Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 258  —  255. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun ungmennastefnu.


Flm.: Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að móta ungmennastefnu. Ráðherra skal gera úttekt á stöðu fólks á aldrinum 18–29 ára með hliðsjón af ályktunum og stefnum sem samþykktar hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, gögnum um heilbrigði, menntun og öryggi einstaklinga innan aldurshópsins ásamt stöðu þeirra á húsnæðismarkaði og í atvinnulífinu. Ráðherra vinni stefnuna með samtökum ungs fólks. Ráðherra skal einnig gera tímasetta aðgerðaáætlun sem miði að því að styrkja stöðu ungs fólks á Íslandi í samræmi við framangreinda stefnu.
    Ráðherra skal kynna stefnu þessa og aðgerðaáætlun fyrir lok maí 2025.
    

Greinargerð.

    Samkvæmt skilgreiningu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eru ungmenni einstaklingar á aldrinum 18–29 ára, en ráðið hefur tekið viðkvæma stöðu ungmenna til sérstakrar umfjöllunar og ályktað (Youth, Peace and Security nr. 2250). Einnig hefur öryggisráðið hvatt ríki til þess að virkja sérstaklega þennan aldurshóp til áhrifa við stefnumótun.
    Fjöldi ríkja hefur mótað og hrint í framkvæmd ungmennastefnu í ljósi viðkvæmrar stöðu ungmenna í samfélaginu og þeirra áskorana sem þau kljást við. Dæmi um slíkar stefnur eru YOUTH2030 hjá Sameinuðu þjóðunum, NYS29 hjá Albaníu og ungmennastefna Finnlands.
    Við 18 ára aldur eru einstaklingar ekki lengur börn og teljast fullorðnir einstaklingar, þ.e. fjárráða, sjálfráða o.fl. Áður en einstaklingar verða þrítugir hafa margir stofnað fjölskyldu og eignast börn, stefnt að því að kaupa eða keypt húsnæði, stundað nám á háskólastigi og farið út á vinnumarkaðinn. Á þessum tíma tekur líf fólks miklum breytingum með reglulegu millibili og ungmenni finna oft fyrir talsverðu álagi.
    Mikið álag getur oft leitt til þess að ungt fólk detti snemma út af vinnumarkaði eða geti ekki tekið eins mikinn þátt í samfélaginu og vilji þess stendur til.
    Ásamt þessu stækkar ört hópur þeirra ungmenna sem er ekki í vinnu, endurhæfingu eða námi (NEET-hópurinn) og hefur aldrei verið stærri. Því telja flutningsmenn að taka þurfi sérstakt tillit til hans við vinnu þessarar stefnu.
    Flestir foreldrar eignast sín fyrstu börn á aldursbilinu 18–29 ára. Stuðningur hins opinbera við foreldra er fjölbreyttur. Sem dæmi má nefna fæðingarorlof, leikskóla, barnabætur og aukið utanumhald í heilbrigðiskerfinu. Hins vegar er vert að minnast á að fæðingartíðni meðal mæðra á þeim aldri fer lækkandi hér á landi og í öðrum ríkjum sem við berum okkur oft saman við, en það má rekja m.a. til aukins álags ungmenna og stöðu þeirra í samfélaginu, þ.e. stöðu á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði og fjárhagsstöðu. Flutningsmenn telja mikilvægt að skoða stöðu ungs fólks sem er að koma inn á vinnumarkaðinn og fjárhagsstöðu þess.
    Við gerð stefnunnar skal tekið sérstakt tillit til ungs fólks með fötlun í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að litið verði til þess að í hverju sveitarfélagi eiga að vera starfandi ungmennaráð. Misjafnt er hvernig að þeim er staðið og því telja flutningsmenn að skoða ætti sérstaklega hvernig sveitarfélög og stjórnsýslan hlúa að ungu fólki og ljá því rödd þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Einnig þarf að horfa til mismunandi aðstæðna ungmenna eftir landsvæðum og hvernig hægt er að styrkja stöðu ungs fólk sem býr á dreifbýlum svæðum.
    Hér á landi hefur Æskulýðsráð verið virkt og æskulýðslög gilt síðan 2007. Þau lög ná þó einungis yfir takmarkað svið, enda er áhersla þeirra á skipulagt tómstunda- og æskulýðsstarf.