Guðmundur Í. Guðmundsson

Guðmundur Í. Guðmundsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu, Reyknesinga) 1942–1949 og 1952–1965 (Alþýðuflokkur).

Landskjörinn varaþingmaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu) janúar— mars og október 1950 og nóvember–desember 1951.

Utanríkisráðherra 1956–1958 og 1959–1965, utanríkis- og fjármálaráðherra 1958–1959.

2. varaforseti efri deildar 1943–1946 og 1947–1949, 1. varaforseti efri deildar 1946–1947.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Hafnarfirði 17. júlí 1909, dáinn 19. desember 1987. Foreldrar: Guðmundur Magnússon (fæddur 26. október 1879, dáinn 29. október 1960) skipstjóri þar og kona hans Margrét Guðmundsdóttir (fædd 20. mars 1878, dáin 7. október 1959) húsmóðir. Maki (19. september 1942) Rósa Ingólfsdóttir (fædd 27. júní 1911, dáin 27. júní 1998) húsmóðir. Foreldrar: Ingólfur Lárusson og kona hans Vigdís Árnadóttir. Synir: Guðmundur Ingólfur (1943), Ingólfur Vignir (1944), Grétar (1946), Örn (1949), Ævar (1950).

Stúdentspróf MR 1930. Lögfræðipróf HÍ 1934. Hrl. 1939.

Gerðist að loknu prófi fulltrúi á málaflutningsskrifstofu Stefáns Jóh. Stefánssonar alþingismanns og Ásgeirs Guðmundssonar, varð meðeigandi Stefáns Jóhanns 1. janúar 1936 og rak málaflutningsskrifstofuna með honum til 1945. Skipaður 1945 sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði, lausn 1965, en gegndi ekki embætti eftir að hann varð ráðherra árið 1956. Settur bæjarfógeti í Kópavogskaupstað júní til ágúst 1955. Skipaður 24. júlí 1956 utanríkisráðherra, lausn 4. desember 1958, en gegndi störfum til 23. desember. Skipaður 23. desember 1958 utanríkis- og fjármálaráðhera, lausn 19. nóvember 1959, en gegndi störfum til 20. nóvember og var þá skipaður utanríkisráðherra að nýju, lausn 31. ágúst 1965. Skipaður 1965 sendiherra í Stóra-Bretlandi og Hollandi með aðsetri í Lundúnum, jafnframt sendiherra á Spáni og í Portúgal 1965 og í Nígeríu 1971. Sendiherra í Bandaríkjunum og jafnframt í Argentínu, Brasilíu, Kanada, Mexíkó og á Kúbu 1971–1973. Sendiherra í Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki með setu í Stokkhólmi 1973–1977. Sendiherra í Belgíu og Lúxemborg, hjá Evrópubandalaginu og Atlantshafsbandalaginu 1977–1979.

Skipaður 1936 í nefnd til að gera tillögur um vinnulöggjöf, formaður nefndarinnar. Kosinn 1943 í milliþinganefnd í skattamálum og milliþinganefnd um launakjör alþingismanna. Skipaður 1947 í nefnd til að endurskoða skatta- og útsvarslöggjöfina. Í flugráði 1947–1956 og í varnarmálanefnd 1952–1953. Kosinn 1954 í milliþinganefnd um brunamál utan Reykjavíkur. Varaformaður Alþýðuflokksins 1954–1965. Sótti fund Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna 1955. Í bankaráði Útvegsbankans 1957–1965, formaður þess 1961–1965. Skipaður 1958 í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf um réttarreglur á hafinu.

Landskjörinn alþingismaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu, Reyknesinga) 1942–1949 og 1952–1965 (Alþýðuflokkur).

Landskjörinn varaþingmaður (Gullbringu- og Kjósarsýslu) janúar— mars og október 1950 og nóvember–desember 1951.

Utanríkisráðherra 1956–1958 og 1959–1965, utanríkis- og fjármálaráðherra 1958–1959.

2. varaforseti efri deildar 1943–1946 og 1947–1949, 1. varaforseti efri deildar 1946–1947.

Æviágripi síðast breytt 24. september 2019.

Áskriftir