Guðný Guðbjörnsdóttir

Guðný Guðbjörnsdóttir

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1995–1999 (Samtök um kvennalista, Samfylkingin).

Varaþingmaður (Reykvíkinga) febrúar–maí 1991, febrúar–mars og október 1992, nóvember–desember 1994, janúar–febrúar 1995.

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1995–1996 og 1997–1998.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 25. maí 1949. Foreldrar: Guðbjörn Guðmundsson (fæddur 25. júní 1919, dáinn 10. júlí 1997) rafvirkjameistari og kona hans Rósa Guðnadóttir (fædd 7. september 1918, dáin 7. maí 1997) húsmóðir. Maki (17. ágúst 1973): Gísli Pálsson (fæddur 22. desember 1949) prófessor. Foreldrar: Páll Ólafur Gíslason og kona hans Bára Sigurðardóttir. Börn: Páll Óskar (1976), Rósa Signý (1983).

Stúdentspróf ML 1969. BA-próf í sálarfræði frá Vassar College, Bandaríkjunum, 1971. MSc.-próf í sálarfræði frá háskólanum í Manchester, Englandi, 1974. Doktorspróf í uppeldis- og menntunarfræði frá háskólanum í Leeds, Englandi, 1987.

Stundaði ýmis algeng sumarstörf með námi 1965–1974. Starfaði hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur, sálfræðideild skóla og var stundakennari við Kennaraháskóla Íslands og Fósturskóla Íslands 1974–1975. Lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands 1975–1987 (sett prófessor 1980–1983), dósent 1987–1995.

Í barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1978–1982. Í stjórn Borgarbókasafns 1982–1986. Í jafnréttisnefnd Reykjavíkur 1986–1990. Hefur setið í fjölmörgum nefndum á vegum Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins. Í stjórn Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands síðan 1990. Í fagráði hugvísindadeildar Rannsóknarráðs Íslands síðan 1994.

Alþingismaður Reykvíkinga 1995–1999 (Samtök um kvennalista, Samfylkingin).

Varaþingmaður (Reykvíkinga) febrúar–maí 1991, febrúar–mars og október 1992, nóvember–desember 1994, janúar–febrúar 1995.

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1995–1996 og 1997–1998.

Hefur samið fjölmargar fræðigreinar og rit tengd uppeldis- og sálarfræðum og málefnum kvenna, auk blaðagreina.

Æviágripi síðast breytt 23. september 2019.

Áskriftir