Ferill 923. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
Lögum breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (smáfarartæki o.fl.).


________
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      C-liður 30. tölul. fellur brott.
     b.      Á eftir 32. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Smáfarartæki: Lítið ökutæki sem er vélknúið og án sætis, telst hvorki létt bifhjól né reiðhjól og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur t.d. vélknúið hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Við 5. mgr. bætist: og smáfarartæki.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvæði laga þessara um reiðhjól og hjólreiðamann eiga einnig við um smáfarartæki og ökumann þess, og fer um þau sem slík, nema annað sé tekið fram.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Sérreglur fyrir reiðhjól og smáfarartæki.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er ökumanni heimilt að aka smáfarartæki.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn og ökumenn smáfarartækja.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um flutning barna á smáfarartæki fer eftir reglum sem ráðherra setur skv. 80. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn yngra en 13 ára má ekki aka smáfarartæki.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Börn, reiðhjól og smáfarartæki.

5. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Sérreglur fyrir reiðhjól og smáfarartæki.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. og 3. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 2., 3. eða 7. mgr.
     b.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Enginn má stjórna eða reyna að stjórna smáfarartæki ef hann er undir áhrifum áfengis og ef vínandamagn í blóði ökumanns smáfarartækis nemur meira en 0,50‰, magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér er umfram 0,25 milligrömm í lítra lofts eða niðurstaða öndunarprófs er að vínandamagn í blóði sé umfram 0,50‰ telst hann ekki geta stjórnað ökutækinu örugglega.

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 50. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Enginn má stjórna eða reyna að stjórna smáfarartæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja skv. 1. mgr.

8. gr.

    Á eftir orðinu „ökutækis“ í inngangsmálslið 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: eða smáfarartækis.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Brot á prófreglum í ökuprófi varðar brottvísun úr prófi, svo og viðurlögum skv. 95. gr., auk sviptingar réttarins til að þreyta ökupróf að nýju í allt að sex mánuði. Öðrum er þá óheimilt að aðstoða ökunema við brot á prófreglum. Samgöngustofa tekur ákvörðun um tímabundna sviptingu réttar til að þreyta ökupróf.
     b.      Á eftir d-lið 11. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: brot á prófreglum í ökuprófum og viðurlög við þeim.

10. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „7. mgr.“ í 2. málsl. 4. mgr. 67. gr. laganna kemur: 8. mgr.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Óheimilt er að breyta reiðhjóli búnu rafknúinni hjálparvél, smáfarartæki eða léttu bifhjóli í flokki I svo að mögulegur hámarkshraði þess undir vélarafli verði meiri en 25 km á klst. og er notkun þess þá óheimil. Einnig er óheimilt að breyta léttu bifhjóli í flokki II svo að mögulegur hámarkshraði þess undir vélarafli verði meiri en 45 km á klst. og er notkun þess þá óheimil.
     b.      Á eftir 1. málsl. lokamálsgreinar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vinnueftirlitið annast þó markaðseftirlit með smáfarartækjum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
     a.      Við 4. málsl. 1. mgr. bætist: og smáfarartæki.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um aðgengi og miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá, þar á meðal miðlun upplýsinga um eigendur og umráðamenn ökutækja, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

13. gr.

    Á eftir orðinu „skoðun“ í c-lið 3. mgr. 74. gr. laganna kemur: menntun þeirra og endurmenntun.

14. gr.

    Við 1. mgr. 79. gr. laganna bætist: og akstur smáfarartækis.

15. gr.

    4. mgr. 81. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um flutning á hættulegum farmi skv. 1. mgr., þar á meðal um hlutverk stjórnvalda, flokkun hættulegs farms, öryggisbúnað, ábyrgð og skyldur, öryggisráðgjafa, réttindi (ADR-réttindi), þjálfun, eftirlit og upplýsingar og miðlun þeirra. Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um bann við flutningi tiltekins farms eða í ákveðnum tilvikum að veita undanþágu frá reglum um flutning hættulegs farms.

16. gr.

    Við 4. mgr. 86. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisaðila er, með samþykki ráðherra, heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í eigin umráðum.

17. gr.

    Í stað orðanna „1.–5. mgr. og 7. mgr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 95. gr. laganna kemur: 1.–5., 7. og 8. mgr.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

19. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988:
     a.      Á eftir orðunum „létts bifhjóls“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: eða smáfarartækis.
     b.      3. tölul. 10. mgr. orðast svo: Af reiðhjóli með stig- eða sveifarbúnaði að hámarki 48.000 kr. Reiðhjól skal falla undir a-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8712 í tollskrá.
     c.      Við 10. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Af smáfarartæki sem knúið er rafmagni að hámarki 48.000 kr. Smáfarartæki skal falla undir 33. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá.
     d.      Á eftir orðunum „létts bifhjóls“ í inngangsmálslið 11. mgr. kemur: smáfarartækis.
     e.      3. tölul. 11. mgr. orðast svo: Af reiðhjóli með stig- eða sveifarbúnaði að hámarki 200.000 kr. Reiðhjól skal falla undir a-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8712 í tollskrá.
     f.      Við 11. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Af smáfarartæki sem knúið er rafmagni að hámarki 200.000 kr. Smáfarartæki skal falla undir 33. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá._____________Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.