.a. með framkvæmd verkefna sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Í ljósi þess þykir rétt að breyta ákvæði d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga og færa sveitarfélag inn sem mögulegan aðila lögræðissviptingarmáls.
    Um aðild að lögræðissviptingarmálum og málum er varða nauðungarvistun er þeirri meginreglu fylgt að aðildin fari eftir lögheimili einstaklings. Í ljósi ábendinga um óvissu á því hvernig túlka beri orðin „dvöl“ eða „dvalarstaður“ eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum í þá veru að í stað þess að nota orðið „dvalarstaður“ er lagt til að nota orðin „föst búseta“, sbr. túlkun þess hugtaks í lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Þá þyki jafnframt rétt að samræma hugtakanotkunina við ákvæði laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem miðar við að varnarþing fari eftir lögheimili eða fastri búsetu. Jafnframt var brugðist við athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna aðildar sveitarfélaga að málum. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.

Um 4. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 8. gr. laganna og að nýjum staflið verði bætt við greinina. Um skýringar á breytingum b-liðar 1. mgr. 8. gr. vísast til umfjöllunar í kafla 5.4 þar sem nánar er fjallað um tilefni þess að skipta út orðinu „dvalarstaður fyrir orðin „föst búseta“. Breytingarnar sem lagðar eru til á d-lið eru sambærilegar þeim sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins og snúa að uppfærslu á lögunum með hliðsjón af því að svipting lögræðis getur einungis verið tímabundin. Vísast að öðru leyti til þess er fram kemur í skýringu við 2. gr.
    Lagt til að við 1. mgr. bætist nýr stafliður, j-liður, sem mælir fyrir um að í kröfu um lögræðissviptingu skuli koma fram upplýsingar um hvaða önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafi verið reynd og af hverju þau eru ekki talin þjóna hagsmunum einstaklingsins. Í ljósi þess að lögræðissvipting er neyðarúrræði sem beita þarf varfærnislega, þykir rétt að gera þá kröfu að sóknaraðili geri sérstaklega grein fyrir þeim úrræðum sem reynd hafa verið og af hverju þau eru ekki talin koma að gagni. Ljóst þykir að lögræðissviptingar eiga sér vissan aðdraganda og því megi almennt ætla að ýmislegt hafi verið reynt áður en svipting kemur til skoðunar, með það í huga að tryggja eftir fremsta megni sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Mikilvægt er fyrir dómara að þessar upplýsingar liggi fyrir og að hann yfirfari vandlega mat sóknaraðila á nauðsyn sviptingar áður en kveðinn er upp úrskurður í máli. Lagt er til að dómari fjalli sérstaklega um þessi atriði í úrskurði sínum, sbr. 6. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um breytingar á 2. mgr. 12. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Lagt er til að í stað orðanna „fastan dvalarstað“ í 2. og 3. málsl. 9. gr. laganna komi orðin „fasta búsetu“. Um tilefni breytinganna vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að tveir nýir málsliðir bætist við 2. mgr. 12. gr. laganna sem tengjast ákvæði 4. gr. laganna, eins og henni var breytt með lögum nr. 84/2015, um að ekki skuli svipta einstakling lögræði nema þegar brýn nauðsyn stendur til og önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafa verið fullreynd. Er með nýjum málsliðum gerð sú viðbótarkrafa að dómari tilgreini í úrskurði um lögræðissviptingu hvaða önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafi verið reynd og hvers vegna þau hafi ekki nýst í tilfelli varnaraðila. Með þessu er lögð áhersla á það sjónarmið að svipting lögræðis sé algjört neyðarúrræði og að ekki skuli beita því nema önnur lögbundin úrræði hafi áður verið útilokuð. Koma þar m.a. til skoðunar úrræði lögræðislaga um ráðsmenn og ákvæði laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk um persónulega talsmenn. Til að tryggja betur að efnislegt mat dómara leiði til rökstuddrar niðurstöðu í úrskurði, þykir rétt að mæla fyrir um að dómari fjalli í úrskurðinum annars vegar um þau vægari úrræði sem hafa verið reynd í tilfelli einstaklingsins og hins vegar af hverju þau eru ekki talin þjóna hagsmunum viðkomandi. Svo dómari geti lagt mat á framangreind atriði eru að auki með c-lið 4. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 1. mgr. 8. gr. laganna, sem mæla fyrir um að sóknaraðili skuli gera sérstaklega grein fyrir því í kröfu um sviptingu lögræðis hvaða önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafi verið reynd og af hverju þau eru ekki talin koma að gagni í tilfelli einstaklingsins. Um þetta er fjallað nánar í athugasemdum um 1. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 84/2015 og skýringum við 4. gr. þessa frumvarps og vísast til þeirra.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 14. gr. laganna.
    Í a- og b-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar á 3. mgr. sem miða annars vegar að því að skipta út dvalarstað fyrir fasta búsetu, en um tilefni breytinganna vísast til umfjöllunar í kafla 5.4. Hins vegar að skipta út yfirlögráðanda í Reykjavík fyrir yfirlögráðanda á höfuðborgarsvæðinu. Breytingin tengist breyttu heiti sýslumannsembætta vegna sameiningar þeirra 1. janúar 2015, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014, og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í c-lið er lögð til breyting á a-lið 4. mgr. sem mælir fyrir um þinglýsingu úrskurðar. Í stað þess að kveða á um að þinglýsa skuli úrskurði dómara um fjárræðissviptingu á eign sem fjárræðissviptur einstaklingur er þinglýstur eigandi að, verði einungis þinglýst úrskurðarorði. Með þessari breytingu er brugðist við ábendingu sem barst m.a. frá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu. Bent var á að í úrskurði um fjárræðissviptingu komi fram viðkvæmar persónuupplýsingar sem ekki er talið rétt að standi í skjali sem er þinglýst á eign fjárræðissvipts einstaklings, enda sé þinglýsing opinber réttindaskráning og almenningi tryggður aðgangur að afriti þinglýstra skjala skv. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 405/2008 um þinglýsingar. Tilgangi ákvæðisins sé náð með því að þinglýsa úrskurðarorði einu og sér eða með þinglýsingu sérstakrar yfirlýsingar yfirlögráðanda, þar sem vísað yrði í niðurstöðu úrskurðar.
    Í d-lið er lagt til að við 1. málsl. a-liðar 4. mgr. bætist nýr málsliður sem mælir fyrir um skyldu yfirlögráðanda til að hlutast til um að breytingalás verði skráður á ökutæki í ökutækjaskrá, hafi hinn fjárræðissvipti verið skráður eigandi ökutækis. Er breytingin til komin vegna ábendingar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmd yfirlögráðanda. Þar sem eignarheimildum að ökutækjum er ekki þinglýst, heldur eigendaskipti tilkynnt til Samgöngustofu, hafi yfirlögráðendur viðhaft það verklag að óska eftir því við Samgöngustofu að settur verði breytingalás á skráningarskyld ökutæki. Skv. 4. mgr. 72. gr. umferðarlaga þjónar breytingalás á ökutæki í ökutækjaskrá þeim tilgangi að takmarka heimildir til nýskráningar, skráningar eigendaskipta og/eða skráningar ökutækis í umferð, sem samræmist þeim takmörkunum sem felast í fjárræðissviptingu fyrir skráðan eiganda ökutækis. Þrátt fyrir framangreint er vissum skjölum þinglýst á ökutæki, svo sem veðskuldabréfi og tengdum skjölum, og því verður áfram þörf á þinglýsingu úrskurðarorða um fjárræðissviptinguna.
    Í e-lið er lögð til orðalagsbreyting á c-lið 4. mgr. sem skýrist af því að firmaskrá hefur verið færð undir fyrirtækjaskrá. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
    Með f-lið er lagt til að 6. mgr., sem mælir fyrir um það hlutverk Þjóðskrár Íslands að halda skrá um lögræðissvipta menn, falli brott þar sem lagt er til með 40. gr. frumvarpsins að verkefnið verði fært til yfirlögráðenda og um það fjallað í 82. gr. laganna. Verkefnaflutningurinn kallar jafnframt á breytingar á 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 57. gr. laganna en um nánari skýringar ákvæðisins vísast til skýringa við 40. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í a-lið er lagt til breytt orðalag 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna, sem miðar að því að leggja þá skyldu á dómara að tilkynna lögráðamanni og yfirlögráðanda án tafar ef lögræðissviptur einstaklingur leggur sjálfur fram kröfu um að sviptingin verði felld niður með úrskurði að nokkru eða öllu leyti.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á 2. málsl. 2. mgr. sem eru sambærilegar þeim sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins og snúa að uppfærslu á lögunum með hliðsjón af því að svipting lögræðis getur einungis verið tímabundin. Vísast að öðru leyti til þess er fram kemur í skýringu við 2. gr.
    Í c-lið er lagt til að orðin „ef unnt er“ í lok 3. mgr. 15. gr. laganna falli brott, sem leiðir til þess að krafa um niðurfellingu lögræðissviptingar eigi ávallt að vera skrifleg og rökstudd og studd gögnum um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta.
    Með breytingunum er verið að bregðast við ábendingum Reykjavíkurborgar um að kröfur um niðurfellingu sviptingar séu of oft lagðar fram án vitneskju lögráðamanns, sem nær þá ekki að rækja starfsskyldur sínar gagnvart hinum svipta. Með því að mæla fyrir um að tilkynningarskylda dómara nái ekki aðeins til lögráðamanns heldur jafnframt yfirlögráðanda, getur yfirlögráðandi betur fylgst með framvindu málsins og aðstæðum hins svipta, eftir atvikum með því að krefja lögráðamanninn um skýrslu og frekari gögn samkvæmt þeim breytingum sem lagðar eru til á 6. mgr. 63. gr. laganna. Ákvæðið skoðast þannig í samhengi við þær breytingar sem lagðar eru til í 31. og 33. gr. frumvarpsins, hvað varðar eftirlit yfirlögráðanda með því að ástæður sem leiddu til sviptingar séu óbreyttar.
    Þá hefur Reykjavíkurborg jafnframt bent á að kröfur lögmanna fyrir hönd skjólstæðinga sinna um að fá lögræðissviptingu fellda niður séu sjaldan studdar gögnum sem sýna fram á breyttar aðstæður hins svipta. Þá sé oft enginn reki gerður að því að rökstyðja fullyrðingar um breyttar aðstæður, svo sem með vitnisburði meðferðaraðila eða annarra sem þekkja til aðstæðna viðkomandi. Þótt ekki sé með frumvarpinu verið að gera breytingar á rannsóknarskyldu dómara, þykir ekki ósanngjarnt að krefjast þess af hálfu lögmanna hinna sviptu að þeir færi rök fyrir kröfu skjólstæðings síns og styðji hana gögnum til marks um breyttar aðstæður hins svipta. Dómari mun áfram þurfa að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð í máli og eftir atvikum afla sönnunargagna, telji hann þau sem lögð hafa verið fram ekki fullnægjandi, sbr. 11. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 1. málsl. 4. mgr. 16. gr. laganna sem miða að því að staðfest endurrit af dómi Landsréttar og Hæstaréttar verði ekki lengur sent ráðuneytinu, heldur eingöngu héraðsdómara. Það falli síðan áfram í hans hlut að koma endurritinu til þeirra sem greindir eru í 3.–6. mgr. 14. gr. laganna, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 16. gr. Eftir að lögræðislögum var breytt með lögum nr. 84/2015, var það verkefni ráðuneytisins að halda skrá um lögræðissvipta menn, skipaða lögráðamenn og ráðsmenn fært til Þjóðskrár Íslands. Með frumvarpi þessu er lagt til að hlutverk Þjóðskrár verði fært til yfirlögráðenda, sbr. 40. gr. frumvarpsins. Þar sem miðlun endurritanna til ráðuneytisins þjónar ekki lengur þeim tilgangi sem það gerði áður og ráðuneytið getur ávallt kallað eftir úrskurðunum frá yfirlögráðendum á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess, er lagt til að hætt verði að senda ráðuneytinu staðfest endurrit af dómi Landsréttar og Hæstaréttar.

