Ferill 926. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1372  —  926. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu (miðlun og form gagna, notkun fjarfundabúnaðar, birtingar o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.I. KAFLI

Breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989.

1. gr.

    Orðin eða „eða símskeyti“ í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna falla brott.


2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt skal tiltekið hvort gerðarbeiðandi krefjist þess að gerðinni verði lokið sem árangurslausri án viðveru málsaðila skv. 2. mgr. 23. gr.
     b.      Við 2. mgr. bætist: eða berast án ástæðulauss dráttar.


3. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Aðfararbeiðni, tilkynning eða annað gagn sem á grundvelli laga þessara er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli er heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Dómari getur ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu í máli. Sýslumaður getur jafnframt ákveðið að frumrit annarra gagna en þeirra sem tilgreind eru í 2. mgr. 10. gr. verði lögð fram við meðferð máls telji hann það nauðsynlegt, svo sem vegna sönnunar á þeim réttindum sem málsaðili telur sig eiga.
    Þegar lög þessi eða venja áskilja áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun telst slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu.
    Tilkynning eða gagn sem miðlað er á stafrænu eða rafrænu formi telst komið til viðtakanda þegar það er aðgengilegt þannig að unnt sé að kynna sér efni þess. Gagn eða tilkynningu þarf ekki jafnframt að afhenda á pappírsformi.
    Gögn og tilkynningar sem birt eru skv. 80. gr. skulu, þrátt fyrir 3. mgr., birt á því formi og á þann hátt sem þar er lýst.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð að því er varðar meðferð mála hjá sýslumanni.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „skal aðfararbeiðni“ í 1. málsl. kemur: ásamt fylgigögnum.
     b.      2. málsl. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Um rafræna staðfestingu og afhendingarmáta, form og frágang gagna vegna meðferðar mála fyrir dómi samkvæmt lögum þessum fer að öðru leyti eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og reglum settum með stoð í þeim.

5. gr.

    Í stað orðsins „samriti“ í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: eintaki.

6. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 18. gr. laganna kemur einn nýr málsliður, svohljóðandi: Móttaka aðfararbeiðna skal staðfest af sýslumanni og beiðnirnar skráðar í þeirri röð sem þær berast.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi gerðarbeiðandi krafist þess í aðfarbeiðni skv. 1. mgr. 10. gr. að fjárnámi verði lokið sem árangurslausu án viðveru málsaðila, sbr. 4. tölul. 62. gr., getur sýslumaður skorað á gerðarþola að upplýsa hvort hann hafi athugasemdir við aðfararbeiðni, hvort hann hafi í hyggju að vísa á eignir sem fjárnám yrði gert í skv. 39. gr. og sett gerðarþola frest í því skyni. Sýslumaður skal í áskoruninni gæta að leiðbeiningarskyldu skv. 4. mgr. 25. gr. og kynna gerðarþola að gerð kunni að verða lokið með árangurslausu fjárnámi án viðveru málsaðila ef ekki koma fram athugasemdir af hálfu gerðarþola eða ábending um eignir.
     b.      Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Bregðist gerðarþoli ekki við áskorun skv. 1. mgr. er sýslumanni heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru málsaðila, sbr. 2. mgr. 23. gr. og 4. tölul. 62. gr., og skal sú ákvörðun færð þá þegar í gerðabók að loknum fresti skv. 1. mgr. og tilkynnt málsaðilum.
                 Ákveði sýslumaður að taka aðfararbeiðni fyrir að málsaðilum viðstöddum skal hann tilkynna gerðarþola hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags.
                 Áskorun og tilkynningar samkvæmt þessari grein skal birta gerðarþola í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, með ábyrgðarbréfi eða af stefnuvotti.

8. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sýslumaður getur heimilað mætingu málsaðila við aðför sem fram fer á starfsstofu sýslumanns samkvæmt lögum þessum í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.


9. gr.

    Við 1. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna bætist: eða ef gerðarþoli hefur ekki orðið við áskorun skv. 1. mgr. 21. gr. og gerðarbeiðandi hefur krafist þess í aðfararbeiðni skv. 1. mgr. 10. gr. að fjárnámi verði lokið sem árangurslausu, sbr. 4. tölul. 62. gr.

10. gr.

    Í stað „2. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: 3. mgr.


11. gr.

    Í stað orðsins „undirrita“ í 3. mgr. 33. gr. laganna kemur: staðfesta.

12. gr.

    Í stað orðsins „undirrita“ í 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: staðfesta.

13. gr.

    Í stað orðanna „eftirrits úr gerðabók“ í 2. mgr. 35. gr. laganna kemur: eintaks gerðabókar.

14. gr.

    Í stað orðsins „eftirrit“ í 2. málsl. 59. gr. laganna kemur: eintak.

15. gr.

    Við 62. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: hvorki gerðarþoli né gerðarbeiðandi er staddur við gerðina vegna þess að gerðarbeiðandi hefur krafist þess í aðfararbeiðni skv. 1. mgr. 10. gr. að fjárnámi yrði lokið sem árangurslausu án viðveru málsaðila og gerðarþoli hefur ekki orðið við áskorun sýslumanns skv. 2. málsl. 1. mgr. 21. gr.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 80. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „með símskeyti, ábyrgðarbréfi eða“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með.
     b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilkynning skv. 1. mgr. telst réttilega birt í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku hennar. Um birtingu í stafrænu pósthólfi fer að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

17. gr.

    Í stað orðsins „samriti“ í 2. mgr. 82. gr. laganna kemur: eintaki.

18. gr.

    Í stað orðanna „ljósrit gagna og eftirrit úr gerðabók“ í 3. mgr. 86. gr. laganna kemur: eintök gagna og gerðabókar.

19. gr.

    Við 1. mgr. 87. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að boða málsaðila til þinghalds á þann hátt sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 80. gr.

20. gr.

    Í stað orðsins „eftirrit“ í 2. mgr. 93. gr. laganna kemur: eintök.

21 gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „87.–89. gr. og 1. mgr. 90. gr.“ kemur: og heimilt er að boða málsaðila til þinghalds á þann hátt sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 80. gr.
     b.      Á eftir orðunum „að öðru leyti“ kemur: gilda.

II. KAFLI

Breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991.

22. gr.

    Orðin „eða símskeyti“ í 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: svo og hvort þess sé óskað að nauðungarsala á eigninni fari fram á almennum markaði eftir ákvæðum VI. kafla.
     b.      Í stað orðsins „myndrit“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: annað eintak.
     c.      5. mgr. fellur brott.


24. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
    Heimilt er að miðla á rafrænu eða stafrænu formi beiðni um nauðungarsölu, tilkynningu eða öðru gagni, sem á grundvelli laga þessara er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Dómari getur ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu máls. Sýslumaður getur jafnframt ákveðið að frumrit annars gagns en þess sem tilgreint er í 2. máls. 3. mgr. 11. gr. verði lagt fram við meðferð máls hjá sýslumanni telji hann það nauðsynlegt, svo sem vegna sönnunar á þeim réttindum sem málsaðili telur sig eiga.
    Tilkynning eða gagn sem miðlað er á stafrænu eða rafrænu formi telst komið til viðtakanda þegar það er aðgengilegt þannig að unnt sé að kynna sér efni þess. Gagn eða tilkynningu þarf ekki jafnframt að afhenda á pappírsformi.
    Þrátt fyrir 2. mgr. skulu tilkynningar og gögn sem birt eru eftir fyrirmælum 16., 74. og 82. gr. birt á því formi og á þann hátt sem þar er lýst.
    Þegar lög þessi eða venja áskilja áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun telst slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð að því er varðar meðferð mála hjá sýslumanni.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar staðreynt hefur verið að beiðni fullnægi skilyrðum 1. mgr. 13. gr. skal sýslumaður svo fljótt sem auðið er senda gerðarþola eintak hennar í stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti. Sýslumaður getur jafnframt skorað á gerðarþola að upplýsa hvort hann hyggist mótmæla rétti gerðarbeiðanda til nauðungarsölu, hvort hann hafi athugasemdir við beiðnina og hvort hann óski þess að nauðungarsala fari fram á almennum markaði eftir ákvæðum VI. kafla. Sýslumaður skal í áskoruninni gæta að leiðbeiningarskyldu skv. 2. mgr. 21. gr., kynna gerðarþola réttaráhrif þess að hann bregðist ekki við áskorun skv. 2. málsl. og setja honum frest í þessu skyni.
     b.      Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Bregðist gerðarþoli ekki við áskorun skv. 1. mgr., er sýslumanni heimilt að ákveða með bókun í gerðabók að fyrirtaka skv. 21. gr. fari ekki fram og ákveða þess í stað, án nærveru gerðarbeiðanda og gerðarþola, viðmiðunardaga fresta skv. 2. og. 3. mgr. 27. gr. og hvenær uppboð hefst. Ákvæði 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. gilda eftir því sem við á um framkvæmd sýslumanns. Sýslumaður skal og gæta þess af sjálfsdáðum að fyrirmælum þessara laga um undirbúning og framkvæmd nauðungarsölunnar hafi verið fylgt, sbr. 1. mgr. 22. gr.
                 Ef gerðarþoli verður við áskorun skv. 1. mgr. eða ef sýslumaður ákveður að senda gerðarþola ekki slíka áskorun, skal sýslumaður ákveða að fyrirtaka skv. 21. fari fram og tilkynna gerðarþola það í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti, hvar og hvenær beiðni um nauðungarsölu skv. 21. gr. verður tekin fyrir.
                 Áskorun og tilkynning sem birt er gerðarþola í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda telst réttilega hafa farið fram þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku áskorunarinnar eða tilkynningarinnar. Um birtingu í stafrænu pósthólfi fer að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
     c.      Í stað orðanna „tilkynningu skv. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: áskorun eða tilkynningu skv. 1. og 3. mgr.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. mgr.“ kemur: 3. mgr.
     b.      Í stað orðanna „afrit auglýsingarinnar, en það sendir síðan afritið“ kemur: eintak auglýsingarinnar, en það sendir eintakið síðan.

27. gr.

    Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sýslumaður getur heimilað mætingu málsaðila skv. 2. gr. við fyrirtöku beiðni um nauðungarsölu skv. IV. kafla í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.

28. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna bætist: nema að ákveðið hafi verið að fyrirtaka skv. 21. gr. fari ekki fram, sbr. 1. mgr. 16. gr.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 26. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „bréflega“ í 1. málsl. kemur: skriflega.
     b.      Við 1. málsl. bætist: sem og um viðmiðunardag fresta skv. 2. og 3. mgr. 27. gr.
     c.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ef fyrirtaka skv. 1. mgr. 21. gr. fór ekki fram skal gerðarbeiðanda jafnframt tilkynnt skriflega um framangreint.

30. gr.

    Við 1. mgr. 31. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sýslumaður getur heimilað málsaðilum skv. 2. gr. að mæta til uppboðs í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.

31. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 35. gr. laganna orðast svo: Tilkynningin skal send í stafrænt pósthólf á þann veg sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 16. gr., í ábyrgðarbréfi eða með öðrum sambærilegum hætti.

32. gr.

    Við 1. mgr. 36. gr. laganna bætist: að því frátöldu að ekki er heimilt að mæta til framhalds uppboðs í gegnum fjarfundabúnað.

33. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 41. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Boðunin skal send í stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 16. gr., í ábyrgðarbréfi eða með öðrum sannanlegum hætti. Sýslumaður getur heimilað málsaðilum skv. 2. gr. að mæta til fyrirtökunnar í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.

34. gr.

    Í stað orðsins „afrit“ í 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. laganna kemur: eintak.

35. gr.

    Í stað orðsins „Afrit“ í 3. málsl. 2. mgr. 59. gr. laganna kemur: Eintök.

36. gr.

    Í stað orðsins „bréflega“ í 2. mgr. 66. gr. laganna kemur: skriflega.

37. gr.

    Í stað orðanna „undangengnum tilkynningum“ í 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna kemur: undangenginni tilkynningu um fyrirtöku.

38. gr.

    Í stað orðanna „eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðabók“ í 4. málsl. 3. mgr. 73. gr. laganna kemur: eintök framlagðra gagna og gerðabókar.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „eftirrit“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eintök.
     b.      Í stað orðanna „endurrit úr gerðabók“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: gerðabókar.
     c.      Í stað orðsins „afrit“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eintak.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: eða í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
     b.      Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Birting í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda telst réttilega hafa farið fram þegar málsaðilar hafa staðfest móttöku boðunar. Um birtingu í stafrænu pósthólfi fer að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

41. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2024.


Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Þar hefur um nokkra hríð verið til athugunar að gera breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með það að markmiði að heimila notkun stafrænna og rafrænna lausna við meðferð mála sem rekin eru á grundvelli laganna, hvort tveggja hjá sýslumönnum og dómstólum, og þá sér í lagi við meðferð mála sem lúta að innheimtu peningakrafna. Í meginatriðum er málsmeðferðin óbreytt frá gildistöku fyrrgreindra laga frá 1. júlí 1992 þegar framkvæmdarvald og dómsvald í héraði voru aðskilin. Framþróun á öðrum réttarsviðum styður við þau áform að taka skref í átt að stafrænum og rafrænum lausnum við meðferð mála sem rekin eru á grundvelli laganna, enda leiðir bætt tækni og aðrar lagabreytingar til þess að meðferð þeirra mála er ekki eins háð pappírsferlum og áður var og m.a. getur ferlið frá lántöku til fullnustu krafna að mestu orðið rafrænt eða stafrænt. Í því sambandi má nefna lög um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs (rafrænar þinglýsingar), nr. 151/2018, lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, og lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Áherslur í stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu hins opinbera (Stafrænt Ísland) frá 2021 eru m.a. þær að hið opinbera nýti lausnir á borð við rafrænar undirritanir, fjarfundabúnað og aðrar framleiðniaukandi lausnir til að bæta vinnuumhverfi og veita betri þjónustu, og að upplýsingatækni verði hagað á öruggan, skilvirkan og hagkvæman hátt í gegnum trausta innviði sem mæta bæði kröfum almennings til grunnþjónustu stofnana og stuðla að auknum sveigjanleika opinberrar þjónustu. Fjármála- og efnahagsráðuneyti annast framkvæmd fyrrnefndrar stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera og innan þess er verkefnastofa um Stafrænt Ísland. Verkefnastofan vinnur m.a. að því að aðstoða ráðuneyti og opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning.
    Í mars 2021 kom út skýrsla dómsmálaráðuneytisins, Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri, þar sem sett er fram stefna um framtíðarsýn fyrir málefni sýslumanna. Í kjölfarið lagði ráðherra skýrsluna fram á Alþingi (þskj. 1043, 609. mál á 151. löggjafarþing 2020–2021). Í stefnunni felst að sýslumannsembættin veiti framúrskarandi þjónustu óháð búsetu og staðsetningu, hvar og hvenær sem er, eftir því sem hentar almenningi hverju sinni. Þar kemur fram að með því að auka vægi stafrænnar þjónustu megi að miklu leyti efla þjónustu embættanna. Þannig megi draga úr vægi óskilvirkra ferla sem hafi að mörgu leyti einkennt málsmeðferð sýslumannsembætta hingað til, þ.e. staðbundinnar þjónustu, oft og tíðum með formlegum fyrirtökum á grundvelli framlagðra skjala. Þá geti skapast tækifæri til að gera þjónustuna í senn miðlæga og sérhæfða og auka sjálfvirknivæðingu við ákvarðanatöku. Slíkt myndi leiða til hagræðingar hjá embættunum, skjótari afgreiðslu og þar með bættrar þjónustu við almenning. Þá segir í skýrslunni að mesti þunginn í afgreiðslutíma sýslumanna liggi í þeim hluta kjarnaverkefnanna sem krefjast aðkomu löglærðs fulltrúa eða sérfræðings og einkennist af skyldubundnu mati stjórnvalda og formlegri fyrirtöku í málsmeðferðinni. Við þær aðstæður eru tækifærin fyrir framþróun og innleiðingu stafrænnar málsmeðferðar minni, en þó ekki útilokuð. Mikilvægt sé að láta löggjöfina ekki standa í vegi fyrir framþróun og að skipta verkefnunum upp í áfanga með það að markmiði að greina hvar möguleikar til hagræðingar eru fyrir hendi á meðan unnið er að endurskoðun laga.
    Það heyrir til undantekninga að mætt sé til fyrirtöku hjá sýslumannsembætti af hálfu gerðarþola við rekstur máls á grundvelli laga um aðför og laga um nauðungarsölu. Þá hafa athugasemdir og mótbárur gerðarþola varðandi rétt gerðarbeiðanda til fullnustu að lögum, andspænis óvefengdum skilríkjum gerðarbeiðanda fyrir kröfum sínum, sjaldnast áhrif á meðferð máls. Því má sjá fyrir sér nokkurn ávinning af því að einfalda málsmeðferð og fækka fyrirtökum mála hjá sýslumannsembættunum að því gættu að við það verði ekki gengið á rétt gerðarþola. Ætla má að einfaldari boðunarháttur til fyrirtöku hjá sýslumanni og dómstólum, heimild til notkunar fjarfundabúnaðar og fækkun á fyrirtökum í upphafi málsmeðferðar hjá sýslumanni geti sparað tíma málsaðila, lögmanna, boðunaraðila og starfsfólks sýslumanns. Þá muni fjármunir að sama skapi sparast fyrir hlutaðeigandi við minni pappírsnotkun, færri bílferðir og skilvirkari meðferð mála. Meðal annars af þessum ástæðum, og í því tilliti að beina sjónum fyrst og fremst að þeim málum þar sem ætla má að ávinningurinn af framangreindu geti orðið mestur, er í frumvarpinu einkum horft til þess að skapa forsendur til að fækka fyrirtökum mála þegar ekki er ágreiningur annars vegar um að aðfarargerð verði lokið sem árangurslausri og hins vegar við meðferð beiðna um nauðungarsölu fasteigna. Meiri hluti þeirra beiðna sem koma til meðferðar sýslumanna á grunni fyrrgreindrar löggjafar eru mál af því tagi, sbr. eftirfarandi töflur:

Tafla 1. Fjöldi fjárnámsmála hjá sýslumannsembættum 2017–2022, en mismunur fjölda fjárnáma og lokinna gerða eru afturkölluð mál.
Fjárnám 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Fjöldi fjárnámsbeiðna
22.275
21.674
22.608
17.103
10.785
19.867
Fjárnám í fasteign
1.630
1.459
1.503
1.177
686
823
Fjárnám í skipi
85
51
33
25
18
21
Fjárnám í ökutæki
1.511
1.215
1.152
827
423
326
Fjárnám í öðru andlagi
29
29
56
54
35
36
Árangurslaust fjárnám
15.425
14.179
14.779
11.415
7.138
13.337
Fjöldi lokinna gerða samtals
18.680
16.933
17.523
13.498
8.300
14.543

Tafla 2. Fjöldi nauðungarsölubeiðna hjá sýslumannsembættum 2017–2022.
Nauðungarsölubeiðnir 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Fasteignir
3.956
3.271
3.024
2.620
1.698
1.430
Skip
89
35
21
18
13
14
Loftför
1
0
0
2
0
0
Ökutæki
1.320
3.170
1.065
618
527
310
Annað
28
32
36
8
22
16
Beiðnir alls
5.394
4.508
4.146
3.266
2.260
1.770

Tafla 3. Fjöldi seldra eigna á uppboði hjá sýslumannsembættum 2017–2022, en mismunur nauðungarsölubeiðna og seldra eigna á uppboði eru afturkölluð mál.
Seldar eignir á uppboði 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Fasteignir
242
114
318
237
98
15
Skip
10
11
5
3
1
0
Loftför
0
0
0
1
0
0
Ökutæki
203
310
386
206
263
59
Annað
11
0
5
4
7
4
Alls selt
466
435
714
451
369
78

Tafla 4. Fjöldi tiltekinna fullnustumála hjá héraðsdómstólum 2017–2022.

2017 2018 2019 2020 2021 2022
Aðfararbeiðnir
2.610
1.350
845
2.044
499
361
Ágreiningsmál v/aðfarargerða
38
18
14
12
12
7
Ágreiningsmál v/nauðungarsölu
33
22
13
6
10
6

    Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að réttarvörslukerfið verði einfaldara, notendavænna og að málsmeðferð verði greiðari án þess að gæðum og réttaröryggi verði fórnað. Ætlunin er að bæta aðgengi að meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum og einfalda samskipti, auka skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi þeirra sem vinna eftir réttarfarslöggjöf. Þá er breytingunum ætlað að auka gegnsæi og stuðla að nýtingu þeirra tæknilegu innviða sem þegar eru í mótun á öðrum sviðum, ásamt því að hafa jákvæð umhverfisáhrif með því að skapa forsendur fyrir að draga úr ferðalögum og notkun pappírs. Einnig er frumvarpinu ætlað að styðja við þinglýsingalög, nr. 39/1978, sbr. breytingalög nr. 151/2018 og 161/2019, lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, og lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021. Með breytingunum er þannig ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi löggjöf.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Hér á eftir verður vikið að helstu atriðunum sem frumvarpið felur í sér en nánari grein er gerð fyrir breytingartillögum í skýringum við einstakar greinar þess.

