26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Jónas Jónsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við till. þá, sem hjer liggur fyrir. Það má segja það um þessa brtt. mína, að hún sje það langt frá upprunalegu tillögunni, að það megi skoða hana sem sjálfstæða tillögu.

Jeg lít svo á, að mál þetta sje mjög stórt mál, og sú byrjun, að veita fjelaginu aðstoð til þess að koma upp þessu fyrirhugaða hæli, gæti dregið líkan dilk á eftir sjer og ef byrjað væri á litlu heilsuhæli. Væri það mjög illa farið, ef landið þyrfti að leggja í meiri kostnað í þessu efni en vera þyrfti ef rjettilega væri af stað farið. Jeg skal taka það fram, að jeg er sammála hv. frsm. (IHB) um nauðsynina á því að koma upp slíku hressingarhæli sem þessu, og það jafnvel fleirum en einu. En þörfin er tvennskonar. Það þarf að vera áframhald af heilsuhælisvist, eins og Steingrímur Matthíasson hefir stofnað til í Vaglaskógi. Þar er hægt að hafa eitthvað 10 sjúklinga. Það er mjög sólsælt í dalnum, og skógarilmurinn og tæra loftið hefir hressandi áhrif á sjúklingana. Hefir þessi viðbót við sjúkrahúsið á Akureyri borið mjög góðan árangur. Auðvitað er þetta enn í svo smáum stíl, að það er aðeins um sumardvöl að ræða, og hælið er aðeins bundið við sjúkrahúsið á Akureyri.

Þegar sjúklingamir komast af þessu stigi, þannig, að þeir eru orðnir hálfvinnufærir, þá eru örðugleikamir samt ekki yfirunnir. Jeg skal taka það fram, að jeg tel það í alla staði lofsvert af kvenfjelaginu „Hringnum“ að ætla að ráðast í þetta fyrirtæki, en hinsvegar hygg jeg, að fjelagið hafi ekki athugað málið eins vel og skyldi. Slíkt hæli sem þetta þarf að reisa á hentugum stað, sem gerir reksturinn ódýran og gefur sjúklingunum tækifæri til að vinna fyrir sjer að einhverju leyti og ljetta þannig undir með hælinu, svo að hjálp sú, sem landið eða sveitarfjelögin þyrftu að veita, gæti orðið þeim sem ljettust. En þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi í Kópavogi. Því er jeg á móti því, að fjelaginu sje veitt aðstoð til þess að koma upp þessu hæli. Það er fyrirsjáanlegt að á þeim stað kemur það aldrei að neinu gagni, nema með gífurlegum tilkostnaði af hálfu landsins. Býst jeg við, að hv. deildarmenn sjeu svo kunnugir, að þeir viti, að í Kópavogi eru engin skilyrði fyrir ódýrri framkvæmd slíks hælis, sem hjer er um að ræða. Túnið þar er harðbalalegt og illmögulegt að stækka það meira, auk þess sem enginn skógur er þar í nágrenninu nje önnur hlunnindi fyrir sjúklingana. Hvort sem fjelagið eða landið annaðist rekstur þessa hælis, þá mundi hann verða alt of dýr á þessum stað. Það mundi þurfa að flytja þangað kynstur af kolum, og það er óhugsandi, að hægt væri að rækta þar skóg nema á ófyrirsjáanlega löngum tíma. Og jeg sje ekki, hvað þeir sjúklingar, sem ekki þola nema ljetta vinnu, geta gert þar. Jeg neita því ekki, að það gæti verið þar einhver garðrækt, en hvaða vit er í því að setja upp hæli á slíkum stað? Hælið er ekki fyrst og fremst fyrir fjelagið, heldur fyrir landið, og það yrði dýrt bæði fyrir fjelagið og landið, auk þess sem það yrði sjúklingunum óhentugt. Enda mundi slíkt hæli verða miklu ódýrara í rektsri á mörgum öðrum stöðum á landinu. Finst mjer það ægilegt, þegar jeg hugsa um berklalöggjöf vora, að landið verður að bera árlega útgjöld, er nema mörg hundruð þúsund krónum, vegna þessarar löggjafar, og miklu af þessu fje er sem kastað í sjóinn, af því, hvað hælinu var illa valinn staður. Mikið af kostnaðinum liggur í því, hversu dýrt er að vera í sjúkrahúsunum. Og það er nú svo komið fyrir sýslufjelögunum, að þótt þau hafi ekki nema fáeina sjúklinga, þá er það mörg þúsund króna byrði á þeim. Það kemur að því, að þessu verður að breyta á einhvern hátt, og mundi þá sennilega rjettast að koma á almennri skyldutryggingu, til þess að hægt verði að standast þessi feiknaútgjöld. Jeg álít mjög virðingarvert af fjelaginu að leggja fram þessar 30 þús. kr. til húsa í Kópavogi. En fje þetta er þó sem dropi í hafinu af öllum þeim kostnaði, sem af þessu fyrirtæki leiddi og væntanlega kemur á landið. Jeg vildi því vara þingið við því að láta lokka sig út í þetta, því þó að fjelagið fari ekki fram á annað en að fá þessa jörð, og segist svo muni sjá um alt það, sem eftir er, þá er það augljóst, að fjelagið getur með engu móti haldið uppi fjölda af sjúklingum án þess að leggja langmestan kostnaðinn á sýslufjelögin eða landið. Má í þessu sambandi minna á það, hversu feiknamikið fje sú skammsýni manna hefir kostað landið, að reisa ekki berklahælið annaðhvort á Álafossi eða Reykjum, enda hafa þeir, sem fyrir því stóðu, játað mistökin í því efni. Ef hælið hefði verið reist á þessum stöðum, Reykjum eða Álafossi, þá hefði verið hægt að fá nægan hita fyrir svo að segja ekki neitt, bæði til þess að hita upp húsin, í böð, þvotta og matreiðslu, auk þess sem garðrækt hefði getað verið þar miklu meiri. Verða slík hlunnindi aldrei metin til peninga. Jeg tel það skyldu Alþingis að styðja að því, að komið verði upp hressingarhæli fyrir berklaveikt fólk, en jeg tel það ennfremur skyldu þess að sjá svo um hjer eftir, að slík hæli verði ekki reist annarsstaðar en þar, sem heitar laugar eru eða skógur. Að reisa hælin á slíkum stöðum mundi spara kostnaðinn um alt að 2/3 hlutum. Ef hælið verður reist í Kópavogi, þá mun koma til landsins kasta að hjálpa, bæði að því er snertir að reisa hælið og rekstur þess.

Dýrtíðin í Reykjavík er svo mikil, að hún kastar skugga á alt umhverfið. Meira að segja er það trú sumra manna að það sje óhugsandi að reisa ullarverksmiðju næm Reykjavík, vegna þess, að dýrtíðin hjer mundi verða að fjötri á fyrirtækið, þannig, að það gæti ekki staðist samkepni við samskonar fyrirtæki hjer á landi eða erlendis.

Jeg mun greiða atkv. með aðaltill. til nefndar, og sting upp á að vísa henni til mentamálanefndar, af því að heilbrigðismál eiga þar heima, og einnig af því, að stuðningsmaður málsins, hv. 6. landsk. (IHB), á þar sæti. Jeg tek fram sem mína skoðun, að fyrir seinni umr. ætti að breyta þessu og snúa upp í rannsókn á því, hvar völ væri á heppilegum stað.