Ólafur Ísleifsson

Ólafur Ísleifsson

Þingseta

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2017 (Flokkur fólksins, utan flokka, Miðflokkurinn).

Formaður þingflokks Flokks fólksins 2017–2018.

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 10. febrúar 1955. Foreldrar: Ísleifur A. Pálsson (fæddur 27. febrúar 1922, dáinn 14. desember 1996) framkvæmdastjóri og Ágústa Jóhannsdóttir (fædd 10. desember 1922, dáin 31. mars 2013) húsmóðir, dóttir Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns og ráðherra. Maki (18. ágúst 1978): Dögg Pálsdóttir (fædd 2. ágúst 1956) hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður. Þau skildu. Foreldrar: Páll Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir. Sonur: Páll Ágúst (1983).

Stúdentspróf MR 1975. BS-próf í stærðfræði HÍ 1978. M.Sc.-próf í hagfræði frá London School of Economics and Political Science 1980. Doktorspróf í hagfræði HÍ 2013. Löggiltur verðbréfamiðlari 1998. Stóðst hæfis- og hæfnismat Fjármálaeftirlitsins til að sitja í stjórn eignarhaldsfélags fjármálafyrirtækja 2010. Lauk leiðsögunámi á háskólastigi frá EHÍ 2018.

Hagfræðingur í Þjóðhagsstofnun 1980–1983. Hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1983–1985. Hagfræðingur á stjórnarskrifstofu Norðurlanda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington 1985–1987. Efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 1987–1988. Sérfræðingur í hagfræðideild Seðlabanka Íslands 1989–1991. Framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands 1991–2003 (í leyfi frá störfum 2002–2003). Aðalfulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington 2002–2003. Lektor við Háskólann í Reykjavík 2003–2013. Dósent við Háskólann á Bifröst og framkvæmdastjóri gæðamála við skólann 2014–2017.

Í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1981–1985. Fulltrúi í samkeppnisráði 1993–1994. Formaður stjórnar Stofnunar Sigurðar Nordals 1999–2005. Bankaráðsmaður í Nýja Glitni, síðar Íslandsbanka, 2008–2010, sat í endurskoðunarnefnd bankans á sama tíma. Í stjórn ISB Holding, eignarhaldsfélags Íslandsbanka, 2009–2012, formaður stjórnar frá janúar 2010. Stjórnarmaður í Samtökum sparifjáreigenda með hléum 2007–2014. Í ráðgjafarnefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla 2014–2017. Hefur setið í fjölmörgum opinberum nefndum. Hefur ritað fjölda greina um efnahagsmál og þjóðmál í dagblöð og tímarit og haldið fyrirlestra og erindi á margvíslegum vettvangi. Sérfróður meðdómandi við Héraðsdóm Austurlands og Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómkvaddur matsmaður í málum við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í nefnd til að undirbúa hátíðahöld árið 2018 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands síðan 2018.

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2017 (Flokkur fólksins, utan flokka, Miðflokkurinn).

Formaður þingflokks Flokks fólksins 2017–2018.

Fjárlaganefnd 2017–2018, atvinnuveganefnd 2018–.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2017–2018.

Æviágripi síðast breytt 2. janúar 2020.

Áskriftir