Finnbogi R. Valdimarsson

Finnbogi R. Valdimarsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu) 1949–1959, alþingismaður Reyknesinga 1959–1963 (Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkur, Alþýðubandalag).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð 24. september 1906, dáinn 19. mars 1989. Foreldrar: Valdimar Jónsson (fæddur 29. mars 1866, dáinn 29. mars 1922) bóndi þar og kona hans Elín Hannibalsdóttir (fædd 4. ágúst 1866, dáin 18. desember 1953) húsmóðir. Bróðir Hannibals Valdimarssonar alþingismanns og ráðherra, föðurbróðir Jóns Baldvins Hannibalssonar alþingismanns og ráðherra og Ólafs Hannibalssonar varaþingmanns. Maki (16. apríl 1938): Hulda Dóra Jakobsdóttir (fædd 21. október 1911, dáin 31. október 1998) húsmóðir og bæjarstjóri. Foreldrar: Jakob Bjarnason og kona hans Guðrún Ármannsdóttir. Börn: Elín (1937), Gunnar (1938), Guðrún (1940), Sigrún (1943), Hulda (1948). Dóttir Finnboga Rúts og Sigríðar Guðjónsdóttur: Auður (1928).

Stúdentspróf MR 1927. Las lög við Háskóla Íslands veturinn 1927–1928. Lagði stund á alþjóðarétt í París, Genf, Berlín og Róm 1928–1933.

Ritstjóri Alþýðublaðsins 1933–1938. Framkvæmdastjóri bókaútgáfu Menningar- og fræðslusambands alþýðu 1938–1944. Settist að á Marbakka við Fossvog 1940. Bæjarstjóri Kópavogskaupstaðar 1955–1957. Bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1957–1972.

Í útvarpsráði 1939–1945. Í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps 1946–1947. Í hreppsnefnd Kópavogshrepps frá stofnun hans 1948 til 1955. Í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar 1955–1962. Í stjórn byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna, síðar byggingarsjóðs verkamanna 1957–1970. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1956 og 1967. Sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1961. Á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Caracas 1975.

Landskjörinn alþingismaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu) 1949–1959, alþingismaður Reyknesinga 1959–1963 (Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkur, Alþýðubandalag).

Alþýðublaðið (1933–1938). Útsýn (1945–1946).

Æviágripi síðast breytt 24. ágúst 2020.