Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1871  —  613. mál.
Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um eftirlit með fjárhagsupplýsingastofum.


     1.      Hvaða opinbert eftirlit er með starfsemi fjárhagsupplýsingastofa á borð við Creditinfo?
    Margvíslegt opinbert eftirlit er almennt með fyrirtækjum á Íslandi, óháð því hvaða tilteknu starfsemi þau stunda. Má þar sem dæmi nefna eftirlit Samkeppniseftirlitsins samkvæmt samkeppnislögum, nr. 44/2005, og eftirlit Neytendastofu samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
    Að því er varðar starfsemi fjárhagsupplýsingastofa er Neytendastofu ekki falið sérstakt eftirlit með slíkri starfsemi. Fjárhagsupplýsingastofur eru þó ekki undanskildar almennu eftirliti Neytendastofu samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Stofnunin getur því gripið til aðgerða gagnvart slíkum félögum ef viðskiptahættir þeirra eru taldir óréttmætir samkvæmt þeim lögum.
    Einnig má benda á að Neytendastofu er falið eftirlit með lögum nr. 33/2013, um neytendalán, og lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, þar sem kveðið er á um að framkvæma skuli lánshæfismat á neytendum áður en lán er veitt. Nánar er vísað í svar við 8. lið fyrirspurnarinnar varðandi þann þátt.

     2.      Hvað greiddi ríkissjóður, fyrir hönd ráðuneyta, háar upphæðir á árunum 2021–2023 fyrir fjárhagsupplýsingar um einstaklinga og fyrirtæki?
    Spurningin heyrir ekki undir menningar- og viðskiptaráðuneyti og ráðuneytið býr ekki yfir umbeðnum upplýsingum.

     3.      Hver hefur með höndum eftirlit með því að líkan það sem fjárhagsupplýsingastofur eins og Creditinfo nýtir til að reikna út lánshæfismat landsmanna sé byggt á faglegri og viðurkenndri aðferðafræði?
    Um lánhæfismatsfyrirtæki er fjallað í lögum nr. 50/2017, um lánshæfismatsfyrirtæki. Með 2. gr. þeirra laga er lögfest reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009, um lánshæfismatsfyrirtæki. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru gerðar tilteknar kröfur til aðferða, líkana og helstu forsendna mats. Lögin og málefnasviðið heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, sbr. kk. lið 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.
    Það málefnasvið sem spurningin varðar heyrir því ekki undir menningar- og viðskiptaráðuneyti og ráðuneytið býr því ekki yfir umbeðnum upplýsingum.

     4.      Telur ráðherra að fullnægjandi eftirlit sé haft með því að líkön fjárhagsupplýsingastofa, líkt og Creditinfo nýtir, séu byggð á faglegri og viðurkenndri aðferðafræði?
    Það málefni sem spurt er um er ekki á forræði menningar- og viðskiptaráðuneytis, sbr. svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að efla eftirlit og stuðla að því að sambærileg atvik og Creditinfo var sektað fyrir í júlí 2023 endurtaki sig ekki?
    Það málefnasvið sem spurningin varðar heyrir ekki undir menningar- og viðskiptaráðuneyti.

     6.      Telur ráðherra að með breytingum á lánshæfismati 23. október sl. þar sem greiðslusaga lántakenda var færð aftur um tíma hafi Creditinfo gert lánastofnunum kleift að bjóða viðskiptavinum sínum upp á lakari lánskjör en annars hefði verið?
    Menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur ekki upplýsingar um þau atriði sem um er spurt, þar sem spurningin er ekki á málefnasviði ráðuneytisins.

     7.      Telur ráðherra að framangreindar breytingar hafi verið nauðsynlegar í þágu neytenda?
    Það málefni sem um er spurt er ekki á forræði menningar- og viðskiptaráðuneytis, sbr. svar við 3.–6. lið fyrirspurnarinnar.

     8.      Telur ráðherra nauðsynlegt að fjármálastofnanir óski eftir fjárhagsupplýsingum frá fjárhagsupplýsingastofu um umsækjendur um lán við alla lántöku þeirra?
    Gerð er krafa um lánshæfismat áður en gerður er samningur um neytendalán, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um neytendalán, nr. 33/1013, eða samningur um fasteignalán til neytanda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Samkvæmt k. lið 1. mgr. 5. gr. laga um neytendalán er lánshæfismat skilgreint með eftirfarandi hætti:
    „Mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.“
    Sambærilega skilgreiningu er að finna í lögum um fasteignalán til neytenda. Samkvæmt lögunum þurfa lánveitendur því að byggja á upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust þegar viðskiptasaga er ekki til staðar.
    Með vísan til eftirlits Neytendastofu samkvæmt framangreindum lögum óskaði ráðuneytið eftir umsögn stofnunarinnar vegna fyrirspurnarinnar. Í umsögn Neytendastofu kemur fram að ef viðskiptasaga er til staðar milli lánveitanda og neytanda getur lánveitandi byggt lánshæfismat á þeim gögnum. Hins vegar er lánveitanda heimilt að byggja lánshæfismat eingöngu á upplýsingum úr gagnagrunni um fjárhagsmálefni, jafnvel þótt viðskiptasaga sé til staðar.