Ferill 885. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1940  —  885. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um læknisþjónustu á Snæfellsnesi.


     1.      Hvernig er læknisþjónustu á Snæfellsnesi háttað? Hversu marga daga var enginn læknir tiltækur á Snæfellsnesi árið 2023, sundurliðað eftir sveitarfélögum?
    Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) rekur þrjár starfsstöðvar á Snæfellsnesi, í Ólafsvík (Snæfellsbær), í Grundarfirði og í Stykkishólmi.
    Einn læknir er starfandi hverju sinni á öllum þessum starfsstöðvum alla virka daga, ásamt því að sinna vaktþjónustu fyrir hvert þessara svæða utan skilgreinds dagvinnutíma. Vakt læknis er þó sameiginleg um helgar og á lögbundnum frídögum fyrir Snæfellsbæ og Grundarfjörð.
    Leitast er eftir að hafa lækni á þessum starfsstöðvum allt árið um kring. Þegar ekki hefur náðst að manna á einni starfsstöð, þá hefur vakthafandi læknir á annarri starfsstöð tekið að sér að tryggja læknisvaktina, til að sinna neyðarþjónustu, til ráðgjafar fyrir aðra heilbrigðisstarfsmenn og aðra þá þjónustu sem jafnan fellur undir vakt læknis hverju sinni. Þá hefur líka verið brugðið á það ráð að hafa hjúkrunarfræðing á bakvakt, að auki, þegar lækni hefur vantað. Þá ber að nefna að á öllum þessum starfsstöðvum eru sjúkraflutningamenn á bakvakt alla daga til að tryggja viðbragð allan sólarhringinn.
    Á árinu 2023 náðist ekki að manna í allar stöður lækna í samtals 23 daga, þar af voru 10 dagar í Snæfellsbæ og 13 dagar í Grundarfirði. Vakt læknis var alltaf sett á næstu starfsstöð HVE sem hafði lækni, þ.e. þegar læknislaust var í Grundarfirði var læknir í Snæfellsbæ og öfugt. Þá hefur vakthafandi læknir sinnt bráðaerindum, endurnýjun lyfseðla og fleira mætti telja. Á þeim tíma er þó einnig mönnun annarra heilbrigðisstarfsmanna, þ.m.t. hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraflutningamanna.

     2.      Hversu margir heilbrigðisstarfsmenn eru með fasta viðveru á Snæfellsnesi, sundurliðað eftir árum frá 2014? Hversu margir læknar hafa fasta búsetu á Snæfellsnesi og hvar starfa þeir?
    Á árinu 2023 hafði einn læknir fasta búsetu á Snæfellsnesi, sá læknir bjó í Ólafsvík og starfaði á heilsugæslustöðinni þar. Læknar dvelja í því bæjarfélagi þar sem þeir eru við störf hverju sinni.
    Á töflu 1 má sjá fjölda heilbrigðisstarfsmanna á Snæfellsnesi árin 2014 til 2023 sem sýnir m.a. að aldrei hafa fleiri heilbrigðisstarfsmenn starfað á Snæfellsnesi. Hafa má í huga að í Stykkishólmi rekur HVE sjúkrasvið auk heilsugæslu, þá tók HVE yfir rekstur hjúkrunarheimilis í Stykkishólmi frá árinu 2022.


    Tafla 1. Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna á Snæfellsnesi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu margir starfsmenn starfa á heilsugæslustöðvum og deildum í Snæfellsbæ, á Grundarfirði og í Stykkishólmi? Hve margir þar af eru heilbrigðismenntaðir?
    Tafla 2 hér að aftan sýnir fjölda og skiptingu starfsmanna á milli starfsstöðva, sviða og deilda. Heilbrigðismenntaðir starfsmenn voru 67 árið 2023.
    Tafla 2. Fjöldi og skipting starfsmanna á milli starfsstöðva, sviða og deilda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Til hvaða ráðstafana, ef nokkurra, hefur Heilbrigðisstofnun Vesturlands gripið til að treysta læknisþjónustu á Snæfellsnesi frá árinu 2019? Hefur ráðuneytið lagt mat á slíkar ráðstafanir og árangur þeirra?
    Allt kapp hefur verið lagt á að manna stöður lækna á öllum starfsstöðvum HVE á Snæfellsnesi. Hefur það verið gert með reglubundnum auglýsingum, bæði í blöðum, Starfatorgi og samfélagsmiðlum lækna. Einnig hefur verið haft beint samband við einstaka lækna og hópa lækna og hefur sú aðferð í raun gefist best. Með þessu fyrirkomulagi hefur tekist að fullmanna í stöður lækna að langmestu leyti.
    Forstjórar heilbrigðisstofnana bera ábyrgð á rekstri stofnunar og verkefnum hennar, þ.m.t. mönnun og skipulagi. Mönnun heilbrigðisþjónustu er ekki einungis landlægt heldur alþjóðlegt úrlausnarefni og því hafa heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús leitað ýmissa leiða til að tryggja heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að ekki takist að manna hverja stöðu. Þá er einnig sérstakt verkefni að manna dreifbýlli svæði. Það er mat ráðuneytisins að HVE hafi farið í umfangsmiklar aðgerðir til að tryggja heilbrigðisþjónustu við íbúa og gesti umdæmisins, þ.m.t. á Snæfellsnesi, eins og sjá má í töflu 1 yfir heilbrigðisstarfsfólk í starfi hjá HVE. Þar má sjá að fjölgað hefur í röðum þess á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar á svæðinu.

     5.      Hefur ráðherra í hyggju að koma á fót á sérstöku þróunarverkefni um bætta læknisþjónustu á Snæfellsnesi, í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu, þar sem litið verður á Snæfellsnes sem sérstaka einingu innan Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og að teymi heilbrigðisstarfsfólks á svæðinu sinni ávallt grunnheilbrigðisþjónustu?
    Öruggt og jafnt aðgengi að læknisþjónustu er viðvarandi verkefni og forgangsatriði í heilbrigðisráðuneytinu. Það er því ekki útilokað að slíkt þróunarverkefni komi til skoðunar og yrði það byggt á samvinnu heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga um þjónustuna. Unnið er á margvíslegum sviðum til að hvetja heilbrigðisstarfsfólk til vinnu á landsbyggðinni og má þar nefna aukinn faglegan stuðning í samvinnu heilbrigðisstofnana, t.d. með stöðu fjarskiptalæknis sem fer í gang sumarið 2024 og vinnu Byggðastofnunar sem sett var af stað í kjölfar starfshóps sem lagði til mögulegar ívilnanir í gegnum Menntasjóð námsmanna til að tryggja fagmönnun á landsbyggðinni. Vert er að nefna að hvert sveitarfélag getur einnig lagt sitt af mörkum til að auka aðdráttarafl fyrir búsetu á svæðinu.
    HVE hefur þegar byggt upp teymi heilbrigðisstarfsfólks á svæðinu sem tryggir grunnheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. læknisþjónustu. Í örfáum tilvikum hefur reynt á að samnýta þurfi læknisþjónustu innan svæðisins, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Áfram verður þó unnið að því að tryggja aðgengi að læknisþjónustu í samstarfi við stofnunina og sveitarfélög, og aðrar stofnanir. Þá er stöðug þróun á tengslum við sérgreinalæknasamning og mönnun til skoðunar hjá SÍ og samstarfsnefnd.