3.1. Brottfall áskilnaðar um pappírsform, eintakafjölda gagna, undirritun með eigin hendi og önnur atriði af svipuðum meiði.
    Málsmeðferðarreglur þeirrar löggjafar sem er til umfjöllunar í frumvarpi þessu og venjur við framkvæmd þeirra miðast í mörgum tilvikum við að gögn séu afhent á pappírsformi. Sömuleiðis að samskipti af ýmsum toga séu bréfleg og að skjöl séu undirrituð með eigin hendi. Frumvarp þetta miðar að því að gera málsmeðferð hlutlausa um þau efni og þá tækni sem beitt er hverju sinni en við það skapast forsendur til að nýta stafræna og rafræna tækni í auknum mæli. Við samningu frumvarpsins hefur að þessu leyti verið höfð hliðsjón af frumvarpi sem dómsmálaráðherra lagði fram á 154. gr. löggjafarþingi 2023–2024, (þskj. 1033, 691. mál). Til samræmis við framangreint er sömuleiðis horfið frá því að eintakafjöldi gagna og undirritun með eigin hendi séu áskilin lögum samkvæmt, auk þess sem lagðar eru til nokkrar orðalagsbreytingar sem betur þykja lýsa tæknilega hlutlausri málsmeðferð. Þá er einnig lagt til með frumvarpinu að áskilnaði um áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun teljist fullnægt með rafrænni staðfestingu. Jafnframt er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra atriða sem að framan eru rakin að því er varðar meðferð mála hjá sýslumanni.
    Lagt er til að fest verði ákvæði í lög um aðför og lög um nauðungarsölur sem taki af öll tvímæli um að stafræn og rafræn málsmeðferð samkvæmt lögunum sé að þessu leyti jafngild því að hún fari fram á pappír. Sem dæmi um stafræna málsmeðferð má sjá fyrir sér gagnaskil um vefviðmót hjá sýslumönnum en hliðstæð aðferð hefur undanfarin ár verið viðhöfð fyrir tilstilli hugbúnaðar réttarvörslugáttar í rannsóknarmálum lögreglu fyrir héraðsdómstólum. Væru gögn og/eða tilkynningar á hinn bóginn send með öruggum sendingarmáta með tölvupósti myndi sú aðferð teljast rafræn. Verði frumvarpið að lögum verður mælt fyrir um að heimilt sé að miðla rafrænt eða stafrænt aðfararbeiðni, tilkynningu eða öðru gagni sem á grundvelli löggjafarinnar er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Sýslumaður eða dómari geti þó ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu í máli. Rétt er þó að taka fram í því sambandi að áfram er gert ráð fyrir því að frumrit viðskiptabréfs fylgi aðfararbeiðni í þeim tilvikum þar sem það er áskilið í 2. mgr. 10. gr. laga um aðför, eða berist sýslumanni án ástæðulauss dráttar eftir að aðfararbeiðni er lögð fram.
    Samhliða lögfestingu ákvæðis um tæknilegt jafngildi í lögum um aðför og lögum um nauðungarsölur eru lagðar til nokkrar breytingar á orðalagi þessara lagabálka, en í dag miðast orðalag þeirra að miklu leyti við notkun pappírs. Þannig verður að mestu horfið frá notkun orða á borð við „afrit“, „eftirrit“, „ljósrit“ o.s.frv., nema talið sé varlegra að halda í eldra orðalag vegna sjálfstæðrar merkingar hverju sinni. Í þeim efnum þykir orðið „eintak“ í flestum tilvikum vera samheiti orða sem í gildandi löggjöf vísa til pappírs án þess að frumrit, eftir atvikum á pappír eða stafrænu formi, sé látið af hendi, en einnig þykir mega nota orðið „eintak“ yfir þá aðstöðu að gagni sé miðlað til viðtakanda um stafrænt viðmót, en samtímis varðveitt hjá þeim sem veitir þann aðgang. Í þeim tilvikum þar sem ekki er talin þörf á að nota orðið eru ekki lagðar til breytingar í þá veru.

3.2. Birting gagna í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Á nokkrum stöðum í lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu er áskilið að tilkynning og gögn skuli send gerðarþola og eða öðrum málsaðilum á tiltekinn hátt, svo sem bréflega, með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birt af einum stefnuvotti. Hvað varðar lög um aðför er hér nánar tiltekið um að ræða greiðsluáskorun til gerðarþola skv. 7. gr., tilkynningu sýslumanns til gerðarþola skv. 21. gr., um aðfararbeiðni og tilkynningu héraðsdómara til gerðarþola skv. 80. gr.
    Í frumvarpinu er lagt til að tilkynning sýslumanns skv. 21. gr. megi að auki fara fram með birtingu í stafrænu pósthólfi gerðarþola í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og telst tilkynningin þá réttilega birt þegar hún er aðgengilega honum þar, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 15/2021. Þegar litið er til víðtækra endurupptökuheimilda fjárnámsgerða að kröfu gerðarþola, sbr. 67. gr. laganna, þykir ekki með því gengið á rétt gerðarþola eða möguleika hans á að fá leiðrétta gerð sem lokið hefur sem árangurslausri. Jafnframt er lagt til að tilkynning héraðsdómara skv. 80. gr. laga um aðför megi birta í stafrænu pósthólfi gerðarþola en aftur á móti er lagt til að slík tilkynning teljist réttilega birt þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku hennar þar. Þykir slíkur áskilnaður nauðsynlegur vegna þeirra hagsmuna sem um er að tefla, m.a. þar sem slíkar tilkynningar geta varðað útburðar- og innsetningargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar auk þess sem úrskurðir verða ekki enduruppteknir heldur einungis endurskoðaðir með kæru til æðri dóms þar sem kærufrestur er tiltölulega stuttur.
    Hvað varðar lög um nauðungarsölu þá er þessi ákvæði að finna í 9. gr. laga um nauðungarsölu um greiðsluáskorun til gerðarþola, í 16. gr. sem fjallar um skyldu sýslumanns til að tilkynna gerðarþola um fram komna beiðni um nauðungarsölu, í 26. gr. sem fjallar um skyldu sýslumanns til að tilkynna gerðarþola bréflega um hvar og hvenær uppboð byrji hafi hann ekki mætt við fyrirtöku, í 35. gr. sem fjallar um tilkynningu til aðila um framhald uppboðs og í 41. gr. en þar er fjallað um skyldu sýslumanns varðandi boðun til fyrirtöku þegar tekin hefur verið til greina beiðni um nauðungarsölu á almennum markaði. Í öllum tilvikum er lagt til í frumvarpinu að birta megi tilkynningar í stafrænu pósthólfi gerðarþola en að tilkynningar skv. 16. gr., 35. gr. og 41. gr. teljist réttilega birtar þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku þar. Í ljósi þess hversu íþyngjandi nauðungarsala er fyrir gerðarþola, m.a. með tilliti til friðhelgi eignaréttar og einkalífs, er mikilvægt að gerðarþoli hafi vitneskju um að beiðni þar að lútandi hafi komið fram og geti þá gert þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að tryggja hagsmuni sína. Þá er jafnframt haft í huga að ekki verður leyst úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu með endurupptöku heldur einungis úrskurði héraðsdómara, sem aftur verði einungis endurskoðaður með kæru til æðri dóms þar sem kærufrestur er tiltölulega stuttur.
    Hvað áhrærir staðfestingu á móttöku í stafrænu pósthólfi er í framkvæmd fyrirhugað að hún fari fram þannig að þegar viðkomandi skráir sig inn í pósthólfið eftir að tilkynning hefur verið gerð aðgengileg birtist honum gluggi þar sem gerð er grein fyrir því að verði pósturinn opnaður muni birtingaraðila verða send staðfesting á móttöku skjalsins. Jafnframt verði í glugganum að finna nánari upplýsingar um að opni viðkomandi ekki póstinn muni annarra leiða verða leitað til birtingar gagnsins. Eftir sem áður verður að gæta að því að ekki hafa allir aðgang að stafrænu pósthólfi auk þess sem sumir kunna af einhverjum orsökum að eiga óhægt um að nýta sér pósthólfið sem skyldi. Því má telja líklegt að nokkuð verði áfram um birtingar eftir öðrum aðferðum. Loks þarf að huga að ýmsum atriðum varðandi framkvæmd birtinga í stafrænu pósthólfi, til að mynda hvenær ljóst má vera að slík birting hafi ekki tekist og því þurfi að birta eða senda gagn á annan hátt.
    Að endingu er rétt að taka fram að ekki eru lagðar til breytingar á afhendingarmáta greiðsluáskorana enda eru þær birtar af kröfuhafa án atbeina sýslumanns, jafnvel þótt hið opinbera kunni eftir atvikum að koma fram sem kröfuhafi í einhverjum tilvikum. Ekki er gert ráð fyrir því enn sem komið er að einkaaðilar sendi eða birti gögn í gegnum stafrænt pósthólf.Þá er þess að geta að í öllum tilvikum er lagt til að símskeyti verði afnumin sem sendingarmáti samkvæmt lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu. Notkun símskeyta hefur verið hætt og aðrir birtingarmátar þykja betur þjóna þeim tilgangi að koma gögnum til vitundar gerðarþola og eftir atvikum annarra málsaðila.

3.3. Heimild málsaðila til að mæta við fyrirtöku hjá sýslumanni í gegnum fjarfundabúnað.
    Með frumvarpinu er lagt til að sýslumaður geti heimilað málsaðila að mæta til fyrirtöku á beiðni um aðför, sbr. 22. gr. laga um aðför, sem fram fer á skrifstofu sýslumanns í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Að sama skapi er lagt til að sýslumaður geti heimilað málsaðilum skv. 2. gr. laga um nauðungarsölu að mæta til fyrirtöku á beiðni um nauðungarsölu skv. 21. gr. sömu laga og við uppboð skv. 31. gr. þeirra laga í gegnum fjarfundabúnað. Aftur á móti er ekki ráðgert að nota megi fjarfundabúnað við framhald uppboðs sem fram fer á eigninni sjálfri, sbr. 36. gr. laga um nauðungarsölu.
    Við samningu ákvæða frumvarpsins um notkun fjarfundabúnaðar hefur verið höfð hliðsjón af bráðabirgðaheimildum sem með lögum nr. 32/2020 var bætt við lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem lögreglu og dómstólum var heimilað að beita rafrænum lausnum og fjarfundabúnaði í auknum mæli við rannsókn og meðferð einka- og sakamála fyrir dómi. Þær heimildir hafa reynst vel og voru framlengdar í þrígang. Dómsmálaráðherra hefur með frumvarpi sem lagt var fram á yfirstandandi löggjafarþingi lagt til að þær heimildir verði gerðar varanlegar (þskj. 1033, 691. mál). Verði það frumvarp að lögum verður heimilt, að þar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, að nýta fjarfundabúnað við skýrslugjöf fyrir dómi, auk þess sem málsaðilar geta sótt þinghöld með þeim hætti. Þær heimildir í lögum um meðferð einkamála munu eiga við um málsmeðferð fyrir dómi á grundvelli laga um aðför og laga um nauðungarsölu.

