Páll Magnússon

Páll Magnússon

Þingseta

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Sjálfstæðisflokkur).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 17. júní 1954. Foreldrar: Magnús H. Magnússon (fæddur 30. september 1922, dáinn 23. ágúst 2006) bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, alþingismaður og ráðherra og Marta Björnsdóttir (fædd 15. nóvember 1926, dáin 24. ágúst 1989) húsmóðir. Maki 1: María Sigrún Jónsdóttir (fædd 7. janúar 1955) gjaldkeri. Maki 2: Hildur Hilmarsdóttir (fædd 28. október 1964) flugfreyja. Foreldrar: Hilmar Ingólfsson og Edda Snorradóttir. Dætur Páls og Maríu: Eir (1975), Hlín (1980). Börn Páls og Hildar: Edda Sif (1988), Páll Magnús (1995).

Stúdentspróf KÍ 1975. Fil. kand. próf í stjórnmálasögu og hagsögu frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð, 1979.

Kennari við Þinghólsskóla í Kópavogi 1979–1980 og Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1980–1981. Blaðamaður á Vísi 1980–1981. Fréttastjóri á Tímanum 1981–1982. Aðstoðarritstjóri Iceland Review/Storðar 1982. Fréttamaður hjá RÚV, sjónvarpi 1982–1985 og aðstoðarfréttastjóri 1985–1986. Fréttastjóri Stöðvar 2 1986–1990 og framkvæmdastjóri hjá Stöð 2 1990–1991. Forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991–1994. Sjónvarpsstjóri Sýnar 1995–1996. Fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996–2000. Framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000–2003. Framkvæmdastjóri dagskrár- og fréttasviðs Stöðvar 2 og Bylgjunnar 2003–2005. Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 2005–2013. Stundaði heimildamynda- og útvarpsþáttagerð 2013–2016.

Í Þingvallanefnd 2017–2022.

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Sjálfstæðisflokkur).

Atvinnuveganefnd 2017 (formaður 2017), fjárlaganefnd 2017 og 2017–2021, allsherjar- og menntamálanefnd 2017–2021 (formaður 2017–2021).

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2017, þingmannanefnd Íslands og ESB 2017.

Æviágripi síðast breytt 1. apríl 2022.

Áskriftir