Lúðvík Geirsson

Lúðvík Geirsson

Þingseta

Alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2011–2013.

Varaþingmaður Suðvesturkjördæmis október–nóvember 2010 og desember 2014 (Samfylkingin).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 21. apríl 1959. Foreldrar: Geir Gunnarsson (fæddur 12. apríl 1930, dáinn 5. apríl 2008) alþingsmaður og vararíkissáttasemjari og Ásta Lúðvíksdóttir (fædd 9. apríl 1930, dáin 29. júlí 2012) framhaldsskólakennari. Maki: Hanna Björk Lárusdóttir (fædd 2. nóvember 1959) fyrrum bankastarfsmaður og nú húsmóðir. Foreldrar: Lárus Sigurðsson og Guðlaug Hansdóttir. Synir: Lárus (1984), Brynjar Hans (1989), Guðlaugur Bjarki (1996).

Sveinspróf í bakaraiðn 1978. Stúdentspróf Flensborgarskóla 1978. BA-próf í íslensku og bókmenntum HÍ 1984.

Blaðamaður á Þjóðviljanum 1979–1989, fréttastjóri 1987–1989. Starfsmaður Blaðamannafélags Íslands 1989–2002, samhliða kennslustörfum og ritstörfum. Bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Hafnarfirði 1994–1998, bæjarfulltrúi Fjarðarlistans 1998–2002 og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og bæjarstjóri í Hafnarfirði 2002–2010. Ráðgjafi hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2011.

Formaður æskulýðsnefndar Alþýðubandalagsins 1978, formaður bæjarmálaráðs Alþýðubandalagsins í Hafnarfirði 1986–1994, oddviti Fjarðarlistans í Hafnarfirði 1998–2002 og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði 2002–2010. Seta í ýmsum nefndum og ráðum Hafnarfjarðarbæjar á árunum 1986–2010. Bæjarstjóri í Hafnarfirði 2002–2010. Formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 2004–2006 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2006–2010. Varaformaður Blaðamannafélags Íslands 1985–1987, formaður þess 1987–1998, í samninganefnd 1985–2002. Í stjórn Norræna blaðamannasambandsins 1987–1998, í framkvæmdastjórn alþjóðablaðamannasambandsins IFJ 1987–1996, í skólastjórn Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar í Árósum 1991–1996, fyrsti formaður Fjölmiðlasambandsins 1998–2001. Formaður Knattspyrnufélagsins Hauka í Hafnarfirði 1992–2002.

Alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2011–2013.

Varaþingmaður Suðvesturkjördæmis október–nóvember 2010 og desember 2014 (Samfylkingin).

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011–2013, velferðarnefnd 2011–2012, fjárlaganefnd 2012–2013.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2011–2012.

Haukar í 60 ár, saga knattspyrnufélagsins Hauka í Hafnarfirði, útg. 1990. Saga Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, útg. 1992. Höfuðstaður verslunar, saga verslunar og kaupmennsku í Hafnarfirði í sex hundruð ár, útg. 1994. Græðum hraun og grýtta mela, saga Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, útg. 1996.

Ritstjóri: Ritstjóri bæjarblaðsins Vegamóta í Hafnarfirði 1979–1995.

Æviágripi síðast breytt 25. febrúar 2016.

Áskriftir