Ferill 821. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1863  —  821. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki staðið fyrir sérstakri fræðslu um hatursorðræðu eða kynþáttahatur en flestar stofnanir hafa stefnu- og viðbragðsáætlun sem lýtur að fræðslu og viðbrögðum við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi þar sem kveðið er á um fræðslu um málaflokkinn í forvarnaskyni og kynningu á verklagi mála sem heyra undir málaflokkinn.
    Mannauðs- og jafnréttisstefnur og áætlanir koma oftar en ekki inn á þessa þætti í útvíkkaðri skilgreiningu á jafnrétti umfram jafnrétti kynjanna sem og samskipta- og siðareglur vinnustaða og starfsmanna ríkisins og Stjórnarráðsins. 1
    Samskiptareglur vinnustaða koma inn á virðingu í samskiptum og samskiptasáttmálar, séu þeir til staðar, kveða á um að virðing sé borin fyrir öllum í samskiptum og að jafnrétti gangi yfir alla sem starfa hjá viðeigandi einingu. Slíkur samskiptamáti talar gegn hatursorðræðu og kynþáttahatri. Umhverfisstofnun hefur boðið upp á fræðslu um fjölbreytileika sem kemur inn á málaflokkinn með einum eða öðrum hætti.

1     www.stjornarradid.is/raduneyti/starfsfolk/sidareglur/
     www.stjornarradid.is/media/fjarmalaraduneyti-media/media/skjal/Almennar_sidareglur_starfsmanna_rikisins2013.pdf