3.4. Fækkun á fyrirtökum hjá sýslumanni.
    Svo sem rakið er í 2. kafla heyrir til undantekninga að mætt sé til fyrirtöku hjá sýslumanni af hálfu gerðarþola við rekstur mála á grundvelli laga um aðför og laga um nauðungarsölu. Þá hafa athugasemdir og mótbárur gerðarþola um rétt gerðarbeiðanda til fullnustu að lögum, andspænis óvefengdum skilríkjum gerðarbeiðanda fyrir kröfum sínum, sjaldnast áhrif á meðferð máls. Því má sjá fyrir sér nokkurn ávinning af því að einfalda málsmeðferð og fækka fyrirtökum mála hjá sýslumannsembættunum að því gættu að við það verði ekki gengið á rétt gerðarþola. Þetta á ekki síst við um fjárnámsgerðir sem lokið er sem árangurslausum, sem er stærstur hluti aðfarargerða.
    Með hliðsjón af þessu er lögð til breyting á 10. og 21. gr. laga um aðför, sem og afleiddar breytingar á öðrum ákvæðum þeirra laga, í þá veru að gerðarbeiðandi upplýsi þegar hann sendir aðfararbeiðni til sýslumanns hvort hann krefjist þess að gerð verði lokið sem árangurslausri án viðveru málsaðila. Geri hann það skal sýslumaður skora á gerðarþola að upplýsa hvort hann hafi athugasemdir við aðfararbeiðni og hvort hann hafi í hyggju að vísa á eignir sem fjárnám yrði gert í. Sýslumaður skal setja gerðarþola frest í þessu skyni ásamt því að gæta að leiðbeiningarskyldu og kynna gerðarþola að gerðinni kunni að verða lokið með árangurslausu fjárnámi án viðveru málsaðila ef athugasemdir eða ábending um eignir koma ekki fram. Ef gerðarþoli bregst ekki við áskorun sýslumanns með ábendingu um eignir eða athugasemdum við beiðni verður sýslumanni, ef frumvarpið verður að lögum, heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru málsaðila. Geri gerðarþoli á hinn bóginn athugasemdir eða bendir á eignir tekur sýslumaður málið fyrir og fer þá um málið eftir hefðbundnum reglum.
    Sams konar breytingar eru að breyttu breytanda lagðar til á 16. gr. laga um nauðungarsölu ásamt afleiddum breytingum á öðrum lagaákvæðum. Þannig geti sýslumaður, ef gerðarþoli bregst ekki við áskorun, ákveðið að fyrirtaka skv. 21. gr. laga um nauðungarsölu fari ekki fram og þess í stað ákveðið viðmiðunardaga fresta og hvenær uppboð byrji. Ef gerðarþoli á hinn bóginn verður við áskoruninni skal sýslumaður ákveða hvort ráðstafa megi eign með nauðungarsölu á almennum markaði, að fyrirtaka skv. 21. fari fram og tilkynna gerðarþola hvar og hvenær það verður.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar, en í framkvæmd þarf þó að gæta að því að beiting þeirra heimilda sem frumvarpið varðar gangi ekki á réttindi gerðarþola og annarra sem hlut eiga að máli með tilliti til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. gr. stjórnarskár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og friðhelgi eignaréttar, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Samráð.
    Dómsmálaráðuneytið vann forgreiningu á núverandi framkvæmd fullnustumála og tækifærum til breytinga með notkun stafrænna lausna í desember 2021. Tvær vinnustofur voru haldnar á vegum dómsmálaráðuneytis, önnur í mars 2022 og hin í janúar 2023, með þátttakendum frá sýslumannsembættum, héraðsdómstólum, Lögmannafélagi Íslands, Skattinum og umboðsmanni skuldara. Markmið vinnustofanna var m.a. að greina núverandi ferla, skilgreina mögulega ferla í stafrænu umhverfi og tengja málefnið við stefnur um stafræna þjónustu hins opinbera og stefnu um framtíðarsýn fyrir málefni sýslumanna. Þessi greining leggur grundvöll að gerð þessa frumvarps.
    Áform um þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-164/2023) á tímabilinu 14. mars – 14. apríl 2023. Ein umsögn barst um áformin, frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Í þeirri umsögn er m.a. lögð áhersla á að réttindi einstaklinga verði tryggð og að málsmeðferð megi ekki vera sjálfkrafa rafræn heldur aðeins með samþykki gerðarþola, enda ljóst að ekki geti allir nýtt sér rafrænar lausnir, svo sem vegna fötlunar eða annarra erfiðleika við notkun tölvubúnaðar.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-217/2023) á tímabilinu 1.–20. nóvember 2023 og bárust um það fjórar umsagnir, frá Hagsmunasamtökum heimilanna, ÖBÍ réttindasamtökum, Samtökum fjármálafyrirtækja og frá einum einstaklingi.
    Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna kemur m.a. fram að verði frumvarpið að lögum í þeirri mynd sem kynnt var í samráðsgátt myndi opnast fyrir þann möguleika að raunverulega yrði hægt að selja heimili fólks á nauðungarsölu án þess að það hefði orðið þess áskynja að slík málsmeðferð væri hafin. Það myndi fela í sér grófa skerðingu mikilvægra mannréttinda á borð við réttláta málsmeðferð og friðhelgi heimilisins. Þessu réttindum ætti ekki að vera hægt að víkja til hliðar án atbeina dómara með einfaldri stjórnarathöfn og alls ekki án þess að tryggja aðkomu gerðarþola að málsmeðferðinni. Gera samtökin í umsögn sinni þá lágmarkskröfu að það verði gert að skilyrðum fyrir réttaráhrifum rafrænnar birtingar á tilkynningum í aðdraganda nauðungarsölu að gerðarþoli hafi móttekið þær með sannanlegum hætti eins og hingað til hafi verið meginregla. Í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka er að sama skapi m.a. bent á að til að fara inn á stafræn svæði þurfi viðkomandi að hafa rafræn skilríki og geta beitt þeim til að sækja gögn. Stór hópur hafi ekki rafræn skilríki vegna fötlunar og annar hópur hafi slík skilríki en kunni ekki með þau að fara. Við þessum athugasemdum hefur verið brugðist með tillögu um að við 16. gr. laga um nauðungarsölu bætist ný málsgrein þar sem áskilið er að gerðarþoli staðfesti móttöku tilkynningar eða áskorunar sem send er skv. 16. gr., 35. gr. og 41. gr. laga um nauðungarsölu og teljist hún réttilega birt í stafrænu pósthólfi þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku þar. Þá er áréttað í kafla 3.3 að eftir sem áður verði að gæta að því að ekki hafi allir aðgang að stafrænu pósthólfi auk þess sem sumir kunni af einhverjum orsökum að eiga óhægt um vik að nýta sér pósthólfið sem skyldi. Því megi telja líklegt að nokkuð verði áfram um birtingar eftir öðrum aðferðum.
    Í umögn Samtaka fjármálafyrirtækja er rakið að í drögum að frumvarpinu eins og þau birtust í samráðsgátt sé mælt fyrir um að ákveði sýslumaður að bæði fyrsta fyrirtaka og byrjun uppboðs á starfsstöð sýslumanns falli niður þá skuli hann boða til uppboðs á eigninni sjálfri innan árs frá dagsetningu boðaðrar fyrstu fyrirtöku. Að mati samtakanna er ekki tækt að sjálfkrafa verði árs frestur frá boðaðri fyrstu fyrirtöku fram að lokasölu meti sýslumaður það svo að ekki sé ástæða til að láta fyrstu fyrirtöku og byrjun uppboðs fara fram. Eðlilegra væri að fyrirtöku væri frestað um mánuð í senn eins og framkvæmdin hafi verið hingað til. Í frumvarpinu er nú horfið frá fyrri tillögu um að sýslumaður geti ákveðið að bæði fyrirtaka og byrjun uppboðs á starfsstöð falli niður. Er nú lagt til með breytingum á 16. gr. laga um nauðungarsölu að sýslumaður geti ákveðið undir ákveðnum kringumstæðum að fyrirtaka skv. 21. gr. laganna fari ekki fram og skal hann þá þess í stað ákveða viðmiðunardaga fresta skv. 2. mgr. 3. mgr. 27. gr.
    Þá barst ein umsögn frá einstaklingi þar sem fram kom að skylda ætti fjármálastofnanir/sýslumann eða hvern þann sem fari fram á nauðungarsölu til að skila uppgjöri til þess sem missir fasteign sína. Þessi athugasemd þótti ekki gefa tilefni til breytingar á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi löggjöf fyrir því að nota megi stafræna og rafræna málsmeðferð við meðferð mála sem rekin eru hjá sýslumönnum og dómstólum á grundvelli laga um aðför og laga um nauðungarsölu og er það í samræmi við stefnu stjórnvalda um framtíðarsýn um málefni sýslumanna sem og stafræna þjónustu hins opinbera, sjá nánari umfjöllun í 2. kafla. Það verði gert með því að gera fyrrgreinda löggjöf hlutlausa um afhendingarmáta gagna, heimila notkun rafrænna staðfestinga o.s.frv., auk þess að heimila notkun fjarfundabúnaðar í auknum mæli sem og birtingu tiltekinna gagna í stafrænu pósthólfi.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld eða hafi að öðru leyti áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Þó má ætla að kostnaður vegna pappírsnotkunar og umsýslu minnki, þar á meðal við birtingar og fyrirtökur.
    Helstu áskoranir sýslumannsembættanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum varða hlutfallsskiptingu kynjanna hjá starfsfólki, eftir því hvort um er að ræða almennt skrifstofufólk eða sérfræðinga. Nú er hlutfallsskipting allra starfsmanna 19,4% karlar á móti 80,6% konum. Hlutföll háskólamenntaðra starfsmanna er 74% konur og 26% karlar, og hjá almennu skrifstofufólki eru 88% konur og 12% karlar. Af hlutfallsskiptingunni má álykta að störf hjá sýslumannsembættunum séu a.m.k. að einhverju leyti flokkuð sem kvennastörf. Verði frumvarpið að lögum kann það leiða til þess að hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna aukist sem aftur kann að leiða til jafnara kynjahlutfalls hjá starfsfólki sýslumanna.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi áhrif á sveitarfélög.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gerðarbeiðanda verði ekki verði lengur heimilt að birta gerðarþola greiðsluáskorun skv. 1. mgr. 7. gr. laga um aðför með símskeyti. Notkun símskeyta hefur verið hætt en þegar lögin tóku gildi og aðrir birtingarmátar samkvæmt ákvæðinu, þ.e. með ábyrgðarbréfi eða stefnuvotti, þykja betur þjóna þeim tilgangi að koma áskorun gerðarbeiðanda til vitundar gerðarþola.


Um 2. gr.

