Ferill 931. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1378  —  931. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um skák.

Frá mennta- og barnamálaráðherra.I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um stuðning ríkisins við skák og skákhreyfinguna á Íslandi.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að styðja við starfsemi í skák hér á landi, styrkja efnilegt skákfólk sem stefnir að alþjóðlegum árangri, efla starfsemi á sviði afreksmála og bæta árangur keppnisfólks í skák.

3. gr.

Framlög vegna skákmála.

    Framlög ríkisins vegna skákmála eru ákveðin í fjárlögum ár hvert. Þeim skal varið í afrekssjóð í skák, sbr. II. kafla, og í stuðning sem ráðstafað er til skákhreyfingarinnar á grundvelli samnings eða samninga, þ.m.t. til að annast skákþjálfun og fræðslu sem miðar að því að efla skákiðkun hér á landi.

II. KAFLI

Afrekssjóður í skák.

4. gr.

Starfræksla og stjórn.

    Ráðherra ber ábyrgð á starfrækslu afrekssjóðs í skák og úthlutar styrkjum úr sjóðnum.
    Ráðherra skipar þrjá fulltrúa í stjórn afrekssjóðs í skák til þriggja ára í senn, tvo samkvæmt tilnefningum skákhreyfingarinnar og einn án tilnefningar. Varafulltrúar skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalfulltrúa en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Ekki er heimilt að skipa sama einstakling aðalfulltrúa í stjórn lengur en tvö samfelld starfstímabil. Við skipan í stjórn afrekssjóðs í skák skal gætt að því að hlutfall kynja sé sem jafnast.
    Hlutverk stjórnar er m.a. að:
     a.      gera tillögu til ráðherra um stefnu við úthlutun styrkja úr sjóðnum til þriggja ára í senn,
     b.      gera tillögu til ráðherra um styrkveitingar úr sjóðnum, sbr. 5. gr.,
     c.      fylgjast með því að skákfólk sem fær úthlutað úr sjóðnum fari eftir skilmálum úthlutunar og gera ráðherra viðvart ef svo er ekki.

5. gr.

Styrkveitingar.

    Styrkir úr afrekssjóði í skák skulu veittir afreksskákfólki og efnilegu skákfólki sem stefnir að alþjóðlegum árangri. Styrkir skulu veittir til skilgreindra verkefna og taka mið af væntum árangri umsækjanda það árið. Styrkjum er úthlutað einu sinni á ári og skulu veittir í þrjá til tólf mánuði í senn. Í undantekningartilfellum er heimilt að veita styrki í styttri eða lengri tíma en þó aldrei lengur en þrjú ár.
    Styrkveitingar skulu vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, þriggja ára stefnu um úthlutun og áherslur sem ákveðnar eru ár hvert vegna úthlutunar styrkja úr sjóðnum. Til að bæta stöðu og auka möguleika kvenna í skák er heimilt að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin.

6. gr.

Málsmeðferð.

    Ráðherra auglýsir ár hvert eftir umsóknum um styrki úr afrekssjóði í skák. Í auglýsingu skal gera grein fyrir skilyrðum og áherslum úthlutunar ásamt viðmiðunarfjárhæðum.
    Stjórn afrekssjóðs í skák tekur umsóknir um styrki til meðferðar og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Ráðherra ákveður afgreiðslu umsókna og tilkynnir umsækjendum um hana. Ráðherra getur falið stjórn afrekssjóðsins að gera samning við hvern umsækjanda þar sem fram koma skilyrði fyrir styrkveitingu. Heimilt er að binda styrkveitingar úr sjóðnum skilyrðum.
    Þeir sem fá styrki úr afrekssjóði í skák skulu gera stjórn sjóðsins grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari skilyrðum úthlutunar. Verði misbrestur á, eða séu önnur skilyrði fyrir styrkveitingu ekki uppfyllt, er heimilt að krefjast endurgreiðslu styrks og/eða stöðva greiðslur úr sjóðnum.
    Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Réttur til rökstuðnings samkvæmt stjórnsýslulögum gildir ekki um ákvarðanir um veitingu styrkja úr afrekssjóði í skák.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

7. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur reglugerð um afrekssjóð í skák, þar sem m.a. er kveðið á um vörslu sjóðsins, stjórn hans og skipulag og reglur um úthlutun.

8. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2025. Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990, og lög um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Störf stórmeistara í skák eru lögð niður frá 31. janúar 2025. Um réttindi og skyldur starfsmanna, þ.m.t. um biðlaunarétt, fer samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Stórmeistari í skák, sem gegndi starfi og fékk laun á grundvelli laga nr. 58/1990, nýtur forgangs til styrkja úr afrekssjóði í skák sem veittir verða árið 2025.
    Ráðherra er heimilt að skipa stjórn afrekssjóðs í skák og gera aðrar ráðstafanir svo fyrsta úthlutun styrkja úr afrekssjóði í skák geti farið fram 1. febrúar 2025.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpinu, sem samið er í mennta- og barnamálaráðuneytinu, er lagt til að sett verði ný heildarlög um skák í stað laga um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990, og laga um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990, sem tóku gildi árið 1991.
    Stuðningur ríkisins við skákhreyfinguna á sér langa sögu. Frá árinu 1957 hafa stórmeistarar í skák notið launa úr ríkissjóði og voru fyrst á launaskrá hjá menntamálaráðuneytinu með ráðherraúrskurði. Gildistaka laga um stórmeistara í skák og Skákskóla Íslands árið 1991 fól í sér mikla réttarbót en þar var m.a. fjallað um réttindi og skyldur stórmeistara, vinnuframlag og launagreiðslur.
    Frá árinu 1991 hafa orðið frekari breytingar á samfélaginu og löggjöf og orðið brýnt að taka löggjöf um skák til endurskoðunar að nýju. Frumvarpinu, sem er afurð þessarar endurskoðunar, er ætlað að styðja betur við það markmið að þeir sem skara fram úr í skák hafi tækifæri til þess að helga sig skáklistinni, standi hugur þeirra til þess, og nái árangri á alþjóðavísu. Jafnframt er markmiðið að styðja efnilegt fólk til þess að ná alþjóðlegum skákáföngum og að efla Skáksamband Íslands og grasrótarstarfsemi aðildarfélaga Skáksambandsins.
    Í frumvarpinu er því lagt til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag styrkja til stórmeistara í skák þar sem horft verði til einstakra verkefna og framgangs þeirra frekar en að stórmeistarar séu í ráðningarsambandi við ríkið. Þá verði horft til þess möguleika að styrkja efnilegt skákfólk sem stefnir að alþjóðlegum árangri en hingað til hafa eingöngu þeir sem hlotið hafa nafnbótina stórmeistari fengið greiðslur úr ríkissjóði. Jafnframt verði rekstur Skákskóla Íslands og önnur fræðslumál í skák færð alfarið til framkvæmdar hjá Skáksambandi Íslands og grasrótarsamtaka í skák. Um er að ræða verulegar breytingar frá gildandi lögum og því talið rétt að sett verði ný heildarlög um skák. Í ljósi þess hversu fáir einstaklingar njóta nú launa úr launasjóði stórmeistara þykir ekki annað rétt en að framangreindar breytingar verði gerðar í einu lagi enda fæst ekki séð að það sé framkvæmanlegt að vera með tvenns konar fyrirkomulag styrkveitinga eða launagreiðslna í skák í gangi á sama tíma.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjallað er um skák í tveimur lagabálkum, lögum um launasjóð stórmeistara í skák og lögum um Skákskóla Íslands. Þetta fyrirkomulag er óvenjulegt ef borið er saman við löggjöf á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, þar sem tveir yfirgripsmiklir lagabálkar, íþróttalög, nr. 64/1998, og æskulýðslög, nr. 70/2007, eru regnhlíf yfir starfsemi sem þar heyrir undir. Þá eru ákveðnir þættir í lögum um launasjóð stórmeistara og lögum um Skákskóla Íslands sem falla ekki nægilega vel að nútímastjórnsýsluuppbyggingu. Í þessu sambandi má benda á að skv. 5. gr. laga um launasjóð stórmeistara í skák eru stórmeistarar opinberir starfsmenn en reglur um launasjóðinn falla að öðru leyti ekki vel þeim reglum sem nú gilda um opinbera starfsmenn. Þá má benda á að í lögum um Skákskóla Íslands kemur fram að skólinn sé rekinn af Skáksambandi Íslands í samvinnu við ráðuneytið en óvenjulegt er að ítarleg sjálfstæð löggjöf fjalli um skóla sem rekinn er af frjálsum félagasamtökum.
