Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1814  —  952. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um nýja geðdeild Landspítala.


     1.      Hvað líður uppbyggingu nýrrar geðdeildar Landspítala? Hvar verður hún staðsett, hvers konar aðbúnaður verður á deildinni og hvenær verður hún opnuð?
    Að beiðni heilbrigðisráðherra fól stýrihópur um skipulag bygginga Landspítala og annarra sjúkrahúsa Nýjum Landspítala ohf. (NLSH) í árslok 2023 að vinna að frumáætlun í samræmi við lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, vegna nýrrar byggingar fyrir geðþjónustu á vegum Landspítala. Ráðherra hafði áður boðað að hafinn yrði undirbúningur að nýju húsi fyrir geðþjónustu, m.a. í ljósi ástands núverandi geðþjónustubygginga.
    NLSH hefur þegar hafið vinnuna og mun frumáætlun verða unnin samkvæmt því fyrirkomulagi og verklagi sem lögin boða. Þá munu helstu hagaðilar koma að frumáætlun, svo sem Landspítali, Geðhjálp og Geðráð. Einnig verður leitað eftir ráðgjöf við verkefnið hjá erlendum sérfræðingum með reynslu í skipulagi og hönnun nýrra geðþjónustubygginga.
    Staðarval er hluti af verklagi þess sem lögin boða auk valkostagreiningar á grundvelli þarfa og forsendna sem stýrihópurinn hefur gefið út og staðfest. Gert er ráð fyrir að aðbúnaður verði í samræmi við nútímaþjónustu og stuðst verður við ný samanburðarverkefni á Norðurlöndum.
    Lög um skipan opinberra framkvæmda gera að lokinni frumáætlun, sem að er stefnt að ljúki árið 2024, ráð fyrir að fagráðuneyti geri tillögur sem byggjast á valkostagreiningu um næstu skref, svo sem um fjárveitingar og verkhraða.

     2.      Eru markmið um að binda enda á nauðung í geðheilbrigðisþjónustu hluti af áætlunum ráðherra í tengslum við uppbyggingu nýrrar geðdeildar?
    Ráðherra leggur ríka áherslu á að við uppbyggingu nýrrar geðdeildar Landspítala verði byggt á nútímalegri og batamiðaðri hönnun. Slík hönnun húsnæðis hvetur til geðheilbrigðis og líkamlegrar heilsu en þar er skapað öruggt og styðjandi meðferðarumhverfi þar sem notandi geðheilbrigðisþjónustu upplifir öryggi, ró og friðsæld, ásamt því að húsnæðið mætir þörfum notandans og aðstandenda hans. Batamiðað umhverfi hvetur til félagslegra samskipta, valdeflir, notar jákvæðar skynupplifanir, t.d. hljóðvist, liti, lýsingu og hitastig, hefur tengingu við náttúruna, hvetur til hreyfingar og virkni og eflir tengsl við samfélagið. Nágrannalönd hafa hannað og byggt fjölmargar geðdeildir á síðustu áratugum með þessar meginreglur til grundvallar.
    Ráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en hefur þó ekki mælt fyrir frumvarpinu þegar þetta er ritað. Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar hans á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018. Með frumvarpinu er einnig brugðist við athugasemdum frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum (e. European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment). Nefndin hefur bent á skort á skýrum lagaramma er viðkemur beitingu hvers kyns nauðungar á heilbrigðisstofnunum hér á landi, ekki síst til að draga úr hættunni á beitingu ómannúðlegrar meðferðar.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að lögfesta meginregluna um bann við beitingu nauðungar, auk þess sem gæta skuli að sjálfsákvörðunarrétti sjúklings og mannlegri reisn. Að mati þjónustuveitenda, notenda og aðstandenda er þó talið ólíklegt að hjá því verði komist að í neyðartilvikum geti verið nauðsynlegt að nauðung sé beitt til að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum. Í því samhengi er talið nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur með tilliti til einstaklingsbundins mats á aðstæðum, verklags framkvæmdar, skráningar í sjúkraskrá, tilkynningarskyldu til eftirlitsaðila, innri og ytri endurskoðunar (kæru) og að tryggt verði að þessum reglum verði ávallt fylgt ef til beitingu nauðungar kemur. Verði frumvarpið að lögum skulu heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra sem endranær forðast að beita notanda hvers kyns nauðung og ekki grípa til slíkra ráðstafana nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga. Frumvarpið kveður einnig á um að skipað verði sérfræðiteymi um beitingu nauðungar. Teymið skal vera til ráðgjafar og leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstofnanir, taka við skýrslum um beitingu nauðungar og fjarvöktun og sinna eftirliti.
    Æskilegt er að stjórnvöld, heilbrigðisstofnanir, fagfólk, notendur og aðstandendur starfi áfram saman að því markmiði að draga úr beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum í íslensku samfélagi og úr afleiðingum hennar fyrir notendur.