    Með a-lið er lagt til að nýr málsliður bætist við 1. mgr. 10. gr. laga um aðför, en í ákvæðinu koma fram atriði sem greina ber frá í skriflegri aðfararbeiðni. Með viðbótinni er gerðarbeiðanda gefið færi á að krefjast þess strax í upphafi að aðfarargerð verði lokið með árangurslausu fjárnámi. Slík krafa gerðarbeiðanda er forsenda þess að sýslumanni sé á grunni breyttrar 1. mgr. 21. gr. laganna, sbr. 7. gr. frumvarpsins, heimilt að skora á gerðarþola að upplýsa hvort hann hafi athugasemdir við aðfararbeiðni og hvort hann hafi í hyggju að vísa á eignir sem fjárnám yrði gert í. Ef ekki koma fram athugasemdir eða ábendingar af hálfu gerðarþola er sýslumanni heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru málsaðila, en að öðrum kosti boðar sýslumaður til fyrirtöku á aðfararbeiðni, líkt og að gildandi rétti.
    Með b-lið er gerð tillaga að því að heimilað verði að frumrit viðskiptabréfs berist án ástæðulauss dráttar eftir að aðfararbeiðni hefur verið lögð fram í stað þess að frumrit verði að fylgja beiðninni. Þessari heimild er einkum ætlað að styðja við framkvæmd þess að heimilt verði að leggja aðfararbeiðni fram á rafrænu eða stafrænu formi á grundvelli nýrrar 10. gr. a laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins, en að frumrit viðskiptabréfs á pappír megi í kjölfarið berast án ástæðulauss dráttar. Við þær aðstæður er gerðarbeiðanda nauðsynlegt að koma frumriti viðskiptabréfs á pappír strax til viðtakandans til sönnunar á kröfu sinni, enda er skilríki af því tagi forsenda frekari aðgerða sýslumanns eða eftir atvikum dómara samkvæmt lögunum, en að öðrum kosti kann að koma til álita að hafna beiðni um aðför, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 17. gr. laganna.


Um 3. gr.

    Lagt er til að ný grein, 10. gr. a, verði tekin upp í lög um aðför, sem leggi málsmeðferð á stafrænan og rafrænan máta samkvæmt lögunum að jöfnu við málsmeðferð sem miðast við pappír. Almennt verði þannig jafngilt að gögn og tilkynningar berist á milli þeirra sem aðkomu eiga að málum sem rekin eru samkvæmt lögunum á hvern þann máta sem ákvæðið heimilar, auk þess sem rafræn staðfesting verði lögð að jöfnu við undirritun með eigin hendi.
    Í 1. mgr. nýrrar 10. gr. a yrði kveðið á um að aðfararbeiðni, tilkynningu eða öðru gagni sem á grundvelli laganna er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli sé heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Megintilgangur þessarar heimildar er að kveða á um það í lögunum að rafræn og stafræn gögn og tilkynningar séu jafngildar þeim sem berast milli hlutaðeigandi á pappír, án þess þó að leggja bann við notkun pappírs. Ætlunin er ekki að mæla fyrir um breytingu á réttarfari sem slíku heldur að heimila annan afhendingarmáta og form hvers kyns gagna og tilkynninga við málsmeðferð samkvæmt lögunum en á pappír. Þannig er lagður grunnur að því að unnt verði að nýta þær tæknilausnir sem nú er völ á í ríkari mæli við meðferð mála samkvæmt lögunum, hvort heldur er við meðferð mála hjá sýslumanni eða dómstólum.
    Með þeim sem aðkomu eiga að máli á grundvelli laganna er til að mynda átt við sýslumenn og starfsfólk þeirra, lögmenn, dómara og starfsfólk dómstóla, málsaðila, vitni eða hvern þann annan sem málsmeðferð laganna tekur til hverju sinni.
    Þá skal einnig einu gilda við beitingu heimildarinnar hvort um sé að ræða skriflegt, áritað, staðfest, vottað eða undirritað gagn eða tilkynningu, og jafnframt hvort tilkynningu eða gagni sé beint að viðtakanda í frumriti, afriti, eftirriti eða endurriti eða annars konar riti. Í öllum tilvikum sé staf- og rafrænt form jafngilt pappír, enda leiki ekki vafi á uppruna tilkynningar eða gagns eða frá hverjum það stafi. Hér verður þó eftir sem áður að gera þá kröfu að dómari geti ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi, enda telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu í dómsmáli. Sömuleiðis að sýslumaður geti ákveðið að frumrit annarra gagna en þeirra sem tilgreind eru í 2. mgr. 10. gr. laganna verði lögð fram við meðferð máls telji hann það nauðsynlegt, svo sem vegna sönnunar á þeim réttindum sem málsaðili telur sig eiga.
    Í 2. mgr. nýrrar 10. gr. a er kveðið á um að þegar lögin eða venja áskilji áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun sé heimilt að fullnægja þeim áskilnaði með rafrænni staðfestingu. Hér er ekki ætlunin að binda tiltekna aðferð við rafræna staðfestingu í lög heldur er miðað að því að draga úr óþarfa undirritunum og áritunum með eigin hendi, hverju nafni sem þær nefnast, þegar unnt er að staðfesta með rafrænni auðkenningu, öruggri innskráningu á vef eða öðrum viðurkenndum tæknilausnum frá hverjum tilkynning eða gagn stafar. Til samræmis við fyrirætlan um jafngilda málsmeðferð er vert að árétta að um heimild til rafrænna staðfestinga er að ræða og því verður eftir sem áður unnt að staðfesta ýmis gögn með því að undirrita þau með eigin hendi. Að því er hina rafrænu staðfestingu varðar þá kann til að mynda í sumum tilvikum að vera nægjanlegt að mynd af undirritun með eigin hendi sé notuð til staðfestingar á skjali eða tilkynning eða eintak gagns sé sent úr tölvupóstfangi sem þekkt er eða staðfest á öðrum vettvangi að sendandinn notar. Í öðrum tilvikum kann þó að þurfa að gera ríkari kröfur til rafrænna staðfestinga, svo sem eftir mikilvægi og réttaráhrifa sem við þær eru bundnar.
    Ákvæði 3. mgr. greinarinnar þykir ekki þarfnast skýringa. Um 4. mgr. vísast til umfjöllunar í kafla 3.2 og skýringa við b-lið 7. gr. og b-lið 16. gr. frumvarpsins.
    Með 5. mgr. greinarinnar er ráðherra heimilað að mæla nánar fyrir um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð að því er varðar meðferð mála hjá sýslumanni, en í ljósi stöðu dómstóla í stjórnskipan landsins og þeirri þrískiptingu ríkisvalds sem leiðir af Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands tekur heimild ráðherra ekki til meðferðar mála fyrir dómi. Sams konar heimild að því er varðar meðferð almennra einkamála fyrir dómi er aftur á móti að finna í 50. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (þskj. 1033, 691. mál), sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi á 154. löggjafarþingi 2023–2024. Með d-lið 58. gr. þess frumvarps er dómstólasýslunni falið að setja reglur um þau atriði sem reglugerðarheimild ráðherra samkvæmt tillögu að 5. mgr. hins nýja ákvæðis 10. gr. a í lögum um aðför tekur til.
    Með reglugerðarheimild ráðherra er ætlunin að útfært verði nánar hvaða kröfur verði gerðar til rafrænnar staðfestingar. Horft er til þess að unnt verði að gera ólíkar kröfur eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni og haft í huga að í sumum tilvikum geti til að mynda fullgild rafræn auðkenning verið óþörf eða jafnvel of kostnaðarsöm, en í öðrum geti slík auðkenning verið talin nauðsynleg. Að því er varðar form, frágang og afhendingarmáta gagna er miðað að samræmi milli embætta sýslumanna við meðferð aðfararbeiðna

Um 4. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með b-lið lýtur að því að fallið sé frá því að gera kröfu um að aðfararbeiðni og fylgigögn hennar séu send héraðsdómara í tvíriti. Ef frumvarpið verður að lögum yrði eftirleiðis heimilt á grunni 3. gr. frumvarpsins, sbr. fyrirhugaða nýja 10. gr. a laga um aðför, að senda gögn af því tagi hvort heldur sem er á stafrænan, rafrænan eða bréflegan máta og því óþarft að tiltaka eintakafjölda gagna í lögunum, auk þess sem það væri í andstöðu við markmið frumvarpsins, svo sem að draga úr notkun pappírs. Í því sambandi verður einnig að hafa hugfast að með 4. mgr. 10. gr. a, sbr. 3. frumvarpsins, er ráðgert að ráðherra setji reglugerð um beitingu ákvæðisins, en þar mætti m.a. fjalla um form, frágang og afhendingarmáta gagna við meðferð mála hjá sýslumanni og því verður frekari útfærslu á gagnaframlagningu að finna í reglugerð.
    Þá breytingu sem lögð er til með a-lið leiðir af fyrrgreindri breytingu sem ráðgerð er með b-lið, en eftir sem áður verður nauðsynlegt að senda fylgigögn með aðfararbeiðni. Breytingin lýtur einvörðungu að því að áskilnaður þess efnis er færður til innan 2. mgr. 11. gr. laganna.
    Með c-lið er lagt til að aukið verði við 11. gr. laganna nýrri málsgrein þess efnis að um rafræna staðfestingu og afhendingarmáta, form og frágang ganga vegna meðferðar mála fyrir dómi samkvæmt lögunum fari að öðru leyti eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og reglum settum með stoð í þeim.

Um 5. gr.

    Líkt og rakið er í kafla 3.1 er orðinu „eintak“ ætlað að hafa víðtæka skírskotun til þess þegar gögnum er miðlað til móttakanda á grundvelli laga um aðför, ýmist stafrænt, rafrænt eða á pappírsformi. Því þykir heppilegra að það orð sé notað fremur en orðið „samrit“ um það eintak aðfararbeiðni sem héraðsdómari varðveitir skv. 2. mgr. 15. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Lögð er til breyting á orðalagi 18. gr. laganna í þá veru að eftirleiðis verði kveðið á um móttaka aðfararbeiðna skuli staðfest og beiðnirnar skráðar í þeirri röð sem þær berast í stað þess að mælt sé fyrir um að þær skuli skráðar í áframhaldandi númeraröð eftir því sem þær berist, áritaðar um móttökudag og auðkenndar númeri. Með breytingunni er ætlunin að skapa aukið svigrúm fyrir sýslumenn um þá aðferð sem notuð er við að skrá aðfararbeiðnir, en gæta samtímis að nauðsyn þess að halda því til haga hvenær aðfararbeiðnir berast og í hvaða röð vegna þeirra réttaráhrifa sem af þeim upplýsingum kunna að leiða. Með því að kveða einvörðungu á um staðfestingu sýslumanns í stað nánari útfærslu þessa framkvæmdaratriðis í löggjöf er horft til þess að einfaldara verði að uppfæra verklag eftir því sem tilefni verður til, án þess að afsláttur verði gefinn af réttaröryggi eða nauðsynlegri festu og gegnsæi við meðferð aðfararbeiðna, eða samræmi í verklagi á milli sýslumannsembætta. Þannig þykja skapast enn frekari tækifæri til tæknilegra úrfærslna við málsmeðferð.

