Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 252  —  249. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga


um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (breytingar á stjórnarskránni).

Flm.: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen.


1. gr.

    1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
    Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að gera það mögulegt að breyta stjórnarskránni án þingrofs og til að undirstrika vald þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram í tvígang, á 153. og 154. löggjafarþingi (392. mál), en ekki náð fram að ganga. Nú er frumvarp þetta lagt fram að nýju óbreytt.

Breytingar á stjórnarskránni.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt ferli við breytingu á stjórnarskránni með aðkomu Alþingis. Breytingin snýr að 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, því ákvæði hennar sem segir til um stjórnarskrárbreytingar. Lagt er til að fyrirkomulagið verði þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á stjórnarskránni skuli efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um það.
    Núverandi fyrirkomulag er á þann veg að þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp um stjórnarskrárbreytingar skal rjúfa þing og boða til kosninga. Samþykki nýkjörið Alþingi frumvarpið aftur tekur breytingin gildi. Flutningsmenn telja í ljósi reynslunnar að ókostir þessa fyrirkomulags séu nokkrir.
    Í fyrsta lagi liggur meginþungi umræðu um allar stjórnarskrárbreytingar við lok hvers kjörtímabils eins og málum er nú háttað. Þá eru störf þingsins gjarnan tekin að þyngjast og hætt við að grundvallarbreytingar á stjórnarskránni hljóti ekki þá athygli sem þeim ber.
    Í öðru lagi er ekki tryggð nein bein aðkoma almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu. Segja má að með núverandi fyrirkomulagi sé kosið um stjórnarskrárbreytingar samhliða almennum þingkosningum, en reynslan hefur verið sú að kosningar sem haldnar eru í kjölfar slíks þingrofs snúist ekki um inntak breytinga á stjórnarskránni.
    Í þriðja lagi sýnir reynsla undanfarinna ára að núverandi fyrirkomulag hefur leitt til þráteflis á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar. Hvort sem um er að ræða stærri eða smærri atriði hefur þinginu ekki auðnast að gera varanlegar breytingar á stjórnarskránni frá því að mannréttindakafla var bætt við árið 1995 og kjördæmamörkum breytt árið 1999.
    Frumvarpið byggist á hugmyndum stjórnlagaráðs eins og þær þróuðust við meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir kosningar árið 2013. Þó er sú breyting gerð að felld er brott krafa um að aukinn meiri hluti þings og þjóðar samþykki breytingarnar. Telja flutningsmenn að ekki sé þörf á þessum háa þröskuldi, enda hefur þingheimur sýnt að hann umgengst breytingar af þessu tagi af mikilli varfærni og því ólíklegt að naumur meiri hluti verði fyrir verulega umdeildum breytingum.

Lýðræðislegri lausn á þrátefli.
    Frumvarpi þessu er ætlað tvíþætt hlutverk. Annars vegar skuli lögfest leið til að breyta stjórnarskránni sem er mun lýðræðislegri en mælt er fyrir um nú. Undirstrikað verði skýrt og skorinort að almenningur sé stjórnarskrárgjafi og eigi ætíð síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar vona flutningsmenn að sú leið til stjórnarskrárbreytinga sem hér er lögð til komi í veg fyrir að Alþingi festist í þrátefli um breytingar í framtíðinni. Undanfarinn áratug hefur verið gerð stórmerkileg en oft og tíðum brokkgeng tilraun til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs. Frumvarp þetta getur verið varða á þeirri leið. Verði það að lögum hefur Alþingi þau verkfæri sem þarf til að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni í markvissari skrefum en því hefur auðnast. Athygli er vakin á mikilvægi þess að frumvarp þetta fáist samþykkt á þessum þingvetri, ellegar gætu breytingar á stjórnarskránni tafist að óþörfu um fjögur ár til viðbótar við hefðbundna þinglega meðferð.