30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

*Magnús Jónsson:

Ég get verið fáorður; því að mikið af því, sem ég ætlaði að minnast hér á, þegar ég kvaddi mér hljóðs, hefur verið sagt af hv. fyrri flm. brtt. (SK) og hv. þm. Seyðf.

Ég er algerlega með því efni þáltill., að athugaður verði staður fyrir menntaskólann, og það er sízt vonum fyrr að fara að athuga það. Maður hefði getað búizt við, að löngu fyrr en þetta hús var tekið af skólanum vegna hernámsins, hefði það verið orðið allt of lítið. Og það var ekki annað en sérstök stjórnarráðstöfun, sem orkaði tvímælis á sinni tíð, — en það ætla ég ekki að ræða hér –-, sem gerði það að verkum, að þó að mögulegt væri að troðast inn í þennan skóla, þá var skólanum að verulegu leyti lokað og tekinn kannske 1/4, 1/5 eða 1/6 hluti umsækjendanna inn í skólann, en hinum öllum var vísað frá. Og þá tóku nokkrir menn sig til og stofnuðu skóla til að veita sömu fræðslu og menntaskóli sá, sem hér ræðir um. Og það varð til þess, að þetta hús entist lengur. Mér þykir því augljóst, að það verði að hefjast handa um að útvega skólanum pláss. En mér finnst óheppilegt, að hér hefur verið blandað saman alveg óskyldum málum, nauðsyn skólans á því að fá aukið og fullkomnara húsnæði og svo aftur hinu, hvort eigi að flytja skólann alfarið burt úr bænum og á allt annan stað.

Ég hef nú ekki séð neina uppdrætti né álitsgerðir, sem sýni, að ekki sé hægt að reisa skólanum hús á sama stað og hann stendur nú (þ.e. menntaskólahúsið gamla, þó að skólinn sé ekki sem stendur í því húsi). Og ég mundi sjá ákaflega mikið eftir því, ef menntaskólinn færi af þeim stað, sem hann um langan tíma hefur verið á. Það er dásamlegur staður að mörgu leyti. Og þó að meira landrými þyrfti í kring um hann kannske en hann heftir nú af lóðum, þá er staðurinn svo, að það er kannske hægt að segja, að það hafi verið næstum ofrausn að setja hann þarna, þar sem hefði átt að vera ríkisborg þarna fram með brekkunni. En hvað um það. Skólinn hefur verið þarna í hjarta bæjarins um hundrað ár, og vissulega mundu margir sakna hans, ef fluttur væri burt. Hins vegar er það, að þetta gamla hús skólans, þrátt fyrir þess óneitanlegn stílfegurð, verður náttúrlega ekki ævarandi, og verður að gera ráð fyrir því, að það verði að víkja fyrir annarri fullkomnari byggingu fyrir skólann, enda má kannske segja, að það sé ekki nema tímaspursmál, hvenær það brennur eða annað kemur til, sem gerir að verkum, að það hlýtur að rýma fyrir öðru húsi, sem til einhversyrði byggt þarna. Og breidd þess skólahúss, sem þarna væri hugsanlegt að byggja, þyrfti varla að vera meiri en þessa gamla húss; en það nýja hefði nóg rúm til að vera lengra og gæti þá líka verið hærra. Ef hins vegar ekki sýndist ráðlegt að byggja hús þarna fyrir skólann, þá væri a litast um eftir lóðum. Og skemmst er þess að minnast, að fundinn hefur verið staður fyrir stýrimannaskóla hér í bænum. Og það mætti vafalaust finna ágætan stað hér í bænum eða í út jöðrum hans fyrir menntaskólann. Það er að ýmsu leyti tilsvarandi fólk, sem á að stunda nám við þessa skóla báða. Og við verðum að venja okkur við það, að menn verði kannske að fara meira en 10 mínútna gang í skóla. Og 10 mínútna gangur innan höfuðborgar er ekki mikið. Í úflöndum finnst fólki það hreint ekki neitt. Enn er bærinn ekki stærri en það, að við setjum fyrir okkur að ganga það, sem í ekki stórum bæjum erlendis kallast ekki neitt. Og þó að fara yrði með menntaskólann eins og t.d. inn hjá laugum eða eitthvað þar inn eftir, þá er það ekki neitt til þess að setja fyrir sig.