Um 7. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um breytingar á 21. gr. laga um aðför. Að gildandi rétti skal gerðarþola tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar. Honum skal um leið tilkynnt hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Sýslumaður skal senda gerðarþola tilkynninguna með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta hana af einum stefnuvotti.
    Með a-lið er lögð til sú breyting á 1. mgr. 21. gr. laganna að sýslumaður geti skorað á gerðarþola að upplýsa hvort hann hafi athugasemdir við aðfararbeiðni, eða hvort hann hafi í hyggju að vísa á eignir sem fjárnám yrði gert í skv. 39. gr. og sett gerðarþola frest í því skyni. Heimild til áskorunar af því tagi er þó bundin því að gerðarbeiðandi hafi krafist þess í aðfararbeiðni samkvæmt breyttri 1. mgr. 10. gr. laganna, sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins, að fjárnámi verði lokið sem árangurslausu án viðveru málsaðila, sbr. tillögu að nýjum 4. tölul. 62. gr. laganna í 15. gr. frumvarpsins. Með breytingunni er ætlunin að skapa forsendur fyrir því, ef ekki er ágreiningur samkvæmt framansögðu og ekki þykir óvarlegt að mati sýslumanns að sú leið verði farin, að árangurslaust fjárnám verði gert án þess að málsaðilar verði boðaðir til fyrirtöku hjá sýslumanni. Í þessu tilliti er mikilvægt að sýslumaður gæti, líkt og hið nýja ákvæði áskilur, að leiðbeiningarskyldu skv. 4. mgr. 25. gr. og kynni gerðarþola að gerð kunni að verða lokið með árangurslausu fjárnámi án viðveru málsaðila ef ekki komi fram athugasemdir af hans hálfu eða ábending um eignir. Ef svo er ekki yrði sýslumanni heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru málsaðila með því að víkja frá skyldu um mætingu gerðarbeiðanda skv. 1. mgr. 23. gr. laganna, sbr. tillögu að breyttri 2. mgr. 23. gr. laganna í 9. gr. frumvarpsins. Einnig er áskilið, svo sem almennt er, að ákvörðun þess efnis verði þá þegar færð í gerðabók að loknum þeim fresti sem gerðarþoli hefur til að bregðast við áskoruninni.
    Með b-lið er lagt til að í kjölfar 1. mgr. 21. gr. laganna komi þrjár nýjar málsgreinar. Tvær fyrstu varða málsmeðferð sýslumanns eftir því hvort gerðarþoli hafi brugðist við áskorun skv. 1. mgr. greinarinnar eða ekki, eða hvort sýslumaður hafi ákveðið að senda gerðarþola ekki slíka áskorun. Þriðja málsgreinin varðar áskilnað um birtingu í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Skv. nýrri 2. mgr. yrði mælt fyrir um að bregðist gerðarþoli ekki við áskorun skv. 1. mgr. verði sýslumanni heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru málsaðila, sbr. 2. mgr. 23. gr. og 4. tölul. 62. gr. Einnig að sú ákvörðun skuli færð þá þegar í gerðabók að loknum fresti skv. 1. mgr. og tilkynnt málsaðilum.
    Skv. nýrri 3. mgr. er kveðið á um að ákveði sýslumaður að taka aðfararbeiðni fyrir að málsaðilum viðstöddum skuli hann tilkynna gerðarþola hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Þau sjónarmið sem hér búa að baki eru jafnframt rakin í kafla 3.4.
    Með nýrri 4. mgr. er mælt fyrir um að sýslumaður skuli birta áskorun og tilkynningu samkvæmt breyttri 1. mgr. 21. gr. laganna, sbr. a-lið 7. gr. frumvarpsins, í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, með ábyrgðarbréfi eða af stefnuvotti. Þannig er lagt til að aukið verði við núgildandi birtingarmáta skv. 2. mgr. 21. gr. laganna heimild sýslumanns til birtingar í stafrænu pósthólfi og telst tilkynningin þá réttilega birt þegar hún er aðgengileg gerðarþola þar, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021. Um nánari skýringu á þeim atriðum sem ákvæðið varðar vísast til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í kafla 3.2.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 22. gr. laga um aðför sem kveði á um að sýslumaður geti heimilað mætingu málsaðila við aðför sem fram fer á starfsstofu sýslumanns samkvæmt lögunum í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess sé kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.
    Samkvæmt gildandi 1. mgr. 22. gr. laganna skal aðför að jafnaði byrja á starfsstofu sýslumanns nema sýslumanni þyki að höfðu samráði við gerðarbeiðanda annað hentara og samrýmanlegt hagsmunum aðilanna og í 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um nánar tilteknar undantekningar þar frá. Með hinni nýju málsgrein er ætlunin að veita aukið svigrúm um hvernig málsaðilar mæta við framkvæmd aðfarar án þess að réttindi þeirra verði fyrir borð borin. Áhersla er lögð á að um er að ræða heimild sýslumanns til að liðka fyrir því að málsaðilar geti mætt til fyrirtöku aðfararbeiðni en ekki skilyrðislausan rétt málsaðila til að mæta með þessum hætti. Alla jafna ætti þó sýslumaður að geta orðið við beiðni þessa efnis sem fram kemur tímanlega svo að unnt sé að koma mætingu með þessu móti við, en að öðrum kosti verður málsaðili líkt og til þessa að bera sjálfur ábyrgð á mætingu í eigin persónu eða málsvari sem hæfur er að lögum til að gæta að hagsmunum málsaðilans fyrir hans hönd. Að öðru leyti eru þau sjónarmið sem hér búa að baki jafnframt rakin í kafla 3.3.


Um 9. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á 1. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna lýtur að heimild sýslumanns til að víkja fá því skilyrði 1. mgr. 23. gr. að ekki verði af aðför nema gerðarbeiðandi sé viðstaddur eða annar maður sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd. Þessi breyting leiðir af fyrirhuguðum breytingum á 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 21. gr. og 4. tölul. 62. gr. laganna, sbr. 2., 7. og 15. gr. frumvarpsins. Þannig verði sýslumanni heimilað til samræmis við framangreind ákvæði laganna, eins og lagt er til að þau breytist með frumvarpi þessu, að fallast á að aðför fari fram og verði lokið með árangurslausu fjárnámi án nærveru málsaðila ef gerðarbeiðandi hefur krafist þess að svo verði gert í aðfararbeiðni, gerðarþoli hefur ekki brugðist við áskorun sýslumanns og skilyrði eru að öðru leyti fyrir því að mati sýslumanns að aðfarargerð verði lokið á þann veg. Um skýringu á þeirri málsmeðferð er nánar fjallað í kafla 3.4 og skýringum við 2., 7. og 15. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Sú breyting á 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna leiðir af þeirri breytingu sem gerð er í 7. gr. frumvarpsins um breytingar á 21. gr.. laganna. Með 7. gr. frumvarpsins er þremur nýjum málsgreinum bætt við 21. gr. laganna á milli núgildandi 1. og 2. mgr. greinarinnar og því þarf í samræmi við það í 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna að vísa til 1. og 3. mgr. 21. gr. í stað 1. og 2. mgr. 16. gr.

Um 11. og 12. gr.

    Þær breytingar sem mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. lúta að því að skipta orðinu „undirrita“ út fyrir orðið „staðfesta“ í 3. mgr. 33. gr. og 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. laganna til þess að auka svigrúm til framkvæmdar laganna með tilliti til tæknilegra lausna. Í þeim efnum er þó vert að árétta að ekki er lagt bann við undirritun með eigin hendi.

Um 13. og 14. gr.

    Með greinunum er lagt til að orðið „eftirrit“ víki fyrir orðinu „eintak“ af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.


Um 15. gr.

    Tillaga að viðbótartölulið við 62. gr. laga um aðför, um heimild til að ljúka fjárnámi sem árangurslausu, leiðir af breytingum sem ráðgerðar eru á 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 23. gr. laganna með a-lið 2. gr., a-lið 7. gr. og 9. gr. frumvarpsins. Skv. hinum nýja tölulið, sem verður 4. tölul., verður fjárnámi lokið án árangurs eftir kröfu gerðarbeiðanda, sbr. inngangsmálsliður 62. gr. laganna, ef hvorki gerðarþoli né gerðarbeiðandi er staddur við gerðina vegna þess að gerðarbeiðandi hefur krafist þess í aðfararbeiðni skv. 1. mgr. 10. gr. að fjárnámi yrði lokið sem árangurslausu án viðveru málsaðila og gerðarþoli hefur ekki orðið við áskorun sýslumanns skv. 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. Um skilyrði þeirra málsmeðferðar er nánar fjallað í skýringum við a-lið 2. gr., a-lið 7. gr. og 9. gr. frumvarpsins og kafla 3.4.

Um 16. gr.

    Með a-lið greinarinnar er heimild til að birta gerðarþola tilkynningu um aðfararbeiðni og þinghaldi fyrir héraðsdómi í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda aukið við 1. mgr. 80. gr. laganna. Að sama skapi er felld brott sú heimild að gerðarþola verði birt tilkynning af þessu tagi með símskeyti en ástæður þess eru raktar í skýringum við 1. gr. og kafla 3.2.
    Með b-lið greinarinnar er mælt fyrir um að við 2. mgr. 80. gr. laganna bætist tveir nýir málsliðir sem kveði nánar á um birtingu tilkynningar skv. 1. mgr. 80. gr. laganna í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Lagt er til að tilkynning skv. 1. mgr. teljist réttilega birt í hinu stafræna pósthólfi þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku hennar, en að öðru leyti fari um birtingu í stafrænu pósthólfi eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Þykir slíkur áskilnaður nauðsynlegur vegna þeirra hagsmuna sem um er að tefla, m.a. þar sem slíkar tilkynningar geta varðað útburðar- og innsetningargerðir án undangengis dóms eða réttarsáttar auk þess sem úrskurðir verða ekki enduruppteknir heldur einungis endurskoðaðir með kæru til æðri dóms þar sem kærufrestur er tiltölulega stuttur. Nánar er fjallað um sjónarmið að baki breyttum birtingarháttum á grunni frumvarpsins í kafla 3.2.

Um 17. og 18. gr.

    Með greinunum er lagt til að orðin „samrit“, „ljósrit“ og „eftirrit“ víki fyrir orðinu „eintak“ af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.


Um 19. gr.

    Um skýringu á ákvæðinu vísast að því leyti sem við á til skýringa á 16. gr. frumvarpsins og kafla 3.2.

Um 20. gr.

    Með greininni er lagt til að orðið „eftirrit“ víki fyrir orðinu „eintak“ af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.


Um 21. gr.

    Um skýringu á ákvæðinu vísast að því leyti sem við á til skýringa á 16. gr. frumvarpsins og kafla 3.2.

Um 22. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gerðarbeiðanda verði ekki verði lengur heimilt að birta gerðarþola greiðsluáskorun skv. 2. mgr. laga um nauðungarsölu með símskeyti. Um ástæður þess vísast til skýringa við 1. gr. sem varðar sams konar aðstöðu samkvæmt lögum um aðför.

Um 23. gr.

