Ferill 909. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
Lögum breytingu á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði.


________
I. KAFLI

     Breyting á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

1. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (8. gr. a.)

Samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

    Ráðherra skal skipa samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn og skal hún koma saman fullskipuð einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur. Ráðherra sem fer með þjóðhagsmál, ráðherra sem fer með vinnumál, ráðherra sem fer með skattamál og ráðherra sem fer með lögreglu- og löggæslumál skulu eiga fast sæti í samstarfsnefndinni.
    Auk þeirra sem tilgreindir eru í 1. mgr. skal ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar, sem og einn fulltrúa tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af BSRB, einn tilnefndan af ríkislögreglustjóra, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins, einn tilnefndan af Skattinum, einn tilnefndan af Útlendingastofnun og einn tilnefndan af Vinnueftirliti ríkisins.
    Ráðherra annast stjórnsýslu fyrir samstarfsnefndina. Fulltrúum í samstarfsnefndinni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

    b. (8. gr. b.)

Verkefni samstarfsnefndar.

    Ráðherra skal fela samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði og skal nefndin afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum. Jafnframt skal nefndin afhenda ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.

    c. (8. gr. c.)

Samstarfsvettvangur eftirlitsaðila.

    Lögreglustjórar, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins skulu gera með sér samning um samstarfsvettvang eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undir forystu Vinnueftirlits ríkisins. Framangreindum aðilum er heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þörf krefur, að fengnu samþykki ráðherra.
    Þeim stofnunum sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. er heimilt að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá utanaðkomandi aðilum ef þörf krefur.
    Markmiðið með samstarfsvettvangi skv. 1. mgr. er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimila.
    Starfsmönnum sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. og öðrum þeim sem kallaðir eru til samstarfs er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þrátt fyrir 5. mgr. er starfsmönnum samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. heimilt að miðla þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru hverju sinni til samtaka aðila vinnumarkaðarins á grundvelli formlegs samráðs og samstarfs, sbr. 1. málsl.

    d. (8. gr. d.)
    Ráðherra skal árlega koma fyrir velferðarnefnd Alþingis og gera grein fyrir stöðu aðgerða gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og tillögu samstarfsnefndar, sbr. 8. gr. a, eftir því sem við á.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 8. gr. b skal samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá því að nefndin er skipuð í fyrsta sinn.

II. KAFLI

Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

3. gr.

    Við 45. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Stjórnandi vélar, sbr. 6. mgr., skal vera líkamlega og andlega fær um að stjórna vélinni og því má enginn stjórna eða reyna að stjórna slíkri vél ef hann, svo sem vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka, er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna vélinni örugglega.
    Enginn má stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. og 1. mgr. 46. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki skv. 43. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga, eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga.

4. gr.

    68. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins skal skipuleggja og halda skrár á landsvísu þar sem fram koma upplýsingar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem tilkynntir eru til stofnunarinnar skv. 79. og 80. gr. í þeim tilgangi að afla upplýsinga um tíðni og orsakir eitrana á vinnustöðum sem og vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnastarf á vinnustöðum. Vinnueftirlit ríkisins skal einnig vinna upplýsingar úr skrám skv. 1. málsl. til notkunar í forvarnastarfi, við áætlanagerð, við stefnumótun og önnur verkefni stjórnvalda.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt, m.a. í samstarfi við sjúkratryggingastofnunina, að nýta stafræna innviði stjórnvalda við söfnun nauðsynlegra upplýsinga í skrár skv. 1. mgr. með það að markmiði að auðvelda og einfalda tilkynningar til stofnunarinnar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma skv. 79. og 80. gr.
    Vinnsla Vinnueftirlits ríkisins á persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við skrár skv. 1. mgr. skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars er kveðið nánar á um skipulagningu og gerð skráa, sem og um vinnslu upplýsinga úr þeim í forvarnaskyni.

5. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skýrslum Vinnueftirlits ríkisins um rannsókn einstakra vinnuslysa, óhappa og mengunar, sbr. 1. mgr., skal ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum auk þess sem rannsókn stofnunarinnar skal ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð.