Um 10. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 17. gr. laganna til samræmis við ábendingu dómarafélags Íslands, sem miða að því að skjólstæðingur löglærðs lögráðamanns eða löglærðs ráðsmanns þurfi ekki að bera kostnaðinn af málarekstri sem lögráðamaðurinn eða ráðsmaðurinn stendur sjálfur í fyrir hönd síns skjólstæðings. Væri viðkomandi ekki löglærður kæmi til skoðunar að dómari skipi sóknaraðila sérstakan talsmann og að þóknun hans greiðist úr ríkissjóði. Lögráðamenn og ráðsmenn eiga almennt að þekkja vel til aðstæðna skjólstæðings síns og ef þeir eru löglærðir að auki, þykja þeir betur til þess fallnir að flytja mál síns skjólstæðings heldur en að honum verði skipaður sérstakur talsmaður. Við þessar aðstæður greiðist hins vegar þóknun löglærðs lögráðamanns eða ráðsmanns af eignum hins svipta, sbr. þegar sóknaraðila er skipaður sérstakur talsmaður en þá greiðist kostnaðurinn úr ríkissjóði. Til að gæta samræmis þykir rétt að kostnaður vegna talsmanns greiðist úr ríkissjóði, óháð því hvort talsmaðurinn sé fyrir lögráðamaður eða ráðsmaður viðkomandi eður ei.

Um 11. gr.

    Í a-lið eru lagðar til breytingar á 1. og 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna sem fjalla um skilyrði þess að vista megi sjálfráða einstakling nauðugan í sjúkrahúsi. Er lagt til að læknir geti heimilað að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann þjáist af einkennum geðröskunar sem er á þeim tíma þess eðlis eða svo alvarleg að nauðsynlegt telst, vegna heilsu, öryggis eða ríkra hagsmuna hans sjálfs eða öryggis annarra, að hann fái viðeigandi læknismeðferð á viðkomandi sjúkrahúsi og sýnt þykir að meðferðin geti ekki verið veitt nema með nauðungarvistun. Horfið er frá því að binda heimildina við að einstaklingur sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur séu taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Þá er jafnframt lagt til að áfengisfíkn eða ofnautn ávana- og fíkniefna verði fjarlægt úr ákvæðinu, enda falli sjúkdómarnir undir skilgreininguna á „geðröskun“ í alþjóðlegum sjúkdómsflokkunum ICD-10 og DMS-5. Sjá nánari umfjöllun í skýringum við 1. gr. frumvarpsins. Er breytingunni jafnframt ætlað að tryggja að greining geðsjúkdóms ein og sér geti ekki réttlætt frelsissviptingu eða nauðungarvistun, heldur þurfi ákvörðunin að byggjast á læknisfræðilegu mati á ástandi einstaklings, velferð hans og öryggi og/eða eftir atvikum öryggi annarra.
    Heimild til nauðungarvistunar er fyrst og fremst í þágu einstaklings sem er metinn í bráðri hættu, bæði bráðri hættu, t.d. vegna sjálfsvígsáforma eða eftir sjálfsvígstilraun, en einnig hættu sem getur greinilega skapast af atferlistruflun, ógnandi hegðun eða alvarlegri vanrækslu grunnþarfa þegar einstaklingur er kominn með alvarleg einkenni geðrofs eða örlyndis (maníu). Sem dæmi má einnig nefna að heimild til nauðungarvistunar getur t.d. átt við um einstakling sem haldinn er djúpri geðlægð eða glímir við alvarlegt þunglyndi og er jafnvel metinn í alvarlegri sjálfsvígshættu vegna áleitinna sjálfsvígshugmynda og áforma í þeim efnum, þótt geðrofseinkenni séu ekki til staðar. Slíkar geðlægðir eru almennt annaðhvort hluti af einskauta þunglyndi (e. unipolar depression), sem oft er endurtekið og alvarlegt, eða hluti af geðhvörfum (e. bipolar depression). Heimildinni er ætlað að tryggja einstaklingi nauðsynlega meðferð við öruggar aðstæður ef önnur vægari úrræði þykja fullreynd eða ekki koma til greina. Ákvæðinu er jafnframt ætlað að taka til einstaklings sem er ekki aðeins talinn vera hættulegur sjálfum sér heldur einnig öðrum. Auk framangreindra sjónarmiða koma til skoðunar athugasemdir um 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 á því hvenær aðstæður réttlæta nauðungarvistun. Með breytingunum sem hér eru lagðar til er m.a. verið að bregðast við ábendingum fagaðila og úrskurði Landsréttar frá 25. nóvember 2021 í máli nr. 692/2021, sem virðist þrengja skilyrði nauðungarvistunar umfram það sem telst eðlilegt með hliðsjón af tilgangi ákvæðisins. Um nánari skýringu á hugtakinu „geðröskun“ er vísað til athugasemda um 1. gr. þessa frumvarps.
    Í b-lið er lagt til að við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem mælir fyrir um að nauðungarvistun í allt að 72 klukkustundir hefjist um leið og sjálfráða maður er færður nauðugur á sjúkrahús og að það skuli skráð í sjúkraskrá. Með því er verið að bregðast við ábendingum geðlækna um mikilvægi þess að skýrt sé kveðið á um upphafstíma nauðungarvistunar, þótt henni kunni að verða aflétt á sjúkrahúsinu að loknu frekara mati meðferðarlæknis. Með þessari breytingu er einstaklingnum gert kleift að afla staðfestingar úr sjúkraskrá um vistunina og um leið gert eftir atvikum kleift að bera ákvörðunina undir dómstóla og fá úr því skorið hvort beiting nauðungar við flutning einstaklings úr heimahúsi á sjúkrahús hafi verið byggð á málefnalegum forsendum og framkvæmd í samræmi við ákvæði laganna. Ellegar er hætt við að ekkert sé skráð um upphaf nauðungar og málsatvik í heimahúsi, yrði nauðungarvistuninni aflétt við komu í sjúkrahús.
    Í c-lið eru lagðar til breytingar á 2. málsl. 4. mgr., með það að markmiði að eyða vafa um hvernig standa skuli að því að flytja einstakling nauðugan á sjúkrahús. Lögreglu er áfram gert skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við flutninginn en breytingin felur í sér að læknirinn þarf ekki að fylgja einstaklingnum nema hann telji það eðlilegt eða nauðsynlegt vegna aðstæðna einstaklingsins. Með breytingunni er verið að bregðast við ábendingum geðlækna um að þá skorti þekkingu á sviði öryggisgæslu og ættu af þeirri ástæðu ekki að koma að slíkri gæslu í lögreglubifreið nema þeir sjálfir meti slíkt nauðsynlegt vegna heilsu sjúklings.

Um 12. gr

    Með ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar á 20. gr. laganna til áréttingar á því hvaða sveitarfélag getur krafist nauðungarvistunar. Breytingin er sambærileg þeirri sem fram kemur í 3. gr. frumvarpsins um breytingu á 2. mgr. 7. gr. laganna, vegna aðildar að lögræðissviptingarmáli. Í stað þess að vísa til þess að félagsþjónusta sveitarfélaga eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila geti lagt fram beiðni um nauðungarvistun, er lagt til að notað verði orðið sveitarfélag þar sem varnaraðili hefur fasta búsetu. Með breytingunni er komið til móts við ábendingu sem borist hefur frá Reykjavíkurborg um að réttara sé að vísa til þess sveitarfélags sem stendur að beiðni um nauðungarvistun fremur en að tilnefna sérstakt svið eða deild innan sveitarfélagsins. Ef kemur að því að ákvörðun um nauðungarvistun verði kærð til dómstóla sé sveitarfélagið eitt bært til að eiga aðild að dómsmálum en ekki svið eða deildir innan sveitarfélaga.
    Hins vegar eru lagt til að orðinu „dvalarstaður“ verði skipt út fyrir „föst búseta“ en ekki er um að ræða efnislegar breytingar á aðildarreglum ákvæðisins. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.


