Ferill 1057. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1670  —  1057. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um ávinning sjálfvirknivæðingar og gervigreindar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur farið fram vinna í ráðuneytinu til að tryggja að eðlilegur hluti þess ávinnings sem verður af fyrirséðu hagræði vegna gervigreindar annars vegar og sjálfvirknivæðingar hins vegar skili sér til almennings? Ef svo er ekki, stendur það til?

    Í ráðuneytinu hefur ekki farið fram formleg vinna við að greina ávinning af fyrirséðu hagræði vegna gervigreindar og sjálfvirknivæðingar og á hvaða hátt slíkur ávinningur skili sér til almennings.
    Stofnanir ráðuneytisins hafa hvert á sínu sviði með auknum þjónustukröfum og þróun tæknilausna farið þá leið að nýta sér gervigreind og sjálfvirknivæðingu t.d. með persónulegum þjónustusíðum og snjallmennum þar sem handvirkir ferlar og þjónustuleiðir, eins og skil á gögnum og svörun einfaldra fyrirspurna, hafa verið þróuð í rafrænt og sjálfvirkt ferli. Þar er haldið utan um ávinning af slíkri þróun en ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um það eða yfirsýn í heild sinni.
    Ekki stendur til að fara í formlega greiningu á ávinningi almennings af notkun gervigreindar og sjálfvirknivæðingar í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu en ráðuneytið myndi styðja hugmyndir að slíkri vinnu ætti hún sér víðari skírskotun fyrir Stjórnarráðið í heild sinni og þar með fyrir alla opinbera þjónustu.