Hilmar Finsen

Æviágrip

Fæddur í Kolding á Jótlandi 28. janúar 1824, dáinn í Kaupmannahöfn 15. janúar 1886. Foreldrar: Jón Finsen (fæddur 26. mars 1792, dáinn 8. október 1848) héraðsfógeti síðar í Árósum Hannesson biskup í Skálholti Finnssonar og kona hans Katharina Dorothea (fædd 5. júní 1789, dáin 13. desember 1861) dóttir Knuds Bruum kaupmanns og trúnaðarmanns í Kolding sonar Bertels Johansen Bruun trúnaðarmanns í Fredericia. Maki (25. september 1857): Olufa (fædd 16. júí 1835, dáin 5. ágúst 1908) dóttir Severins Adrians Bojesej póstritara og skrifstofustjóra í Kaupmannahöfn og konu hans Jensine Cecilie Hastrup.

Stúdent 1841 Kolding. Lögfræðipróf 1846 Hafnarháskóla.

Var fyrst málaflutningsmaður í Kaupmannahöfn en síðan héraðsfógeti í Hasle og í Árósum 1848. Herdómari 1849–1850. Borgarstjóri í Sönderborg 1850 og jafnframt héraðsfógeti í suðurhéraði á Als 1856. Fulltrúi á þjóðþingi Dana 1864. Stiftamtmaður á Íslandi og amtmaður í suðuramtinu 1865–1873. Landshöfðingi 1873–1883. Fór til Kaupmannahafnar í ágúst 1882 og kom ekki aftur nema til að skila af sér embætti landshöfðingja vorið 1883. Yfirborgarstjóri í Kaupmannahöfn 1883. Innanríkisráðherra 1884–1885 en tók þá aftur við borgarstjóraembættinu.

Æviágripi síðast breytt 5. október 2015.