Ég er algerlega með því, að hafizt verði handa um rannsókn á því, hvar staður er hentugur til fyrir skólann. En þetta, sem á að vera aukaatriði í þáltill., vil ég alls ekki samþ., því að það á að láta þá, sem rannsaka þetta mál, hafa frjálsar hendur um það, hvort þeir álíti, að skólinn eigi að standa utan Reykjavíkur. Það er nokkuð einkennilegt, að þetta, hvort skólinn eigi að vera utan Reykjavíkur, hefur orðið aðaluppistaðan í umr., sem hér hafa farið fram um málið, og hv. flm. varði miklum hluta af þessum síðari hluta ræðu sinnar til þess að sýna fram á, að það þyrfti að vissu leyti að taka fram fyrir hendurnar á þeirri væntanlegu n., sem rannsaka á þetta mál, um það, hvaða stað beri að athuga sérstaklega með tilliti til skólabyggingarinnar, sýna fram á það með alleinhliða málflutningi, að miklu væri það nú betra að hafa skólann í sveit heldur en í kaupstað. En þessi hv. þm., flm. þáltill., má samt alls ekki halda, að ég eða aðrir hv. þm. hafi hrokkið neitt við af að sjá þessa þáltill., vegna þess, að það er nokkurn veginn föst stefna, að ef á að koma einhverju upp, sem einhver ljómi á að vera utan um, þá má það ekki verða í Reykjavík. Ekki mátti ríkisstjórinn vera hér í bænum; það varð endilega að koma honum út úr Reykjavík. Íþróttaskólinn mátti ekki vera hér, þar sem mörg tæki eru þó hér til kennslu í þeim greinum, sem í honum á að kenna. Og af því að það er ekki nóg að neita höfuðborginni um það, sem bætist nýtt við í þessum efnum, þá er farið að fitja upp á að flytja héðan burt eitt og annað, sem þykir helzt til mikill ljómi vera af eða virðing fyrir borin til þess, að það megi nú eiginlega vera í Reykjavík. Það hefur verið talað um að flytja hæstv. Alþingi burt úr bænum og annað fleira, bara til þess að hafa það ekki hér.

Ég hef ekki vit á að dæma um þessi miklu uppeldisáhrif og muninn á þeim hér í sollinum annars vegar og hins vegar úti í sveit. Það getur vel verið, að menn hafi gott af því að venjast því nokkuð snemma að fara að heiman. En eitthvað held ég samt, að það sé fast í eðli manna að vilja vera hjá foreldrum sínum nokkuð fram eftir aldri, og ég efast um, að það sé auðvelt að bæta mönnum það upp að þurfa að fara frá foreldrum ungir. Það hef ég aldrei heyrt, að það þyki lömbunum óhollt að vera með mæðrum sínum, og það hefur ekki verið gert þess vegna að færa þau frá. Og það held ég, að sé ekki heldur gott að fullyrða, að það sé 14 ára unglingum endilega heppilegast eða heilbrigðast að taka þá að heiman á þeim aldrinum. Því hefur verið haldið hér fram með réttu, að það væri eitt mikið aðalatriði að halda þessu fólki frá sollinum. En ég er ekki viss um, að þessum unglingum verði yfirleitt betur haldið frá sollinum með öðru móti en því að lofa þeim að vera heima hjá foreldrum sínum. Mér virðist því sjálfsagt að hafa skólann þannig settan, að sem flestir nemendur geti verið heima, og svo eigi að gera sem mest fyrir hina til þess að halda þeim frá sollinum.

