Ferill 1003. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1707  —  1003. mál.
Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um almenningssamgöngur milli byggða.


     1.      Hvað líður vinnu við að greina kerfi almenningssamgangna milli byggða, m.a. til að tengja ýmsa sérakstursþjónustu við almenningssamgöngur, sbr. aðgerð A.10 í þingsályktun nr. 27/152 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036?
    Unnið hefur verið að endurskipulagningu á núverandi leiðakerfi landsbyggðarvagna síðan í ársbyrjun 2022 en Vegagerðin tók formlega við rekstrinum í janúar 2020. Vinna undanfarinna tveggja ára hefur tekið til þriggja meginþátta: leiðakerfis, fargjalda og aðgengis. Markmiðið er að tengja byggðarlög sem deila vinnusóknar- og skólasvæðum, að greiðslukerfið sé í takti við kröfur þeirra sem nota leiðakerfið, að allir geti notað leiðakerfið og að aðgengi fyrir fatlaða sé tryggt. Stefnt er að því að innleiða nýtt leiðakerfi í næsta útboði á landsbyggðarvögnum á tímabilinu 2025–2026 og standa vonir til þess að grunnur að nýju greiðslukerfi verði þá kominn langt á leið.
    Þá er Vegagerðin samstarfsaðili að tveimur verkefnum um samþættan akstur, annars vegar með sveitarfélaginu Borgarbyggð og hins vegar með sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.
    Verkefnið hjá Borgarbyggð er tilkomið með stuðningi úr byggðaáætlun, aðgerð A.10, frá árinu 2022 og hefur það að markmiði að samþætta akstur almenningssamgangna og skólabíla. Um er að ræða tvo vagna sem fara eina morgunferð hvor frá Varmalandi og Reykholti í Borgarnes. Það verkefni hefur samkvæmt bæjarstjórn Borgarbyggðar reynst vel á meðal íbúa sem sækja skóla úr dreifbýli í þéttbýli. Allur rekstur verkefnisins er á vegum Borgarbyggðar en Vegagerðin leggur til sérfræðiþjónustu fyrir reksturinn og aðgang að þjónustu Strætó bs.
    Seinna verkefnið, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur, er eldra eða frá árinu 2016. Upphaf þess er að Vegagerðin fékk það ár aukið fjármagn sem fara átti í þróunarverkefni á sviði almenningssamgangna. Samþættur akstur milli Vesturbyggðar og Tálknafjarðar hlaut 5 millj. kr. styrk úr þeim sjóði. Árið 2020 var verkefnið tekið inn sem hluti af styrkveitingu til almenningssamgangna á landsbyggðinni. Öll umsýsla, útboðsgerð og rekstur er á ábyrgð Vesturbyggðar fyrir hönd Vegagerðarinnar og Tálknafjarðarhrepps. Verkefnið hefur samkvæmt sveitarstjórn beggja sveitarfélaga reynst íbúum svæðisins vel og er t.d. vel nýtt af börnum og ungmennum sem sækja tómstundir og íþróttir að loknum skóladegi.
    
          2.      Hvað er unnið að mörgum verkefnum er tengjast annars vegar samflutningi milli byggða og hins vegar deiliakstri?
    Ríkið er þátttakandi í sjö verkefnum víðs vegar um landið þar sem samþætting er á almenningssamgöngum annars vegar og íþrótta- og tómstundaakstri hins vegar. Verkefnin eru eftirfarandi:
          Fjarðarbyggð (Reyðarfjörður – Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík).
          Bolungarvík – Ísafjörður.
          Vesturbyggð (Patreksfjörður – Tálknafjörður – Bíldudalur).
          Borgarfjörður.
          Vogar – Reykjanesbær
          Snæfellsnes (í vinnslu).
          Dalabyggð – Borgarnes (í vinnslu).
    Vegagerðin sinnir ekki samflutningi í leiðakerfi landsbyggðarvagna. Til þess að það sé hægt þarf að vera fjárhagslegur aðskilnaður milli reksturs fólksflutninga annars vegar og farmflutninga hins vegar, sbr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Þá þarf Vegagerðin að hafa tilskilin rekstrarleyfi sem póstrekandi til að sinna farmflutningi, sbr. reglugerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda og skv. 1 mgr. 5 gr. II. kafla um almenna heimild til veitingar póstþjónustu í lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019.
    Samflutningur í leiðakerfi landsbyggðarvagna er til staðar á ákveðnum akstursleiðum á Austurlandi. Sá flutningur er ekki hluti af gildandi útboðssamningum við akstursaðila en er hefð sem var til staðar þegar Vegagerðin tók við rekstrinum í lok árs 2021. Vegagerðin ákvað við yfirtöku samninganna að gera engar breytingar eða athugasemdir varðandi verklagið, þrátt fyrir að slíkt væri ekki í gildandi samningum. Að óbreyttu er þó ljóst að ekki verður gert ráð fyrir slíkum samflutningi í næsta útboði, enda andstætt gildandi lagaumhverfi.
    Vegagerðin hefur ekki verið þátttakandi í deiliakstri.

     3.      Hvað líður þeim verkefnum sem nefnd eru? Er fyrirhugað að halda þeim áfram eða fjölga verkefnum um landið?
    Samþættur akstur hefur farið fram að frumkvæði sveitarfélaga og landshlutasamtaka og er aðkoma ríkisins að beiðni þessara aðila. Uppruni og gerð hvers verkefnis eru því ólík. Hvert verkefni er sem sjálfstæð eining innan leiðakerfis Vegagerðarinnar og er líftími þeirra misjafn.
    Samþættur akstur á sunnanverðum Vestfjörðum (Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur) og í Borgarbyggð hefur reynst íbúum byggðanna vel samkvæmt sveitarstjórnum umræddra sveitarfélaga. Þá hafa frístunda- og tómstundafulltrúar sömu sveitarfélaga staðfest að börn og ungmenni nota vagnana til að sækja íþróttaæfingar að skólatíma loknum. Muni um slíkt fyrir samfélagið jafnvel þótt börnin geti aðeins ferðast aðra leiðina, því að foreldrar og forsjáraðilar aka þá aðeins eina ferð á einkabíl í stað tveggja, en ein ferð er akstur fram og til baka. Skólastjórnendur Menntaskóla Borgarfjarðar hafa einnig sagt almenningssamgöngur mikilvægar fyrir börn í dreifbýli Borgarbyggðar. Ef börn og ungmenni geta sótt skóla daglega frá heimili sínu með almenningssamgöngum þurfa þau ekki að flytja að heiman á heimavist til að stunda framhaldsnám.