Ágúst Einarsson

Ágúst Einarsson

Þingseta

Alþingismaður Reyknesinga 1995–1999 (Þjóðvaki - hreyfing fólksins, þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Landskjörinn varaþingmaður (Suðurlands) 1978–1979, varaþingmaður Suðurlands nóvember–desember 1980 (Alþýðuflokkur).

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 11. janúar 1952. Foreldrar: Einar Sigurðsson (fæddur 7. febrúar 1906, dáinn 22. mars 1977) varaþingmaður og útgerðarmaður og kona hans Sólborg Svava Ágústsdóttir (fædd 24. júlí 1921, dáin 30. nóvember 1978) cand. phil. Faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar alþingismanns. Maki (11. janúar 1972): Kolbrún Sigurbjörg Ingólfsdóttir (fædd 10. mars 1943) húsmóðir og meinatæknir. Foreldrar: Ingólfur Ólafsson og kona hans Hulda Guðlaugsdóttir. Synir: Einar (1972), Ingólfur (1974), Ágúst Ólafur (1977).

Stúdentspróf MR 1970. Próf í rekstrarhagfræði við háskólann í Hamborg, Þýskalandi, 1975. Framhaldsnám við háskólana í Hamborg og Kiel 1975–1977. Doktorspróf við háskólann í Hamborg 1978.

Framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík hf. 1977–1990. Prófessor við Háskóla Íslands síðan 1990.

Formaður Bandalags Íslendinga í Norður-Þýskalandi 1975–1977. Í flokksstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins 1978–1982, gjaldkeri flokksins 1980–1982. Í stjórn Bandalags jafnaðarmanna 1983–1984. Í stjórn Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf. 1977–1988. Í samstarfsnefnd Alþingis og þýska þjóðþingsins, Bundestag, 1978–1979. Í stjórnskipaðri nefnd til endurskoðunar skattalaga 1978. Í stjórn Byggðastofnunar 1979. Í stjórn Samlags skreiðarframleiðenda 1980–1982, í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1982–1990 og í stjórn söluskrifstofu hennar í Þýskalandi frá 1985. Sat á Fiskiþingi 1982–1988 og var í stjórn Fiskifélags Íslands 1985–1989. Í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva 1984–1990, varaformaður frá 1987, í stjórn Jökla hf. 1986–1990, stjórnarformaður frá 1988. Stjórnarformaður Faxamarkaðarins hf. frá 1987. Í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands 1987–1990. Í stjórn Faxafrosts hf. 1987–1989, í stjórn Meka hf. 1987–1988 og í stjórn Faxamjöls hf. frá 1988. Í samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi frá 1988, í stjórnskipaðri nefnd til ráðgjafar stjórnvöldum í efnahagsmálum 1988 og í stjórnskipaðri nefnd til að gera tillögur um endurbætur í framhaldsskólum 1989. Varaformaður Ísúf hf. 1988–1989. Í stjórn Lífeyrissjóðsins Skjaldar hf. 1989–1993 og stjórnarformaður Blaðs hf. 1989–1990. Varaformaður stjórnar Granda hf. frá 1990. Varaformaður stjórnar Íslandsmarkaðar hf. frá 1990, stjórnarformaður 1995. Í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga 1991–1995. Formaður stjórnskipaðrar nefndar til að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands 1991–1992. Formaður samninganefndar ríkisins 1991–1992. Formaður stjórnar Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands 1992–1995. Formaður viðskiptaskorar viðskipta- og hagfræðideildar 1992–1994. Varadeildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar 1992–1994 og deildarforseti 1994–1995. Formaður stjórnskipaðrar nefndar til að gera tillögur um breytingar ríkisviðskiptabanka í hlutafélög 1992. Stjórnarformaður Aflvaka hf. frá 1994. Í nefnd til úthlutunar Útflutningsverðlauna forseta Íslands 1994–1995. Varaformaður stjórnar Vestfirsks skelfisks hf. frá 1994. Í úthafsveiðinefnd 1995. Í bankaráði Seðlabanka Íslands 1988–1994, formaður þess 1990–1994. Ritari Þjóðvaka 1995. Í þingmannanefnd EFTA/EES 1995.

Alþingismaður Reyknesinga 1995–1999 (Þjóðvaki - hreyfing fólksins, þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Landskjörinn varaþingmaður (Suðurlands) 1978–1979, varaþingmaður Suðurlands nóvember–desember 1980 (Alþýðuflokkur).

Hefur samið fræði- og kennslubækur um rekstrarhagfræði og fjölmargar greinar um efnahagsmál, hagfræði, stjórnmál og sjávarútvegsmál sem hafa birst í innlendum og erlendum bókum, blöðum og tímaritum.

Æviágripi síðast breytt 20. september 2019.