Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


91. löggjafarþing 1970–71.
Þskj. 898  —  295. mál.




ÞINGSÁLYKTUN


     um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið.




    Alþingi ályktar að kjósa 5 manna nefnd, einn frá hverjum þingflokki, til að semja frumvarp til laga um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingar auðæfa þess. Skal frumvarpið lagt fyrir næsta Alþingi og meðal annars fela í sér eftirfarandi atriði:
     1.      Skilgreiningu á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 metra jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki.
     2.      Ákvæði um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða í hafinu yfir landgrunninu eins og rétturinn til hafsbotnsins hefur þegar verið tryggður með lögum frá 24. marz 1969 um yfirráðarétt Íslands yfir landgrunninu umhverfis landið.
     3.      Ákvæði um ráðstafanir, er séu nægjanlega víðtækar til þess að tryggja eftirlit af Íslands hálfu og varnir gegn því, að hafið kringum Ísland geti orðið fyrir skaðlegum mengunaráhrifum úrgangsefna frá skipum eða af öðrum ástæðum.
    Jafnframt ályktar Alþingi að árétta þá stefnu, sem ríkisstjórn Íslands mótaði í orðsendingu til alþjóða laganefndar Sameinuðu þjóðanna 5. maí 1952, að ríkisstjórn Íslands sé rétt og skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á einhliða grundvelli til þess að vernda auðlindir landgrunnsins, sem landið hvílir á.
    Alþingi minnir á friðunarráðstafanir Íslendinga sjálfra á hrygningarsvæðum síldar við Suðvesturland, sem koma munu í veg fyrir eyðingu á þessum fiskistofni. Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunnssvæðinu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt er, að um beztu uppeldisstöðvar ungfisks sé að ræða. Jafnframt felur Alþingi fulltrúum Íslands við undirbúning hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að kappkosta, að sett verði skýr ákvæði um friðunarsvæði til verndar fiskistofnum í samræmi við niðurstöður vísindalegra rannsókna, enda sé þá jafnframt gætt sérstæðra hagsmuna strandríkis eins og Íslands, sem byggir efnahagslega afkomu sína og sjálfstæði á nýtingu þess hafsvæðis, er umlykur Ísland á landgrunni þess.


Samþykkt á Alþingi 7. apríl 1971.