Ferill 993. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1824  —  993. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um umferðartafir og hagvöxt.


     1.      Hvert hefur samhengi hagvaxtar og aukningar á umferð verið samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar undanfarna tvo áratugi?
    Vegagerðin mælir umferð á 320 föstum talningarstöðum og um 200 breytilegum talningarstöðum á öllu landinu á hverju ári. Miðað við þær mælingar er umferð og akstur í stærstum hluta þjóðvegakerfisins áætlaður. Heildarakstur í þjóðvegakerfinu utan héraðsvega árið 2023 er áætlaður um 3.181 milljón ekinna kílómetra.
    Heildarakstur í þjóðvegakerfinu árið 2002 er áætlaður um 1.781 milljón ekinna kílómetra. Akstur í þjóðvegakerfinu hefur því aukist um 65% frá árinu 2002. Þessar tölur eru þó ekki að fullu sambærilegar vegna mikilla breytinga sem orðið hafa á vegaskrá á tímabilinu, sérstaklega árið 2008 þegar allmargir vegir féllu út og aðrir færðust milli vegflokka. Því hefur verið sett fram vísitala heildaraksturs á landinu þar sem reynt hefur verið að leiðrétta fyrir helstu breytingum á vegaskrá. Samkvæmt þeirri vísitölu hefur orðið um 95% aukning á akstri milli áranna 2002 og 2023.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands jókst verg landsframleiðsla um 85% milli 2002 og 2023 eða að jafnaði um 2,98% á ári. Því má sjá að þróun þessara hlutfalla er ekki ósvipuð.

     2.      Hver var umferðin síðasta ár samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar og hver var hlutdeild almenningssamgangna í umferðinni á því ári?
    Árið 2023 var heildarakstur í þjóðvegakerfinu utan héraðsvega um 3.181 milljón ekinna kílómetra. Þar af var akstur á þjóðvegum utan höfuðborgarsvæðisins um 2.050 milljónir ekinna kílómetra.
    Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs. var akstur vagna utan höfuðborgarsvæðisins tæpar 4 milljónir kílómetra sem nemur um 0,2% af akstri á þjóðvegum utan höfuðborgarsvæðisins. Hafa ber í huga að fleiri farþegar eru í strætisvagni en öðrum bílum.
    Samkvæmt samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins (SLH) var heildarakstur á öllum vegum og götum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 áætlaður tæplega 1.800 milljónir ekinna kílómetra. Þar af var akstur strætisvagna rúmar 9 milljónir ekinna kílómetra samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs. eða rúm 0,6%. Samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2019 var hlutdeild þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu þó um 5% sem skýrist af því að fleiri farþegar eru að jafnaði í strætisvögnum en í öðrum bílum.

     3.      Hve mikið mun umferð hafa vaxið árin 2034 og 2040 ef hagvöxtur á mann heldur áfram eins og verið hefur?
    Þingsályktunartillaga um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 var lögð fram á Alþingi 6. október 2023. Í tillögunni er lögð áhersla á að auka öryggi í samgöngum og stytta vegalengdir. Í áætluninni eru mikilvægar vegaframkvæmdir á dagskrá með áherslu á aðskilnað akstursstefna, fækkun einbreiðra brúa og lagningu bundins slitlags á tengivegi. Þá verða framlög stóraukin til viðhalds vega. Þannig er gert ráð fyrir að til samgöngumála renni 263 milljarðar kr. fyrstu fimm ár áætlunarinnar og 909 milljarðar kr. til ársins 2038. Framkvæmdir á vegakerfinu munu allar mæta vaxandi umferðarþunga um allt land á komandi árum.
    Ekki liggja fyrir gögn hjá ráðuneytinu sem sýna fram á orsakasamhengi milli hagvaxtar og aukningar umferðar.