Um 13. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til þrjár breytingar á 21. gr. laganna.
    Í a-lið er lögð til orðalagsbreyting sem felst í því að skipta út orðinu „dvalarstaður“ fyrir orðin „föst búseta“ í b-lið 2. mgr. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.
    Í b-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar til áréttingar á núverandi framkvæmd við útgáfu læknisvottorðs. Mikilvægt þykir fyrir sýslumann að byggja ákvörðun um nauðungarvistun á nýjum upplýsingum sem endurspegla sem best raunverulega stöðu einstaklingsins og mikilvægi nauðungarvistunar á þeim tíma þegar beiðnin er lögð fram.
    Læknisvottorðið sem beiðni um nauðungvistun byggist á má eins og áður segir ekki vera eldra en þriggja daga þegar það berst sýslumanni, nema sérstakar aðstæður komi upp. Dvelji einstaklingur sem beiðni um nauðungarvistun lýtur að á sjúkrahúsi samkvæmt ákvörðun læknis, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna, er lagt til að gerðar séu strangari kröfur til uppruna læknisvottorðsins með því að mæla fyrir um að það skuli gefið út af lækni sem er óháður fyrri meðferð sjúklingsins. Er breytingunni ætlað að tryggja betur réttaröryggi einstaklinga sem eru nauðungarvistaðir, enda á nauðungarvistun að vera algjört neyðarúrræði ef önnur og vægari meðferð er ekki talin ná tilætluðum árangri. Mikilvægt sé því að tryggja að læknirinn sé óháður fyrri meðferð sjúklings þannig að hlutleysis sé gætt við mat á nauðsyn áframhaldandi vistunar. Með þessu er komið til móts við ábendingar frá CPT-nefndinni um mikilvægi þess að sjálfstæði og hlutleysi þeirra sem að málinu koma sé tryggt, auk óháðrar læknisfræðilegrar sérþekkingar. Nefndin hefur beint þeim tilmælum til íslenskra yfirvalda að tryggja að ávallt sé leitað álits geðlæknis sem sé óháður sjúkrahúsinu þar sem hinn nauðungarvistaði dvelur þegar nauðungarvistun er framlengd. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna heimsóknar hans á bráðageðdeild 32C á Landspítala vegna OPCAT-eftirlits hans, er einnig vikið að mikilvægi þess að sýslumaður leggi sjálfstætt mat á þær upplýsingar sem koma skulu fram í beiðni um nauðungarvistun og þeim gögnum sem henni eigi að fylgja. Þannig sé miðað við að sýslumaður leggi sjálfstætt mat á upplýsingar sem fram koma í beiðni um nauðungarvistun, svo sem um ástæður vistunar, en að auki upplýsingar í læknisvottorði um andlegt og líkamlegt ástand hlutaðeigandi og sjúkdómsgreiningu læknis, ef unnt er. Telur umboðsmaður að vandséð sé hvernig endurskoðun á slíkum upplýsingum og gögnum eigi að geta farið fram án aðkomu óháðra sérfræðinga með tilskilda þekkingu á sviði geðlækninga. Við samningu frumvarps þessa var upphaflega mælt fyrir um að vottorðin yrðu að vera útgefin af tveimur læknum og að annað þeirra yrði að stafa frá lækni sem væri að minnsta kosti óháður því sjúkrahúsi þar sem einstaklingurinn er vistaður. Meðan frumvarpið var til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda mættu tillögur frumvarpsins um tvö læknisvottorð hins vegar talsverðri gagnrýni sem nánar er fjallað um í 5. kafla. Með hliðsjón af þeim umsögnum og nánari skýringum í 5. kafla þykja breytingarnar sem lagðar eru til í b-lið 13. gr. frumvarpsins á 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna ná því markmiði sem að er stefnt og bent hefur verið á að sé ófullnægjandi samkvæmt CPT-nefndinni og umboðsmanni Alþingis.
    Í c-lið er lögð til breyting á f-lið 3. mgr. um aukinn rökstuðning læknis fyrir því að nauðungarvistun teljist óhjákvæmileg. Lagt er til að yfirlýsingin fjalli um ástæður nauðungarvistunar, þar á meðal mat læknis á nauðsyn vistunar með hliðsjón af heilsu og öryggi einstaklings eða annarra af því að hann fái ekki viðeigandi læknismeðferð á sjúkrahúsi. Einnig felur breytingin í sér þá auknu skyldu á lækni að hann meti hvaða vægari úrræði í formi aðstoðar eru í boði og hvers vegna þau teljast þá vera fullreynd eða hvort þau teljast vera þýðingarlaus með hliðsjón af ástandi einstaklings. Með ákvæðinu er gerð sú krafa að læknir geri sérstaklega grein fyrir niðurstöðu matsins í læknisvottorði.

Um 14. gr.

    Í a-lið er lagt til að nýr málsliður bætist við 1. mgr. 29. gr. laganna, sem tekur af allan vafa um að fjarvera einstaklings sem sætir nauðungarvistun á sjúkrahúsi hafi ekki áhrif á hámarkslengd vistunar. Með ákvæðinu er brugðist við ábendingum Landspítalans um óvissuna sem uppi er ef sjúklingur strýkur af sjúkrahúsi. Ekki þykir rétt að tímabundin fjarvera meðan á vistun stendur eigi að hafa þær afleiðingar að nauðungarvistun verði aflétt, enda eigi slík ákvörðun að byggjast í grunninn á læknisfræðilegu mati á aðstæðum einstaklingsins en ekki tímabundinni fjarveru. Tekur ákvæðið einnig til þeirra aðstæðna þegar einstaklingur hefur fengið leyfi læknis fyrir útiveru, sbr. nýtt ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna, en við þær aðstæður hefur fjarveran ekki áhrif á hámarkslengd nauðungarvistunar.
    Í b-lið er lagt til að við bætist ný málsgrein sem heimilar yfirlækni eða geðlækni sem starfar í hans umboði að ákveða að nauðungarvistun skuli fara fram með rýmkun. Ákvæðið mælir þannig fyrir um að læknir geti veitt einstaklingi sem sætir nauðungarvistun leyfi meðan á vistuninni stendur, í eitt eða fleiri skipti, til að yfirgefa sjúkrahús án þess að það hafi áhrif á nauðungarvistunina. Ákvæðið miðar að því að læknirinn ákveði hvernig leyfið verður útfært, svo sem hvað varðar fjölda skipta og tímalengd útivistar og hvort starfsmaður sjúkrahúss skuli fylgja einstaklingi í leyfi. Þá er jafnframt áréttað að leyfið skuli skráð í dagál læknis. Um er að ræða sambærilega rýmkun og mælt er fyrir um í 29. gr. a laganna, sem kom inn í lögin með 17. gr. laga nr. 84/2015. Um nánari skýringar vísast til athugasemda um 17. gr. frumvarps er varð að þeim lögum.
    Með ákvæðinu er brugðist við ábendingum sem komu frá geðlækni og Landspítalanum meðan frumvarpið var til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Rétt þykir að benda á að víðsvegar í lögræðislögum er gert ráð fyrir aðkomu yfirlæknis að málum einstaklinga. Þótt ekki sé kveðið skýrt á um það í öllum tilfellum, liggur sá skilningur til grundvallar ákvæðunum að þau taki ekki eingöngu til yfirlæknis heldur jafnframt geðlæknis sem starfar í hans umboði. Ljóst þykir að sérfræðingar eða geðlæknar taka við hlutverki yfirlæknis meðan hann er frá störfum. Er sá skilningur lagður í ákvæði laganna og þykir ekki ástæða til að leggja til breytingar á umræddum ákvæðum til staðfestingar á framangreindum skilningi.

Um 15. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 29. gr. a laganna sem lúta að framlengingu nauðungarvistunar.
    Í a-lið er mælt fyrir um breytingu á 3. máls. 1. mgr. til áréttingar á því undir hvaða dómstól skuli leggja fram kröfu um framlengingu nauðungarvistunar í allt að 12 vikur, sem kæmi í framhaldi af nauðungarvistun í allt að 21 dag samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Í 5. mgr. 29. gr. a er vísað til ákvæðis 9. gr. gildandi lögræðislaga um varnarþing í lögræðissviptingarmálum þar sem segir að varnarþing skuli vera í þinghá þar sem varnaraðili á lögheimili. Ef hann hefur fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er, skuli bera fram kröfu í þeirri þinghá. Þar sem einstaklingur sem er nauðungarvistaður í sjúkrahúsi dvelst þar gegn vilja sínum, er almennt um að ræða skammtímavistun sem ekki telst vera tímabundið úrræði samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, þar á meðal föst búseta. Er breytingin lögð til í þeim tilgangi að taka af allan vafa um hvar mál skuli borið upp við þessar aðstæður.
    Í b-lið er tillaga um nánara efni yfirlýsingar læknis sem þarf að fylgja kröfu um framlengingu nauðungarvistunar. Yfirlýsingin þarf annars vegar að bera með sér að læknirinn hafi framkvæmt mat á þeim úrræðum í formi aðstoðar sem koma til greina í tilfelli einstaklingsins og að vægari úrræði séu fullreynd eða þyki bersýnilega þýðingarlaus í hans tilfelli. Umfjöllun um tilraun læknis til að ná samkomulagi við einstaklinginn um áframhaldandi meðferð ef þörf krefði er liður í þessu mati læknis og því þarf að auki að gera grein fyrir henni í yfirlýsingunni. Hins vegar þarf yfirlýsingin að bera með sér að læknirinn hafi framkvæmt heildstætt mat á högum einstaklingsins og komist að þeirri niðurstöðu að framlenging nauðungarvistunar sé nauðsynleg vegna öryggis einstaklingsins sjálfs eða annarra, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um fyrri meðferð viðkomandi og að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem fram koma í 2. mgr. 19. gr. laganna. Einnig skal fylgja vottorð gefið út af óháðum lækni, þ.e. öðrum en þeim sem annast hefur meðhöndlun sjúklings eftir innlögn, og eftir atvikum önnur gögn sem krafa styðst við. Í b-lið er jafnframt að finna tillögu sem er sambærileg tillögu sem fram kemur í 13. gr. frumvarpsins um að læknirinn sem gefur út vottorðið þurfi að vera óháður þannig að mat hans endurspegli ekki afstöðu þess læknis sem hefur meðhöndlað sjúklinginn eftir innlögn. Mikilvægt þykir að dómari fái greinargóða yfirsýn um þá meðferð sem einstaklingurinn hefur hlotið og að hann geti á grundvelli fyrirliggjandi gagna endurskoðað mat lækna um nauðsyn áframhaldandi nauðungarvistunar. Vegna þessa eru framangreindar breytingar lagðar til á ákvæði 2. mgr. 29. gr. a lögræðislaga.
    Í c-lið er lögð til orðalagsbreyting á 4. mgr. til áréttingar á því að heimild til að framlengja nauðungarvistun í allt að 21 dag, sem sýslumaður hefur samþykkt, eigi einnig við ef lögð hefur verið fram krafa fyrir dómi um framlengingu nauðungarvistunar í allt að 12 vikur. Þá á framlenging nauðungarvistunar vegna kröfu sem gerð er fyrir dómi um sviptingu sjálfræðis jafnframt áfram við. Með orðalagsbreytingunum er brugðist við ábendingu frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, um að dómari skuli án tafar tilkynna yfirlækni á sjúkrahúsi þar sem einstaklingurinn er vistaður um að krafa sé komin fram um framlengingu nauðungarvistunar eða sviptingu sjálfræðis og hvenær hún barst dóminum.