    Sjö stórmeistarar njóta nú launa úr launasjóði stórmeistara. Ár hvert skilar stjórn Launasjóðs stórmeistara í skák tillögu til ráðherra um úthlutun úr launasjóði. Af skýrslum stjórnar og samskiptum ráðuneytisins við stórmeistara má ráða að í gegnum tíðina hefur verið misjafnt hvernig stórmeistarar rækja skyldur sínar. Í því sambandi má meðal annars benda á að í tillögum stjórnar 13. febrúar 2024 kemur fram að aðeins tveir stórmeistarar uppfylla öll skilyrði þess að njóta launa úr sjóðnum. Einnig er talsvert af efnilegu skákfólki sem hefur takmarkaða möguleika til þess að efla sig þar sem það uppfyllir ekki skilyrði til að fá úthlutað úr sjóðnum. Mikilvægt er að gera breytingar á þessu svo stuðningur ríkisins við skák sé í reynd til þess fallinn að hvetja skákfólk til að ná árangri. Þá er brýnt að taka á álitamálum sem lengi hafa verið til umræðu varðandi stöðu stórmeistara í skák sem opinberra starfsmanna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið löggjafar um skák verði afmarkað við stuðning ríkisins við skák og skákhreyfinguna á Íslandi. Þá er lagt til að lögfest verði það markmið laganna að styðja við starfsemi í skák hér á landi, styrkja efnilegt skákfólk sem stefnir að alþjóðlegum árangri, efla starfsemi á sviði afreksmála og bæta árangur keppnisfólks í skák. Jafnframt er lagt til að skilgreint verði í lögum að ríkið leggi ákveðin framlög til skákmála sem renni annars vegar til afrekssjóðs í skák og hins vegar til skákhreyfingarinnar í gegnum æðsta aðila hennar, Skáksamband Íslands, m.a. til fræðslu um skák.
    Þá er í frumvarpinu fjallað ítarlega um afrekssjóð í skák. Lagt er til að ábyrgð á starfrækslu sjóðsins verði hjá ráðherra. Yfir sjóðnum verði stjórn sem skipuð verði tveimur fulltrúum frá Skáksambandi Íslands og einum fulltrúa án tilnefningar. Stjórnin sinni faglegum þáttum sem tengjast úthlutun úr sjóðnum, þar á meðal að móta stefnu sjóðsins og gera tillögu til ráðherra um úthlutun hverju sinni, ásamt því að fylgja eftir verkefnum skákfólks sem fær úthlutun úr sjóðnum. Styrkir verði að jafnaði veittir einu sinni á ári í þrjá til tólf mánuði í senn vegna skilgreinda verkefna stórmeistara í skák og eftir atvikum efnilegs skákfólks sem stefnir að alþjóðlegum árangri.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nánari útfærsla styrkveitinga úr afrekssjóði í skák verði útfærð í reglugerð. Með því verður unnt að setja ítarlegri skilyrði fyrir úthlutun, t.d. um fjölda skákstiga.
    Gert er ráð fyrir að tími verði gefinn til að undirbúa nýtt fyrirkomulag og að það taki gildi 1. febrúar 2025. Ekki er unnt að breyta núverandi fyrirkomulagi nema með því að rjúfa ráðningarsamband stórmeistara í skák og því lagt til að störf þeirra sem fengið hafa laun á grundvelli laga nr. 58/1990 verði lögð niður.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið samræmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Við framkvæmd frumvarpsins, verði það að lögum, þarf að gæta að reglum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, þar á meðal þegar kemur að jafnræðisreglum og banni við mismunun á grundvelli kyns eða fötlunar og annarra mismununarástæðna.

5. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins var lögð áhersla á samráð við Skáksamband Íslands sem er landssamband íslenskra skákfélaga og æðsti aðili skákhreyfingarinnar á Íslandi. Skáksambandi Íslands var falið að gera tillögu til ráðherra að breytingum á fyrirkomulagi launasjóðs stórmeistara og Skákskóla Íslands. Skáksamband Íslands stóð fyrir víðtæku samráði innan skákhreyfingarinnar, þ.m.t. við stórmeistara í skák, og lagði sambandið fram tillögur að breytingum á grundvelli þeirrar vinnu. Frumvarpið byggist á þeim tillögum og er í öllum meginatriðum í samræmi við þær.
    Áform um frumvarp til laga um skák voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 20. október 2023 og umsagnarfrestur stóð til 17. nóvember 2023, sjá mál nr. S-200/2023, og bárust fimm umsagnir um þau. Almennt voru umsagnir um áform um lagasetningu jákvæðar og umsagnaraðilar fögnuðu breytingum á núverandi fyrirkomulagi. Ýmsar gagnlegar ábendingar komu fram sem litið var til við vinnslu frumvarpsins. Þar á meðal var bent á mikilvægi þess að breyta núverandi fyrirkomulagi og settar fram tillögur að tímabili styrkja með árangursmiðuðum launum. Tekið var tilliti til ábendinga um ferðakostnað og að umsýsla sjóðsins væri hjá Skáksambandi Íslands. Drög að frumvarpinu voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 21. febrúar 2024 og umsagnarfrestur stóð til 6. mars 2023, sjá mál nr. S-49/2024, og bárust átta umsagnir um frumvarpið. Í tengslum við samráðsferlið átti ráðuneytið jafnframt fund með stórmeisturum í skák. Ýmsar gagnlegar ábendingar bárust varðandi drögin sem litið var til við vinnslu frumvarpsins. Þar á meðal voru ábendingar um að meta ætti umsóknir kvenna út frá afreksstarfi kvenna og ábendingar um tímabil styrkja, sem urðu tilefni breytinga á frumvarpinu. Aðrar ábendingar, þ.m.t. um að auka þurfi áherslu á rannsóknir og kennslu í skák og um greiðslu ferðakostnaðar, verða teknar til skoðunar í ráðuneytinu í tengslum við vinnu við reglugerð um afrekssjóð í skák, verði frumvarpið að lögum. Athugasemdir sem tengdust fjölda og tilnefningum stjórnarmanna í afrekssjóði í skák leiddu ekki til breytinga á frumvarpinu en í því sambandi var litið þess að alla jafna eru skipaðir varamenn í stjórnsýslunefndum og ekkert því til fyrirstöðu að varamenn séu virkir í starfi stjórnar afrekssjóðsins.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrif frumvarpsins ná til efnilegs skákfólks og afreksskákfólks. Samkvæmt upplýsingum frá Skáksambandi Íslands eru 3.315 einstaklingar skráðir í skákmannagrunn sambandsins og er skákfólk með kappskákstig alls 432. Konur eru þar í miklum minnihluta, einungis um 10% af skráningum í skákmannagrunninn og rúmlega 5% þeirra sem hafa hlotið kappskákstig. Til að stuðla að jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna er því í frumvarpinu tekið fram að heimilt sé að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga úr afrekssjóði í skák fyrir kynin.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að skákfólk nái betri árangri í alþjóðlegum mótum með því að skýra og einfalda umgjörð og stuðningskerfi vegna afreksfólks í skák. Í því felst sú breyting frá eldra fyrirkomulagi að stórmeistarar í skák verða ekki opinberir starfsmenn og nýtt fyrirkomulag um styrki til stórmeistara verður tekið upp. Þessi breyting hefur áhrif á ráðningarsamband stórmeistara í skák sem hafa notið launa samkvæmt lögum nr. 58/1990 en í því sambandi er þó rétt að árétta að gera má ráð fyrir því að sá hópur sé mjög líklegur til að uppfylla skilyrði styrkveitinga úr nýjum afrekssjóði í skák. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð enda verði sömu fjármunum varið til verkefnisins þótt þeim verði úthlutað eftir nýjum aðferðum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er gildissvið laganna skilgreint. Tekið er fram að lögin nái til stuðnings ríkisins við skák og skákhreyfinguna á Íslandi. Skáksamband Íslands er nú landssamband íslenskra skákfélaga og æðsti aðili skákhreyfingarinnar á Íslandi.