    Með a-lið greinarinnar er lögð til viðbót við 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga um nauðungarsölu þess efnis að gerðarbeiðanda verði gefið færi á að koma að ósk um að nauðungarsala á fasteign fari fram á almennum markaði. Komi slík ósk fram þykir fyrirséð að þörf sé á að boða til fyrirtöku skv. 21. gr. laganna og því væri ekki tilefni fyrir sýslumann að skora á gerðarþola að upplýsa hvort hann hygðist mótmæla rétti gerðarbeiðanda til nauðungarsölu, hvort hann hefði athugasemdir við beiðnina og hvort hann óskaði þess að nauðungarsala færi fram á almennum markaði eftir ákvæðum VI. kafla líkt og lagt er til með 25. gr. frumvarpsins að sýslumanni verði heimilt með breyttri 1. mgr. 16. gr. laganna. Við þá aðstöðu væri sýslumanni rétt að boða gerðarþola og gerðarbeiðanda til fyrirtöku skv. 21. gr. laganna.
    Með b-lið er lagt til að orðið „myndrit“ víki fyrir orðinu „eintak“ af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.
    Með c-lið er lagt til að fallið verði frá því að mæla fyrir um að leggja skuli fram afrit beiðni um nauðungarsölu og fjölda slíkra beiðna þar sem þörfin fyrir aukaeintök verður takmarkaðri þegar heimilt verður að miðla gögnum til dómstóla rafrænt og stafrænt á grunni nýrrar 11. gr. a í lögunum, sbr. 24. gr. frumvarpsins. Að auki eru fyrirmæli um fjölda aukaeintaka í andstöðu við það markmið frumvarpsins að skapa forsendur fyrir að draga úr pappírsnotkun. Því er lagt til að 5. mgr. 11. gr. laga um nauðungarsölu falli brott og þess í stað verði látið við það sitja að eftirleiðis séu fyrirmæli 1.–4. mgr. 11. gr. laganna nægjanleg fyrirmæli að lögum um framlagningu beiðna um nauðungarsölu og fylgigögn þeirra. Á grunni jafngildisákvæðis í 24. gr. frumvarpsins, sem líkt og áður segir verður 11. gr. a í lögunum, verði frumvarpið að lögum, yrði jafngilt að miðla gögnum til sýslumanns á stafrænu, rafrænu eða bréflegu formi og er því ekki lengur nauðsynlegt að mæla fyrir um fjölda eintaka gagna líkt og gert er að gildandi rétti. Í þessu sambandi verður einnig að hafa hugfast að með 4. mgr. 11. gr. a, sbr. 24. frumvarpsins, er ráðgert að ráðherra setji reglur m.a. um form, frágang og afhendingarmáta gagna við meðferð mála hjá sýslumanni og því verður frekari útfærslu á gagnaframlagningu að finna í reglum.

Um 24. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt ákvæði, 11. gr. a, verði tekin upp í lög um nauðungarsölu sem leggi að jöfnu stafræna og rafræna málsmeðferð og málsmeðferð sem miðast við pappír. Almennt verði þannig jafngilt að gögn og tilkynningar berist á milli þeirra sem aðkomu eiga að málum sem rekin eru samkvæmt lögunum á hvern þann máta sem ákvæðið heimilar, auk þess sem rafræn staðfesting verði lögð að jöfnu við undirritun með eigin hendi.
    Um skýringar á 1.–5. mgr. ákvæðisins vísast til skýringa á 1.–5. mgr. sams konar ákvæðis sem ætlunin er að verði að 10. gr. a í lögum um aðför og mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarpsins, sbr. einnig almennar skýringar í kafla 3.1 Þess ber þó að geta að með þeim sem aðkomu eiga að máli er til að mynda átt við lögmenn, dómara, starfsfólk dómstóla, málsaðila skv. 1.–4. tölul. 2. gr. laga um nauðungarsölu, vitni eða hvern þann annan sem málsmeðferð laganna tekur til hverju sinni.

Um 25. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um breytingar á 16. gr. laga um nauðungarsölu. Að gildandi rétti skal sýslumaður ákveða svo fljótt sem auðið er fyrirtöku beiðni um nauðungarsölu þegar staðreynt hefur verið að beiðni fullnægi skilyrðum 1. mgr. 13. gr. Hann skal og senda gerðarþola afrit hennar í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti, ásamt tilkynningu um hvar og hvenær sýslumaður taki hana fyrir.
    Með a-lið er lögð til sú breyting á 1. mgr. 16. gr. laganna að í stað þess að strax í upphafi verði ákveðin fyrirtaka beiðninnar geti sýslumaður, í kjölfar þess að hann hefur staðreynt að beiðni fullnægi fyrrgreindum skilyrðum 1. mgr. 13. gr., sent gerðarþola eintak beiðninnar í stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti og jafnframt skora á gerðarþola að upplýsa hvort hann hyggist mótmæla rétti gerðarbeiðanda til nauðungarsölu, hvort hann hafi athugasemdir við beiðnina og hvort hann óski þess að nauðungarsala fari fram á almennum markaði eftir ákvæðum VI. kafla. Mikilvægt er að í áskoruninni gæti sýslumaður að leiðbeiningarskyldu skv. 2. mgr. 21. gr., svo sem áskilið er samkvæmt hinu breytta ákvæði, og kynni gerðarþola réttaráhrif þess að hann bregðist ekki við áskoruninni og setja honum frest í þessu skyni.
    Með b-lið er lagt til að í kjölfar 1. mgr. 16. gr. laganna komi þrjár nýjar málsgreinar. Tvær fyrstu varða málsmeðferð sýslumanns eftir því hvort gerðarþoli hafi brugðist við áskorun skv. 1. mgr. greinarinnar eða ekki, eða hvort sýslumaður hafi ákveðið að senda gerðarþola ekki slíka áskorun. Þriðja málsgreinin varðar áskilnað fyrrgreindrar birtingar í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Skv. nýrri 2. mgr. yrði mælt fyrir um að bregðist gerðarþoli ekki við áskorun skv. 1. mgr., væri sýslumanni heimilt að ákveða að fyrirtaka skv. 21. gr. fari ekki fram og ákveða þess í stað, án nærveru gerðarbeiðanda og gerðarþola, viðmiðunardaga fresta skv. 2. og. 3. mgr. 27. gr. og hvenær uppboð hefst. Með þessu móti yrði hjá því komist að halda þarflitla fyrirtöku á skrifstofu sýslumanns þegar ekki lægi fyrir ágreiningur um rétt gerðarbeiðanda til nauðungarsölu, athugasemdir við beiðnina eða ósk gerðarbeiðanda eða gerðarþola þess efnis að nauðungarsala færi fram á almennum markaði eftir ákvæðum VI. kafla laganna. Um framkvæmd sýslumanns skal farið að ákvæðum 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. eftir því sem við á, þar á meðal ef fram kemur ný beiðni um nauðungarsölu á eigninni og um færslu gerðabókar. Sýslumaður skal og gæta þess af sjálfdáðum að fyrirmælum þessara laga um undirbúning og framkvæmd nauðungarsölunnar hafi verið fylgt, sbr. 1. mgr. 22. gr. Við þessar aðstæður væri sýslumanni því rétt að færa ákvarðanir sínar samkvæmt framansögðu í gerðabók, en með tilkynningu um uppboð skv. 1. mgr. 26. gr. laganna yrði upplýst um viðmiðunardag fresta skv. 2. og 3. mgr. 27. gr.
    Samkvæmt nýrri 3. mgr. 16. gr. er mælt fyrir um að ef gerðarþoli verður við áskorun skv. 1. mgr. eða ef sýslumaður hefur ákveðið að senda gerðarþola ekki slíka áskorun skuli sýslumaður ákveða að fyrirtaka skv. 21. fari fram og tilkynna gerðarþola það í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti, hvar og hvenær beiðni um nauðungarsölu skv. 21. gr. verður tekin fyrir. Meðal ástæðna þess að sýslumaður myndi ekki senda gerðarþola áskorun skv. 1. mgr. er ósk gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eignar á almennum markaði, sbr. a-lið 25. gr. frumvarpsins um breytta 1. mgr. 11. gr. laganna, einnig kunna aðrar aðstæður að valda því að varlegra sé að boða til fyrirtöku skv. 21. gr. laganna vegna annarra réttinda aðila. Ef ákveðið er að fyrirtaka skv. 21. gr. fari fram skal tilkynna gerðarþola það í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti, hvar og hvenær beiðni um nauðungarsölu skv. 21. gr. verður tekin fyrir. Þannig hefur verið aukið við heimild 1. mgr. 16. gr. laganna til að birta gerðarþola tilkynningu um beiðni um nauðungarsölu, áskorun og fyrirtöku beiðni, í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Þau sjónarmið sem hér búa að baki eru jafnframt rakin í kafla 3.4.
    Þá er með b-lið einnig mælt fyrir um nýja 4. mgr. 16. gr. um áskilnað fyrrgreindrar birtingar í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Lagt er til að áskorun og tilkynning skv. 1. mgr. teljist réttilega birt í hinu stafræna pósthólfi þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku hennar, en að öðru leyti fari um birtingu í stafrænu pósthólfi eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Í ljósi þess hversu íþyngjandi nauðungarsala er fyrir gerðarþola, m.a. með tilliti til friðhelgi eignaréttar og einkalífs, er mikilvægt að gerðarþoli hafi vitneskju um að beiðni þar að lútandi hafi komið fram og geti þá gert þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að tryggja hagsmuni sína. Þá er jafnframt haft í huga að ekki verður leyst úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu með endurupptöku heldur einungis úrskurði héraðsdómara, sem aftur verði einungis endurskoðaður með kæru til æðri dóms þar sem kærufrestur er tiltölulega stuttur. Nánar er fjallað um sjónarmið að baki breyttum birtingarháttum á grunni frumvarpsins í kafla 3.2.
    Sú breyting sem lögð er til með c-lið leiðir af þeirri breytingu á málsmeðferð sem ráðgerð er með a-lið á 1. mgr. 16. gr. laganna. Þannig er áskorun bætt við sem annarri af tveimur ákvöðum skv. 2. mgr. 16. gr. laganna sem ekki getur orðið af við málsmeðferðina vegna þeirra atvika sem þar er greint frá.

Um 26. gr.

    Sú breyting á 2. mgr. 20. gr. laganna sem gerð er með a-lið leiðir af 25. gr. frumvarpsins um breytingar á 16. gr. laganna. Með 25. gr. frumvarpsins er nýrri málsgrein bætt við 16. gr. laganna á milli núverandi 1. og 2. mgr. greinarinnar og því þarf í samræmi við það í 2. mgr. 20. gr. laganna að vísa til 3. mgr. 16. gr. í stað 2. mgr. 16. gr.
    Breytingin sem lögð er til með b-lið er af sama meiði og í nokkrum fyrri ákvæðum frumvarpsins og snýr einvörðungu að breyttu orðalagi. Þannig er lagt til að orðið „afrit“ víki á tveimur stöðum fyrir orðinu „eintak“ af þeim ástæðum sem fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.

Um 27. gr.