Um 16. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 3. mgr. 30. gr. laganna. Í a-lið er lagt til að bætt verði við nýjum málslið á undan 1. málsl., um að sá sem leggi fram kröfu skv. 30. gr. teljist vera sóknaraðili máls fyrir dómstólum og að yfirlæknir á hlutaðeigandi sjúkrahúsi teljist þá vera varnaraðili málsins. Breytingin er lögð til í samræmi við ábendingar Dómstólasýslunnar um að rétt sé að taka af allan vafa og hafa þetta skýrt í lögunum, enda sé enginn annar en yfirlæknir á viðkomandi sjúkrahúsi fær um að svara fyrir áframhaldandi nauðungarvistun eða þvingaða lyfjameðferð sjúklings. Vegna framangreindrar viðbótar við 3. mgr. þykir jafnframt rétt að leggja til í b-lið breytingar á gildandi 1. málsl. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í c-lið er lagt til að vísað verði til 27. gr. laganna til áréttingar á því að ráðgjafinn sem 3. mgr. 30. gr. vísar til sé sá sami og starfar eftir ákvæðum 27. gr. laganna vegna nauðungarvistunar á sjúkrahúsi. Þrátt fyrir að athugasemdir um 27. gr. frumvarps er varð að lögræðislögum nr. 71/1997 vísi til þess að um sama ráðgjafa sé að ræða, þykir rétt að eyða öllum vafa með tilvísun í ákvæðið. Mikilvægt þykir að nauðungarvistaður maður njóti ráðgjafar og stuðnings sérstaks og hlutlauss fagaðila meðan á nauðungarvistuninni stendur og að sami aðili geti eftir atvikum aðstoðað hann við kröfugerð skv. 30. gr. laganna. Ljóst þykir að ríkja þurfi traust milli ráðgjafans og hins nauðungarvistaða eigi ráðgjafi að geta sinnt starfi sínu á fullnægjandi hátt og því sé rétt að árétta í ákvæðinu að um sama ráðgjafa sé að ræða.

Um 17. gr.

    Lagt er til að við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein sem fjallar um tilkynningarskyldu dómara gagnvart sýslumanni og yfirlækni í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um nauðungarvistun eða framlengingu hennar. Niðurstaða dómara varðar þá aðila sem komið hafa að máli, þ.e. sjúkrahúsið sem á í hlut og sýslumann, og því þykir mikilvægt að mæla fyrir um þá skyldu dómara að senda sýslumanni og yfirlækni viðkomandi deildar á sjúkrahúsi staðfest eintak úrskurðar svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en innan sólarhrings. Hafi úrskurðurinn verið kærður til Landsréttar skal rétturinn upplýsa sýslumann og yfirlækni um niðurstöðu úrskurðar ásamt því að senda héraðsdómara málsins staðfest eintak af úrskurði. Með þessari breytingu er brugðist við ábendingu sem barst m.a. frá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu, um að ekki sé gætt nægilega vel að því af hálfu dómstóla að upplýsa framangreinda aðila um lyktir mála. Þá hafi jafnframt verið uppi óvissa um skyldur Landsréttar í þeim efnum sem rétt þykir að eyða með þessari breytingu.

Um 18. gr.

    Með a-lið eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 34. gr. laganna til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins, um að miða skuli við lögheimili og fasta búsetu en ekki lögheimili og dvalarstað sem varnarþing málsaðila. Vísast til umfjöllunar í kafla 5.4 til nánari skýringa.
    Með b-lið er lagt til að nýjum staflið verði bætt við í 2. mgr., sem fjallar um þau atriði sem fram eiga að koma í umsókn einstaklings um skipun ráðsmanns. Skv. 33. gr. lögræðislaga nýtur fjárráða einstaklingur, sem á óhægt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, þess réttar að óska eftir að honum verði skipaður ráðsmaður, enda geri hann sér grein fyrir þýðingu þeirrar ráðstöfunar. Í stafrænu pósthólfi á Ísland.is eru birt ýmis gögn sem geta haft mikilvæg réttaráhrif fyrir einstakling sem á sömuleiðis vegna veikinda eða fötlunar erfitt með að fylgjast með birtum gögnum og bregðast við þeim. Til að koma í veg fyrir að einstaklingur sem óskað hefur eftir skipun ráðsmanns þurfi að auki að veita viðkomandi ráðsmanni aðgang að gögnum í miðlægu þjónustugáttinni á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021, er hér lagt til að viðkomandi geti aukalega með umsókninni óskað eftir því að ráðsmanni verði veittur aðgangur að gögnum í pósthólfinu með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2021. Kjósi einstaklingur að nýta sér þessa heimild, yrði þess getið í skipunarbréfi ráðsmanns í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á 35. og 39. gr. lögræðislaga, sbr. a-lið 19. gr. og b-lið 21. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Í a-lið er lagt til að ný málsgrein bætist við 35. gr. laganna sem heimilar að ráðsmanni verði falið að hafa aðgang að gögnum sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur. Um nánari skýringar vísast til skýringa við b-lið 18. gr.
    Þar sem fyrirsögn 35. gr. lögræðislaga er „Eignir sem afhentar verða ráðsmanni til umsjónar“ þykir rétt að leggja til í b-lið að fyrirsögn ákvæðisins verði breytt þannig að aðgangur að gögnum í pósthólfi í miðlægri þjónustugátt rúmist innan greinarinnar. Með breyttri fyrirsögn 35. gr. laganna verður unnt að telja upp í 1. mgr. þær eignir sem ráðsmanni er falin umsjón með ásamt því að bæta við öðru sem ráðsmanni verður falin umsjón með í öðrum málsgreinum, sbr. breytingatillögu a-liðar.

Um 20. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til orðalagsbreyting til samræmis við aðrar breytingar á lögræðislögum sem þjóna þeim tilgangi að árétta varnarþing á grundvelli laganna. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.

Um 21. gr.

    Í a-lið er lögð til orðalagsbreyting á 4. mgr. 39. gr. laganna til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til á lögræðislögum og varða varnarþingsreglur. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.
    Í b-lið er lögð til breyting á d-lið 4. mgr. 39. gr. laganna sem leggur þá skyldu á herðar yfirlögráðanda að taka afstöðu til óskar umsækjanda um að fela ráðsmanni aðgang að gögnum sem pósthólf í miðlægri gátt inniheldur. Að öðru leyti vísast til skýringa við b-lið 18. gr.

Um 22. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til þríþættar breytingar á 40. gr. lögræðislaga, í samræmi við aðrar breytingatillögur frumvarpsins. Með a-lið er lögð til sú breyting á 2. málsl. 1. mgr. að yfirlögráðandi hætti að senda ráðuneytinu staðfest endurrit skipunarbréfs ráðsmanns. Um nánari skýringar vísast til 9. gr. frumvarpsins. Með b-lið er lögð til sú breyting að yfirlögráðandi hlutist til um að breytingalás verði skráður á ökutæki í ökutækjaskrá, sem ráðsmanni hefur verið falin umsjón með samkvæmt skipunarbréfi. Um skýringar þess vísast til d-liðar 7. gr. frumvarpsins. Að lokum er lagt til í c-lið að 3. mgr. verði felld brott þar sem samhliða er lagt til að hlutverk Þjóðskrár skv. 6. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 57. gr. lögræðislaga verði fellt undir hlutverk yfirlögráðenda að halda málaskrá skv. 3. mgr. 82. gr. laganna, sbr. 40. gr. þessa frumvarps. Um nánari skýringar vísast til 40. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting á tilvísun til 60. gr. laganna vegna nýrrar málsgreinar sem lagt er til að bætist við greinina, sbr. 32. gr. frumvarpsins. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
    Með 39. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri grein verði bætt við lögin, 81. gr. a, sem varðar eftirlit yfirlögráðanda með lögráðamanni. Með b-lið 23. gr. frumvarpsins er lagt til að við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein sem vísar til þess að um eftirlit yfirlögráðanda með ráðsmanni gilda eftir því sem við á ákvæði 81. gr. a laganna. Ljóst þykir að í grunninn gilda sömu sjónarmið um eftirlit yfirlögráðanda með lögráðamanni og ráðsmanni. Um er að ræða sambærilegar skýrslur sem þessir aðilar þurfa að skila yfirlögráðanda og þyki skýrsluskilin ófullnægjandi leiða þau til sambærilegra viðbragða af hálfu yfirlögráðanda. Þá kann yfirlögráðandi jafnframt að þurfa að bregðast við ábendingum sem honum kunna að berast um störf framangreindra aðila og því er mikilvægt um leið að tryggja honum fullnægjandi heimildir til að kalla eftir gögnum frá öðrum aðilum svo hann geti sinnt eftirlitinu á fullnægjandi hátt. Í 4. mgr. 81. gr. a laganna er jafnframt áréttað að 1.–3. mgr. greinarinnar eigi við um eftirlit yfirlögráðanda með ráðsmönnum, eftir því sem við á.


