Guðrún Agnarsdóttir

Guðrún Agnarsdóttir

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1983–1987, alþingismaður Reykvíkinga 1987–1990 (Samtök um kvennalista).

1. varaforseti efri deildar 1987–1990.

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1983–1984 og 1986–1987.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 2. júní 1941. Foreldrar: Agnar Guðmundsson (fæddur 6. mars 1914, dáinn 31. janúar 2002) skipstjóri þar, dóttursonur Magnúsar Stephensens alþingismanns og landshöfðingja, og kona hans Birna Petersen (fædd 2. desember 1917, dáin 27. nóvember 1969) húsmóðir. Maki (2. júní 1966): Helgi Þröstur Valdimarsson (fæddur 16. september 1936, dáinn 6. ágúst 2018) prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Foreldrar: Valdimar Jónsson og kona hans Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir. Börn: Birna Huld (1964), Agnar Sturla (1968), Kristján Orri (1971).

Stúdentspróf VÍ 1961. Læknisfræðipróf HÍ 1968. Kandídat á sjúkrahúsum í Reykjavík og London 1969–1970. Nám og störf í veiru- og ónæmisfræði við Hammersmith-spítala og við Royal Postgraduate Medical School í London 1970–1981. Almennt lækningaleyfi á Íslandi 1978 og sérfræðingsréttindi sama ár. Félagi í Royal College of Pathologists í Bretlandi með sérfræðiprófi 1981 og fullt lækningaleyfi í Bretlandi sama ár.

Honorary Senior Registrar í veirufræðideild Hammersmith-spítala í London 1971–1972 og Senior Registrar við sama spítala 1972–1979. Lecturer og Honorary Senior Registrar við sama spítala og við Royal Postgraduate Medical School í London 1979. Senior Lecturer og Honorary Consultant við sama skóla 1979–1981. Sérfræðingur í veirufræði við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum 1981–1983 og síðan 1991, í hlutastarfi frá 1993.

Í framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins 1983–1987. Í almannavarnanefnd Reykjavíkur 1984–1986. Í nefnd til að athuga tengsl fjölskyldu og skóla 1983– 1986. Í öryggismálanefnd sjómanna 1984–1986. Í framtíðarspárnefnd, vinnuhópi um heilbrigðismál, 1984–1986. Í nauðgunarmálanefnd 1984–1988. Í tryggingaráði 1987–1989. Í framkvæmdastjórn Krabbameinsfélags Íslands 1988–1992. Stjórnarformaður Vinnueftirlits ríkisins síðan 1989. Formaður nefndar á vegum Læknafélags Íslands til að gera tillögur um hvernig beri að mæta vaxandi fjölgun kvenna í læknanámi og læknastétt 1990–1992. Formaður nefndar til að semja frumvarp til laga um Tilraunastöð háskólans í meinafræði 1989–1990. Framkvæmdastjóri við undirbúning alþjóðlegrar kvennaráðstefnu 1990–1991. Fulltrúi Samtaka heilbrigðisstétta í landsnefnd um alnæmi 1991–1992. Skip. í nefnd til að sinna ágreiningsmálum innan heilbrigðisþjónustunnar frá 1991 til fjögurra ára. Meðstjórnandi í stjórn Læknafélags Íslands 1991–1992. Skip. í Norræna vísindastefnuráðið frá 1992 til þriggja ára. Falið af heilbrigðisráðuneytinu 1992–1993 að skipuleggja neyðarmóttöku á slysadeild Borgarspítalans vegna nauðgunar. Skip. í stjórnarnefnd rannsóknaáætlunar Evrópusambandsins á sviði líf- og læknisfræðivísinda og heilbrigðismála, BIOMED 1 frá desember 1992 og BIOMED 2 frá janúar 1995. Formaður Félags fyrrverandi alþingismanna síðan 2010.

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1983–1987, alþingismaður Reykvíkinga 1987–1990 (Samtök um kvennalista).

1. varaforseti efri deildar 1987–1990.

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1983–1984 og 1986–1987.

Höfundur bókarkafla og greina, aðallega um veiru- og ónæmisfræði, í innlendum og erlendum lækna- og vísindaritum.

Æviágripi síðast breytt 23. september 2019.

Áskriftir