Það er mesta fjarstæða að taka hér enska skóla til samanburðar, af því að í öllum borgum þar eru allir mögulegir skólar. Það er háskóli í Manchester, Leeds, Liverpool og yfirleitt í öllum mögulegum borgum. Það er rétt, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að það er þessi lúxus þessarar auðugu þjóðar, sem hefur komið upp þessum finu skólum, þar sem stúdentarnir ganga í lafafrökkum og með pípuhatta, því að aðallinn þarna leyfir sér þennan lúxus. Ég get bent í þessu sambandi á það, sem ég get hugsað, að skipti engu máli nú, því að það er eins og maður haldi, að hér sé allt hægt að gera. Hvað ætli kosti að flytja skólann? Þá yrði að banna að hafa skólann hér, því að annars gæti svo farið, að hér yrði byggður annar menntaskóli. Hvað halda menn, að þyrfti að byggja í Skálholti, til þess að hægt væri að hafa þar skóla með nokkur hundruð nemendum, nokkrum tugum kennara, bókasöfnum og öðru, sem þar þyrfti að vera? Og hvað mundi skólahaldið kosta? Nú yrði ekki hægt að ná. til aukakennslu. Af því að menn eru að vitna til fornra skóla, þá væri sennilega bezt að láta kennarana hafa jarðir til þess að búa á, leggja einn hrepp undir til þess, láta kennarana búa þar. Þarna yrðu allir í heimavist, og þá yrði að hafa þarna búrekstur, það væri sjálfsagt praktískt að reka þar geysilega stórt bú. Þetta gæti sjálfsagt orðið dálítil stofnun um það er lyki.

Nei, sannleikurinn er sá, og það var það, se?n ég aðallega ætlaði að segja, þegar ég kvaddi mér hljóðs, og hv. þm. Seyðf. hefur nú þegar tekið fram, að það er ómögulegt að komast hjá því að hafa menntaskóla í Reykjavík. Það er ómögulegt að neita því, að menn verða að vera alveg hatrammir á móti Reykjavík til þess að geta hugsað sér, að höfuðborg landsins, sem telur 1, allra landsmanna, hafi engan stúdentaskóla. Hitt er annað mál, hvort ekki er praktiskt að stofna þriðja stúdentaskólann og setja hann þá í sveit.

Það er ómögulegt að komast í kringum það, að hvaða galla sem það kann að hafa, að menntaskóli sé í kaupstað, þá verður aldrei fundinn sá staður, sem enga galla hefur, þar sem enginn sollur er og engar freistingar, nema þá kannske heimavistin í menntaskólanum á Akureyri, sem skólastjórinn vill ekki láta nemendurna fara út fyrir, heldur eiga þeir að nema þar, sofa og borða, en ekki fara neitt í bæinn. (PHann: Sagði ég það?) Nei, en hv. þm. hafði það eftir honum, að hann vildi ekki láta nemendurna vera neitt fyrir utan skólann. Ég játa, að mesti vandinn er ekki að halda unglingunum frá sollinum, heldur að velja það augnablik, þegar heppilegast er að gera það. Það er enginn vafi, að það, sem hv. 5. þm. Reykv. drap á, að menn hefðu farið í hundana við háskólann í Kaupmannahöfn, kannske svo, að þeir hafi borið þess merki alla ævi, er af því, að þeir hafa komið í nýtt umhverfi, stærra og vafasamara. Ég þekki þess ekki svo fá dæmi um þá stilltustu og ótrúlegustu menn til að fara illa, að þeir fóru þannig, þegar þeir komu í hið breytta umhverfi í Kaupmannahöfn.

Ég er ekki heldur viss um, nema menn vilji segja b, þegar þeir eru búnir að segja a og flytja þá háskólann líka upp í sveit og halda mönnum þannig í þessu paradísarástandi, þangað til ætla má, að þeir séu komnir yfir mesta freistingaaldurinn, sem ég veit ekki, hvenær er.

Ég mun greiða atkv. með brtt., af því að ég vil ekki blanda öðru inn í þetta mál en að hafizt sé handa um rannsókn og athugun á skólanum. Ég veit, að rektor finnur, að það hefur eindregið fylgi, að rannsókn sé látin fram fara á stað fyrir skólann. Ég skal ekki hafa á móti því, að litið sé eftir, hvaða staður sé heppilegastur fyrir menntaskóla, ef rétt þykir að koma upp þriðja menntaskólanum. Við eigum eftir að reisa ýmsa skóla, og er þá athugunarvert, hvort ekki er rétt að reisa þriðja menntaskólann og hvort ekki eigi þá að hafa hann í sveit.