Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1922  —  682. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Sigríði Ágústsdóttur um viðbragðstíma og kostnað vegna bráðatilfella á landsbyggðinni.


     1.      Hver hefur verið meðalviðbragðstími vegna skráðra bráðatilfella á landsbyggðinni frá árinu 2018, þ.e. frá því að símtal berst neyðarlínu og þar til viðkomandi er kominn undir læknishendur? Svar óskast sundurliðað eftir árum og kjördæmum.
    Umbeðnar upplýsingar um meðalviðbragðstíma bráðatilfella á landsbyggðinni liggja ekki fyrir innan stofnana heilbrigðisráðuneytis. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni ohf. sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið, og heldur utan um skráningar sjúkraflutninga á landsvísu, eru slíkar upplýsingar ekki aðgengilegar. Ekki er skráð sérstaklega hvenær viðkomandi er kominn undir læknishendur, heldur hvenær viðbragðsaðili er kominn á staðinn og hvenær viðkomandi er kominn á sjúkrahús, ef flutningurinn endar þar.
    Að mati Neyðarlínunnar er það jafnframt varasöm leið að ætla að meta viðbragð sjúkraflutninga með því að skoða meðalviðbragðstíma fyrir stærri landsvæði. Gögn sjúkraflutninga eru mjög háð miðsækni og því er hætt við að útköll í þéttbýli stærri póstnúmeraumdæma dragi meðaltalið niður og sýni því ekki rétta mynd af lengri útköllum.

     2.      Hvaða kostnaður hefur hlotist af bráðaþjónustu á landsbyggðinni, umfram beinan kostnað við þjónustuna sjálfa, ár hvert frá árinu 2018? Svar óskast sundurliðað eftir heildarkostnaði vegna:
                  a.      innlagna íbúa á landsbyggðinni á sjúkrahúsum í Reykjavík,
                  b.      heilbrigðisþjónustu við íbúa á landsbyggðinni sem ekki er hægt að veita í heimabyggð,
                  c.      sjúkraflutninga af landsbyggðinni til Reykjavíkur.

    Heilbrigðisráðuneytið hefur einungis forsendur til að gefa upplýsingar um kostnað við heilbrigðisþjónustu og svarar því með tilliti til þess:

a. Kostnaður vegna innlagna íbúa á landsbyggðinni á sjúkrahúsum í Reykjavík.
    Landspítali sinnir allri bráðaleguþjónustu í Reykjavík. Í eftirfarandi töflu kemur fram kostnaður við bráðar innlagnir einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins á Landspítala. Annars vegar legur sem hefjast á bráðamóttöku og hins vegar komur á bráðamóttöku án þess að viðkomandi sé lagður inn.

Bráðaþjónusta LSH í m.kr. 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Legur sem byrja á bráðamóttöku 5.281 6.077 6.649 6.611 7.790 8.290
Komur á bráðamóttökur án innlagnar 660 581 577 636 648 657
Alls 5.940 6.658 7.226 7.247 8.438 8.947
    Allar tölur í svari þessu eru á verðlagi hvers árs. Eins og fram kemur í töflu hér að framan nam heildarkostnaður alls 5,9 ma.kr. árið 2018 og 8,9 ma.kr. árið 2023 og lýsa þær tölur kostnaði við bráðaþjónustu veitta fólki af landsbyggðinni á sjúkrahúsi.

b. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu við íbúa á landsbyggðinni sem ekki er hægt að veita í heimabyggð.
    Spurningin afmarkast við bráðaþjónustu – sjá a-lið þar sem fram kemur kostnaður við komur á bráðamóttöku LSH án innlagnar.

c. Kostnaður vegna sjúkraflutninga af landsbyggðinni til Reykjavíkur.
    Bráðasjúkraflutningar með sjúkrabílum af landsbyggðinni til Reykjavíkur eru aðallega frá Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi. Sjúkraflutningar á Suðurnesjum byggjast á samningi SÍ við Brunavarnir Suðurnesja. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Vesturlands reka eigin sjúkraflutningaþjónustu. Í eftirfarandi töflu er kostnaður við flutningana, deilt niður á ár. Allar tölur í svari þessu eru á verðlagi hvers árs. Miðað er við bráðaflutninga í flokki F1–F3 til Landspítala.

Sjúkraflutningar í m.kr. 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Brunavarnir Suðurnesja,
samningur um sjúkraflutninga
30 35 37 51 51 70
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 38 39 50 42 44 41
Alls* 66 74 87 93 95 111
*Tölur bárust ekki frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.     

    Sjúkraflug gegnir mikilvægu hlutverki við sjúkraflutninga af landsbyggðinni. Samningur við rekstraraðila sjúkraflutninga með flugvél er greiddur af SÍ að hluta og að hluta af sjúkrastofnunum á landsbyggðinni. Kostnaður við sjúkraflugið var alls um 592 m.kr. árið 2018 og 1.067 m.kr. árið 2023 eins og fram kemur í eftirfarandi töflu. Allar tölur í svari þessu eru á verðlagi hvers árs.

Kostnaður við sjúkraflug í m.kr. 2018 2019 2020 2021 2022 2023
SÍ vegna sjúkraflugvélar 463,4 506,6 472,9 558,6 698,3 748,7
SÍ vegna sjúkraþyrlu 21,1 16,9 23,2 28,3 51,2 69,2
Hlutur sjúkrastofnana í sjúkraflugi 107,1 156,7 132,3 174,4 241,0 248,6
Alls 591,6 680,1 628,4 761,3 990,5 1.066,5