6. gr.

    Í stað 2. málsl. 8. mgr. 87. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

7. gr.

    Á eftir 1. mgr. 99. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að:
     a.      brjóta gegn 27. gr. sem og brjóti atvinnurekandi eða verkstjóri gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr.,
     b.      brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 80. gr.,
     c.      brjóta gegn 8. mgr. 45. gr. en við ákvörðun refsingar skal fara eftir 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019,
     d.      brjóta gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra leiði brotið til alvarlegs slyss eða dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu.
    Heimilt er að ákvarða atvinnurekendum sektir í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir þau brot sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að banna stjórnanda að nota tiltekna vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr., ef grunur er um að hann sé undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna eða lyfja, sbr. 8. mgr. 45. gr., en þá skal lögregla jafnframt kölluð til. Lögregla hefur sömu heimildir til rannsókna á öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýnum frá stjórnanda vinnuvélar vegna gruns um brot sem tilgreint er í c-lið 2. mgr. og hún hefur skv. 1.–4. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, gagnvart ökumanni vélknúins ökutækis, sbr. 43. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Kostnaður vegna slíkra rannsókna telst til sakarkostnaðar með sama hætti og skv. 2. málsl. 6. mgr. 52. gr. umferðarlaga.
    Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki til vélknúins ökutækis, sbr. 43. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn ákvæðum 8. mgr. 45. gr. eða stjórnandinn hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 4. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum. Svipting vinnuvélaréttinda skv. 1. málsl. skal annaðhvort vara í tiltekinn tíma og þá eigi skemur en einn mánuð eða vara ótímabundið ef sakir eru miklar eða brot er endurtekið öðru sinni eða oftar. Svipting vinnuvélaréttinda felur í sér sviptingu tiltekinna réttinda sem tilgreind eru í vinnuvélaskírteini sem og réttar til að öðlast vinnuvélaréttindi. Ef svipting vinnuvélaréttinda er ótímabundin getur sá sem sviptur er réttindum ekki sótt að nýju um vinnuvélaréttindi fyrr en fimm ár eru liðin frá sviptingunni að undangengnu verklegu og bóklegu prófi á viðkomandi vél.
    Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 43. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn 48.–50. gr. umferðarlaga er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum í sama tíma og ökuréttarsviptingin varir.

8. gr.

    Á eftir 99. gr. laganna kemur ný grein, 99. gr. a, svohljóðandi:
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda og eftir atvikum verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa og framleiðanda, innflutningsaðila og dreifingaraðila varnings, sbr. 4. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, sem:
     a.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar eða um bann við notkun vélar skv. 84. eða 85. gr.,
     b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við markaðssetningu eða um bann við notkun sem og afturköllun eða eyðileggingu á vélum, tækjum og öðrum búnaði skv. 48. gr. a,
     c.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna og efnavara skv. 2. mgr. 51. gr.,
     d.      brýtur ítrekað gegn fyrirmælum stofnunarinnar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skv. 37., 42. eða 46. gr., sem veitt hafa verið vegna sambærilegrar háttsemi eða brots,
     e.      brýtur gegn ákvæðum reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum,
     f.      brýtur gegn 5. mgr. 36. gr., 60. gr. eða 1. eða 2. mgr. 80. gr.,
     g.      brýtur með stórfelldum hætti og alvarlega gegn 1. eða 2. mgr. 53. gr., 1. eða 2. mgr. 54. gr. eða 55. gr.,
     h.      brýtur með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 50. gr. eða 1. mgr. 51. gr. a,
     i.      brýtur gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapar verulega hættu fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna,
     j.      sinnir ekki tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 79. gr. eða veitir rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til dauða eða langvinns eða varanlegs heilsutjóns starfsmanns,
     k.      ræður börn eða ungmenni til vinnu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 62. gr.,
     l.      veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar um þau atriði sem veita skal stofnuninni upplýsingar um skv. 5. mgr. 36. gr., 58. gr., 1. og 2. mgr. 80. gr. eða 2., 3., 5. eða 10. mgr. 82. gr.
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann sem:
     a.      brýtur gegn 6. mgr. 45. gr., eða
     b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr.
    Stjórnvaldssekt sem lögð er á starfsmann getur numið allt að 1 millj. kr.
    Stjórnvaldssekt sem lögð er á atvinnurekanda getur numið allt að 15 millj. kr.
    Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal Vinnueftirlit ríkisins meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir, hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða sem og samstarfsvilja hins brotlega aðila og umfangs atvinnurekstrar aðilans, sé um atvinnurekanda að ræða.
    Stjórnvaldssekt skal beitt óháð því hvort brotið var framið af ásetningi eða gáleysi.
    Ekki skal leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot. Ef stjórnvaldssekt er lögð á verður öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum ekki beitt.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem sektin beinist að og skal ákvörðuninni fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.
    Heimild Vinnueftirlits ríkisins til þess að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi skv. 1. og/eða 2. mgr. lauk.
    Stjórnvaldssekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar.
    Ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt er aðfararhæf.
    Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

