Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1983–1987 (Bandalag jafnaðarmanna, Alþýðuflokkur).

Formaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna 1983–1986.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 5. nóvember 1948. Foreldrar: Einar Guðmundsson (fæddur 13. júní 1915, dáinn 25. maí 1999) skrifstofumaður þar og kona hans Jóhanna Lára Pálsdóttir (fædd 14. september 1916, dáin 29. nóvember 2003) húsmóðir. Maki (19. janúar 1974): Dröfn Ólafsdóttir (fædd 28. nóvember 1949) fóstra. Foreldrar: Ólafur Ólafsson og kona hans Sigrún Eyþórsdóttir. Börn: Ólöf (1968), Einar (1989).

Stúdentspróf MR 1968. BS-próf í líffræði HÍ 1973. MSc.-próf í taugalífeðlisfræði Birmingham-háskóla á Englandi 1975. Þjálfun í vefjarannsóknum við Montreal-háskóla í Kanada níu mánuði 1979–1980. Próf frá leiðsöguskólanum í Kópavogi 2018.

Rannsóknastörf við Birmingham-háskóla á Englandi 1975–1976. Rannsóknir og kennsla í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands 1976–1980. Lektor í lífeðlisfræði við læknadeild Háskóla Íslands 1980–1985. Framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins 1987–1989. Stundakennari í taugalífeðlisfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri 1989–1990. Aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1990–1992. Ritari ráðgjafarnefndar EFTA í Genf og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra 1993–1995. Skrifstofustjóri félags- og heilbrigðismála hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn 1995–1997. Ritari þingmannanefndar EFTA í Brussel 1998–1999. Ritari EFTA ráðsins í Genf 1999–2005 og yfirmaður skrifstofu framkvæmdastjóra EFTA 2008–2014. Deildarstjóri erlendra rannsóknarstyrkja hjá Íslenskri erfðagreiningu 2005–2008 og framkvæmdastjóri samskiptasviðs 2014–2018. Dálkahöfundur hjá Alþýðublaðinu 1988–1992. Pistlahöfundur hjá Ríkisútvarpinu 1990–1992.

Í stjórn Sambands norrænna lífeðlisfræðinga 1982–1983. Sat á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins 1984. Formaður stjórnar Félags frjálslyndra jafnaðarmanna 1990–1992. Formaður framkvæmdastjórnar Alþýðuflokksins 1989–1990. Í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu 1991–1992. Í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1992. Í stjórn Norræna iðnaðarsjóðsins 1992.

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1983–1987 (Bandalag jafnaðarmanna, Alþýðuflokkur).

Formaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna 1983–1986.

Samdi skáldsögu: Mamma, ég var kosinn (1992).

Æviágripi síðast breytt 24. september 2019.

Áskriftir