Ferill 756. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1865  —  756. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kortlagningu óbyggðra víðerna.


     1.      Hvað líður vinnu við reglugerð um kortlagningu óbyggðra víðerna, sem ráðherra er heimilt að setja skv. 73. gr. a laga um náttúruvernd, nr. 60/2013?
    Opinbert kort um víðerni á Íslandi var síðast útbúið árið 2009. Í kjölfar setningar laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, sbr. lög nr. 109/2015 og lög nr. 43/2020, urðu breytingar á skilgreiningu á óbyggðum víðernum og við það varð fyrirliggjandi kort ekki í samræmi við þá lagalegu skilgreiningu. Talsverð vinna hefur farið fram á vegum stofnana ríkisins og einnig í fræðasamfélaginu við kortlagningu víðerna. Sú vinna hefur leitt í ljós að skilgreining náttúruverndarlaga á hugtakinu óbyggð víðerni er þess eðlis að mikið svigrúm er til staðar til að túlka hugtakið við kortlagningu. Vegna þess hefur kortlagningarfólki reynst nauðsynlegt að gefa sér ýmis viðmið og forsendur sem svo hefur leitt til þess að töluverður munur er á því hvernig kort af óbyggðum víðernum líta út eftir því hver hefur séð um kortlagninguna og hvernig hugtakið hefur verið túlkað. Til að samræma eins og unnt er þær forsendur og viðmið sem liggja þurfa fyrir við kortlagningu óbyggðra víðerna hefur ráðuneytið unnið að því að greina helstu álitaefni í tengslum við túlkun hugtaksins eins og það er skilgreint í lögum. Sú vinna hefur m.a. falið í sér að skoða mismunandi kortlagningarverkefni og samanburð á ástæðum fyrir mismunandi útkomu þeirra. Í framhaldi af greiningunni hyggst ráðuneytið vinna samræmda stefnumörkun um helstu forsendur og viðmið sem ráðuneytið telur að þurfi að liggja fyrir við kortlagningu óbyggðra víðerna. Þessi vinna er byggð á 73. gr. a laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem er að finna heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð viðmið og forsendur sem liggja skulu til grundvallar kortlagningu óbyggðra víðerna.

     2.      Hvenær má vænta þess að lokið verði við gerð korts með upplýsingum um óbyggð víðerni?
    Þeirri greiningu sem lýst er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er ólokið. Gert er ráð fyrir að henni ljúki sumarið 2024. Í kjölfar hennar mun ráðuneytið nýta greininguna til þess að setja fram samræmdar forsendur og viðmið sem liggja skulu til grundvallar kortlagningu óbyggðra víðerna þannig að samræmi fáist við kortlagningu óháð því hver sér um kortlagninguna. Nákvæm tímasetning útgáfu slíks korts liggur ekki fyrir, en stefnt er að því að forsendur og viðmið ráðuneytisins til gerðar kortsins verði tilbúin snemma árs 2025.