Um 24. gr.

    Með c-lið 22. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 84/2015 um breytingu á lögræðislögum, var gerð sú breyting á 3. mgr. 63. gr. laganna að skýrsluskil lögráðamanns fjárræðissvipts manns skyldu fara fram fyrir 1. apríl ár hvert í stað 1. mars. Í athugasemdum um ákvæðið kemur fram að breytingin hafi verið lögð til þar sem ekki væri opnað fyrir framtalsskil einstaklinga fyrr en á fyrstu dögum marsmánaðar ár hvert. Þar sem nauðsynlegt sé að skattframtöl fjárræðissviptra fylgi skýrslum lögráðamanna, þótti rétt að færa skýrsluskilin aftur um mánuð. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur bent á að tímamarkið 1. apríl sé heppilegra fyrir öll skýrsluskil, hvort sem um ræðir skil ráðsmanns skv. 1. mgr. 45. gr. laganna eða lögráðamanns þess sem er ófjárráða fyrir æsku sakir, sbr. 1. mgr. 63. gr. laganna. Er því lagt til að dagsetningunum verði breytt úr 1. mars í 1. apríl fyrir öll skýrsluskil á grundvelli lögræðislaga.

Um 25. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til sambærilegar breytingar og gerðar eru á 4. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 40. gr. laganna, og fela í sér að hætt verði að senda ráðuneytinu gögn sem snúa að skipuðum lögráðamönnum og ráðsmönnum, enda sé samhliða lagt til að yfirlögráðendur taki að sér að halda skrá um þau atriði. Um nánari skýringar vísast til skýringa við framangreind ákvæði frumvarpsins og 40. gr. þess.

Um 26. gr.

    Í a- og b-lið lið er lögð til breyting á 2. og 3. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna til samræmis við aðrar breytingatillögur frumvarpsins, um að skipta föstum dvalarstað út fyrir fasta búsetu. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.
    Í b-lið er j lögð til breyting á 3. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna er byggist á breyttu heiti sýslumannsembætta vegna sameiningar þeirra 1. janúar 2015, við gildistöku laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014.

Um 27. gr.

    Mælt er fyrir um að ákvæði sem fram kemur í 1. mgr. 54. gr. laganna, þess efnis að skipaður lögráðamaður megi ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem fjallar um kynferðisbrot, verði fellt brott. Með því að fella brott tilvísun í XXII. kafla almennra hegningarlaga mæli ákvæðið fyrir um að hinn skipaði lögráðamaður megi ekki hafa gerst brotlegur við almenn hegningarlög, en ekki einstaka kafla laganna.
    Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna var nýmæli sem lögfest var með 20. gr. laga nr. 84/2015 um breytingu á lögræðislögum, en með því voru samþykktar auknar kröfur til þeirra sem skipaðir eru lögráðamenn. Var breytingin liður í því að gera ríkar siðferðiskröfur til skipaðra lögráðamanna. Eins og fram kemur í athugasemdum um 20. gr. frumvarpsins (þskj. 1161, 687. mál, 144. löggjafarþing 2014–2015) var þar með ekki útilokað að önnur brot gætu einnig komið í veg fyrir að einstaklingur yrði skipaður lögráðamaður, enda segir í lögunum að hann skuli vera ráðvandur og ráðdeildarsamur. Með því að vísa hins vegar sérstaklega til XXII. kafla almennra hegningarlaga eins og nú er gert, er hætt við að aðrir kaflar laganna og önnur hegningarlagabrot lúti í lægra haldi við mat á hæfi einstaklings til að verða skipaður lögráðamaður. Með því að fella nú brott tilvísun í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga er verið að leggja áherslu á að auk kynferðisbrota geti önnur brot gegn almennum hegningarlögum einnig komið í veg fyrir að einstaklingur verði skipaður lögráðamaður. Við skipun lögráðamanns verði þannig að líta heildstætt á mál einstaklings og leggja mat á það hvaða brot viðkomandi gegn almennum hegningarlögum eigi að útiloka að hann verði skipaður lögráðamaður, að teknu tilliti til aðstæðna hins svipta og atvika að öðru leyti. Þannig er lagt til að það falli í hlut yfirlögráðanda að meta hvort brot viðkomandi geti haft áhrif á hæfi hans til að gegna starfinu, óháð tegund, umfangi og tíma brotsins, og að yfirlögráðandi hafni því að skipa viðkomandi lögráðamann telji hann hættu á að viðkomandi muni ekki sinna starfsskyldum lögráðamanns skv. 60. gr. laganna á fullnægjandi hátt.

Um 28. gr.

    Hér er lögð til breyting á 3. mgr. 55. gr. laganna um það hverjum yfirlögráðandi skuli gefa kost á að tjá sig um val á lögráðamanni áður en skipun lögráðamanns fer fram. Í gildandi ákvæði er kveðið á um að maka eða sambúðarmaka einstaklings, sem sviptur er lögræði, skuli veitt færi á að tjá sig um val á lögráðamanni. Hér er lagt til að ákvæðið verði víkkað til samræmis við ábendingu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmd yfirlögráðenda. Hafi hún verið þannig að börnum hins svipta og eftir atvikum foreldrum hans hafi að jafnaði verið gefinn kostur á að tjá sig um val á lögráðamanni, eða þeim sem tilgreindir eru í f-lið 1. mgr. 8. gr. laganna.
    Með breytingunni er að auki verið að bregðast við ábendingum sem borist hafa ráðuneytinu, m.a. frá umboðsmanni Alþingis, um að gildandi ákvæði sé of þröngur stakkur sniðinn ef t.d. hinn svipti er ófær um að tjá vilja sinn og maka eða sambúðarmaka er ekki treystandi til að fara með lögráð viðkomandi svo sem vegna mögulegra hagsmunaárekstra. Meðal annars hafa aðstandendur, aðrir en maki eða sambúðarmaki, t.d. börn, bent á að sanngjarnt geti verið að þeim sé gefinn kostur á að tjá sig um val á lögráðamanni. Í frumvarpinu er horft til þess að upplýsingar um maka hins svipta eða sambúðarmaka, lögráða barna hans og foreldra eigi að liggja fyrir í kröfu um lögræðissviptingu og þannig ættu upplýsingarnar að vera aðgengilegar yfirlögráðanda, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. lögræðislaga. Raunhæft þykir að ætla yfirlögráðanda að hafa upp á framangreindum aðilum, enda komi þær upplýsingar fram í kröfu um lögræðissviptingu og eftir atvikum í úrskurði héraðsdómara sem berst yfirlögráðanda í kjölfar sviptingar skv. 3. mgr. 14. gr. laganna. Auk þess að tryggja að fleiri hafi kost á því að tjá sig um val á lögráðamanni, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna, er þeim sem eru nákomnir hinum svipta tryggður réttur til að koma ábendingum um störf lögráðamanns á framfæri við yfirlögráðanda. Samkvæmt nýju ákvæði 2. mgr. 81. a laganna ber yfirlögráðanda að rannsaka málið eftir því sem hann telur tilefni til og tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöðu athugunarinnar. Mikilvægt þykir að taka fram að með þessum breytingum er ekki verið að breyta aðildarreglum stjórnsýslumála hjá yfirlögráðanda. Þannig njóti fjölskyldumeðlimir hins svipta ekki aðildar að þeim málum eins og verið hefur.

Um 29. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 56. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um ákvörðun um skipun lögráðamanns.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar til samræmis við aðrar breytingatillögur frumvarpsins, um að dvalarstað verði skipt út fyrir fasta búsetu. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 5.4.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í b- og c-lið á 1. og 2. málsl. c-liðar 1. mgr. taka mið af þeirri breytingu sem gerð var á lögræðislögum með lögum nr. 84/2015, þegar ótímabundnar sviptingar einstaklinga voru aflagðar. Þarfnast ákvæðin ekki frekari skýringar.
    Í d-lið er lögð til breyting á 3. mgr. sem leiðir af breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 84/2015 um að einungis er nú heimilt að svipta mann lögræði tímabundið. Er lagt til að skipun lögráðamanns vari fram að þeim tíma sem lögræðissviptingu lýkur, en þó ekki lengur en í fimm ár ef svipting hefur verið ákveðin til lengri tíma en það. Að binda hámarkstíma skipunar við fimm ár er m.a. liður í auknu eftirlitshlutverki yfirlögráðenda með skipuðum lögráðamönnum. Hafi einstaklingur verið sviptur til lengri tíma en fimm ára og fyrri lögráðamaður veitir samþykki sitt fyrir áframhaldandi skipun, mun yfirlögráðandi þurfa að yfirfara frammistöðu hans og hæfi til að gegna starfinu áfram, sbr. 54. gr. laganna, kalla eftir afstöðu hins svipta og gefa öðrum kost á að tjá sig um val á nýjum lögráðamanni, sbr. 55. gr. laganna, og í kjölfarið taka nýja ákvörðun um skipun lögráðamanns, sbr. 56. gr. laganna. Með þessu er betur tryggt að hinn svipti, maki eða sambúðarmaki og aðrir fjölskyldumeðlimir, fái að hafa skoðun á frammistöðu lögráðamanns og að koma afstöðu sinni á framfæri við yfirlögráðanda, ásamt því að tryggja að yfirlögráðandi geti brugðist við og skipað nýjan lögráðamann ef aðstæður þess fyrri hafa breyst frá því hann var upphaflega skipaður.

Um 30. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til sambærilegar breytingar og gerðar eru á 4. mgr. 16. gr., 1. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 47. gr. laganna og fela í sér að hætt verði að senda ráðuneytinu gögn sem snúa að skipuðum lögráðamönnum og ráðsmönnum, enda sé samhliða lagt til að yfirlögráðendur taki að sér að halda skrá um þau atriði. Um nánari skýringar vísast til skýringa við framangreind ákvæði frumvarpsins og 40. gr. þess.

