Jóhannes Jóhannesson

Jóhannes Jóhannesson

Þingseta

Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1900–1901 og 1903–1913, alþingismaður Seyðfirðinga 1916–1931 (Framfaraflokkurinn, Framsóknarflokkurinn eldri, Þjóðræðisflokkurinn, utan flokka, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn, Borgaraflokkurinn eldri, Íhaldsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur).

Forseti sameinaðs þings 1918–1921 og 1924–1926.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur í Hjarðarholti í Stafholtstungum 17. janúar 1866, dáinn 7. febrúar 1950. Foreldrar: Jóhannes Guðmundsson (fæddur 4. janúar 1823, dáinn 11. mars 1869, varð úti) sýslumaður þar og kona hans Maren Ragnheiður Friðrika Lárusdóttir Thorarensen (fædd 11. desember 1827, dáin 15. nóvember 1907) húsmóðir. Faðir Lárusar Jóhannessonar alþingismanns. Maki (28. júlí 1897) Jósefína Antonía Lárusdóttir (fædd 25. apríl 1878, dáin 22. desember 1944) húsmóðir. Foreldrar: Lárus Blöndal alþingismaður og kona hans Kristín Ásgeirsdóttir Blöndal. Börn: Lárus (1898), Anna (1900), Elín (1909).

Stúdentspróf Lsk. 1886. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1891.

Varð aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1891 og jafnframt fulltrúi hjá Otto Petersen yfirréttarmálaflutningsmanni. Sýslumaður í Húnavatnssýslu 1894–1897, sat á Kornsá. Sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði 1897–1918. Forseti í amtsráði austuramtsins 1904–1907. Bæjarfógeti í Reykjavík frá 1918 til ársloka 1928, er honum var veitt lausn við skiptingu embættisins. Átti síðan heima í Reykjavík.

Átti sæti í millilandanefndinni 1907 og sambandslaganefndinni 1918, formaður íslenska hlutans. Kosinn í dansk-íslensku ráðgjafarnefndina 31. desember 1918 og sat í henni til 1934. Skipaður 1921 í orðunefnd, formaður nefndarinnar 1944–1946. Kosinn 1926 í alþingishátíðarnefnd og var formaður hennar. Átti sæti í bankaráði Landsbankans 1927–1936.

Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1900–1901 og 1903–1913, alþingismaður Seyðfirðinga 1916–1931 (Framfaraflokkurinn, Framsóknarflokkurinn eldri, Þjóðræðisflokkurinn, utan flokka, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn, Borgaraflokkurinn eldri, Íhaldsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur).

Forseti sameinaðs þings 1918–1921 og 1924–1926.

Æviágripi síðast breytt 25. janúar 2016.

Áskriftir