Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1953–1956 (Þjóðvarnarflokkurinn), alþingismaður Reyknesinga 1963–1979 (Alþýðubandalag).

Forseti neðri deildar 1971–1974, forseti sameinaðs þings 1978–1979. 1. varaforseti sameinaðs þings 1974–1978.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914, dáinn 29. apríl 2005. Foreldrar: Guðmundur Gilsson (fæddur 29. október 1887, dáinn 22. apríl 1978) bóndi þar og kona hans Sigríður Hagalínsdóttir (fædd 26. september 1885, dáin 28. nóvember 1947) húsmóðir. Maki: Guðný Jóhannesdóttir (fædd 21. apríl 1903, dáin 27. júlí 1993) skrifstofumaður. Foreldrar: Jóhannes L. L. Jóhannsson og 2. kona hans Guðríður Helgadóttir. Systir Ragnheiðar konu Odds Ólafssonar alþingismanns. Dóttir: Erna Sigríður (1947).

Kennarapróf KÍ 1938.

Kennari við íþróttaskólann í Haukadal 1938–1940, við unglingaskóla í Garði og Sandgerði 1940–1941. Afgreiðslumaður í Sandgerði 1941–1943. Vann að ritstörfum og blaðamennsku 1943–1956. Forstjóri Menningarsjóðs 1956–1975.

Ritari Þjóðvarnarflokks Íslands 1953–1960, varaformaður 1960–1962. Átti sæti í landsbankanefnd 1956–1957. Formaður Rithöfundasambands Íslands 1957–1958. Skipaður 1962 formaður stjórnar Minningarsjóðs Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds. Kosinn 1966 í Íslandshátíðarnefnd 1974. Í Rannsóknaráði ríkisins 1967–1971. Skipaður 1968 í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og um náttúruvernd. Skipaður 1971 í fiskveiðilaganefnd, formaður. Í Norðurlandaráði 1971–1974 og 1978–1980, í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1972–1983 og í Þingvallanefnd 1972–1980. Í stjórn Menningarsjóðs Norðurlanda 1974 og 1975. Í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs 1977–1987. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1970 og á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1974–1975.

Alþingismaður Reykvíkinga 1953–1956 (Þjóðvarnarflokkurinn), alþingismaður Reyknesinga 1963–1979 (Alþýðubandalag).

Forseti neðri deildar 1971–1974, forseti sameinaðs þings 1978–1979. 1. varaforseti sameinaðs þings 1974–1978.

Hefur ritað og safnað efni í fjölda fræðirita: Frá ystu nesjum, Skútuöldin, Öldin okkar, Öldin sem leið, Bára blá, Mánasilfur, Gestur, Þeir settu svip á öldina og margt fleira.

Ritstjóri: Sjómannablaðið Víkingur (1945–1954). RM. Ritlist og myndlist (1947–1948). Sjómannajól (1954). Andvari (1959). Efri árin (1991–1995).

Æviágripi síðast breytt 13. september 2019.