Um 31. gr.

    Lagðar eru til breytingar á ákvæði 2. mgr. 58. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um heimild lögráðamanns sjálfræðissvipts einstaklings til að ákveða vistun skjólstæðings síns á stofnun gegn vilja hans. Í gildandi lögum er kveðið á um að þetta geti verið heimilt ef lífi eða heilsu hins svipta sé hætta búin að mati læknis. Lögð er til sú viðbót við gildandi 1. málsl. að heimildin geti einnig átt við ef öðrum geti stafað hætta af hinum svipta. Er tillagan í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á 2. mgr. 19. gr. laganna og fram kemur í 11. gr. frumvarpsins, sem vísar m.a. til þeirra hagsmuna sem úrræðinu er ætlað að vernda. Til að gæta samræmis í mati læknis er lagt til að hann hafi hliðsjón af skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laganna. Auk ástands hins svipta einstaklings, sem getur leitt til þess að lífi hans og heilsu sé hætta búin, getur ástand hans einnig verið þannig að öðrum stafi hætta af því og ber þá að taka tillit til þess ef alvarleiki þess reynist á því stigi að nauðsynlegt teljist að gera ráðstafanir vegna þess.
    Eins og fram kemur í athugasemdum um 2. mgr. 58. gr. laganna (þskj. 707, 410. mál, 121. löggjafarþing 1996–1997) taldi nefnd sú sem kom að setningu lögræðislaga, nr. 71/1997, að nauðsynlegt væri að hafa heimild í lögunum um að lögráðamaður gæti tekið ákvörðun um vistun lögræðissvipts einstaklings gegn vilja hans, enda eigi ákvæði III. kafla um nauðungarvistun aðeins við um þá sem eru sjálfráða. Ljóst sé þó að heimildin verði að sæta takmörkunum og að henni beri að beita með varúð. Enn fremur segir að um framkvæmd ákvörðunar fari skv. 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga og 25.–28. gr. eftir því sem við eigi.
    Jafnframt er lagt til að mat læknis byggist á nauðsyn þess að einstaklingurinn fái viðeigandi meðferð eða þjónustu á stofnun. Til þess að tryggja mannréttindasjónarmið sem best, hvað varðar meðferð þessara mála og réttindi einstaklings, er mikilvægt að fram hafi farið mat á því að viðkomandi úrræði sé nauðsynlegt þar sem sýnt þyki að meðferð geti ekki verið veitt með öðrum vægari úrræðum. Þá felst í breytingatillögunni að tilvísun sem nú er í 2. málsl., til laga um málefni fatlaðs fólks, falli brott enda mæla lögin ekki fyrir um vistun einstaklings á stofnunum sem ákvæðinu er ætlað að taka til.
    Að lokum er lögð til sú breyting á 3. málsl. 2. mgr. að við mat læknis skuli höfð hliðsjón af skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laganna. Hinn sjálfræðissvipti skal njóta aðstoðar og stuðnings ráðgjafa skv. 27. gr. og skal læknir tilkynna honum um það án tafar, nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans. Um skráningu í sjúkraskrá fer skv. 26. gr., eftir því sem við á. Þá er lagt til að lögráðamaður skuli tilkynna yfirlögráðanda um ákvörðun sína þegar í stað, á eyðublaði sem yfirlögráðandi leggur til skv. 8. mgr. 63. gr. laganna. Mikilvægt þykir að tryggja að yfirlögráðandi fái upplýsingar um vistun á þessum grundvelli án tafar þannig að hann geti betur sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart lögráðamanni og brugðist við ef ákvörðun þykir óeðlileg eða honum berast ábendingar þess efnis frá hinum svipta eða ráðgjafa hans skv. 27. gr. laganna. Með þeim breytingum sem gerðar eru á 3. mgr. 81. gr. laganna eru yfirlögráðanda jafnframt tryggðar heimildir til að afla frekari gagna frá lögráðamanni og lækni vegna ákvörðunar lögráðamanns um vistun á stofnun skv. 2. mgr. 58. gr. laganna og þannig er betur tryggt að yfirlögráðandi sé upplýstur um aðstæður hins svipta, og geti eftir atvikum beitt sér fyrir því að lögráðamaður hlutist nánar til um aðstæður hins svipta, sbr. 3. mgr. 60. gr. laganna.

Um 32. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ný málsgrein bætist við 60. gr. laganna, sem mælir fyrir um að lögráðamaður beri ábyrgð á gögnum hins svipta sem pósthólf í miðlægri þjónustugátt inniheldur. Er tillagan til áréttingar á hlutverki lögráðamanns skv. 4. mgr. 3. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021. Hvort sem einstaklingur er sviptur sjálfræði og/eða fjárræði og ræður af þeirri ástæðu ekki lengur yfir persónulegum högum sínum og/eða fé, þykir ljóst að gögn sem birt eru í pósthólfi viðkomandi kunni að varða bæði sjálfræði og fjárræði einstaklings sem mikilvægt þykir að lögráðamaður hafi aðgang að meðan á sviptingu stendur. Með ákvæðinu er lagt til að aðgát lögráðamanns með birtum gögnum í pósthólfi hins svipta verði meðal starfsskyldna hans.

Um 33. gr.

    Mælt er fyrir um breytingar á 63. gr. laganna sem tengjast skýrslugjöf lögráðamanns til yfirlögráðanda vegna ákvarðana um fjárhald og eignaumsýslu ófjárráða einstaklings og persónuhagi ósjálfráða einstaklings.
    Í a-lið er lagt til að tímamarkið sem fram kemur í 1. mgr., um það hvenær gefa skuli yfirlögráðanda skýrslu vegna einstaklings sem er ófjárráða fyrir æsku sakir, verði 1. apríl ár hvert í stað 1. mars. Með ákvæðinu er brugðist við ábendingum frá sýslumönnum um að dagsetningin 1. apríl falli betur að tímaramma skattframtala einstaklinga.
    Í b- og c-lið er lagt til að skýrslugjöf lögráðamanns til yfirlögráðanda skv. 1. mgr. miðist við að eignir hins ólögráða séu 1.500.000 kr. eða þar yfir í stað 1.000.000 kr. og að fjárhæðin miðist við vísitölu neysluverðs í janúar 2024 í stað 2016. Sambærileg tillaga kemur fram í e-lið er varðar tilkynningu lögráðamanns til yfirlögráðanda ef hinum ófjárráða áskotnast verðmæti. Með ákvæðunum er leitast við að samræma þessar fjárhæðir öðrum fjárhæðum sem lagðar eru til í 35. og 36. gr. frumvarpsins og varða eftirlit yfirlögráðanda og samráð lögráðamanns við yfirlögráðanda um varðveislu og ávöxtun eigna ófjárráða manns.
    Í d-lið er lögð til orðalagsbreyting á 1. málsl. 4. mgr., sem er fyrst og fremst ætlað að auka skýrleika ákvæðisins og tryggja betur eftirlit yfirlögráðanda, en ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Í e-lið er lagt til að heimildir yfirlögráðanda til að kalla eftir skýrslu frá lögráðamanni verði útvíkkaðar þannig að hann hafi ekki aðeins heimild til að krefjast hvenær sem er gagna vegna ráðstafana sem varða fjárhald hins svipta heldur jafnframt gagna um aðstæður hins svipta. Komi t.d. til vistunar einstaklings á stofnun skv. 2. mgr. 58. gr. laganna samkvæmt ákvörðun lögráðamanns, er ætlast til að yfirlögráðandi fylgist náið með aðstæðum hins svipta þannig að vistuninni verði aflétt ef aðstæður hans batna. Sömuleiðis kunna ábendingar að berast yfirlögráðanda um að aðstæður hins svipta hafi breyst frá því sviptingin var ákveðin, þannig að til skoðunar komi að krefjast niðurfellingar lögræðissviptingar skv. 15. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að yfirlögráðandi taki slíkar ábendingar til sérstakrar skoðunar skv. 2. mgr. 81. gr. a laganna, kalli eftir frekari gögnum skv. heimild í 3. mgr. 81. gr. laganna og gefi lögráðamanni eftir atvikum fyrirmæli um framkvæmd starfans skv. 3. mgr. 60. gr. laganna.
    Í f-lið er lagt til að nýr málsliður bætist við 8. mgr. Eins og ákvæðið hljóðar í dag, ber lögráðamanni einstaklings sem hefur verið sviptur sjálfræði í tvö ár að gefa yfirlögráðanda skýrslu um hagi viðkomandi að liðnum 12 mánuðum frá sviptingu. Hafi viðkomandi verið sviptur sjálfræði lengur en tvö ár, hvílir sú skylda á lögráðamanni að gefa yfirlögráðanda skýrslu um hagi hins svipta á 12 mánaða fresti. Mikilvægt þykir að bæta eftirlit yfirlögráðanda með ákvörðunum lögráðamanns skv. 58. gr. laganna, og þá sérstaklega ákvörðun skv. 2. mgr. um vistun sjálfræðissvipts einstaklings. Ekki þykir forsvaranlegt að allt að 12 mánuðir geti liðið frá því að tekin var ákvörðun um vistun á þeim grundvelli og þar til lögráðamaður upplýsir yfirlögráðanda um ákvörðunina. Þess vegna er lagt til að lögráðamaðurinn þurfi að standa skil á ákvörðun sinni gagnvart yfirlögráðanda án tafar á eyðublaði sem yfirlögráðandi leggur til. Þá er jafnframt með þeim breytingum sem lagðar eru til á 6. mgr. 63. gr. laganna gert ráð fyrir að yfirlögráðandi geti átt frumkvæðið að því að kalla eftir umræddri skýrslu frá lögráðamanni, hvenær sem yfirlögráðandi telur þörf á því. Er helst talið að beiting 6. mgr. komi til skoðunar hafi lögráðamaður vanrækt skyldur sínar til að gefa yfirlögráðanda skýrslu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr., og þegar ráðgjafi skv. 27. gr. hefur gert yfirlögráðanda viðvart um vistunina eða við endurskoðun yfirlögráðanda á tilefni vistunar viðkomandi.