     4.      Hve miklar eru umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu, hver er hlutdeild almenningssamgangna nú í þessum töfum og hve miklar verða þær árin 2034 og 2040 samkvæmt umferðarlíkani annars vegar og gervihnattamælingum hins vegar?
    Eftirfarandi svar byggist á ábatagreiningu sem hefur verið unnin vegna uppfærslu á forsendum samgöngusáttmála. Í svarinu er miðað við árið 2040 og gert ráð fyrir því að verkefni samgöngusáttmála ásamt Sundabraut verði komin til framkvæmda.
    Samgöngulíkan höfuðborgarsvæðisins var þróað í samstarfi við samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og var gefið út árið 2021. Líkanið er notað til að spá fyrir um samgöngur og reikna farþegafjölda í almenningssamgöngum, fjölda bílferða og hjólandi á vegum og stígum út frá mismunandi sviðsmyndum og landnotkun. Samgöngulíkanið má nota til að áætla tafir á hvern virkan dag fyrir mismunandi sviðsmyndir. Í líkaninu fást upplýsingar um ferðatíma, tafir og eknar veglengdir fyrir ólíka ferðamáta.
    Fyrir bíla, sendiferðabíla og vörubíla er ferðatími metinn annars vegar í frjálsu flæði og hins vegar í umferðartöfum.
    Helstu niðurstöður fyrir bíla, sendiferðabíla og vörubíla eru eftirfarandi:
    Aksturstími í töfum:
     *      2019: 10.200 klst. á dag.
     *      2040 með framkvæmdum í samgöngusáttmála og Sundabraut: 29.300 klst. á dag.
     *      2040 með framkvæmdum í samgöngusáttmála en án Sundabrautar: 30.700 klst. á dag.
     *      2040 án framkvæmda í samgöngusáttmála og án Sundabrautar: 45.700 klst. á dag.
    Af þessu má ráða að miðað við að ráðist verði í framkvæmdir samkvæmt samgöngusáttmála og Sundabraut verða umferðartafir minni árið 2040 en þær yrðu ef ekki yrði ráðist í framkvæmdir á grunni sáttmálans.
    Erfitt er að leggja mat á hlutdeild almenningssamgangna í heildartöfum í umferð á höfuðborgarsvæðinu. Farartækjum í almenningssamgöngum er nú ekið að hluta í sérrými og stefnt er að aukinni hlutdeild þeirra í sérrými samkvæmt samgöngulíkani fyrir árið 2040.
    Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu mun aukast um allt að 50% samkvæmt forsendum samgöngulíkansins sem mun valda auknum umferðartöfum. Bættir innviðir ásamt breyttum ferðavenjum munu hins vegar halda aftur af auknum umferðartöfum.
    Vegagerðin hefur ekki áætlað tafir út frá gervihnattamælingum en finna má upplýsingar og framsetningu gervihnattamælinga á eftirfarandi vefsíðu: www.tomtom.com/traffic-index/reykjavik-traffic/.

     5.      Hver er áætlaður uppsafnaður þjóðhagslegur kostnaður af þessum umferðartöfum, annars vegar samkvæmt umferðarlíkani og hins vegar samkvæmt gervihnattamælingum? Hve mikil áhrif hefur sá kostnaður á uppsafnaðan hagvöxt fram til ársins 2034?
    Greining á uppsöfnuðum þjóðhagslegum kostnaði vegna umferðartafa á höfuðborgarsvæðinu liggur ekki fyrir.
    Eins og fram hefur komið liggur aðeins fyrir mat á umferðartöfum fyrir hvern virkan dag samkvæmt umferðarlíkani höfuðborgarsvæðisins. Ekki væri nákvæmt að heimfæra það mat á alla daga ársins, enda er umferðarálag nokkuð minna um helgar og á sumarleyfistíma.
    Það hvað tafir teljast hafa mikil þjóðhagsleg áhrif er háð því hve hátt tíminn er verðlagður.
    Erfitt er að leggja mat á áhrif kostnaðar af umferðartöfum á hagvöxt til framtíðar eða uppsafnaðan hagvöxt. Hugsanlega má færa rök fyrir því að um sé að ræða tapaðan hagvöxt eða fórnarkostnað þess að verja tíma í töf, sbr. að mögulegt yrði að nýta tímann til framleiðslu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands yrði þó að meta málið frá öðrum hliðum til að komast til botns í væntum áhrifum á hagvöxt, til að mynda varðandi dreifingu fórnarkostnaðar og tekjur af orkusölu. Uppreikna þyrfti matið miðað við viðeigandi verðvísitölu. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni liggja slíkar spár um tapaðan hagvöxt eða fórnaðan hagvöxt ekki fyrir.