Jón Ármann Héðinsson

Jón Ármann Héðinsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1967–1971 og 1974–1978, alþingismaður Reyknesinga 1971–1974 (Alþýðuflokkur).

Varaþingmaður Norðurlands eystra nóvember–desember 1982 (Alþýðuflokkur).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Húsavík 21. júní 1927, dáinn 6. júlí 2023. Foreldrar: Héðinn Maríusson (fæddur 18. desember 1899, dáinn 22. mars 1989) útvegsbóndi þar og kona hans Helga Jónsdóttir (fædd 16. febrúar 1897, dáin 1. júní 1989) húsmóðir. Maki (29. desember 1955): Ólöf Ágústa Guðmundsdóttir (fædd 29. mars 1930, dáin 28. júní 2012) húsmóðir. Foreldrar: Guðmundur Ragnar Jóelsson og kona hans Ólöf Jóhannsdóttir. Börn: Guðmundur Ragnar (1957), Helga Ólöf (1958), Ólöf (1960), Héðinn (1962).

Stúdentspróf MA 1949. Viðskiptafræðipróf HÍ 1955. Sótti spænskunámskeið við Háskóla Íslands. Tungumálanám á Spáni 1953 (fjóra mánuði) og 1983 (sex vikur).

Var í millilandasiglingum 1949–1951. Skrifstofustörf við Vélaverkstæðið Foss hf. á Húsavík 1955–1957. Fulltrúi hjá Kaupfélagi Þingeyinga 1957–1958. Skrifstofustjóri Útflutningsnefndar sjávarafurða 1958–1960. Fulltrúi í viðskiptamálaráðuneyti 1960–1962. Gekkst fyrir stofnun útgerðarfélagsins Hreifa hf. á Húsavík 1955. Einnig með útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði 1961–1990. Gekkst fyrir stofnun netaverkstæðisins Hringnótar hf. í Hafnarfirði með fimm útgerðarfyrirtækjum og veitti því forstöðu 1963–1981. Fulltrúi hjá Siglingamálastofnun ríkisins um öryggismál 1979–1980. Útflutningsstjóri hjá Lýsi hf. í Reykjavík 1980–1984.

Bæjarfulltrúi á Húsavík 1956–1958. Í stjórn Félags ungra jafnaðarmanna 1958–1960, í stjórn Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur 1962–1964, formaður þess 1987–1989, og í stjórn Alþýðuflokksfélags Kópavogs 1966–1974, formaður þess 1968–1970. Í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna 1961–1963 og í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1964–1977. Formaður fiskveiðilaganefndarinnar 1969–1972 er samdi frumvarp um hagnýtingu fiskveiðilögsögunnar og átti sæti í hliðstæðri fiskveiðilaganefnd 1975–1976. Sat í fjögur skipti þing Evrópuráðsins og sótti fjórum sinnum fundi Hafréttarráðstefnunnar í New York 1974–1976. Sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1977. Fór fjölda viðskipta- og samningaferða um Suður-Evrópu, Nígeríu, Norður-, Mið- og Suður-Ameríku. Ræðismaður Mexíkó 1985–1993. Stofnandi Handknattleiksfélags Kópavogs (HK) 1970 og sat í stjórn þess í fimm ár. Stofnandi Siglingasambands Íslands innan ÍSÍ og fyrsti formaður þess 1971–1973. Stofnandi og fyrsti formaður Smábátafélags Reykjavíkur 1982–1984. Formaður UMSK 1979–1980. Í stjórn Íþróttasambands Íslands 1980–1992. Í stjórn Skotveiðifélags Íslands 1982–1990. Stjórnarformaður Íslenskra getrauna 1985–1991.

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1967–1971 og 1974–1978, alþingismaður Reyknesinga 1971–1974 (Alþýðuflokkur).

Varaþingmaður Norðurlands eystra nóvember–desember 1982 (Alþýðuflokkur).

Ritstjóri: Siglingamál (1979–1980).

Æviágripi síðast breytt 12. september 2023.

Áskriftir