Tómas A. Tómasson

Tómas A. Tómasson
  • Kjördæmi: Reykjavíkurkjördæmi norður
  • Þingflokkur: Flokkur fólksins

Þingseta

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2021 (Flokkur fólksins).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 4. apríl 1949. Foreldrar: Katrín Fjeldsted (fædd 4. maí 1925, dáin 2. desember 2005) ritari og Thomas Archibald Downey (fæddur 1913, dáinn 1992). Fósturforeldrar (foreldrar móður): Lárus Fjeldsted (fæddur 7. september 1879, dáinn 7. nóvember 1964) hæstaréttarlögmaður og Guðrún Jakobína Lovísa Ágústsdóttir Fjeldsted (fædd 8. júní 1885, dáin 7. nóvember 1964) húsmóðir. Maki 1: Jóna Guðlaug Ingvadóttir (fædd 27. maí 1950) fóstra. Þau skildu. Foreldrar: Ingvi Jóhannesson og Sigríður J. Guðmundsdóttir. Maki 2: Helga Bjarnadóttir (fædd 7. desember 1959) veitingakona. Þau skildu. Foreldrar: Bjarni Haraldsson og María Guðvarðardóttir. Maki 3: Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir (fædd 12. apríl 1961) athafnakona. Þau skildu. Foreldrar: Pálmi Jónsson og Jónína Sigríður Gísladóttir. Maki 4: Laufey Jóhannesdóttir (fædd 1. janúar 1966) bókasafns- og upplýsingafræðingur. Þau skildu. Foreldrar: Jóhannes Þorsteinsson og Sjöfn Magnúsdóttir. Synir Tómasar og Jónu Guðlaugar: Ingvi Týr (1968), Tómas Áki (1974). Dóttir Tómasar og Ingibjargar Stefaníu: Melkorka Katrín (1995). Dóttir Tómasar og Laufeyjar: Úlfhildur (2007).

Sveinspróf í matreiðslu frá Matsveina- og veitingaþjónaskóla Íslands 1971. Verslunarpróf VÍ 1972. BS-próf í hótel- og veitingahúsastjórnun frá Alþjóðaháskólanum í Flórída í Miami 1979. Meistararéttindi í matreiðslu 1980. Hótelstjórnunarnámskeið við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki 1997. Nám í innanhússhönnun við American InterContinental University í Lundúnum 2000–2001.

Matreiðslumaður á Steigenberger-flugvallarhótelinu í Frankfurt 1971. Matreiðslumaður hjá Flugleiðum á Keflavíkurflugvelli 1971–1973. Hótelstjóri á City Hotel í Reykjavík 1973. Kaupmaður í Matarbúðinni í Hafnarfirði 1973–1974. Framkvæmdastjóri félagsheimilisins Festar í Grindavík 1974–1977. Framkvæmdastjóri hamborgarastaðarins Winny's 1980. Stofnandi og eigandi Tommahamborgara 1981–1984. Stofnandi og eigandi Villta tryllta Villa, skemmtistaðar fyrir unglinga, síðar Safari, 1982–1984. Stofnandi og eigandi Sprengisands 1985–1987. Stofnandi og eigandi veitingahússins Hard Rock Café 1987–1997. Stofnandi og eigandi skemmtistaðarins Ömmu Lú 1990–1994. Stofnandi og eigandi Glaumbars 1990–1992. Eigandi og rekstraraðili Hótels Borgar 1992–2002. Stofnandi og eigandi Skuggabars 1994–1996. Stofnandi og eigandi kaffihússins Kaffibrennslunnar 1996–2002. Stofnandi og aðaleigandi Hamborgarabúllu Tómasar 2004–2021.

Í Þingvallanefnd 2022–.

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2021 (Flokkur fólksins).

Atvinnuveganefnd 2021–2022.

Æviágripi síðast breytt 31. mars 2022.

Áskriftir