Um 34. gr.

    Lagt er til að við 2. mgr. 64. gr. laganna bætist ákvæði um að yfirlögráðandi skuli gegna starfi lögráðamanns ef hann, að eigin frumkvæði, veitir skipuðum lögráðamanni lausn frá störfum, ef lögráðamaður brýtur gegn starfsskyldum sínum skv. 60. gr. eða hann gerist með öðrum hætti brotlegur í starfi. Ákvæðið á sér stoð í 52. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um að við sviptingu lögræðis hverfi lögráðin til yfirlögráðanda í því umdæmi sem hinn lögræðissvipti á lögheimili. Til skýringa vísast nánar til athugasemda um þá grein (þskj. 707, 410. mál, 121. löggjafarþing 1996–1997). Þó að ákvæðið sé nýmæli er ekki um eiginlega efnisbreytingu að ræða enda hefur verið litið svo á að þessi regla hafi gilt fram til þessa. Er breytingunni ætlað að taka af allan vafa um að yfirlögráðandi fari með lögráðin þar til nýr lögráðamaður hefur verið skipaður og þar með að árétta skyldur yfirlögráðanda í þeim efnum.

Um 35. gr.

    Í a-lið er lögð til sú breyting á 2. mgr. 67. gr. laganna að grunnfjárhæð á verðmæti eigna ófjárráða einstaklings, sem varðveita skal og ávaxta að höfðu samráði lögráðamanns og yfirlögráðanda, skuli hækka úr 500.000 kr. í 1.500.000 kr. Jafnframt er í b-lið lagt til að sú fjárhæð breytist árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í janúar ár hvert. Gert er ráð fyrir að yfirlögráðandi birti með tilstuðlan ráðuneytisins uppreiknaða fjárhæð á vef sýslumanna til að koma í veg fyrir misræmi í framkvæmd. Fjárhæðin hefur veri óbreytt frá gildistöku lögræðislaga 1. janúar 1998. Með lögum nr. 84/2015 voru sambærilegar grunnfjárhæðir sem fram koma í 1. og 3. mgr. 63. gr. laganna hækkaðar úr 500.000 kr. í 1.000.000 kr. og þær tengdar við vísitölu neysluverðs. Við sama tækifæri láðist að gera samsvarandi breytingar á 2. mgr. 67. gr. og 73. gr. laganna og hefur því verið misræmi milli þessara fjárhæða frá 1. janúar 2016. Er nú lagt til að það misræmi verði lagfært, sbr. einnig 36. gr. frumvarpsins, en til þess þarf að samræma bæði grunnfjárhæðir og viðmiðunardagsetningu vísitölu sem fram kemur í 63. gr. laganna, sbr. 33. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið er lagt til að ný málsgrein komi á eftir 5. mgr. 67. gr. laganna, sem mælir fyrir um skyldur lögráðamanns til að gefa ófjárráða einstaklingi kost á að tjá sig áður en ákvarðanir eru teknar um varðveislu og ávöxtun eigna viðkomandi. Með ákvæðinu er verið að árétta starfsskyldur lögráðamanns skv. 1. mgr. 60. gr. laganna, um að hann skuli hafa samráð við hinn ólögráða um framkvæmd starfa síns, eftir því sem við verður komið, nema um minni háttar ákvarðanir sé að ræða. Þykir ákvarðanataka um fyrirkomulag varðveislu og ávöxtun eigna ekki vera dæmi um minni háttar ákvörðun sem réttlætir að hinn svipti sé ekki hafður með í ráðum.

Um 36. gr.

    Breyting sú sem hér er lögð til á 1. mgr. 73. gr. laganna, að hækka grunnfjárhæð úr 500.000 kr. í 1.500.000 kr., varðandi tilkynningarskyldu til yfirlögráðanda þegar fjárgreiðsla er innt af hendi til lögráðamanns ófjárráða manns, sem er eign hins ófjárráða, er sambærileg við breytingu þá er fram kemur í 35. gr. frumvarpsins. Um skýringar með ákvæðinu vísast nánar til umfjöllunar um þá grein.

Um 37. gr.

    Lagt er til að við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein sem heimilar ráðherra að ákveða í reglugerð að verkefni sem yfirlögráðendum eru falin samkvæmt lögræðislögum verði á hendi eins yfirlögráðanda. Sýslumenn landsins fara með yfirlögráð, hver innan síns umdæmis, sbr. 80. gr. laganna. Verkefni yfirlögráðenda innan hvers umdæmis eru fjölbreytt og í grunninn þau sömu þótt fjöldi mála vegna sviptra einstaklinga, skipaðra ráðsmanna og fjárhalds barna sé mismunandi milli umdæma. Vegna þessa skapast minni tækifæri fyrir sérhæfingu hjá smærri sýslumannsembættum við framkvæmd starfans og um leið er hætt við að verkefnunum verði ekki sinnt með eins skilvirkum hætti og hjá stærri embættum. Með því að tryggja ráðherra heimild til að ákveða að verkefni yfirlögráðenda verði á hendi eins yfirlögráðanda er betur unnt að byggja upp faglega þekkingu á afmörkuðum verkefnum yfirlögráðenda, tryggja samfellu og samræmda málsmeðferð og um leið bæta skilvirknina við framkvæmd starfans. Á þetta sérstaklega við um hluta verkefnanna sem eru tiltölulega afmörkuð og þess eðlis að hægt er að sinna þeim hvar sem er, óháð staðsetningu einstaklingsins og starfsstöð yfirlögráðanda. Slíkum verkefnum væri hæglega hægt að safna saman á landsvísu og fela tilteknum yfirlögráðanda framkvæmd þeirra. Dæmi um verkefni af þessum toga er yfirferð skýrslna ráðsmanna og lögráðamanna til yfirlögráðanda um fjárhald og eignaumsýslu skjólstæðings, eftirfylgni með tilkynningum um að ófjárráða einstaklingi hafi áskotnast verðmæti og afgreiðsla beiðna lögráðamanna um samþykki yfirlögráðanda vegna ráðstöfunar á eign ófjárráða einstaklings, sbr. 69.–72. gr.
    Ákvæðið þykir styðja við þá stefnu sem mörkuð hefur verið fyrir starfsemi sýslumannsembættanna og birtist í skýrslu sem dómsmálaráðuneytið gaf út í mars 2021 og ber heitið „Sýslumenn – Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“ (þskj. 1043, 609. mál, 151. löggjafarþing 2020–2021). Eitt af meginmarkmiðum skýrslunnar er að skilgreina sýslumannsembættin sem eina þjónustustofnun með starfsemi á einu þjónustusvæði, þar sem nálgast má þjónustu embættanna hvar og hvenær sem er, allt eftir óskum og þörfum almennings. Heimild ráðherra til að fela einum yfirlögráðanda verkefni sem heyra í dag undir alla yfirlögráðendur þykir falla vel að framangreindri stefnu málaflokksins.

Um 38. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 3. mgr. 81. gr. laganna, sem varðar heimildir yfirlögráðanda til að afla upplýsinga og gagna frá öðrum í tengslum við eftirlit hans með lögráðamönnum og ráðsmönnum. Breytingarnar þjóna þeim tilgangi að bæta úr skýrleika vinnsluheimilda yfirlögráðenda. Með breytingunum er verið að gera ákvæðið ítarlegra en það er í gildandi lögum og skýrist það að hluta til af kröfum persónuverndarlaga. Með ákvæðinu er yfirlögráðanda gert heimilt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum og upplýsingum sem koma til skoðunar við mat á hæfi lögráðamanna og ráðsmanna til að sinna starfi sínu. Svo unnt sé að staðfesta að viðkomandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 54. gr. laganna, er mælt fyrir um að yfirlögráðanda sé heimilt að afla sakavottorðs, búsforræðisvottorðs og vottorðs um fjárræði viðkomandi. Vottorðin þjóna þeim tilgangi að staðreyna að viðkomandi hafi ekki hlotið refsidóm sem áhrif kann að hafa á ákvörðun um skipun viðkomandi í starf og að hann sé hagsýnn þannig að ætla megi að hann fari vel með fjármuni hins svipta og þannig vel til starfans fallinn. Þá er jafnframt lagt til að yfirlögráðandi geti kallað eftir gögnum annars vegar frá aðilum sem hafa haft viðskipti við ófjárráða einstakling eða komið að fjármálum hans, og hins vegar frá lögráðamanni, lækni og ráðgjafa skv. 27. gr. vegna ákvörðunar lögráðamanns um persónulega hagi sjálfræðissvipts einstaklings, sbr. 58. gr. laganna. Þeim aðilum sem búa yfir gögnum og upplýsingum sem yfirlögráðandi þarf á að halda til að rækja eftirlitsskyldur sínar er samkvæmt ákvæðinu gert að veita yfirlögráðanda aðgang að þeim án endurgjalds. Gert er ráð fyrir að þeim upplýsingum og gögnum sem eru yfirlögráðanda nauðsynleg vegna starfans verði miðlað til hans ýmist bréflega eða rafrænt, og þá aðallega úr tölvukerfum þeirra aðila sem taldir eru upp í ákvæðinu. Þar sem eðli starfa yfirlögráðanda felst í vinnslu persónuupplýsinga, er mikilvægt að árétta að yfirlögráðandi þarf að gæta varfærni við miðlun og vistun gagna. Þá þarf vinnslan jafnframt að fara fram í málefnalegum tilgangi og að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa. Til viðbótar vísast til athugasemda um 23. gr. laga nr. 84/2015 (þskj. 1587, 687. mál, 144. löggjafarþing 2014–2015).