9. gr.

    Fyrirsögn XV. kafla laganna verður: Viðurlög og refsiákvæði.

III. KAFLI

Breyting á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007.

10. gr.

     a.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 2. málsl. 1. mgr., 2. mgr. og 1., 2. og 3. málsl. 3. mgr. 2. gr., inngangsmálslið og 4. tölul. 1. mgr., 2. og 4. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 7. gr., inngangsmálslið og 9. tölul. 1. mgr., 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., 3. málsl. 5. mgr., 6. mgr. og 1. málsl. 7. mgr. 8. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr., 1. málsl. 2. mgr. 10. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 12. gr., 1., 2. og 3. mgr., 1. og 2. málsl. 4. mgr., 5. og 6. mgr., tvívegis í 1. málsl. og 2. málsl. 7. mgr. og 8. mgr. 13. gr., 1. mgr. og tvívegis í 2. mgr. 14. gr., tvívegis í 15. gr., 1. mgr. 15. gr. a og 1. og 2. mgr. 15. gr. b laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 3. mgr. 7. gr., 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 8. gr., 2. málsl. 2. mgr. 10. gr., 1. mgr., 1. málsl. 3. mgr. og 5. mgr. 11. gr., 1. og 3. málsl. 2. mgr. 12. gr., 1. og 2. málsl. 9. mgr. 13. gr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr., 7. og 8. mgr. 15. gr. a, 7., 9. og 10. mgr. 15. gr. b og 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.


11. gr.

    Í stað orðanna „Vinnueftirliti ríkisins“ í 4. mgr. 7. gr. og í 6. mgr. 8. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

12. gr.

    Við 7. mgr. 15. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.

13. gr.

     a.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 1. gr. b, 1. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 2. gr., 1. málsl. 2. mgr. 3. gr., inngangsmálslið og 6. tölul. 1. mgr., 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., 3. málsl. 5. mgr. og 6. mgr. 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 9. gr., 1. mgr., 2. mgr., 1. og 3. málsl. 3. mgr., 4. mgr., 5. mgr., tvívegis í 1. málsl. og 2. málsl. 6. mgr. 10. gr., 1. mgr. og tvívegis í 2. mgr. 10. gr. a, tvívegis í 11. gr., 1. mgr. 11. gr. a og 1. mgr. 11. gr. b laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr., 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 4. gr., 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 4. mgr. 4. gr. a, 1. og 3. málsl. 2. mgr. 9. gr., 1. og 2. málsl. 7. mgr. 10. gr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr., 6. og 8. mgr. 11. gr. a, 6., 8. og 9. mgr. 11. gr. b og 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.

14. gr.

    Í stað orðanna „Vinnueftirliti ríkisins“ í 6. mgr. 4. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

15. gr.

    Við 6. mgr. 11. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

V. KAFLI

Breyting á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Vinnumálastofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 6. og 8. mgr. og „Vinnumálastofnun“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. kemur: Vinnueftirlits ríkisins; og: Vinnueftirlit ríkisins.
     b.      Við 6. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

17. gr.

    Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Vinnueftirlits ríkisins.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025._____________Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.