    Skv. 1. mgr. 21. gr. laga um nauðungarsölu tekur sýslumaður fyrir beiðni um nauðungarsölu á áður auglýstum tíma ef hún hefur ekki þegar fallið niður samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Með þessari nýju málsgrein, 3. mgr. 21. gr. laganna er lagt til að sýslumaður heimilað mætingu málsaðila skv. 2. gr. laga um nauðungarsölu til fyrirtöku í gegnum fjarfundabúnað, með hljóði og mynd ef þess er kostur, enda geti allir sem viðstaddir eru fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Hér er um heimild af sams konar toga að ræða og fjallað er um í skýringum við 8. gr. frumvarpsins hvað áhrærir þar tilgreindar fyrirtökur aðfararbeiðna hjá sýslumanni. Um skýringu á 27. gr. frumvarpsins vísast því til skýringa við 8. gr. frumvarpsins eftir því sem við á, sem og kafla 3.3.

Um 28. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna leiðir af breytingum á 1. mgr. 16. laganna, sbr. a-lið 25. gr. frumvarpsins, og þykir ekki þarfnast frekari skýringa.

Um 29. gr.

    Með a-lið greinarinnar er lögð til sú breyting á orðalagi að hin bréflega tilkynning til gerðarþola skv. 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna skuli vera skrifleg. Líkt og fjallað er um í kafla 3.1 þykir orðið „bréflega“ vísa til málsmeðferðar á pappír en orðið „skriflega“ þykir aftur á móti hafa víðtækari merkingu og því megi nota það um tilkynningar og gögn við málsmeðferð sem ekki eru munnleg, hvort heldur sem er á pappír eða fyrir tilstilli rafrænna og stafrænna lausna. Nái breytingin sem lögð er til með þessari grein frumvarpsins fram að ganga yrði því hvort tveggja heimilt að birta gerðarþola tilkynningu um uppboð í stafrænu pósthólfi, á annan stafrænan eða rafrænan máta eða með bréfi til viðtakanda. Birting í stafrænu pósthólfi teldist þannig við þessar aðstæður hafa farið fram samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 15/2021. Þannig eru áþekkar kröfur gerðar til birtingar tilkynningar af þessu tagi og að gildandi rétti, en frekari sjónarmið að baki birtingum samkvæmt frumvarpinu í stafrænu pósthólfinu eru rakin í kafla 3.2.
    Þær breytingar sem lagðar eru til með b- og c-lið leiða af 25. frumvarpsins um breytingar á 16. gr. laganna þar sem sýslumanni mun, ef frumvarpið verður að lögum óbreytt, verða heimilt að ákveða að fyrirtaka skv. 21. gr. laganna fari ekki fram. Við þær aðstæður er nauðsynlegt að sýslumaður tilkynni gerðarþola og gerðarbeiðanda um uppboð líkt og hann hefði annars gert ef gerðarþoli hefði ekki mætt við boðaða fyrirtöku skv. 21. gr. laganna að gildandi rétti. Þá er gerðarþola og gerðarbeiðanda sömuleiðis nauðsynlegt að fá skriflegar upplýsingar um ákvarðanir sýslumanns um viðmiðunardag fresta skv. 2. og 3. mgr. 27. gr. ef fyrirtaka skv. 21. gr. laganna hefur ekki farið fram. Því er lagt til að skyldu um tilkynningu þess efnis verði aukið við 1. mgr. 26. gr. Um málskot til héraðsdóms vegna ákvarðana sýslumanns fer ,eftir því sem við á, eftir almennum reglum laganna.

Um 30. gr.

    Hér er um að tefla sams konar heimild, að þessu sinni til mætingar í gegnum fjarfundabúnað á uppboð á starfsstofu sýslumanns, og lögð er til við fyrirtöku skv. IV. kafla laga um nauðungarsölu skv. 27. gr. frumvarpsins. Um skýringu á þessari grein vísast því til skýringa við 27. gr. frumvarpsins, en einnig skýringa við 8. gr. um efnislega sams konar heimild við meðferð aðfararbeiðna á grundvelli laga nr. 90/1989 og kafla 3.3 að því leyti sem við á.

Um 31. gr.

    Með greininni er nýjum tryggum birtingarmáta aukið við 3. mgr. 35. gr. laganna vegna tilkynningar sýslumanns til aðila nauðungarsölu um framhald uppboðs. Lagt er til, auk tilkynningar með ábyrgðarbréfi, að heimilt verði að birta slíka tilkynningu í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Að sama skapi er lagt til að felld verði brott úr lagaákvæðinu heimild til að birta slíkar tilkynningar með símskeyti. Hvað brottfall birtinga með símskeyti áhrærir hefur birtingum af því tagi verið hætt. Aðrir birtingarmátar samkvæmt ákvæðinu, eins og lagt er til að það verði með þessu frumvarpi, þykja betur þjóna þeim tilgangi að koma áskorun gerðarbeiðanda til vitundar gerðarþola. Að því er birtingu í stafrænu pósthólfi varðar er lagt til að birtingar tilkynningar af því tagi sem hér eru til umfjöllunar teljist réttilega hafa farið fram þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku hennar, en að öðru leyti fari um birtingu í stafrænu pósthólfi eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Þannig eru áþekkar kröfur gerðar til birtingar þessara tilkynninga og að gildandi rétti með því að miða við sömu birtingarreglu að þessu leyti og vegna áskorunar og tilkynningar skv. 16. gr. laganna, sbr. b-lið 25. gr. frumvarpsins. Um nánari skýringar á þeim birtingarhætti vísast til skýringar við þá grein frumvarpsins og kafla 3.2.

Um 32. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um viðbót við 1. mgr. 36. gr. laganna þannig að sér í lagi verði tekið fram að ekki sé heimilt að mæta til framhalds uppboðs í gegnum fjarfundabúnað, en ástæða þess er m.a. þau vandkvæði sem af því gætu hlotist, svo sem í tæknilegu tilliti, að heimila mætingu með þeim hætti þegar uppboð fer fram á þeirri eign sem til stendur að selja. Að auki þykir til að mynda varlegra að framhald uppboðs fari fram í eigin persónu til að síður komi til vandkvæða við að framfylgja þeim reglum sem gæta ber að svo að ekki skapist hætta á að réttindi málsaðila skv. 2. gr. laganna verði fyrir borð borin.

Um 33. gr.

    Þær breytingar sem hér er mælt fyrir um lúta annars vegar að boðunarmáta til fyrirtöku um nauðungarsölu á almennum markaði skv. 41. gr. laga um nauðungarsölu og hins vegar um heimild málsaðila skv. 2. gr. laganna til að mæta til slíkrar fyrirtöku á skrifstofu sýslumanns fyrir tilstilli fjarfundabúnaðar.
    Verði frumvarpið að lögum að þessu leyti verður heimilt að senda boðun til þessarar fyrirtöku í stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 16. gr., í ábyrgðarbréfi eða með öðrum sannanlegum hætti, en að gildandi rétti eru boðanir af þessu tagi heimilaðar með ábyrgðarbréfi eða með öðrum sannanlegum hætti. Í ljósi þeirra krafna sem nú eru gerðar til þessara boðana þykir rétt að miða við að boðun teljist hafa farið fram í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda þegar viðtakandi hefur staðfest móttöku hennar, en um birtingu í stafrænu pósthólfi fari að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, sbr. tillaga að breyttri 2. mgr. 16. gr. laganna með b-lið 25. gr. frumvarpsins. Um nánari skýringar á þessum birtingarmáta vísast til skýringa við þá grein frumvarpsins og kafla 3.2.
    Hvað varðar mætingu í gegnum fjarfundabúnað við fyrirtöku skv. 1. mgr. 41. gr. laganna þá er hér er um að tefla sams konar heimild, að þessu sinni til mætingar í gegnum fjarfundabúnað til fyrirtöku nauðungarsölu á almennum markaði á starfsstofu sýslumanns, og lögð er til við fyrirtöku skv. IV. kafla laga um nauðungarsölu skv. 26. gr. frumvarpsins og byrjunar uppboðs skv. 28. gr., sem einnig fara í báðum tilvikum fram á starfsstofu sýslumanns. Því vísast að þessu leyti til skýringa við 27. og 30. gr. og frumvarpsins, en einnig skýringa við 8. gr. þess um efnislega sams konar heimild við meðferð aðfararbeiðna á grundvelli laga nr. 90/1989, og kafla 3.3 að því sem við á.

Um 34. og 35. gr.

    Með greinunum er lagt til að orðið „afrit“ víki fyrir orðið „eintak“, í eintölu í 32. gr. en í fleirtölu í 33. gr., af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“.

Um 36. gr.

    Hér er lagt til að orðið „skriflega“ komi í stað orðsins „bréflega“ í 2. mgr. 66. gr. laga um nauðungarsölu. Orðið „bréflega“ þykir vísa til málsmeðferðar á pappír en orðið „skriflega“ þykir aftur á móti hafa víðtækari merkingu og því megi nota það um málsmeðferð sem ekki er munnleg, hvort heldur sem er á pappír eða fyrir tilstilli rafrænna og stafrænna lausna.

Um 37. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna leiðir af breytingum á 1. mgr. 16. laganna, sbr. a-lið 25. gr. frumvarpsins. Þar sem ráðgert er að sýslumaður geti eftirleiðis sent gerðarþola áskorun og tilkynningu skv. 1. mgr. 16. gr. laganna þykir rétt að geta tilkynningar um fyrirtöku í eintölu sérstaklega svo að ekki fari á milli mála að 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna eigi ekki við um áskorun sýslumanns til gerðarþola samkvæmt breyttri 1. mgr. 16. gr. laganna.

Um 38. og 39. gr.

    Með greinunum er ýmist lagt til að orðin „eftirrit“, „endurrit“ og „afrit“ víki fyrir orðinu „eintak“ af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 5. gr. að því er varðar orðið „samrit“. Í tveimur tilvikum, annars vegar í 4. málsl. 3. mgr. 73. gr. og hins vegar í 2. mgr. 81. gr. laganna, er þó ekki talið nauðsynlegt að orðið „eintak“ komi í stað orðsins „endurrit“ þegar vísað er til endurrits gerðabókarsýslumanns heldur sé í báðum tilvikum unnt að vísa í einu lagi til eintaka gagna og gerðabókar á þann veg sem lagt er til.

Um 40. gr.

    Með greininni er nýjum tryggum og hagnýtum birtingarmáta aukið við 4. mgr. 82. gr. laganna vegna tilkynningar héraðsdómara til málsaðila. Lagt er til, auk tilkynningar sem verður birt með sama hætti og stefna í einkamáli, að heimilt verði að birta slíka tilkynningu í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Lagt er til að birting tilkynningar í stafrænu pósthólfi teljist réttilega hafa farið fram þegar málsaðili hefur staðfest móttöku hennar, en að öðru leyti fari um birtingu í stafrænu pósthólfi eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Þannig eru áþekkar kröfur gerðar til birtingar þessara tilkynninga og að gildandi rétti. Frekari sjónarmið um þennan birtingarhátt eru rakin í kafla 3.2.

Um 41. gr.

    Í greininni er fjallað um gildistöku og þarfnast ákvæðið ekki skýringar.