Um 39. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist ný grein, 81. gr. a, sem fjallar um eftirlit yfirlögráðenda með lögráðamönnum.
    Í 1. mgr. er fjallað um einn af meginþáttum eftirlitshlutverks yfirlögráðenda, sem er að yfirfara þær skýrslur sem lögráðamönnum ber að skila yfirlögráðendum skv. 63. gr. og taka afstöðu til þess, á grundvelli skýrslnanna og fylgigagna, fyrri samskipta við lögráðamann og ábendinga og gagna sem yfirlögráðanda hafa borist, hvort lögráðamaðurinn sé að rækja starfsskyldur sínar í samræmi við 1. og 2. mgr. 60. gr. og VI. kafla laganna. Eins og fram kemur í athugasemdum um 63. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, eru skýrslugjafir lögráðamanna mikilvægur þáttur í eftirliti yfirlögráðenda með störfum lögráðamanna. Mikilvægt er að yfirferð skýrslnanna sé tekin föstum tökum og að yfirlögráðendur beiti þeim heimildum sem fjallað er um í 63. gr. laganna ef vísbendingar eru uppi um að lögráðamaður sinni ekki starfsskyldum sínum á fullnægjandi hátt. Að öðru leyti vísast til athugasemda um 63. gr. laganna (þskj. 707, 410. mál, 121. löggjafarþing 1996–1997).
    Með 2. mgr. er brugðist við ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist m.a. frá umboðsmanni Alþingis og réttindagæslumönnum fatlaðs fólks, um mikilvægi þess að tryggja öðrum en hinum svipta úrræði til að koma ábendingum um störf lögráðamanns á framfæri við yfirlögráðanda. Með ákvæðinu er mælt fyrir um skyldu yfirlögráðanda til að rannsaka sérstaklega ábendingar sem honum berast og leggja mat á það á grundvelli þeirra, framlagðra gagna og atvika að öðru leyti, hvort lögráðamaður sé að sinna starfi sínu í samræmi við ákvæði laganna. Þá ber yfirlögráðanda að auki að tilkynna lögráðamanni, hinum svipta og þeim sem kemur með ábendingu um niðurstöðu athugunarinnar. Með þessu er einstaklingum sem eru nákomnir hinum svipta tryggð aukin aðild að lögráðamálum, þótt að svo stöddu sé ekki talið rétt að þeir njóti stöðu málsaðila lögráðamáls.
    Í 3. mgr. er fjallað um viðbrögð yfirlögráðanda við mögulegum refsiverðum brotum. Leiði eftirlit yfirlögráðanda með lögráðamanni í ljós að lögráðamaður hafi brotið gegn starfsskyldum sínum, leggur ákvæðið þá skyldu á yfirlögráðanda að meta til hvaða úrræða hann þurfi að grípa til að gæta hagsmuna hins svipta. Niðurstaða um það fer hverju sinni eftir eðli og alvarleika brotsins. Úrræði yfirlögráðanda eru af ýmsum toga, svo sem almenn fyrirmæli til lögráðamanns um rækslu starfans skv. 3. mgr. 60. gr. Þá kemur jafnframt til skoðunar hvort yfirlögráðandi þurfi að skipa ólögráða manni sérstakan lögráðamann (ad hoc) til þess að reka tiltekið erindi fyrir hann þar sem fastur lögráðamaður hefur eigin hagsmuna að gæta við þann erindrekstur, sbr. 53. gr. laganna. Gæti slíkt t.d. komið til skoðunar ef lögráðamaður hefur bakað hinum svipta tjón af lögráðamannsstörfum sínum af ásetningi eða gáleysi og hann geti af þeirri ástæðu verið skaðabótaskyldur gagnvart hinum svipta, sbr. 61. gr. laganna. Þá kemur að auki til skoðunar að yfirlögráðandi veiti skipuðum lögráðamanni lausn frá störfum, hafi hann vanrækt starfsskyldur sínar eða gerst brotlegur í starfi eða uppfylli ekki lengur skilyrði laga um almennt hæfi sem lögráðamaður, sbr. 2. mgr. 64. gr. laganna. Í 3. mgr. 81. gr. a er að finna nýmæli í lögunum sem mælir fyrir um skyldu yfirlögráðanda til að tilkynna lögreglu án tafar ef grunur er um refsiverða háttsemi lögráðamanns eða annarra einstaklinga í garð hins svipta. Ekki er útilokað að eftirlit yfirlögráðanda leiði til þess að grunur komi upp um refsivert brot lögráðamanns, svo sem kynferðisbrot, fjárdrátt, misneytingu eða svik, sem kallar á tafarlausa rannsókn af hálfu lögreglunnar. Við þær aðstæður er mikilvægt að yfirlögráðandi bregðist skjótt við og án tafar með því að tilkynna málið til lögreglunnar ásamt því að grípa til annarra framangreindra viðbragða gagnvart lögráðamanni.
    Í 4. mgr. er lagt til að ákvæði 1.–3. mgr. 81. gr. a gildi jafnframt um eftirlit yfirlögráðanda með ráðsmönnum, eftir því sem við á. Í b-lið 23. gr. frumvarpsins er lagt til að sambærilegu ákvæði verði bætt við 43. gr. laganna, þar sem vísað yrði til þess að 81. gr. a gildi um eftirlit yfirlögráðanda. Vísast til skýringa við 23. gr. frumvarpsins til nánari skýringa.

Um 40. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 82. gr. laganna, sem þjóna þeim tilgangi að flytja ábyrgð á skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn frá Þjóðskrá Íslands til yfirlögráðenda. Er um að ræða verkefni sem Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2016 annast skv. 6. mgr. 14. gr., 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 57. gr. lögræðislaga.
    Samkvæmt 2. gr. reglna nr. 690/2016 um skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn, færa yfirlögráðendur upplýsingar í skrána ásamt því að skrá breytingar á þeim jafnóðum og tilefni er til. Upplýsingarnar stafa frá starfs- og upplýsingakerfi sýslumanna (nefnt Sýsla) og færast sjálfvirkt yfir í umrædda skrá á grundvelli þeirra upplýsinga sem skráðar eru í Sýslu. Í ljósi þess að þróun skrárinnar hefur ekki verið viðhaldið sem skyldi undanfarin ár og hún býður m.a. ekki upp á uppflettiaðgang fyrir rafræna miðlun, sbr. 5. gr. reglna nr. 690/2016, þykir rétt að leggja til að yfirlögráðendum verði falin ábyrgð á skránni og miðlun upplýsinga úr henni. Helstu rökin fyrir því eru þau að ábyrgð á skráningu upplýsinga er í höndum yfirlögráðenda og því þurfa þeir að ábyrgjast að þær séu uppfærðar hverju sinni. Upplýsingar í skránni reiða sig á tengingu við Sýslu svo hægt sé að miðla þeim áfram til þeirra sem hafa aðgang að þeim. Um er að ræða óþarfa tvíverknað og samstarf milli yfirlögráðenda og Þjóðskrár Íslands sem þykir í senn óskilvirkt og ógagnsætt enda fari yfirlögráðendur að öðru leyti með verkefni samkvæmt lögræðislögum. Þá er Sýsla þegar tengd við Ísland.is og getur án umfangsmikilla breytinga birt vottorð um lögræði í pósthólfi einstaklinga í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, sbr. lög nr. 105/2021. Þar sem Sýsla hefur verið í stöðugri þróun undanfarin ár þykir ljóst að kostnaður við forritun uppflettiaðgangs og frekari þróunar skrár um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn eigi ekki að vera mikill. Að auki þykir ljóst að yfirlögráðendur séu í betri stöðu en Þjóðskrá Íslands til að gefa út vottorð um lögræði á pappír þar sem yfirlögráðendur landsins eru 9 talsins, með dreifða starfsemi um land allt. Verði breytingin að veruleika er gert ráð fyrir að reglur nr. 690/2016 um skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn verði endurskoðaðar. Í ljósi þróunar Sýslu undanfarin ár, þykir ekki rétt að byggja á gildandi heimild 3. mgr. 82. gr. laganna og fela yfirlögráðendum að halda skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn án lagabreytinga. Í ljósi þess að sýslumenn hafa tekið við ábyrgða á þróun starfs- og upplýsingakerfa embættanna af Þjóðskrá Íslands, þar á meðal kerfishluta fyrir lögráðamál, þykir farsælla og skýrara til lengri tíma að gera breytingar 3. mgr. 82. gr. og lögfesta umrætt hlutverk yfirlögráðenda.

Um 41. gr.

    Lagt er til að 84. gr. laganna falli brott. Ákvæðið veitir heimildir til að breyta þeim grunnfjárhæðum sem um getur í tilgreindum ákvæðum laganna í samræmi við vísitölu neysluverðs. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að allar þessar fjárhæðir breytist árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs og ákvæðum þess efnis hefur verið bætt við hlutaðeigandi greinar laganna, er ekki talin lengur þörf á ákvæði 84. gr.

Um 42. gr.

    Í greininni er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða.
    Í d-lið 29. gr. frumvarpsins er lagt til að lögráðamenn séu skipaðir til loka þess tíma sem lögræðissvipting hefur verið ákveðin en þó ekki lengur en til fimm ára í senn. Þar sem ýmis ákvæði frumvarpsins styðja við eftirlit yfirlögráðanda og ætla má að skipunarbréfum þar sem lögráðamenn eru skipaðir til lengri tíma en fimm ára fari fækkandi næstu árin, er talið rétt að sá skipunartími sem var ákveðinn skv. c-lið 1. mgr. 56. gr. gildandi laga fái að halda sér út skipunartímann. Ákvæði d-liðar 29. gr. frumvarpsins eigi því aðeins að hafa áhrif á nýjar ákvarðanir yfirlögráðanda um skipun lögráðamanns.

Um 43. gr.

    Í ljósi þess að frumvarpið kallar á breytingar á verklagi ýmissa aðila, svo sem lækna, lögreglunnar, lögráðamanna og yfirlögráðenda, sem og breytingar á starfs- og upplýsingakerfi yfirlögráðenda og skrá sem Þjóðskrá Íslands heldur um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn, þykir rétt að leggja til lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2025. Þannig ætti framangreindum aðilum að gefast nægur tími til að undirbúa breytingarnar og kynna þær nánar fyrir starfsfólki sínu. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.