Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1668  —  736. mál.
Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um fjárframlög til einkarekinna háskóla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Felur nýlegt boð ráðherra til einkarekinna háskóla um að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda það í sér að framlög úr ríkissjóði til háskólastigsins aukist eða er um að ræða skiptingu þess fjár sem nú þegar hefur verið veitt til háskólastigsins?
     2.      Ef um skiptingu er að ræða, hvert er fyrirkomulag hennar og hvernig hefur hún áhrif á aðra en þá sem fjárveitingin nær til ef allir einkareknir háskólar landsins þiggja framangreint boð?
     3.      Hvernig hyggst ráðherra mæta áhyggjum nemenda og stjórnenda á háskólastigi af því að rekstrartekjur háskóla og gæði náms sem þeir bjóða skerðist talsvert ef skólarnir þiggja framangreint boð?
     4.      Hyggst ráðherra bjóða öðrum skólum, sem bjóða sérnám til sérstakra starfsréttinda en hafa ekki hlotið viðurkenningu sem háskólar, sambærilegan styrk í ljósi þeirra sjónarmiða sem fylgja umfjöllun um framangreint boð?


    Í nýrri árangurstengdri fjármögnun háskóla og boði til sjálfstætt starfandi háskóla er miðað við skiptingu fjárheimilda innan málaflokks 21.10, Háskólar og rannsóknastarfsemi, í fjárlögum. Full fjármögnun kennslukostnaðar í sjálfstætt starfandi háskólum rúmast innan ráðgerðs útgjaldasvigrúms fjármálaáætlunar. Í fjármálaáætlun er jafnframt gert ráð fyrir sókn í þágu háskólastigsins alls og auknum framlögum til skólanna.
    Skipting fjárheimilda háskólastigsins í fjárlögum niður í fjárveitingar til einstakra háskóla mun framvegis fara eftir breyttum forsendum í reglum sem settar verða um árangurstengda fjármögnun háskóla sem kynnt var í september 2023. Sjálfstætt starfandi háskólar sem þekkjast boð ráðherra um fullt kennsluframlag munu framvegis fá sama fjárframlag og opinberir háskólar út frá árangurstengdri fjármögnun.
    Útgjaldasvigrúm fjármálaáætlunar í málaflokki 20.10 mun mæta auknum kostnaði sem hlýst af þessari breytingu. Rekstrartekjur háskóla munu því aukast í samræmi við útgjaldasvigrúm í fjármálaáætlun. Í þessu sambandi má nefna að Háskólinn í Reykjavík afþakkaði boð um fulla fjármögnun kennslukostnaðar og mun því áfram fá 75% fjárframlag þar sem skólinn áformar að innheimta áfram skólagjöld af nemendum.
    Fjárheimildum málaflokks 21.10 má einungis verja til fræðsluaðila sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, eða sinna öðrum þáttum háskólastarfsemi í umboði eða í þágu viðurkenndra háskóla. Sérnám til starfsréttinda sem ekki er á háskólastigi er í flestum tilvikum ýmist á þriðja eða fjórða hæfniþrepi íslenska hæfnirammans, sbr. auglýsingu um útgáfu hæfniramma um íslenska menntun nr. 400/2021, og tilheyrir því öðrum málefnasviðum fjárlaga og öðrum ráðuneytum samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.