Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1663  —  712. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um lögfræðikostnað vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd.


     1.      Hvaða lögfræðingar og lögmannsstofur fengu greitt úr ríkissjóði fyrir lögfræðiþjónustu sem veitt var umsækjendum um alþjóðlega vernd árin 2022 og 2023? Hve mikið fékk hver aðili greitt á hvoru ári?
    Rauði krossinn á Íslandi sinnti lögfræðilegri hagsmunagæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd til 30. apríl 2022. Kostnaður vegna samnings stjórnvalda við Rauða krossinn frá árinu 2018 til og með apríl 2022 er rakinn í svari ráðherra við fyrirspurn þingmanns um kostnað vegna réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. þskj. 1271, 549. mál á 154. löggjafarþingi.
    Í auglýsingu sem birtist 3. mars 2022 á vefnum utbodsvefur.is var talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd boðin út. Var lögfræðingum/lögmönnum boðið að sækja um að sinna hlutverki talsmanns í gegnum heimasíðu Útlendingastofnunar þar sem nánari samningsskilmála er að finna. Um 100 talsmenn eru skráðir á lista Útlendingastofnunar sem aðgengilegur er á vef stofnunarinnar.
    Kostnaður vegna talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á tímabilinu maí til desember 2022 var um 180 millj. kr. (heildarfjöldi afgreiddra mála var 2.811, þar af 1.489 vegna fjöldaflótta frá Úkraínu). Vegna breytinga á skráningu hjá Útlendingastofnun liggur ekki nákvæmlega fyrir hver heildarkostnaður árið 2023 var. Frá júní til desember það ár var kostnaðurinn þó um 345 millj. kr. og því má áætla að kostnaður yfir allt árið hafi verið um 700 millj. kr. (heildarfjöldi afgreiddra mála var um 3.500, þar af um 1.500 vegna fjöldaflótta frá Úkraínu).
    Hvað varðar nánari afmörkun á því hvaða lögfræðingar og lögmannsstofur fengu greitt vegna talsmannaþjónustu, sundurliðað eftir fjárhæð á ári, er sá þáttur fyrirspurnarinnar það viðamikill að ekki er unnt að svara honum með einföldum hætti og í stuttu máli í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Í því samhengi bendir ráðuneytið á að fyrir tímabilið 12. maí til 5. desember 2022 voru gefnir út 684 reikningar vegna talsmannaþjónustu og fyrir tímabilið 5. júní til 30. nóvember 2023 voru gefnir út 10.082 reikningar. Er því of umfangsmikið verk að taka saman þær greiðslur sem hver og einn lögaðili hefur fengið á grundvelli talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

     2.      Hvernig er ákveðið hvaða lögfræðingar eða lögmannsstofur annast lögfræðiþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd?
    Starfsmaður Útlendingastofnunar útdeilir málum á talsmenn á jafnræðisgrundvelli og fer óeiginleg skipun fram með þeim hætti að starfsmaður stofnunarinnar sendir aðila á talsmannalista, sem næstur er í röðinni, fundarboð vegna fyrirhugaðs viðtals við umsækjanda um alþjóðlega vernd. Í kjölfarið fær móttakandi þess frest, að hámarki 48 klukkustundir eftir að fundarboð er sent honum, til að taka afstöðu til þess hvort hann hyggist samþykkja eða hafna fundarboðinu. Ef talsmaður hafnar fundarboði er fundarboð sent á þann talsmann sem er næstur í röðinni. Skömmu áður en viðtal hefst við umsækjanda fer eiginleg skipun fram en þá er skipunarbréf undirritað, ljósritað og afhent talsmanni, þ.e. að því gefnu að aðili á talsmannalista hafi samþykkt fundarboð sem barst honum og umsækjandi hafi veitt skriflegt samþykki sitt fyrir því að fyrrnefndur aðili taki að sér hagsmunagæslu fyrir hans hönd. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta enn fremur óskað eftir tilgreindum talsmanni á lista Útlendingastofnunar og verður stofnunin við slíkum beiðnum.

     3.      Hvað greiðir ríkissjóður hátt tímagjald til lögfræðinga sem veita þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og hvaða viðmið gilda um hve margar vinnustundir lögfræðinga ríkissjóður greiðir á grundvelli sérhverrar umsóknar?
    Kostnaður vegna starfa talsmanna greiðist úr ríkissjóði skv. 5. mgr. 13. gr. laga um útlendinga og nemur þóknunin 16.500 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund að viðbættum virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017. Í reglugerðinni kemur einnig fram að miða skuli við að eðlilegt umfang á þjónustu talsmanns sé sjö klukkustundir. Út frá því viðmiði hefur Útlendingastofnun mótað eftirfarandi töflur við hámarksfjölda tíma sem greitt er fyrir talsmannaþjónustu á hvern umsækjanda á báðum stjórnsýslustigum. Hámarksfjöldi tíma er þannig misjafn og tekur mið af umsækjanda og þeirri málsmeðferð sem umsóknin hlýtur.

Mál hjá Útlendingastofnun
Fullorðinn umsækjandi Barn (6–12 ára) í fylgd einstæðs foreldris Barn (13–17 ára) í fylgd einstæðs foreldris Fylgdarlaust barn
Forgangsmeðferð 7 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.
36. gr. mál 10 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.
Efnismeðferð 15 klst. 1 klst. 2 klst. 15 klst.

    Í þeim tilvikum þegar hámarksfjöldi tíma er fullnýttur á lægra stjórnsýslustigi greiðir Útlendingastofnun í samræmi við eftirfarandi tímatöflu samkvæmt vinnuframlagi talsmanns á æðra stjórnsýslustigi.

Mál hjá kærunefnd útlendingamála
Fullorðinn umsækjandi Fylgdarlaust barn
Forgangsmeðferð 4 klst. 10 klst.
36. gr. mál 8 klst. 10 klst.
Efnismeðferð 10 klst. 10 klst.