Ferill 884. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1867  —  884. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um rafkerfi á Suðurnesjum.


     1.      Hver er staðan á spennubreytingum úr 3x230V í 3x400V til heimila, stofnana og fyrirtækja á Suðurnesjum? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum og því í hversu mörgum húsum kerfinu hefur verið breytt og hversu mörg bíða breytinga.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti aflaði upplýsinga frá HS Veitum í tilefni af fyrirspurn þessari.
    Í umræðu um dreifikerfi raforku almennt, hvort sem er á Suðurnesjum eða annars staðar á landinu, þarf að hafa í huga að þeim er ætlað að mæta þörfinni fyrir dreifingu raforku á hverjum tíma og tekur uppbyggingin mið af því. Þetta þýðir m.a. að á þeim svæðum sem njóta hitaveitu eru dreifikerfin ekki byggð upp til þess að sinna hitaþörf húsnæðis með beinni raforkunýtingu.
    Hér er vísað til þess að ríkar skyldur hvíla á dreifiveitum skv. raforkulögum, nr. 65/2003, um að gætt sé fyllstu hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri og hefur Orkustofnun eftirlit með því að dreifiveiturnar uppfylli þessar skyldur. Með þessu er m.a. tryggt að dreifiveiturnar offjárfesti ekki í kerfunum og gjaldskrár séu þar af leiðandi ekki hærri en þörf er á.
    Við uppbyggingu dreifikerfa á Íslandi var 220V spennukerfið allsráðandi fram yfir 1970 en frá þeim tíma hafa 400V kerfi verið ráðandi. Hingað til hefur vinnureglan verið sú að farið er í spennubreytingar í eldri hverfum samhliða endurnýjun á einstökum dreifikerfishlutum í viðkomandi hverfum. Með þessu er verið að fylgja eðlilegri uppfærslu kerfanna fremur en að fara sérstaklega í spennubreytinguna eina og sér. Er þá horft til þess að 220V spennukerfið hefur hingað til fullnægt hefðbundnum þörfum viðskiptavina auk almennra hagkvæmnissjónarmiða.
    Sögulega séð er líka mikilvægt að minna á að álag í dreifikerfum breyttist lítið fram til síðustu aldamóta og frá þeim tíma og fram til ársins 2018 var í raun álagsminnkun í dreifikerfunum hjá öllum dreifiveitum á landinu. Helgast þetta fyrst og fremst af orkunýtnari og betri tækjum hjá viðskiptavinum. Frá árinu 2018 hefur verið álagsaukning og ljóst að hún mun halda áfram fyrst og fremst vegna orkuskipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í beina raforkunýtingu í samgöngum. Jafnframt er ljóst að orkuskiptin í heild sinni munu kalla á mjög miklar og framþungar fjárfestingar í endurnýjunum og uppbyggingu dreifikerfanna.
    Eins og fram kemur hér að framan hefur verið fylgt þeirri stefnu að fara í spennubreytingar í eldri hverfum samhliða endurnýjun á einstökum dreifikerfishlutum en oft fylgja slíkar framkvæmdir öðrum framkvæmdum, t.d. endurnýjun gatna hjá sveitarfélaginu eða endurnýjun á öðrum veitukerfum. Hingað til hefur ekki verið farið í sjálfstæð verkefni hér að lútandi í dreifikerfum raforku vegna lítilla álagsbreytinga þar til á allra síðustu árum.
    Í ljósi atburða síðustu mánaða var tekin ákvörðun af hálfu HS Veitna um að setja aukna fjármuni í þessi verkefni og það sem af er ári 2024 hefur verið farið í breytingar á rúmlega 100 heimtaugum. Varðandi aðrar tölulegar upplýsingar vísast til svara við 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar.

     2.      Hvaða áætlanir liggja fyrir um hvenær þessum breytingum verði lokið í öllum húsum á Suðurnesjum?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar gera HS Veitur ráð fyrir að setja aukna fjármuni í spennubreytingar. Áætlanir gera nú ráð fyrir að þessum verkefnum verði lokið á næstu fjórum árum (sjá skýringarmyndir hér að neðan).

     3.      Hvaða áhrif hefur skyndileg aukin notkun raforku, t.d. vegna notkunar hitablásara, á heimili, stofnun eða fyrirtæki sem er tengt eldra spennukerfi, 3x230V?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar eru dreifikerfi raforku á svæðum þar sem húsnæði nýtur hitaveitu til húshitunar ekki byggð upp með það í huga að þau geti mætt raforkunotkun fyrir húshitun með beinni raforkunýtingu. Aukin raforkunotkun vegna hitablásara hefur því mikil áhrif á öll dreifikerfi þar sem svona háttar til og skiptir þá í raun litlu máli hvort um 230V kerfi eða 400V kerfi er að ræða. Þetta tekur sérstaklega til dreifikerfishluta í íbúðarhverfum þar sem grunnálagið er þekkt og hefur tekið afar litlum breytingum sögulega séð þar til nú að orkuskiptin eru að koma inn. Við hönnun dreifikerfa á atvinnusvæðum er hins vegar gert ráð fyrir meiri breytileika í álagi og í dag eru öll fyrirtæki og stofnanir á Reykjanesskaga með 400V tengingar.

     4.      Hversu margir notendur hafa 2x230V eða 3x230V tengt inn á heimili sitt eða stofnun í hverju sveitarfélagi á Suðurnesjum?
    Eins og fram kemur í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar eru öll fyrirtæki og stofnanir á Reykjanesskaga með 400V tengingar. Fjöldi og hlutfall heimila sem eiga eftir að fá 400V tengingu er eftirfarandi:
    Reykjanesbær: 454 heimtaugar, eða um 10%.
    Sandgerði: 299 heimtaugar, eða um 30%.
    Vogar: 84 heimtaugar, eða um 17%.

    Myndir sýna þau hverfi þar sem á eftir að fara í spennubreytingar og ártölin sýna áætlaðan framkvæmdatíma.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.