Um 2. gr.

    Fjallað er um markmið frumvarpsins í 2. gr. Með frumvarpinu er stefnt að því að styðja við starfsemi í skák hér á landi. Þá er stefnt að því að efla afreksskákiðkun í landinu með því að veita bæði efnilegu skákfólki og afreksskákfólki styrki. Markmiðið er í samræmi við meginefni frumvarpsins sem fjallar um styrkjakerfi sem ætlað er að vera hvetjandi fyrir skákfólk til að ná árangri.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um framlög ríkisins til skákhreyfingarinnar. Stuðningur ríkisins við skák á sér áralanga sögu en með ákvæðinu er ætlunin að skilgreina framlögin betur. Annars vegar er lagt til að skilgreind verði framlög til skákfólks í gegnum afrekssjóð í skák, sem starfræktur er af ríkinu. Hins vegar verði fjallað um stuðning sem ráðstafað verði á grundvelli samnings eða samninga til skákhreyfingarinnar. Með því er átt við að ráðuneytið veiti fjármuni til Skáksambands Íslands, sem er æðsti aðili skákhreyfingarinnar á landinu, sem veiti því þann möguleika að styðja við starfsemi í skák hér á landi í samræmi við markmið frumvarpsins. Lagt er til að sérstaklega verði tilgreint í lögum að fjármagninu verði m.a. varið til skákþjálfunar og fræðslu sem miðar að því að efla skákiðkun hér á landi en það er á meðal markmiða laga um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að falli brott.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er fjallað um starfrækslu og stjórn afrekssjóðs í skák sem er nýmæli í lögum. Lagt er til að ráðherra beri ábyrgð á starfrækslu sjóðsins, sbr. 1. mgr., en að yfir honum sé stjórn, sbr. 2. og 3. mgr.
    Fjallað er um skipan stjórnar afrekssjóðs í skák í 2. mgr. 4. gr. Lagt er til að ráðherra skipi þrjá fulltrúa í stjórnina, tvo samkvæmt tilnefningu skákhreyfingarinnar og einn án tilnefningar. Þá er nánar fjallað um skipan varafulltrúa og formanns og varaformanns. Þar sem samfélag skákfólks er ekki mjög stórt er talin ástæða til kveða sérstaklega á um reglulega endurnýjun í stjórn afrekssjóðs í skák og því lagt til að ekki sé heimilt að skipa sama einstakling aðalfulltrúa í stjórn lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Um verkefni stjórnarinnar er fjallað í 3. mgr. 4. gr. Í a-lið er lagt til að stjórnin geri tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun styrkja úr sjóðnum til þriggja ára í senn. Með þessu er leitast við að veita stjórninni ríkari hlut í stefnumótun í málaflokknum en í núverandi fyrirkomulagi launasjóðs stórmeistara í skák. Stefnumörkun til lengri tíma þykir mikilvæg til að stuðla að fyrirsjáanleika um úthlutanir úr sjóðnum. Í b-lið segir um að stjórn geri tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum, eins og nánar er fjallað um í 5. gr. Í c-lið er fjallað um það verkefni stjórnar að fylgjast með því að skákfólk sem fær úthlutað úr sjóðnum fari eftir skilmálum úthlutunar. Í þessu felst m.a. að stjórninni ber að fylgjast með hvort skákfólk fari eftir gildandi reglum, en því hlutverki sinnir stjórnin m.a. með því að óska eftir skýrslum frá þeim sem þiggja styrki samkvæmt lögunum. Gert er ráð fyrir stjórnin geri ráðherra viðvart ef skákfólk sem fær styrk úr sjóðnum uppfyllir ekki skilyrði styrkveitingarinnar og að ráðherra geti þá á grundvelli ábyrgðar sinnar á starfrækslu sjóðsins gripið til viðeigandi viðbragða eins og nánar er fjallað um í 6. gr.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er fjallað um styrkveitingar úr afrekssjóði í skák.
    Í 1. mgr. 5. gr. kemur fram að styrkir séu veittir annars vegar til afreksskákfólks og hins vegar til efnilegs skákfólks sem stefna að alþjóðlegum árangri. Með afreksskákfólki er einkum átt við þá sem hlotið hafa nafnbótina stórmeistari í skák, náð alþjóðlegum meistaratitli, hafa lokið áföngum í því að hljóta nafnbótina stórmeistari eða lokið áföngum að alþjóðlegum meistaratitli. Með efnilegu skákfólki er átt við þá sem stefna að áföngum að alþjóðlegum meistaratitlum og eru líklegir til að ná slíkum árangri.
    Í 1. mgr. 5. mgr. er jafnframt fjallað um að styrkir skuli veittir til skilgreindra verkefna og taka mið af væntum árangri umsækjanda það árið. Þá er gert ráð fyrir að styrkjum sé úthlutað einu sinni á ári og til þriggja til tólf mánaða í senn. Er við það miðað að styrkveitingin standi undir launum í þennan tíma en um annan kostnað, t.d. ferðakostnað, fari samkvæmt reglugerð um sjóðinn og mati hverju sinni. Í undantekningartilfellum er stjórn afrekssjóðs heimilt að veita styrki í styttri eða lengri tíma en þó aldrei lengur en þrjú ár.
    Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að styrkveitingar úr afrekssjóði í skák skuli vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, þriggja ára stefnu um úthlutun úr sjóðnum og áherslur sem ákveðnar eru ár hvert. Þarna er vísað til reglugerðar sem ráðherra er heimilt að setja skv. 7. gr., stefnu sem ráðherra ákveður samkvæmt tillögu stjórnar afrekssjóðs í skák, skv. a-lið 3. mgr. 4. gr. og áherslur sem eftir atvikum koma fram í auglýsingu um úthlutun skv. 1. mgr. 6. gr. Í 2. mgr. 5. gr. er áréttað að heimilt sé að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. eru ákvæði um málsmeðferð styrkveitinga úr afrekssjóði í skák.
    Í 1. mgr. 6. gr. er settur rammi um form og efni auglýsingar. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að stjórn afrekssjóðsins taki umsóknir til meðferðar og geri tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Rétt er að árétta að hlutverk stjórnarinnar er að gera tillögu til ráðherra á grundvelli faglegs mat á umsóknum en ábyrgð á styrkveitingum úr sjóðnum liggur hjá ráðherra. Eftir atvikum getur t.d. komið til þess að ráðherra óski eftir frekari skýringum á tillögu stjórnarinnar. Eftir að tillaga stjórnar liggur fyrir tekur ráðherra ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum og tilkynnir umsækjendum um hana. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið stjórn afrekssjóðsins að gera samning við þá sem hljóta styrki úr sjóðnum um styrkinn og skilmála hans. Meðal annars er gert ráð fyrir að hægt sé að binda styrkveitingar skilyrðum sem takmarka möguleika styrkþega til að fá á sama tíma greiðslur frá öðrum aðilum.
    Í 3. mgr. 6. gr. er kveðið á um skyldur þeirra sem hljóta styrk úr afrekssjóði í skák til að gera stjórn sjóðsins grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari skilmálum úthlutunar. Með þessu er leitast við að tryggja eftirfylgni með því að styrkirnir nýtist til þeirra verkefna sem stefnt var að með úthlutun þeirra. Þá munu upplýsingar um framvindu verkefna nýtast stjórn sjóðsins við mat á síðari umsóknum viðkomandi aðila úr sjóðnum. Gert er ráð fyrir að kröfur sem gerðar eru til skákfólks um upplýsingagjöf til sjóðsins verði skilgreindar í úthlutunarskilmálum og geti tekið mið af ýmsum þáttum, t.d. umfangi verkefna. Þá segir í ákvæðinu að ef misbrestur er á upplýsingagjöf eða skilyrði styrkveitinga ekki uppfyllt sé heimilt að krefja styrkþega um endurgreiðslu úr sjóðnum og/eða stöðva greiðslur úr honum.
    Talið er rétt að árétta í 4. mgr. 6. gr. að ákvarðanir ráðherra um styrkveitingar og eftir atvikum stöðvun greiðslna úr afrekssjóði í skák séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Þá er lögð til sérstök undantekningarregla um rétt til rökstuðnings ákvarðana um veitingu styrkja úr afrekssjóði í skák sem er efnislega sambærileg reglu sem gildir um styrki á sviði lista, menningar eða vísinda, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. 8. gr. eru ákvæði um gildistöku. Lagt er til að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, taki gildi 1. febrúar 2025. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða öðlist þegar gildi, svo unnt sé að hefja undirbúning nýs fyrirkomulags. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
    Í 2. mgr. kemur fram að við gildistöku laganna falla úr gildi lög um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990, og lög um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er fjallað um niðurlagningu starfa stórmeistara í skák á grundvelli laga nr. 58/1990. Gert er ráð fyrir að líklegt sé að sá hópur sem nú fær laun stórmeistara muni uppfylla skilyrði til að fá úthlutun úr afrekssjóði í skák. Til að tryggja meðalhóf er lagt til að þessi hópur njóti forgangs til styrkja úr sjóðnum í fyrstu úthlutun árið 2025 en að eftir þann tíma verði umsóknir þeirra metnar á sama grundvelli og umsóknir annarra úr sjóðnum.
    Þá er í ákvæðinu fjallað um heimildir ráðherra til að hefja undirbúning nýs fyrirkomulags á úthlutun styrkja fyrir gildistöku ákvæða frumvarpsins.